Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Afsakanir

Tilgangur þinn var göfugri en allt sem göfugt er þótt afraksturinn hafi kannski verið dálítið hörmulegur — það er þín afsökun.

Þú áttir engra annarra kosta völ — það er þín afsökun. 

Það skilur þig bara enginn því að þú ert gáfaðri en aðrir — það er þín afsökun.

Þú stalst ekki heldur tókst það sem þú áttir hvort sem er rétt á — afsökun.

Þú ert sérstakur. Afsökun.

Þig skortir ekki viljann til að elska, þú hefur bara ekki tíma — það er þín afsökun.

Fólk í þinni aðstöðu mætir fordómum og þá verður að uppræta með öllum ráðum — það er þín afsökun.

Þú ert klikk — hvílík afsökun!

Ef þú hefðir mætt meiri skilningi foreldra þinna í bernsku hefðir þú kannski hegðað þér öðruvísi — hvílík ekkisens banöl afsökun.

Þig langaði bara til að verða frægur — afsökun.

Þú varst yngri þá — afsökun.

Þú ert að eðlisfari heimskur og latur — afsökun.

Það var bara ekki tímabært að samþykkja þessa skrýtnu stjórnarskrá — afsökun.

Hver hefði ekki selt hlutabréfin sín í þinni stöðu? — það er þín afsökun.

Þú ert heiðarlegri en aðrir af því að þú ert fátækur og átt bágt og það gefur þér rétt — afsökun.

Þú hefðir ekki lamið hana ef hún hefði ekki knúið þig til þess með orðum sínum — afsökun.

Þessi systir þín er bara hóra og sumt fólk þolir bara ekki hreinskilni — afsökun.

Það var ekki að þú öfundaðir heldur sveið þér ákveðið kerfislægt ranglæti — afsökun.

Það var eigna- og valdaójafnvægi á milli ykkar, þess vegna stalstu veskinu hans, hann munar ekkert um það, og þess vegna hrintirðu honum í drullupoll — afsökun.

Þú hefur bara aldrei litið á þig sem valdsmann heldur meira svona sem lítið og saklaust blóm og þú hefur minni völd en margir aðrir og þess vegna getur ekkert sem þú gerir verið valdníðsla — afsökun.

Auðvitað hefðirðu getað sýnt skilning og það er ekki það að þú tortryggir fyrirgefninguna sem slíka en sumt er bara erfitt að fyrirgefa — það er þín afsökun.

Það hefði svo sem ekki drepið þig að reyna að vera svolítið næs við fólk en þetta sama fólk var bara ekkert alltaf alltof næs við þig — djöfuls afsökun.

Þú kýst bara fremur að kalla það heilbrigða krítíska hugsun en sjúklega afbrýðisemi — afsökun.

Stundum vega bara pólitískir hagsmunir þyngra en vináttan — afsökun.

Stundum vegur bara vináttan þyngra en pólitískir hagsmunaárekstrar — fokkíng afsökun.

Þú varst djúpt særður og varst í fullum rétti til þess þótt enginn skildi yfir hverju og þú varst ekki að hefna þín heldur að reyna að auka svolítið við réttlætið í heiminum og setja víti til varnaðar til að koma í veg fyrir að aðrir lentu í því sama og þú og ef fólk hefði ekki verið að rægja þig — af tómum misskilningi — hefðu allir séð hversu góðu þú komst til leiðar og hversu góð manneskja þú ert yfirleitt — hversu flóknar geta afsakanir eiginlega verið?

Þú ert ekki langrækinn en manst það sem þú kýst að muna — blindbilleg afsökun.

Þú hefðir auðvitað ekki þurft að halda framhjá kallinum þínum með múraranum í rósbleika hjónarúminu ykkar en þú ert bara svo mannblendin — næstum því falleg afsökun.

Þú ert sú eina sem skilur þjáningu þína og þar með afleiðingar hennar — afsökun.

Jesús vill að þú starfir með þessum hætti á hans vegum — afsökun.

Ef þú hefðir ekki tjáð þig með þessum hætti, það er að segja logið, hefði það getað komið óvinum málstaðarins vel — afsökun.

Það getur enginn knúið þig til að tjá hug þinn þegar það er fullt eins gott að þegja og láta liggja að ýmsu um ýmsa við ýmis tækifæri — hættu nú, afsökun.

Það elska þig bara allir svo heitt og stundum er erfitt að þola álagið og þá bitnar það stundum á öðrum — afsökun.

Afsakanir. Hvar værum við án þeirra?

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu