Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Fyrir átta árum

Fyrir átta árum

Svo var það fyrir átta árum,

að við kusum þig með gleðitárum.

Svo var það fyrir tíu árum,

að ég birti grein um þig.

En ég var bara, eins og gengur,

óharðnaður, skrítinn drengur.

Rétt að detta í ameríska áfengisaldurinn. Á öðru ári í stjórnmálafræði, að læra um stjórnkerfi og stjórnarskrár heimsins.

Hafði lesið þá íslensku í menntaskóla, skildi ekki hvaða samfélag hún var að tala um.

Skil það eiginlega ekki enn.

Tíu árum, doktorsgráðu í stjórnmálafræði, stuttri þingsetu, alls konar aktívisma og endalausum rökræðum síðar.

Jújú, hún var að lýsa dönsku konungsveldi þar sem kóngurinn var sagður láta "ráðherra framkvæma vald sitt", til að móðga hann ekki um of þegar einveldi var afnumið.

Og orðinu kóngur svo skipt út fyrir forseta við lýðveldisstofnun, með loforði allra flokka um að Íslendingar fengju svo sína eigin stjórnarskrá á allra næstu árum. Árið 1949 fannst forsetanum það loforð hafa dregist úr hófi fram.

Skoðanir mínar hafa svosum þróast aðeins á þessum tíu árum sem liðið hafa síðan ég bauð fram til Stjórnlagaþings - til dæmis er ég ekki jafnheitur fyrir hálf-forsetaræði og ég var þá, og ég get svarað sumum spurningunum sem ég setti þar fram. 

80. greinin í núgildandi er samt enn þá mín uppáhalds

Við höfðum mörg okkar eigin hugmyndir um það hvernig ný stjórnarskrá ætti að líta út, sumar sérvitrari en aðrar. En við tókum þá umræðu líka, frekar rækilega.

Með þjóðfundi 2010, Stjórnlaganefnd, Stjórnlagaráði og samráði þess við almennings, yfirferð lögfræðingahóps, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með ótal umsögnum og svo lagfæringum og breytingum í ljósi þeirra sem lagðar voru fram vorið 2013.

Þannig að það skiptir mig litlu máli þó ekki allt sem ég vildi hafi fengið fram að ganga. Það var ekki ég sem samdi þessa stjórnarskrá, heldur þjóðin. Ekki bókstaflega öll þjóðin kannski, en hérumbil eins nálægt því og komist verður.

Hún er miklu betri en núverandi stjórnarskrá: skýrari, nútímalegri, lýsir okkar samfélagi, stjórnmálum og gildum miklu betur og tryggir réttindi einstaklinga sem og mörk valdhafa mun betur í sessi.

Áratugur er langur í lífi manns en stuttur í sögu lýðveldis. Nýja stjórnarskráin sigldi ekki héðan, heldur lifir með þjóðinni sterkar en nokkru sinni fyrr.

Hún er stjórnarskrá Íslendinga, þú hún eigi enn eftir að verða stjórnarskrá Íslands.

Höldum áfram að innleiða hana. Hlustum á lögfræðinga, bæði þá íslensku sem hafa málefnalegar efasemdir sem og þá erlendu sérfræðinga sem hafa hrósað henni í hástert.

Að ári fáum við svo tækifæri til að kjósa til valda flokka sem eru tilbúnir að byrja aftur þar sem frá var horfið vorið 2013 og klára innleiðingu nýrrar stjórnarskrár á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs, í samræmi við fyrirmæli þjóðarinnar 2012 og í samráði við hana.

Ennþá brennur mér í muna,

að við getum þá í gleði okkar,

gengið saman Lýðveldisveginn.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni