Pistill

Í grasrótinni heima

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir og Sjálfstæðismaður, skrifar um reynslu sína af því að hafa verið vísað af lista Sjálfstæðisflokksins.

Þá er það orðið endanlega ljóst að forysta Sjálfstæðisflokksins, sem byggður hefur verið upp af venjulegum, röggsömum og dugmiklum Íslendingum sem hrifust af grunngildum flokksins um „stétt með stétt“ og „frelsi til orða og athafna“, hefur ákveðið að losa sig við einn aðila út af framboðslistunum fyrir þessar kosningar.

Ef við skoðum 10 fyrstu sætin í öllum kjördæmum þá er engin breyting nema á einum aðila frá prófkjörinu sem haldið var fyrir seinustu kosninga, nema auðvitað í Reykjavík suður þar sem Ólöf Nordal heitin féll frá á milli kosninga og listinn riðlaðist þess vegna. 

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að einn aðili, ég undirritaður sem kom eins og stormsveipur inn í prófkjör flokksins án þess að vera bakkaður upp af forystu flokksins eða koma beint úr flokksstarfinu, sé ekki velkominn á lista flokksins fyrir þessar kosningar þó ég hafi unnið ákveðinn sigur í seinasta prófkjöri þegar ég náði þar 7. sætinu, þvert gegn vilja forystu Sjálfstæðisflokksins.

Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins þolir greinilega ekki að menn hafi ákveðnar skoðanir ef þær eru ekki alveg samhljóma þeirra stefnu og þó ég hafi tekið fullan þátt í seinasta prófkjöri flokksins þá hef ég líka sagt að á meðan Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins þá muni ég ekki taka þátt í kosningabaráttu flokksins.

Þetta hefur gengið svo langt að ég hef heyrt utan af mér að einn fimm þingmanna flokksins, sem ber fallegt nafn, hafi sagt glottandi að nú gætu þingmenn flokksins í suðvesturkjördæmi loksins farið í frí þegar búið væri að útiloka mig, sem annan varamann, frá listanum. Ég er nú ekki viss um að sá maður þurfi að hafa miklar áhyggjur af því að hann þurfi frí frá þingstörfum á næstu árum.

Ég mun samt áfram berjast fyrir því að flokkurinn verði sá flokkur sem grunngildi hans segja til um, sem eru meðal annars frelsi til orða og athafna og líka stétt með stétt, en í tíð núverandi forystu hefur flokkurinn nánast verið rekinn sem einkagróðavinafélag forystu flokksins og nánustu ættingja, vina og meðhlægjenda þeirra.

Undanfarin ár hef ég sagt að ég skammist mín ekki fyrir að vera Sjálfstæðismaður, en ég hef líka sagt að ég skammast mín fyrir nokkra þá sem segjast vera Sjálfstæðismenn en eru ekkert nema sjálftökumenn.

Ég tel að hinn venjulegi Sjálfstæðismaður vilji breytingar innan flokksins, ég tel að hinn venjulegi Sjálfstæðismaður vilji sjá nýja forystu og ég tel að hinn venjulegi Sjálfstæðismaður vilji að farið verði eftir grunngildum flokksins.

Það er ekki hægt núna því venjulegur Sjálfstæðismaður er ekki velkominn nema dansa í kringum gullkálfinn.

Ég átta mig á að þetta verður kallað af forystu flokksins, núna korteri fyrir kosningar, að stinga flokkinn í bakið. En að mínu mati er það núverandi forysta flokksins sem er búin að hrekja hinn venjulega Sjálfstæðismann út í að þurfa að hugsa um að kjósa annan flokk og allir vinir mínir, venjulegir Sjálfstæðismenn, segja nú að þeir geti ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn eins og honum er stjórnað í dag. 

Grasrót Sjálfstæðisflokksins, hinn venjulegi Sjálfstæðismaður, fær ekki að koma nálægt moldinni í flokknum, raunar fá þeir sem eru ekki undirgefnir núverandi forystu flokksins ekki að koma nálægt túninu heldur. Grasrót flokksins er að deyja út og mun gera það endanlega ef við, venjulegu Sjálfstæðismennirnir, lofum núverandi forystu að stjórna flokknum áfram. Þegar forysta flokksins hlustar ekki á þessa alvöru grasrót og hleður í kringum sig meðhlæjendum, þá gerist það sem er að gerast innan Sjálfstæðisflokksins og annara flokka að fólk hættir að treysta flokkunum og pólitíkinni.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kosningar 28 október 2017 þar sem var uppstilling: 

1. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra

2. Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður

3. Jón Gunnarsson ráðherra

4. Óli Björn Kárason alþingismaður

5. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður

6. Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi og varaþingmaður

7. Kristín María Thoroddsen flugfreyja og ferðamálafræðingur

8. Katrín Ósk Ásgeirsdóttir laganemi og varabæjarfulltrúi

9. Tinna Dögg Guðlaugsdóttir lögfræðingur

10. Hrefna Kristmannsdóttir jarðefnafræðingur og prófessor emeritus

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kosningar 29 október 2016 þar sem var prófkjör: 

1. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins

2. Bryndís Haraldsdóttir formaður bæjarráðs

3. Jón Gunnarsson alþingismaður

4. Óli Björn Kárason ritstjóri

5. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður

6. Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi og varaþingmaður

7. Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir

8. Kristín Thoroddsen flugfreyja og ferðamálafræðingur

9. Katrín Ósk Ásgeirsdóttir háskólanemi

10. Tinna Dögg Guðlaugsdóttir laganemi og framkvæmdastjóri

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

„Deginum ljósara að utanríkisráðherra er ekki treystandi til að sinna þessu máli“

Fréttir

Lokað á allar greiðslur til þroskaskertrar konu: „Þetta er margfalt mannréttindabrot“

Pistill

„Svolítið erfið“ af því þau fylgja samviskunni

Mest lesið í vikunni

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Fréttir

Hjónin bæði í fangelsi fyrir ofbeldi gegn börnunum

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

Forsætisráðherra mætti á samkomu hjá stuðningskonu Assad-stjórnarinnar

Pistill

Efling Eflingar