Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Samráð um hvað?

Samráð um hvað?

Í nýlegri og merkilegri bók sinni, Democracy in Small States: Persisting Against All Oddsbirta stjórnmálafræðingarnir Jack Corbett og Wouter Veenendaal niðurstöður ítarlegra rannsókna sinna á 39 smáríkjum (undir milljón íbúa), meðal annars byggðar á 250 viðtölum við fólk úr stjórnmálastéttum 27 þeirra. Þar spyrja þeir hvers vegna lýðræðisleg stjórnskipan er hlutfallslega algengari í smáríkjum heldur en öðrum ríkjum - og hvort og þá hvernig lýðræðisleg stjórnmál virka öðruvísi þar.

Það þarf kannski ekki að koma okkur Íslendingum svo mikið á óvart, að ein helsta niðurstaða þeirra er að stjórnmál smáríkja einkennist öðru fremur af óformlegum stjórnarháttum og persónustjórnmálum.

Smæð ríkja getur þannig leitt til formlegra lýðræðisstofnana, en á sama tíma til vanhæfari og spilltari kunningjastjórnmála, þar sem persónuleg tengsl stjórnmálamanna hver við annan, og við aðila úr viðskiptalífi og samfélagi, vega þyngra en formlegar stofnanir, reglur og valdmörk.

Þetta eru auðvitað engin ný sannindi, en umræddar smáríkjarannsóknir varpa athyglisverðu ljósi á að þessi íslensku kunningjastjórnmál eru kannski ekki svo séríslensk eftir allt saman, og eru kannski ekki einskær tilviljun. Þetta virðist gilda í smáríkjum hvort sem við horfum til Íslands (sem er eitt þeirra ríkja sem þeir skoða), Möltu, Vanúatú, Naurú eða Sao Tomé.

Við svo búið þarf heldur ekki að koma mjög á óvart að valdhafar þessara smáríkja streitist gjarnan gegn bæði erlendu og innlendu aðhaldi við valdmörk þeirra og faglega stjórnarhætti. Eins og bent var á í nýlegri hugvekju þarf það ekki að koma neitt á óvart að helstu andstæðingar Evrópusamstarfs - og í raun allra erlendra stofnana og aðila sem leyfa sér að setja út á brot gegn lögum, mannréttindum og lýðræðislegum starfsháttum hér á landi - komi úr þeirri sömu smáu valdastétt sem helst hefur hagnýtt sér ábyrgðarlaus kunningjastjórnmál landsins til framdráttar sér og sínum.

Það þarf heldur ekki að koma á óvart, að sama valdastétt séu hörðustu andstæðingar þess, að íslenska þjóðin taki upp nýja stjórnarskrá sem kveður skýrt á um valdmörk, valdheimildir og ábyrgð þeirra - ólíkt þeirri núgilandi.

Það er ótrúlega lýsandi - og sárt - að forsætisráðherra skuli í nýlegri grein sinni tala um samráð við almenning og heildarendurskoðun stjórnarskrár, án þess að minnast einu orði á þá nýju stjórnarskrá sem þjóðin lýsti yfirgnæfandi stuðningi við þann 20. október 2012.

Það er líka leiðinlega lýsandi, að í skoðanakönnun um stjórnarskrármál sem ríkisstjórnarflokkarnir efndu til, er spurt um ánægju svarenda með núgildandi stjórnarskrá - en ekkert spurt um þá nýju. Það er engin tilviljun.

Það verður að halda því til haga að um 79% af texta núgildandis stjórnarskrár er í þeirri nýju, að nýleg könnun sem spurði sérstaklega um nýju stjórnarskrána sýnir að meirihluti svarenda (52%) telur mikilvægt að við fáum "nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili" (29% telja það lítilvægt) og að um 2/3 hlutar svarenda í áðurnefndri könnun telja mikla þörf á því að endurskoða kafla um dómstóla, mannréttindi, kjördæmaskipan og atkvæðavægi og hlutverk ríkisstjórnar og ráðherra. 65% svarenda í þeirri könnun vilja sömuleiðis innleiða ákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda, 75% ákvæði um þjóðarfrumkvæði, 74% vilja að öll atkvæði vegi jafnt, 73% vilja taka upp persónukjör í auknum mæli og  65% vilja breyta fyrirkomulagi við breytingar á stjórnarskrá.

Það er samt leiðinlega lýsandi að stjórnvöld hafi forðast sérstaklega að spyrja um nýju stjórnarskrána, og þori ekki lengur að nefna hana á nafn. Stjórnarskrána sem var samin í ótrúlega lýðræðislegu og merkilegu ferli og studd tæpum 2/3 kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég fagna því að við höfum þessi nýju, ítarlegu gögn sem staðfesta að þjóðin hefur ekki skipt um skoðun á nýrri stjórnarskrá eða þessum mörgu mikilvægu atriðum sem í henni felast. Rökræðukönnunin er í sjálfu sér áhugaverð tilraun og ég vona að fólk taki þátt í þessu samráði, eigi uppbyggilegar samræður og haldi á lofti þeirri stjórnarskrá sem við sem þjóð erum þegar búin að semja og lýsa stuðningi við.

En mér virðist líka augljóst að samráðið, sem Katrín boðar, er samráð um aðgerðaráætlun sem felur í sér að hundsa nýju stjórnarskrána eins og þeim er framast unnt. Enda er núverandi ríkisstjórn mynduð um fátt annað en sameiginlega hagsmuni valdastéttar landsins af óbreyttu ástandi.

Ég gæti trúað því að út úr þessu ferli þeirra komi í mesta lagi tillögur um auðlindir í þjóðareigu og umhverfismál og miðað við það sem ég hef séð hingað til munu margir málsvarar nýrrar stjórnarskrár bíta á það agn að rífast fyrst og fremst um nákvæmt orðalag í þessum 1-2 ákvæðum, frekar en að beina athyglinni að öllu hinu sem verið er að svíkja okkur um.

Auðvitað eru náttúruauðlindir í þjóðareigu grundvallarmál, en það eru lýðræðisleg stjórnskipan og skýr ábyrgð valdhafa líka. Við sem þjóð verðum að reyna að vaxa upp úr því að leyfa valdastéttinni í okkar litla samfélagi að ráðskast með ríkisvaldið eins og þeim sýnist, eins og þær gera í svo mörgum smærri samfélögum. Við verðum að draga þeim skýr, stjórnarskrárbundin mörk og ábyrgð; ekki bara með ákvæðum um þjóðaratkvæði heldur með miklu skýrari ákvæðum um hlutverk og heimildir forseta, ríkisstjórnar, og þings í stjórnkerfinu okkar.

Við getum alveg leyft þessu ferli að eiga sér stað og samráð um mögulegar lagfæringar er gott og blessað, en við megum ekki gleyma kjarna málsins í endalausu þrefi um "eðlilegt gjald": við þurfum að virða vilja þjóðarinnar og innleiða nýju stjórnarskrána í heild sinni, ef og þegar við fáum loksins þingmeirihluta sem er tilbúinn að afsala sér forréttindum kunningjasamfélagsins.

Getum við ekki haft samráð um það?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu