Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Að kyngja ælunni aftur og aftur

Að kyngja ælunni aftur og aftur

Tveimur dögum eftir að hafa lýst því af innlifun í eldhúsdagsræðu sinni hvernig hugsjónir, sannfæring og staðfesta væru nauðsynleg íslenskum stjórnmálum, ef þau ætluðu einhvern tímann að ná reisn sinni aftur, kom Brynjar Níelsson niðurlútur upp í ræðustól Alþingis og lýsti því hvernig hann myndi „kyngja ælunni“ og kjósa með frumvarpi um jafnlaunavottun, þó það gengi gegn hans pólitísku hugsjónum.

Þetta sagðist Brynjar gera „í þágu mikilvægari hagsmuna“, sem hann lýsti þó ekki nánar hverjir væru. Þeim sem þekkja til vita að svarið er einfalt: hagsmunirnir voru þeir að halda ríkisstjórninni saman, þar sem þingflokkur Viðreisnar hefði ekki sætt sig við annað en að jafnlaunavottunin færi í gegn.

Daginn eftir launuðu félagar Brynjars í meirihlutanum honum greiðann, kyngdu ælunni og kusu með því að dómsmálaráðherra skipaði flokksfélaga sinn og eiginkonu Brynjars í nýjan Landsrétt, þvert á mat faglegrar hæfnisnefndar sem átti að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins, sennilega þvert á lög um skipun dómara og eftir aðeins þriggja daga umræðu á vettvangi þingsins.

Óttarr Proppé, maðurinn sem sagði fyrir kosningar að fúsk í stjórnmálum „færi í sínar fínustu“ og flokkurinn hans, sem hefur hingað til byggt tilveru sína í orði á baráttu gegn téðu fúski og fyrir bættum vinnubrögðum í stjórnmálum, létu eins og ekkert væri. „Kerfisbreytingarflokkurinn“ Viðreisn kyngdi ælunni, þegjandi og hljóðalaust.

Samflokksmaður Brynjars, Styrmir Gunnarsson, hefur gerst frægur fyrir umbúðalausa lýsingu á þessu undarlega ástandi, þegar hann tjáði rannsóknarnefnd Alþingis að það væru engin prinsipp í íslenskri pólitík; „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

 „Ég skil þetta ekki“

Sagði félagi minn, öllu hófstilltar, við mig þegar ég hitti hann á förnum vegi í fyrradag. Hann hafði spjallað við Óttarr um pólitík fyrir nokkru síðan og hrifist af hugmyndum hans – og þekkti ekki manninn sem er heilbrigðisráðherra í dag, skildi ekki hvernig hann gat breyst svona.

Þetta var ekki sagt í reiði, heldur af vonbrigðum og af forundran. Ég deildi þessum tilfinningum en að sama skapi gat ég sagt honum að á einhvern undarlegan hátt er ég nær því að skilja þetta heldur en nokkru sinni fyrr, eftir að hafa setið á Alþingi í fáeina mánuði.

Öll árin sem ég lærði stjórnmálafræði, rökræddi og ræddi stjórnmál fram úr hófi, kynntist fólki í pólitík og tók þátt í pólitískri baráttu gátu í raun ekki kennt mér það sem sú reynsla kenndi mér. Það er erfitt að koma þeirri upplifun í orð, hvað þá að vita hvað hægt er að gera til að breyta henni, en mig langar samt að reyna.

Flestir í stjórnmálum hafa nefnilega prinsipp.

Og það sem meira er, þeim er almennt mikilvægt að fylgja þessum prinsippum. En samt eru (nánast) engin sjáanleg prinsipp í pólitík. Hvernig má það vera?

Það sem ég fann fyrir er það hversu rosalegur og margvíslegur þrýstingur er á þingmenn alla daga, bæði innan þingsins og utan frá, að fylgja ekki sínum prinsippum þegar það hentar ekki; eins skrítið og það kann að hljóma. Þrýstingur sem er ekki í lagi að bogna undan – en mannlegt engu að síður.

Þessi þrýstingur er margs konar og ég mun vonandi geta lýst honum betur næstu mánuði, en í bili vil ég segja að hann sprettur ekki síst innan frá; frá okkur sjálfum sem erum í stjórnmálunum. Á mótsagnakenndan hátt kemur hann frá okkar eigin pólitísku hugsjón; þeim ítrustu langtímamarkmiðum sem okkur dreymir um að ná fram í stjórnmálum.

Það var það sem Brynjar kyngdi ælunni fyrir; hann trúir því á sinn hátt að þessi ríkisstjórn sé góð fyrir landið og geti náð því fram sem hann vill yfir heildina, og þess vegna er hann til í að sleppa hugsjónum sínum í einstökum málum.

Það sama hugsar Óttarr – leyfi ég mér að halda fram. Að þetta sé slæmt en það gæti nú verið verra, Sjálfstæðisflokkurinn myndi bara fá Framsókn í skítverkin ef hann spilar ekki með, og með þessu móti geti hann amk. vonandi gert eitthvað gott í heilbrigðismálum.

Það var ekki síður lærdómsríkt fyrir mig að fylgja loksins ráðum Jóns Gnarr, og horfa á sjónvarpsþættina The Wire á meðan þetta þing stóð yfir. Þar kynnumst við meðal annars borgarstjóra sem hafði raunverulega ástríðu fyrir umbótum en þurfti stöðugt að sætta sig við eftirgjöf og spillingu til að halda velli, í von um að komast einn daginn nógu hátt til að geta breytt hlutunum. Fyrst ég er farinn að vitna í sjónvarpsþætti, þá sjáum við það sama í bresku þáttunum Yes (Prime) Minister; hversu ofarlega sem aðalpersónan komst, þá þurfti hann alltaf að láta undan kerfinu. Alltaf að því ert virtist af ástæðum sem virtust eðlilegar og jafnvel óumflýjanlegar í hvert sinn fyrir sig.

Og þar erum við komin að því sem er svo sorglegt við þennan hugsunarhátt; við erum að elta gulrót sem hangir á priki úr höfðum okkar. Það að við sem einstaklingar munum einhvern tímann ná fram öllum okkar æðstu draumum í pólitík, vinna fullnaðarsigur og skapa okkar hugmynd um hið fullkomna samfélag, er því miður ekki raunhæft. Að minnsta kosti ekki á næstu árum og að minnsta kosti ekki á meðan við beygjum okkur undir þennan hugsunarhátt.

Til að koma aftur að prinsippleysinu sem blasti við þjóðinni í gær, þá eru t.d. líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn muni sækja um aðild að ESB, bjóða upp kvótann, endurreisa heilbrigðiskerfið okkar og/eða kollvarpa vinnubrögðum stjórnmála á þessu kjörtímabili einfaldlega hverfandi. Í þeim flokki er sannarlega líka hugsjónafólk, en það sættir sig við ríkjandi menningu og ægivald sérhagsmuna þar til að komast áfram, í sömu óljósu von um betri tíð.

Og á meðan situr þjóðin eftir

Með sömu glötuðu stjórnmálin, sömu ómögulegu vinnubrögðin, sömu spillinguna og geðþóttavaldið ár eftir ár eftir ár. Sama gamla fúskið, áfram um ómunatíð. Á meðan þingmenn elta gulrótina og hlaupa í sama farvegi og allir sem á undan þeim komu.

Jafnvel þó einstaka táknrænir sigrar geti unnist með þessu hlaupi (jafnlaunavottun vei!) þá endar það á sama stað og við byrjuðum. Við hlaupum sama vítahringinn og nánast allir velmeinandi stjórnmálamenn lýðræðissögunnar hafa hlaupið, án teljandi árangurs.

Ef við ætlum að ná árangri við að breyta stjórnmálunum, þá verðum við verðum að gera okkur grein fyrir því að prinsipp eru ekki prinsipp vegna þess að þau kosti okkur aldrei óþægindi, jafnvel skaða. Þau eru prinsipp vegna þess að til lengri tíma munum við öll græða á því að þeim sé fylgt, þrátt fyrir tímabundið mótlæti.

Þetta mótlæti er raunverulegt og getur verið mjög lýjandi, það snýst ekki bara um að standa á sínu þegar einhver er ósammála. Það getur kostað ríkisstjórnarsamstarf að fylgja sínum prinsippum, það getur kostað minnihlutann traust annarra stjórnmálamanna og skaðað samningsstöðu þeirra að leika ekki leikinn. Það getur líka kostað flokka fylgi og þar með framtíðarvonir; kostað bræði kjósenda sem eru ósammála þér hverju sinni og vildu að þú spilaðir leikinn frekar en að fylgja þinni sannfæringu. Það getur komið illa niður á bandamönnum þínum og vinum, sem ekki aðhyllast í öllum tilvikum sömu prinsipp og þú (eða amk. ekki jafn sterklega).

Og það er auðvelt að láta undan.

Í hverju tilviki fyrir sig virðist það ekki vera þess virði að fórna „mikilvægum hagsmunum“ fyrir almenn prinsipp, en um leið og við byrjum að fórna þeim verður engin ástæða til að halda frekar í þau næst. Við förum að kyngja ælunni aftur og aftur, þangað til við hættum að gera okkur grein fyrir því að "prinsippin" okkar voru það aldrei í raun og veru.

En ef við ákveðum í sameiningu að það sé komið nóg af þessu hugarfari, bítum á jaxlinn og verðum breytingin sem við höfum prédikað í stjórnmálum, þá getur það smám saman fært okkur betri stjórnmál; málefnalegri vinnubrögð, farsælla samstarf og upprætingu spillingar. Það getur skapað forsendur fyrir almenning til að trúa því að þegar stjórnvöld ganga yfir strikið, þá muni raunverulega þingið setja þeim skóinn fyrir dyrnar; þó svo það gangi gegn tímabundnum hagsmunum þeirra. Að við sýnum þeim raunverulegt, lýðræðislegt aðhald.

Og eins og Brynjar sagði, þá getur sú ímynd smám saman aukið traust kjósenda á stjórnmálamönnum, ef við sýnum þeim í verki að prinsipp séu okkur mikilvæg og við séum tilbúin að fórna tímabundnum pólitískum hagsmunum fyrir að gera það sem er rétt. Við getum ekki búist við því að það gerist á einni nóttu, en við getum ekki búist við því að þetta gerist nokkurn tímann ef við höldum áfram að beygja okkur undir fúskið í barnslegri von um bjarta framtíð.

Við þurfum öll, hvort sem við erum á þingi eða ekki, að standa föst þegar þrýstingurinn virðist yfirþyrmandi. Þurfum að muna prinsippin og þá sannfæringu sem fólk treystir okkur fyrir að fylgja, þegar praktíkin virðist ætla að gleypa okkur, og muna að það átti aldrei að vera auðvelt að standa við hana. Við þurfum að skila ælunni þangað sem hún á heima, ef við ætlum einhvern tímann að ná heilsu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni