Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Tvær aðferðir til að segja satt

Það eru til tvær leiðir til að segja satt: Að þegja eða lenda í mótsögn við sjálfan sig.

Við þetta er engu að bæta. Enda er sjaldnast neinu við afórisma að bæta, þessi er úr nýlegu spænsku safni afórisma.

Þó mætti bæta við hugsun úr ljóði sem ég finn ekki í svipinn en fjallar um þjáningua og okið sem skilningnum fylgir. Best færi á að ég þegði þar um. Fólk þegir af ýmsum ástæðum og kannski ekki síst til að ná því að segja satt. Nema það sé til að forðast mótsagnir. Ef því hefur þá ekki lærst að þögn fylgir vald. Ég ætti að þegja núna. 

Skilningurinn á öðru fólki er það erfiðasta. Mikil óskapleg áþján getur krítísk hugsun verið. Ekki bara að hún leiði mann á villigötur, sem er gott að hún geri, heldur getur skilningur á öðru fólki hindrað mann í að gera það sem hugsanlega er rétt. Ég á ekki við skilning af því taginu sem leitast við að gera öðru fólki upp það versta sem maður getur látið sér detta í hug (sem er áfangi á leiðinni til mannhaturs) heldur raunverulegan vilja til að fá botn í orð og gjörðir annars fólks, sem er varða á leiðinni að einhverju á borð við mannþekkingu, mannskilning. 

Það slæma við mannskilninginn er að hann getur gert manni illkleift að berjast fyrir hugsjónum sínum, fyrir réttlæti. Þessi þarna gæti átt bágt, hinn kann að hafa flóknar og sálrænar ástæður fyrir gjörðum sínum, kannski hefur þessi enn þarna verið í miklu óstuði þegar þau þarna orð féllu. Hvernig ætti mennskan að vera annað en mennsk? Og svo framvegis.

Skilningurinn gerir manni fært að skilja annað fólk og aðstæður þess, án þess að endilega réttlæta gjörðir þess. Að setja sig í spor annars fólks. Þetta sem maður verður hæfur til af því að lesa bækur, af skáldskap. En þótt maður réttlæti ekki gjörðir fólks gerir skilningurinn manni samt erfiðara fyrir að fordæma þetta sama fólk, að tala tæpitungulaust. Að gera heiminn betri. Fordæma án þess endilega að upphefja sjálfan sig. Og þá er kannski freistandi að hverfa í sæluríkt og fávíst mannhatur en fjandans krítíska hugsunin kemur í veg fyrir það. Fjandans mannskilningurinn. Einstigið sem kemst undan mannhatri en nær samt að berjast fyrir því sem er satt og rétt er svo vandratað, svo fáir ná að feta það. Bölvaður sé skilningurinn, bölvuð sé krítísk hugsun sem aldrei getur látið mann í friði.

En samt er skilningurinn, en samt er hæfileikinn til að setja sig í spor annars fólks, það besta og göfugasta sem við eigum.

Nú er ég kannski kominn í mótsögn við sjálfan mig.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu