Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Miklir menn erum við

Það bar eitt sinn til að þeir aka þarna um sveitirnar í firðinum félagarnir Steini Samherji, sem er við stýrið, einn nefndur Lufsi, sem er í farþegasætinu, og Blóraböggull svonefndr í aftursætinu og bíður eftir að steinsteypan þorni í þvottabalanum sem fætur hans dóla í, fjandinn hafi það, segir þá Steini, þetta þornar aldrei, helvítis helvíti, dugir ekki einu sinni að stíga til hliðar tímabundið, ha, skoða verkferla, við verðum að skoða verkferla, Lufsi minn, áður en við hendum honum í höfnina, stíga á þriðja degi upp etceteraetcetera, og þeir aka framhjá Fagraskógi og þarna var hann Davíð minn frá Fagraskógi og heldurðu ekki að hann væri bara dægilega stoltur af mér, Lufsi minn? haha, aha, ahaha, þótt hann hafi verið gey, og Lufsi játar því og svo bruna þeir sem leið liggur fram að Hrafnagil þaðan sem Þjóðhættir Jónasar komu, en var hann ekki eitthvað skrýtinn, þessi Jónas, drukknandi þetta í Djúpadalsá, sem er nú varla nema smáspræna,  ha, óð hann ekki þar sem vatnið er allra grynnst og drukknaði þar með allt sitt læsi á krunk hrafna, en miklir menn erum við, Lufsi minn, að láta þó ekki fara þannegin fyrir okkur, við skoðum þá heldur verkferla og stígum tímabundið til hliðar meðan innra eftirlitið, já, ahaha, hvað er hér aftur fleira? og mikið er þunnt í þessari steypu fyrir einn Blóraböggul, en þegar þetta blæs yfir, Lufsi minn, ætla ég að púkka svolítið upp á sauðkindina, það er gott að túristarnir hafi eitthvað að góna á meðan alvöru menn stunda alvöru bisness, aha, því það megum við eiga að ætíð höfum við reynst okkar byggð vel, eða er ekki svo, ha, Lufsi? og Lufsi jánkar því, við erum byggðahollir og brauðmolavænir, jáogjá, eða svona oftast, alla vega stundum, það hefur alla vega hent, og við búum við látlausa öfund lítilmenna, ójá, þar sem við brunum yfir á hjartalaga rauðu ljósi og kvökum og þökkum í þúsund ár og hvað mega sín item smáblóm með titrandi tár andspænis glænýjum jeppa, aha, hann kemst yfir fjöll og fiðrildi, enda var ort: öllu er stolið ár og síð / eins þótt banni Kristur, já, er það ekki? Er það ekki arfurinn okkar miklu fremur en hitt? Þelamörk og Þjófahlíð? Ætli þeir Þingeyingar hafi ekki einmitt verið höfðingjadjarfir í öðrum löndum eins og við — já, steinþegiðu þarna í aftursætinu, enginn spurði þig álits, sýndu smá sómakennd, drullaðu þér, já, Lufsi minn, hér er tilvalið að fleygja helvítinu í höfnina, steypan er þornuð, miklir menn erum við og ættarlaukar og landasómi og völd höfum við sannarlega, þegar þetta blæs nú yfir, Lufsi minn, og vittu til, það blæs yfir, hananú, sjáðu hvernig hann sekkur, látum hann kjafta um okkur núna, ha, hana, haha-ahahah! — en ekkert nema rétta smán færa þeir yfir heimabyggð sína sem fara ránshendi um fátækar jarðir fátæks fólks og eiga sér engar málsbætur því jörðin sem ól þá hafði aldrei annað en megnustu óbeit á óheiðarleika.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni