Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Val(d)ið

Val(d)ið

Hvert er valið, þegar allir lofa öllu?

Lýðræði byggir á því að fólkið hafi valdið; til þess þurfum við að hafa valið. Raunverulegt val á milli skýrra valkosta, sem fá síðan umboð til að framfylgja okkar vilja.

Þetta val virkar aðeins ef framboð setja fram skýrar og gegnsæjar hugmyndir fyrir kosningar - og ef efndir þeirra, tryggð við þær hugmyndir og málflutning ráða fylgi þeirra í næstu kosningum. 

Þetta virkar ekki ef öll framboð segjast vilja allt sem hljómar vel og láta það ráðast eftir kosningar hvernig efndirnar á því verða; það fer sko allt eftir málefnunum og svo verður náttúrulega að gera málamiðlanir og svo verður niðurstaðan bara einhvern veginn.

Svo kemur auðvitað að raunveruleika ríkisfjármála og þá verða efndirnar bara alls konar. Það kemur samt ekki í veg fyrir að sömu flokkar og svíkja fögur fyrirheit setji þau sömu fram tæpu ári síðar, eins og nú verði allt öðruvísi, það sem fyrir viku var bara fyrir suma verður allt í einu "fyrir okkur öll"

Ef íslenskt lýðræði á að virka þurfa flokkar að setja fyrirætlanir sínar skýrt fram, efna þau eftir því sem hægt er í samstarfi við aðra flokka og mæta ábyrgð gagnvart kjósendum.

Þess vegna hafa Píratar lagt fram tillögu sína að fjárlögum fyrir kosningar; til að allir geti séð nákvæmlega hvernig við viljum forgangsraðað og hvernig við getum fjármagnað það.

Þannig geta kjósendur séð nákvæmlega hvað við gefum eftir ef við komumst til áhrifa.

Þetta gerum við í anda kjarnastefnu okkar og rótar sem flokks; upplýstra stjórnmála og virkara lýðræðis.

Kjósendur hafa þannig betri upplýsingar um fyrirætlanir okkar miðað við aðra flokka, skýrara val og meira vald.

Það væri óskandi að við gerðum öll sömu kröfu til allra framboða - og að við vörumst að kjósa aftur þá flokka, sem hafa síendurtekið svikið svipuð loforð, síðast fyrir nokkrum vikum síðan.

Valið í kosningunum á morgun er því skýrt þegar kemur að Pírötum. Við bjóðum stóraukinn stuðning við heilbrigðiskerfið, húsnæðiskerfið, menntakerfið og lífeyriskerfið - og allt helgast þetta af því að við bjóðum öðruvísi, upplýstari stjórnmál. Meira vald til ykkar.

Síðast en ekki síst bjóðum við frjálslyndan, nútímalegan lýðræðisumbótaflokk sem leggur skýra áherslu á velferð. Val kjósenda snýst ekki bara um einstök stefnumál, heldur það hvernig ríkisstjórn við viljum eftir þessar kosningar.  Hvort við fáum áframhaldandi hægristjórn og leyndarhyggju; hefðbundna, íhaldssama vinstristjórn eða raunverulega frjálslynda umbótastjórn vinstra megin við miðju.

Þitt er valið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu