Auglysingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Blogg

Engin ábyrgð

Með ákvörðun sinni í dag, um að ganga formlega til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar, hafa níu af ellefu þingmönnum Vinstri Grænna því miður skipað sér í hóp þeirra sem hafa pólitíska ábyrgð að engu á Íslandi.

Pólitísk ábyrgð hefur lengi verið frekar fjarlæg íslenskum stjórnmálum; sú stjórnmálamenning sem tíðkast í flestum vestrænum ríkjum, þar sem stjórnmálamenn annað hvort segja af sér sjálfir eða er sagt upp störfum af kollegum sínum þegar þeir gerast sekir um spillingu, valdníðslu og álíka misgjörðir.

Þar er ekki litið svo á að svo lengi sem einhver nái kjöri á þing, þá hreinlega neyðist aðrir til að hundsa spillinguna og koma viðkomandi í frekari valdastöður.

Þannig eru það ekki bara kjósendur heldur stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem ber skylda til að veita hver öðrum aðhald - og tryggja að spilling hafi neikvæðar afleiðingar fyrir þann sem hana stundar. Annars er nákvæmlega engin ástæða til að halda að spillingin hætti.

Og skyldi þá engan undra, að við sitjum enn uppi með spillinguna og þá sem hana stunda, í helstu valdastöðum á Íslandi.

Það er auðvitað helst við þá að sakast sem hana stunda - en það er líka við þá að sakast, sem láta hana viðgangast, láta eins og ekkert sé.

Síðast voru það Björt Framtíð og Viðreisn, nú eru það Vinstri Græn. Þó má segja hinum fyrrnefndu til varnar, að viðræður höfðu átt sér stað í tvo mánuði og nokkrar lotur áður en þeir gengu fúskinu á hönd.

Í þetta skiptið hefur VG annan skýran valkost - Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur Fólksins hafa boðið fram samstarf og forysta Framsóknar upplýsti eftir síðustu viðræðuslit að þau hefðu óskað eftir að taka alla þessa flokka með (þau voru bara ekki til í Viðreisn án FF). Það var VG sem hafnaði því.

Fyrir þessu undarlega athæfi hafa Katrín Jakobsdóttir og Kolbeinn Óttarson Proppé helst fært þrenns konar rök: a) Málefnin ráði för b) Landsfundur VG hafi ályktað að þau vildu leiða ríkisstjórn c) Þau hafi fyrir kosningar sagst útiloka engan flokk

Þetta eru frekar hæpin rök í ljósi þess að:

a) Það vita allir sem eitthvað vita um íslenska flokka að VG stendur nær öllum öðrum stjórnmálaflokkum heldur en Sjálfstæðisflokknum í þeim málum sem þau hafa helst talið upp; heilbrigðis- og menntamálum, innviðuauppbyggingu, kjörum aldraðra og öryrkja og vinnumarkaðsmálum.

b) Landsfundur VG ályktaði alls ekki að VG skyldi leiða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það eru aðrir kostir í boði til vinstri, sem VG hefur ekki reynt til þrautar.

c) Það að hafa ekki útilokað einhvern berum orðum fyrirfram innifelur nákvæmlega enga skyldu til að ganga til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við viðkomandi, sérstaklega ekki þegar aðrir kostir eru í boði. Og Kolbeinn og fleiri í VG gáfu nú allhressilega í skyn að þau myndu ekki fara í þessa ríkisstjórn þegar þau sögðu að atkvæði til VG væri "uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn".

Eftir stendur það sem Katrín hefur líka sagt, að við þurfum "pólitískan stöðugleika". Sennilega er það það sem vakir fyrir þeim og hefur gert lengi; Bjarni talaði um þörfina á styrkri og stöðugri stjórn "tveggja til þriggja rótgróinna flokka" um leið og hann boðaði til kosninga og það fór varla fram hjá neinum að málflutningur Katrínar var mjög opinn fyrir þessu - þó það þurfi ekki að efast um að þetta sé ekki hennar fyrsti kostur.

En það er líka vitað að þessi stöðugleiki myndi snúast um stöðnun; síðasta bandalag gamla Íslands gegn breytingum á samfélaginu sem við þurfum nauðsynlega á að halda - nokkuð sem virðist skipta þau meira máli en gamla hægri/vinstri pólitíkin.

Það yrði endanleg staðfesting á því að flestir íslenskir flokkar eru ekki tilbúnir að beita sér af alvöru gegn spillingu og leyndarhyggju þegar til kastanna kemur.

Auðvitað er ekki vitað hvort af þeirri stjórn verður - og auðvitað er það eftir sem áður verra að ástunda spillingu heldur en að umbera hana. En með þessari ákvörðun sinni er meirihluti þingflokks VG engu að síður að senda þau skilaboð inn í stjórnmálin, og til kjósenda, að spilling og pólitísk ábyrgð séu algert aukaatriði þegar kemur að samstarfi um æðstu völd í landinu.

Það er ábyrgðarhluti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Fréttir

Salan á GAMMA: Fyrirtækið hefur glímt við rekstarerfiðleika

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Fréttir

„Mjög gott samráð“ milli ráðuneyta en töldu ekki ástæðu til að láta Norðurlöndin vita

Pistill

Zero tolerance

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Fréttir

Salan á GAMMA: Fyrirtækið hefur glímt við rekstarerfiðleika