Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Heppilegir samstarfsaðilar

Heppilegir samstarfsaðilar

Mál Þorvalds Gylfasonar, sem fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar kom í veg fyrir að fengi stöðu á fræðilegum vettvangi vegna pólitískra skoðana hans, er í sjálfu sér stórmerkilegt og algjörlega ólíðandi misbeiting ráðherra á opinberu valdi.

Það sem er nánast merkilegra, og í raun öllu alvarlegra, er að viðbrögð bæði Bjarna og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa ekki verið þau að biðjast afsökunar eða halda því fram að málið sé allt á misskilningi byggt, heldur að réttlæta ákvörðunina.

Með málsvörn sinni láta þau bæði eins og greinarmunur á pólitískum og faglegum ráðningum sé í raun ekki til - og gætu þar með skapað stórhættulegt fordæmi fyrir því að íslenskt samfélag hverfi að fullu aftur til fyrri tíma, þar sem rétt flokksskírteini réðu í raun öllu um atvinnuhorfur einstaklinga.

Málsvörn þeirra hefur nefnilega byggt alfarið á því að benda á - af miklu harðfylgi - að ferlið við ráðningu ritstjóra fræðaritsins feli í sér að fulltrúar fjármálaráðuneytisins komi að þeirri ráðningu. Og láta eins og það hafi ekki verið ljóst frá upphafi.

Ef sú málsvörn ætti að nægja, þá þyrftum við um leið að samþykkja þá forsendu að ráðningar á vegum hins opinbera megi byggja á pólitískum skoðunum þeirra sem koma til greina í starf, svo lengi sem... hið opinbera kemur að ráðningunni. Beint eða óbeint.

Ef það þykir í lagi - ef við samþykkjum þessa málsvörn Bjarna og Katrínar - þá þýðir það að við erum búin að gefa upp á bátinn hugmyndina um faglegar ráðningar innan stjórnkerfisins.

Ef það er tekin sem nægjanleg réttlæting fyrir því að ráða ekki einstakling sem ritstjóra ritrýnds fræðirits að viðkomandi hafi rangar pólitískar skoðanir og sé þess vegna ekki "heppilegur samstarfsaðili", hvenær verður það ekki gild réttlæting? Allir sem vinna í ráðuneytum og stofnunum eru auðvitað í einhverjum skilningi "samstarfsaðilar" ráðherra og er sannarlega ætlað að "styðja við stefnumótun" og störf ráðuneytanna að ýmsu leyti. Svo hvers vegna ættu ráðuneytin yfirhöfuð að standa í því að ráða fólk til nokkurra starfa sem ekki hafa réttar stjórnmálaskoðanir? Þau væru náttúrulega ekki heppilegir samstarfsaðilar - og það er sko gert ráð fyrir því í ferlinu að ráðuneytin taki ákvörðun!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu