Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

"Ha, ég?"

"Ha, ég?"

"Ha, ég? Ekki satt, það er ráðherra sem ber ábyrgð á faglegri skipan dómara!" sagði Alþingi.

"Ha, ég? Ekki satt, það er Alþingi... eða forsetinn! Sem bera ábyrgð á skipan dómara" sagði ráðherra.

"Ha, ég? Ekki satt! Það er ráðherra sem ber ábyrgð á skipan dómara!" sagði þá forsetinn.

Og svona gengur þetta, íslensk stjórnmál í hnotskurn.

Reyndar er alveg frekar augljóst að í þessu tilviki liggur ábyrgðin fyrst og fremst hjá ráðherra - fyrir því eru dómafordæmi og hún sagði það meira að segja sjálf á sínum tíma. En þessi aumkunarverða málsvörn er engu að síður mjög dæmigerð og lýsandi fyrir íslenska pólitík.

Það er vel skjalfest sérkenni á íslenskum stjórnmálum að hér er pólitísk ábyrgð og ábyrgðarkennd gagnvart almenningi og siðareglum stjórnmála varla til staðar.

Ósannindi og pólitísk misbeiting ráðherra eru nokkuð vanaleg hér á landi og viðhorf hins drottnandi herra er þinglýst: Ef hann getur staðist vantraust þingmeirihlutans, þá getur hann ekki hafa gert neitt rangt.

Það sem er kannski ekki jafn-augljóst er að þessi menning ábyrgðarleysis er ekkert lögmál í stjórnmálum - og hún er heldur engin tilviljun hér.

Vissulega viðgengst spilling og ábyrgðarleysi í fjölda annarra en Ísland hefur samt nokkra sérstöðu í þessum efnum í hópi norrænna og evrópskra ríkja. Afsagnir ráðamanna vegna afglapa og spillingar (nú eða hruns) eru til dæmis nokkurn veginn teljandi á fingrum annarrar handar í lýðveldissögu okkar og mun sjaldgæfari en í langflestum öðrum lýðræðisríkjum.

Og það er engin tilviljun að íslenskir ráðamenn hafa getað leikið sér með hlutverk og valdmörk í stjórnsýslunni til að komast undan ábyrgð. Einstaka persónur hafa getað dregið að sér völd og mótað valdakerfið eftir eigin hentisemi, án þess að lagaleg ábyrgð nái þar yfir. Þannig gat Davíð Oddsson dregið verulega úr valdi bæði forsetans og dómstóla í stjórnkerfi Íslands á sinni valdatíð og Ólafur Ragnar síðan dregið það til baka.

Og síðan höfum við verið upp á persónulega túlkun forsetaframbjóðenda komin, um það hver hlutverk, völd og ábyrgð forsetans eru í raun. Hefði Sturla Jónsson til dæmis verið kjörinn forseti þá hefði það hæglega getað boðið upp á stjórnkerfiskrísu, hefði hann framfylgt stefnu sinni.

Þetta ástand er ekki tilviljun, heldur bein afleiðing af því að búa við stjórnarskrá sem var skrifuð fyrir konungsveldi og átti frá lýðveldisstofnun alltaf að vera aðlöguð að íslensku samfélagi og stjórnskipunarhefðum - en hefur aldrei verið.

Vegna þessa hljóðar stjórnarskráin okkar í raun upp á sterkt forsetaræði, þar sem hlutverk og heimildir forsetans eru mun ríkari en hefðir gera ráð fyrir. Dags daglega ráða þessar hefðir og hefðbundnu túlkanir vissulega för, en þegar ráðamönnum dettur í hug að storka þeim skapast óvissa, vegna þess að stjórnarskráin sjálf er grunnlög landsins.

Það skapast líka tækifæri fyrir valdhafa að deila völdum og ábyrgð eftir eigin hentisemi, þegar nánast öll stjórnskipan okkar byggir á óskrifuðum hefðum. Í stjórnarskránni er ekkert að finna um þingræði ("þingstjórn" er óljóst hugtak), um stjórnmálaflokka eða oddvita þeirra, störf ríkisstjórnarinnar (umfram "ráðherrafundi"), heimildir minnihluta þingsins eða umboðsmann Alþingis og mjög lítið um sveitarstjórnir og dómstóla.

Við svo búið þarf ekki að koma á óvart að eina ábyrgðin sem öll stjórnmálastétt Íslands gerðist brotleg við þegar allt efnahagskerfið hrundi (og samfélagið með), var að forsætisráðherra skyldi ekki halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Raunveruleg völd stjórnmála voru komin langt fram yfir það sem konungsvaldsstjórnarskráin gamla gat gert ráð fyrir.

Þó forsetinn sjálfur og fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi lofað íslensku þjóðinni nýrri, íslenskri stjórnarskrá fljótlega eftir lýðveldisstofnun, þá er semsagt engin tilviljun að það hefur dregist svona á langinn.

Þessi óvissa, ábyrgðarleysi og hentistjórnskipun þóknast ríkjandi valdhöfum hverju sinni einfaldlega mjög vel

Það er eitt allra helsta hlutverk stjórnarskrár að kveða skýrt á um hlutverk, valdmörk og ábyrgð valdhafa gagnvart hver öðrum og gagnvart borgurum. Það er alveg ljóst að núgildandi stjórnarskrá bregst því hlutverki, og stjórnmálamenn vita þetta.

Þegar þeir gerast sekir um vanhæfi og spillingu geta þeir einfaldlega sagt: "Ha, ber ég ábyrgð? Neinei, það er forsetinn. Sjáðu bara stjórnarskrána!"

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni