Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Öllu hrakar, öllu fleygir fram: Bless

Öllu hrakar og öllu fleygir fram á sama tíma. Ekki á ólíkum sviðum heldur hrakar öllu og fleygir fram í nákvæmlega sömu efnunum og samtímis. 

Donald Trump er enn forseti Bandaríkjanna, sama sirkusruglið heldur áfram. Á meðan mallar sú hugsun í þeim sem vilja eitthvað annað hvort hægt sé að grípa til annarra ráða en hingað til því það orkar eins og eilífðarvél að láta öll mál snúast um Trump og alla athygli beinast að honum.

Eftir því sem popúlisma vindur fram í vestrænum stjórnmálum verða líkurnar á einræði meiri. Það kann auðvitað að vera rangt en fyrir því eru fordæmi. Perónisminn í Argentínu gekk ekki endilega út á að stjórnvöld beinlínis bönnuðu, útskúfuðu og fordæmdu, heldur sköpuðu þau einmitt popúlískt andrúmsloft persónudýrkunar sem sá til þess að fólkið, alþýðan — andstæða meintrar elítu — sá sjálft um að ofsækja minnihlutahópa. Úr varð jarðvegur sem upp úr spratt herforingjastjórn. En það eru líka til dæmi um að úr slíku komi krafa um sannkallað lýðræði. 

Íslenskir fjölmiðlar hafa í raun og veru lært mikið af rannsóknarskýrslu Alþingis og þeim hefur farið fram, þeir eru krítískari. En um leið hefur þeim farið aftur. Að því leyti sem þeir drógu þann lærdóm að fjalla skyldi um íslensk málefni fremur en umheiminn og að betra væri að hafa frétt án greiningar en án hneykslandi smelludólgastings. 

Staða kvenna batnar og henni hrakar. Konum í áberandi stöðum og í stjórnum fyrirtækja fjölgar en kvennalágstéttirnar halda áfram að lækka í launum eftir því sem þær verða meiri kvennastéttir. Sú staðreynd að forsætisráðherra landsins sé gáfaður kvenkyns femínisti fer óendanlega í taugarnar á fólki, einkum körlum, og ástæðuna fyrir núverandi stjórnarsamstarfi tengja þeir ekki við mikla pólitíska reynslu eða málamiðlanaeðli stjórnmála heldur sé forsætisráðherra ... tja, gott ef þeir segja ekki hóra. 

Það er til Sárafátæktarsjóður Rauða krossins á Íslandi. Það er betra að hann sé til en ekki. Það er vont að hann þurfi að vera til. 

Hinir ríku verða brjálæðislega ríkir og hinir sárafátæku leita í áðurnefndan sjóð en um leið og bilið vex og verður bersýnilegra, aukast líkurnar á breytingum, á réttlæti. Eða hversu lengi getur þetta gengið?

Kvótakerfið býr til auðkýfinga og stjórnarskrármálið fer halloka — en um leið fjarar undan kvótakerfinu í óbreyttri mynd og stjórnarskrármálið, ákvæði um auðlindir í þjóðareign, nær flugi. Enda þótt ekki sé líklegt að ærleg tilraun Katrínar Jakobsdóttur til að skera á þann hnút, nefnd formanna allra flokka, muni skila miklu eða sú nefnd koma sér saman um neitt er ekki útilokað að lendingin verði sú að  lögfesta stjórnarskrána nýju frá 2012. Hún hefur það fram yfir stjórnarskrár nefnda að hafa annars konar umboð en þingræðisins, betri rætur hjá stjórnarskrárgjafanum sjálfum, þjóðinni, að skjóta raunverulega nýjum stoðum undir lýðræðið.

Vitund um loftslagsmál hefur tekið algerum stakkaskiptum á allra síðustu árum en um leið versna greiningar vísindamanna og spár um ástandið stöðugt.

Traust á stjórnmálum mælist við frostmark en hvers vegna í veröldinni ættu börn að standa fyrir utan Alþingishúsið á föstudögum nema vegna þess að innst inni trúa þau því að stjórnmálin geti gert eitthvað í loftslagsmálunum ef þau taki sér tak?

Ákveðinni tegund mannhaturs vex ásmegin eftir því sem pólarísering vex. Hver búbblan hatar næstu búbblu af heilum hug í svipbrigða-, hljómfalls- og blæbrigðalausum óveruleika félagsmiðla og búbblurnar halda áfram að stækka og einangrast. Hlýtur þá ekki að koma að því að þær springi? Breytist þá mannhatrið í sjálfsþekkingu?

Hrun leiddi af sér útbreitt fjármálalæsi, þekkingu á allskyns fjármálagjörningum sem áður voru öllum hulin ráðgáta hvernig virkuðu, leiddi af sér vaxandi skilning á spillingu en um leið minnkandi mannþekkingu. Vinátta og vanhæfni til valds eru hvor sín hliðin á sama peningnum. Standist maður próf vináttunnar er það göfugur karaktervitnisburður en jafnframt ómeðvituð en ótvíræð játning um óhæfi til valdastöðu gagnvart vinum sínum.

 ***

Sjálfum fer mér sífellt fram og mér hrakar stöðugt. Ég er bráðungur og að nálgast áttræðisaldur. Alla vega er ég ekki að fjarlægjast hann. Ég verð alltaf myndarlegri og ómótstæðilegri og ég er að verða sem eitt óhrjálegt hró, hugsun minni fer stöðugt fram og um leið verð ég sífellt vitlausari og var þó ekki klár fyrir.

Konurnar sem ég verð hrifinn af og deita flytja flestar til útlanda fljótlega eftir að þær kynnast mér. Þær segjast hafa ákveðið þetta áður en þær hittu mig. Yeah, right. Ég trúi því mátulega. Þetta er í senn framför og eftirför því þótt ég muni lítt eftir sjálfum mér í menntaskóla man ég ekki betur en að konur sem ég hreifst af þá hafi haft vissa tilhneigingu til að koma út úr skápnum sem lesbíur. Í það minnsta þarf ekki að pakka ofan í töskur og standa í allskyns flutningaveseni til að gerast lesbía. Kona bara gerist lesbía. 

Ég er ég haldinn stórkostlegri ranghugmynd sem ég kallaði pronoju löngu áður en ég uppgötvaði að það hugtak væri að finna á Wikipediu. Hugmyndin gengur út á að almennt vinni fólk staðfastlega og á laun að því að gera mér gott á ýmsan hátt. Ég sé virtur, það sé tekið mark á orðum mínum. Ég geng svo langt að telja næsta víst að þegar ég gagnrýni einhvern eða eitthvað harðlega verði því tekið með fagnaðarópum. Þetta reynist iðulega rangt. Fólki finnst ekkert skemmtilegt að láta gagnrýna sig. Samt er pronoja hreint ekki eins hundhelvíti leiðinleg hugmynd og paranoja.

Ég er ýmist kampakátur eða í fýlu. Oftast þó hvort tveggja í senn.

***

Ég beit það í mig fyrir nokkrum mánuðum að fara að blogga. Skrifa pistla. Pistlar eru háðir einu: Skoðunum. Undan því verður ekki komist að það er ekki hægt að tjá sambærilega og jafn margvíða hugsun í pistli og í skáldskap. Þar að auki trúi ég á pappír, ekki net. Ég á ekki einu sinni snjallsíma. Ég er að skrifa bækur núna, ekki pistla, enda á launum við hið fyrrnefnda. Ég hyggst gera langt blogghlé. Um leið og ég þakka áhugasömum lesendum vil ég benda þeim á að lesa frekar bækur mínar. 

Sú síðasta heitir Dyr opnast. Hana má kynna sér hér.

Skáldsagan sem þar á undan kom heitir Bjargræði. Hana má kynna sér hér

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu