Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Zeitgeist

Frásagnarmáti samtímans er ekki játningarformið heldur reynslusagan. Á því er grundvallarmunur. 

Sama reynslusagan kemur trekk í trekk á dv.is. Ég held að ég hafi séð hana einum sjö sinnum. Hún er þýdd úr bandarískum miðlum svo verið getur að ég hafi séð hana víðar, með nokkrum tilbrigðum. 

Sagan er nokkurn veginn svona: Ung kona er stödd í Walmart með barnið sitt þegar hún verður fyrir dónaskap af hálfu eldri konu. Oftast fettir sú eldri fingur út í uppeldið. Hefurðu enga stjórn á þessum krakka? Eitthvað svoleiðis. Engum er vel við að slettirekur skipti sér af uppeldinu. Þetta fær á þá yngri og heimkomin bregður hún á það ráð að skrifa opið bréf til konunnar á samfélagsmiðli. Þú, sem veittist að mér í Walmart ... Eitthvað í þá áttina. Svo færir móðirin sig alltaf upp á skaftið og stenst ekki freistinguna að láta nokkur vel valin fúkyrði fjúka: Þú ert ekkert nema gömul og bitur helvítis belja o.s.frv. Þar með fýkur öll hugsanleg samlíðan með móðurinni, skyldi maður ætla, sem þegar upp er staðið hefur látið helmingi verri hluti flakka en sú gamla. 

Af sögunni að dæma virðast bandarískir fjölmiðlar einhverra hluta vegna þó ekki hafa uppgötvað fyrirbærið elliníð, þótt þar í landi hafi flestar tegundir fordóma verið skilgreindir og endurskilgreindir niður í skít. Elliníð er kannski bara til í Evrópu — kannski varð það til einmitt sama dag og 68-kynslóðin varð sjötug, sagði vinur minn. Þá hætti gamalt fólk að vera töff eins og það alltaf var og breyttist í fórnarlömb. Ég reyndi fyrir mér í að vera ósammála því. Það var ekki alveg auðvelt. En Bandaríkjamenn hljóta líka að hafa uppgötvað elliníð. Annað getur ekki verið. Þar er heimili hinna verstu og hinna bestu, þar er vasasálfræðin fædd og þar er sjálfskennslapólitíkin mest og þaðan breiðast út hugsanir og hýperbólur, þar er jú einu sinni vagga rétttrúnaðarins og háborg woke-sins meðal vinstrisins og árangurinn epískur eftir því (forseti Bandaríkjanna er Donald Trump).

Frásagnarmynstrið er passía. Móðirin leitar á náðir hins opinbera vettvangs til að sækja sér huggun, svo ekki sé sagt hefnd. Nú kann auðvitað að vera að mæla megi með slíkri sáluhjálp í þessu tilviki, þótt alvarlegt tráma (sem atvikið er ekki) fæli í sér að afskaplega hæpið væri að hugsa sér að það ætti ekki betur heima í höndum fagaðila, sálfræðings, en margmiðils, hvað þá sölugírugs fjölmiðils. Eigi að síður ber við að konan í reynslusögunni lætur í það skína að atvikið eigi sér víðari skírskotun en svo að því megi sem heiðarlegast svara sem svo að hún ætti fremur að reyna að læra að höndla amstur daglegs lífs en að bera sinn litla harm á torg. Hún greinir frá reynslu sinni til að auka vitundarvakningu, svo hún geti orðið öðrum víti til varnaðar. Eins og það sé hægt. Eins og maður geti forðast leiðinlegt fólk. Maður gæti eins reynt að hindra með meðvitund sinni að það hendi einn daginn þegar maður gengur eftir Hólavallagötu í sakleysi sínu að ljósastaur dettur gersamlega upp úr þurru og lendir á höfðinu á manni. 

„Vandinn er kerfislægur,“ tönnlast hver gagnfræðingur á, eins og það segi eitthvað, eins og það sé víst að svo sé, eins og hver vandi geti ekki allt eins verið af fullkomnu handahófi, eins og vandinn geti ekki einmitt falist í þeirri hugljómun hvers byrjanda í guðleysi að ekkert skipulag er á hlutunum og enginn guð að baki neins, sem getur jú verið erfið uppgötvun. Konan í reynslusögunni í DV lætur í það skína að hún hafi upplifað eitthvað á borð við misvægi í valdahlutföllum á milli hennar og helvítis hexins sem hreytti í hana einhverju, fremur en einfaldlega að hexið sé hálfgerður leiðindapési, eins og kannski líka móðirin, en um það er lífsins ómögulegt að álykta nokkurn hlut og reyndar nær að ætla að þeirri eldri líði kannski ekki rétt vel með sjálfa sig, sem gæti m.a. stafað af valdaleysi hennar.

Þá hendir, í einu tilbrigði sögunnar, að móðirin fær alls ekki þá samúð sem hún vonaðist til að fá frá samlíðendum á félagsmiðlinum. Hún fær jafnvel skítkast. Þetta er alltaf hvít kona, einhvers staðar í Miðvesturríkjunum, og tilkall hennar til minnihluta- og fórnarlambsstöðu er í meira lagi hæpið og fólk bara kallar hana treilerpakk, sem verður þess valdandi að hún fær áfallastreituröskun, vill hún meina,  og verður enn síður kleift að höndla amstur daglegs lífs, skyldi maður ætla, meðan við fiskarnir höldum í okkur athugasemdum um að hún ætti að hætta þessu helvítis væli og þeir hinir grimmari, ránfiskarnir, segja henni opinskátt að fokka sér bara og hætta að misbjóða samkennd okkar.

Einhvern veginn væri það meira sannfærandi ef manneskjan sem hún hittir í búðinni væri karl. Þá kynni jafnvel að vera að einhverjir karlkyns femínistar (ég nefni þá því ég er einn þeirra) rifu utan af sér fötin og kæmu undan þeim Hulk-grænir og bólgnir af kröftum, réðust til atlögu við kynbræður sína, fórnarlambinu til varnar og af einskærri tækifærismennsku þess tíma sem skenkir körlum ókeypis heiðursmerkjum að næla í skyrtubrjóstið fyrir nákvæmlega ekki neitt, #heforshe, og þeir grænu, sömu gæjarnir og klifa á því að vandinn sé kerfislægur, stökkva fram í lítt duldu machísku ofurhetjugervi og gerast viðstöðulaust yfirfemínistar, gera kvenkyns femínistann jafnskjótt að aðstoðar- og undirfemínista og skammta henni lægri laun.

Yfirleitt endar þessi saga þó vel. Formgerðin er lítt breytileg. Rof hefur orðið á fastbundinni tilveru, tekist hefur verið á við rofið og friður hefur komist aftur á.  Réttlætið hefur sigrað. Hið vonda hefur fengið makleg málagjöld. Næst þegar fréttin kemur í DV mun ég lesa hana enn eitt skiptið, lesa opið bréf til andskotans. Af áfergju. Ég þarf að vita þetta.

Bókmenntaform samtímans er reynslusagan. Hún er hluti af tíðarandanum. Zeitgeist, það er fallegt orð, ég sletti því. Tíðarandi er ekki það sama og hugmyndafræði. Öðru nær, í tíðaranda þarf ekki að felast minnsti vottur af hugmyndum. 

Annað sem einkennir tíðaranda er að  hann breytist furðu fljótt, gufar upp og ekkert stendur eftir af honum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu