Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sjálfhverf menning og málvillur: Örlítið um ruv.is

Gallinn við að búa í örsamfélagi er að þess er krafist að allir séu helteknir af því sama. Það hefur sína kosti, svo sem samstöðu. Það hendir ekki hjá stórþjóðum að fram fari þjóðarsöfnun í sjónvarpi fyrir einhvern málstað og formúgur safnist. Það hendir varla hjá stórþjóðum að fullt af fólki riti nafn sitt á undirskriftarlista til að koma í veg fyrir að sjö ára dreng frá Pakistan sé vísað úr landi eftir tveggja ára dvöl, að alls kyns fólk safnist saman í Vesturbæjarskóla fjölskyldunni til stuðnings. 

Hvort sem það er nú rétta aðferðin eða ekki. Mér er til efs að svo sé. Ekki komast öll börn í fjölmiðla. Lausnin á að vera í kerfinu sjálfu, ekki í samstöðu fólksins.

En hvað um það. Sum þessara mála sem allir þegnarnir í örþjóð verða gagnteknir af eru ekki merkileg. Þau eru þvert á móti nauðaómerkileg. Ég stórefa að nokkur íbúi stórþjóðar kippti sér upp við hver sé ráðinn útvarpsstjóri og hver ekki. Né heldur t.d. hvað fyrrum útvarpsstjóri og núverandi þingmaður eða fyrrum ritstjóri stærsta dagblaðsins hefðu um það að segja. Blessunarlega hafa allar samsæriskenningar farið framhjá mér þar sem ég er afskrifaður af félagsmiðlum í augnablikinu en eitt er augljóst: Stefán Eiríksson er óræður, hann verður ekki með góðu móti bendlaður við neinn stjórnmálaflokk. Það er stór kostur. Með því eru þeim mun betri líkur á að Stefán Eiríksson hafi trú á og starfi samkvæmt nokkru sem kallast hlutlægni.

Hlutlægni er ekkert of mikið í tísku. Kaupmannahafnarsáttmálanum hefur ekki verið hrundið í framkvæmd utan eðlisfræðinnar.

Kannski skortir eitthvað upp á fjölmiðlareynslu Stefáns, sem kemur mér fyrir sjónir sem afskaplega traustvekjandi náungi, en hann hefur stjórnunarreynslu og sama hvað kenningunum líður getur varla neinn í alvöru haldið því fram að hann sé flokksgæðingur eins eða neins flokks. Flestir af undanfarandi útvarpsstjórum hafa verið flokksbundnir, að undanskildum þeim síðasta. Það má vel gagnrýna stjórn RUV mín vegna en ég er ekki frá því að hún hafi valið vel.

Ég vil gera tvær breytingar á RUV. Kröfur mínar eru hógværar, að ég held, og raunsæjar.

Í hverri einustu frétt á ruv.is eru að lágmarki þrjár slæmar málvillur. Fyrir utan innsláttarvillurnar. Þessu vil ég breyta. Að vísu er þetta mismunandi eftir því hver skrifar en það er augljóst að ef enginn prófarkalestur er viðhafður — eins og bersýnilega er tilfellið — læra ungir fréttamenn ekki góð vinnubrögð og umgengni við íslenska tungu. Það veldur því að almenningur les fréttirnar og heldur að þær séu góð íslenska. Það er andstætt lögum um RUV. Einn góður prófarkalesari í fullu starfi ætti að fara létt með að lagfæra það sem undantekningarlítið sleppur í gegn hjá RUV — og það jafnvel umfram aðra miðla — og þótt það væri í fjarvinnslu, um leið og fréttin fer í loftið. Ekki eftir á, þá er það of seint. 

Hitt atriðið sem ég myndi breyta: Það hendir trekk í trekk að hver einasta frétt á ruv.is er af innlendum vettvangi. Ríkisútvarpið er þannig ekki að miðla mynd af heiminum, mennta þjóðina, heldur eltast við eitthvað sem er þegar öllu er á botninn hvolft ekki annað en hver önnur dægurdella. Auðvitað eru þættir um heimsmálin á RUV og rætt um þau í sjónvarpsfréttum en vefurinn sjálfur, ruv.is, er iðulega undirlagður af innlendri vitleysu. Einhver segir eitthvað á þingi, eða á Facebook, það er ekki hlutverk ríkismiðils að elta það uppi ef það hefur ekki beinlínis neitt með heimsmyndina og menninguna að gera og engin upplýsandi greining er í frásögninni fólgin. Það er nóg til af öðrum miðlum sem elta slíkt uppi og gera það satt að segja betur en RUV. Svo ákaflega innlend áhersla á tímum minnkandi áhuga á línulegri dagskrá gerir ekki annað að verkum, menningarlega séð, en að þjóðin verður sjálfhverfari.

Að vísu myndi ég líka hafa útvarpsþátt um djass og annan um heimstónlist, að hætti danska útvarpsins, og ég myndi líka stórfjölga sýningum á klassískum kvikmyndum í sjónvarpi og auka við bókmenntaumfjöllun og ég myndi skýra boðleiðir og ábyrgð miðilsins á tímum félagsmiðla en það er önnur saga. 

En málvillurnar á ruv.is og innlenda slagsíðan þar — kæri Stefán, mætti ekki kippa þess í liðinn snöggvast?

Að svo mæltu óska ég Stefáni Eiríkssyni velfarnaðar í starfi. Ég þakka RUV fyrir allt sitt góða starf og öllu því góða fólki sem þar vinnur og óska því góðrar framtíðar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu