Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fullkomna fólkið

Fullkomna fólkið

Í byrjun sumars skrifaði ég grein um það hvernig fúskið í landsréttarmálinu og sú rótgróna íslenska stjórnmálahefð að "kyngja ælunni" væri til marks um vonda stjórnmálamenningu meirihlutaræðis, en ætti líka rætur sínar í breyskleika þingmanna og raunverulegri togstreitu sem þeir standa frammi fyrir í starfi sínu.

Þessi togstreita lýsir sér m.a. í því að við viljum halda í almenn prinsipp - og fólk ætlast til þess af fulltrúum sínum - en að sama skapi fara þau fljótt að virðast lítilvæg þegar þau eru borin saman við aðkallandi og áþreifanlega hagsmuni - og fólk ætlast líka til þess að fulltrúar sýni skynsemi, vilja til málamiðlana og "pragmatisma".

Ég upplifði þessa togstreitu sterklega á meðan ég sat sjálfur á þingi (bæði hjá sjálfum mér og öðrum) en það var ekki ég sem kom henni fyrst í orð, heldur var það bandaríski stjórnmálafræðingurinn Stephen K. Medvic, í bók sinni um "Væntingagildruna" (e. expectations trap) sem hann gaf út árið 2013.

Þar lýsir hann sumsé þremur gildrum sem stjórnmálamenn séu vísir til að falla í, þar sem kjósendur (bæði sem hópur og einstaklingar) geri yfirleitt mótsagnakenndar væntingar til þeirra, sem erfitt eða ómögulegt sé að þóknast öllum á sama tíma: fyrsta væntingagildran er sú sem ég lýsti að ofan - "Principled-Pragmatic" gildran - en hinar tvær finnst mér ekki síður áhugavert að setja í samhengi við íslensk stjórnmál.

Undirgefnu leiðtogarnir

Önnur af þessum meintu gildrum er "Leader-Follower" gildran; þar sem kjósendur ætlast til þess að stjórnmálamenn taki af skarið, setji fram skýra stefnu og fylgi sinni sannfæringu og boðaðri stefnu þrátt fyrir tímabundið mótlæti.

En kjósendur ætlast líka til þess að fulltrúar hlusti vel á þá sem eru ósammála þeim, hafi sem víðtækast samráð við sem flesta og fylgi vilja meirihluta þjóðarinnar í sem flestum málum.

Í öllum þessum "gildrum" gildir það að báðar hliðar hennar eru yfirleitt mjög réttmætar; báðar tegundir væntinga eiga fullan rétt á sér og eru í raun mikilvægar. En þetta getur engu að síður skapað mikla togstreitu sem engin einföld svör eru við.

Þessi togstreita var reyndar uppgötvuð löngu áður en Medvic skrifaði um hana; eins og stjórnmálaheimspekingurinn Hannah Fenichel Pitkin skrifaði um í grein sinni Representation and Democracy: Uneasy Alliance árið 2004 þá hefur hún í raun alla tíð verið bundin í eðli fulltrúalýðræðis. Allt frá því að fulltrúastofnanir aðalsins urðu smám saman lýðræðislegri frá 18.-20. öld, eftir því sem stærri hluti almennings gat kosið til þeirra.

Við ætlumst til þess að þingmenn séu fulltrúar kjósenda sinna og jafnvel ákveðinna hópa, en líka að þeir fylgi vilja meirihluta þjóðarinnar hverju sinni - og áhersla bæði kjósenda og fulltrúa á hvort um sig er yfirleitt óljós og mismunandi. Eva Heiða Önnudóttir hefur t.a.m. birt áhugaverðar rannsóknir á því hvernig íslenskir þingmenn hafa séð þessi ólíku hlutverk sín undanfarin misseri.

Vandinn er að lýðræði felst í að meirihluti borgaranna ráði, en fulltrúalýðræði felst líka í því að allir borgarar eiga að geta haft rödd á þinginu, líka minnihlutinn. Er þá skylda ákveðinna fulltrúa að fylgja alltaf vilja meirihlutans, að vera fulltrúar þeirra sem kusu þá eða hreinlega að fylgja eigin sannfæringu út frá því umboði sem þeim var veitt? 

Niðurstaða Pitkin er að það sé ekkert eitt rétt svar við þessu, að það sé eðli nútímalegra lýðræðissamfélaga að þessar hugmyndir verði alltaf í togstreitu. Það held ég að sé rétt, en það er samt hægt að fylgja nokkrum viðmiðum þegar þingmönnum er gert að taka ákvörðun án formlegrar aðkomu þjóðarinnar:

a) Því frekar sem málefni er sameiginlegt hagsmunamál borgaranna, því sterkari rök eru fyrir því að fylgja vilja meirihluta þeirra.

b) Því frekar sem mál snúast um réttindi einstaklinga og minnihlutahópa gagnvart meirihlutanum, því veikari eru þau rök.

c) Því heldur sem fulltrúi var beinlínis kosinn út á tiltekna stefnu eða hagsmuni sem minnihlutinn aðhyllist, því betri eru rökin fyrir því að fylgja þeirri stefnu á þingi, þó meirihlutinn sé ósammála.

Í þessu samhengi hafa Píratar stundum verið skammaðir fyrir að segjast aðhyllast lýðræði en vera samt ósammála meirihluta þjóðarinnar í sumum málum. Ég hef áður skrifað um það í samhengi við flugvallarmálið blessaða, en aðalatriðið er að Píratar eru ekki í stjórnmálum til að verða viljalaus verkfæri skoðanakannana (slíkt framboð væri raunar áhugavert - og kannski góðra gjalda vert).

Við viljum aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku milli kosninga, svo sannarlega, sem og stjórnarskrárbundna heimild þjóðarinnar til að boða til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna. Ef meirihluti þjóðarinnar væri á móti þessu, þá myndum við samt tala fyrir því.

En við erum líka í stjórnmálum til að berjast fyrir sterkari borgararéttindum, friðhelgi einkalífs, gegnsæi í stjórnsýslu, upplýsingafrelsi og upplýstari stefnumótun. Ef meirihluti þjóðarinnar er á móti þessu, þá munum við samt tala fyrir því - og lúta lýðræðislegri niðurstöðu hverju sinni.

Krafan um lýðræði felur nefnilega í sér jafnan rétt allra til að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á stjórnmál - líka þeirra sem eru í minnihlutanum. Þegar nánar er að gáð ætti þetta auðvitað að vera augljóst; ef stefna okkar væri bara að gera það sem flestir vilja hverju sinni þá væri ekkert okkar í 15% flokki.

En þessi togstreita mun halda áfram og fólk mun halda áfram að gera þessar ólíku væntingar bæði til okkar og annarra - að við fylgjum þeirri stefnu sem við höfum boðað óháð mótlætinu, en að við hlustum líka á þá sem eru ósammála og gefumst upp ef þau eru í meirihluta. Það er áskorun í kjarna fulltrúalýðræðis sem við verðum bara að sætta okkur við, og reyna að finna farsælt jafnvægi þarna á milli.

Mannlega fullkomin

Þriðja og síðasta væntingagildran sem Medvic fjallar um er "Ordinary-Exceptional" gildran; að ætlast er til þess að stjórnmálamenn séu mannlegir, eins og við hin, hægt að tengja við þá (helst hægt að sjá fyrir sér að fá sér drykk á næsta pöbb með þeim). En á sama tíma gerum við oft nánast ómannlegar kröfur til hæfni og óskeikulleika þeirra; virðumst oft sjá fyrir okkur að þau séu eitthvað annað en tiltölulega venjulegt fólk sem nær á þing.

Aftur er fullkomlega eðlilegt að gera miklar kröfur til þingmanna, talsvert meiri en til annarra. Þetta er mikil forréttindastaða, valdastaða á góðum launum sem mikið af hæfu fólki keppist um.

En stundum eru væntingarnar einfaldlega mótsagnakenndar og/eða dæmdar til að valda okkur vonbrigðum.  Þ.e. ef við viljum að fólk í stjórnmálum sé mannlegt og einlægt þá verðum við líka að leyfa þeim að misstíga sig og sýna breyskleika sína opinberlega; gráta stundum þó þau séu í forréttindastöðu, reiðast stundum og beita ófínu orðfæri, koma kjánalega út í sjónvarpi vegna þess að þau eru ekki skriftuð o.s.frv.  Og þó það sé ekki í lagi þá munu þingmenn sennilega alltaf keyra öðru hverju yfir hámarkshraða, streyma efni á netinu og sýna ölvun á almannafæri. Af því þau eru fyrst og fremst bara fólk.

Það þýðir ekki að þetta sé í lagi, það eigi ekki að vekja athygli á slíkri hegðun og gagnrýna hana; bara að betri skilningur á þessum raunveruleika gerir okkur betur kleift að bregðast við í samræmi við tilefni hverju sinni. Það minnkar líka líkurnar á því að stjórnmálamenn reyni einfaldlega að fela breyskleika sína í lengstu lög fyrir almenningi og fari smám saman að setja upp grímuna sem okkur er svo illa við.

Þetta snýst um jafnvægi og skilning, samhliða ríkum kröfum. Ef við gerum okkur grein fyrir þessum mótsagnakenndu kröfum sem stjórnmálin gera þá erum við betur fær um að skilja hegðun stjórnmálamanna - og fordæma hana með réttu þegar það á við.

Það hjálpar líka að hafa þetta í huga þegar við dæmum einstaka gjörðir stjórnmálamanna, snúa dæminu jafnvel á hvolf. Ef A gerir eitthvað sem hentar hagsmunum hans/hennar illa og skaðar flokkinn okkar, getur verið að það sé vegna þess að A vill ekki gefa prinsipp upp á bátinn?  Getur verið að B hafi farið gegn málflutningi sínum í þessu máli af því B telur ríkari hagsmuni vera að veði? Er C kannski að fylgja því sem C var kosin/n út á, þó ég / meirihlutinn séum ósammála? Er C kannski að skipta um skoðun vegna þess að C hlustaði á þá sem voru ósammála, ekki af því C er hræsnari? Er D kannski svona mikill bjáni í sjónvarpinu af því D er að reyna að vera mannleg/ur?

Stórt er spurt - og engin góð svör. En því betur sem við skiljum þessa stöðu og þessar ólíku væntingar, því betur getum við mótað og rökstutt okkar eigin væntingar, og bent á það þegar fulltrúar okkar bregðast þeim. Það er einhver skynsamlegur meðalvegur í boði, en við þurfum að móta hann meðvitað; ef við veljum bara andstæðar væntingar eftir atvikum - ætlumst til þess að stjórnmálafólk sé allt í senn praktískt hugsjónafólk, undirgefnir leiðtogar og mannleg án breyskleika - þá munu þau alltaf valda okkur vonbrigðum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu