Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Að þurfa að treysta kjörnum fulltrúum í blindni á að heyra fortíðinni til

Fjármálaráðherra á fund með fjárfestum sem hann lýgur um. Ráðherra dómsmála gerir breytingar á skipan dómara sem faglega skipuð nefnd hafði gert tillögu um, án fullnægjandi rökstuðnings fyrir breytingunum.

 

Síðustu mánuði hef ég unnið hjá Evrópuþingmanni Pírata á Evrópuþinginu í Brussel. Hér fæ ég innsýn í hvernig reynt er að sporna við spillingu í Evrópustofnunum. Um þessar mundir er til umræðu tillaga um að gera þingmenn skylduga til að veita innsýn í hvaða röddum þeir ljá sitt eyra, að skikka þá til að hitta eingöngu lobbýista sem eru formlega skráðir og bjóða upp á gagnsæ vinnubrögð. Nú þegar er framkvæmdarstjórnin skyldug til þessa. Ástæðan er ekki sú að allir þingmenn séu svikulir, illir og falskir heldur leiðir innsýn inn í störf stjórnmálamanna til þess að óþarfi verður fyrir kjósendur, borgara samfélagsins, að þurfa að treysta því að þeir séu það ekki því þeir fá að sjá það með eigin augum. Ofsalega hefði verið gott ef fjármálaráðherra þyrfti að upplýsa um sína fundi.

 

Það að þingmenn stjórnarflokkanna hafi treyst að ákvörðun dómsmálaráðherra hafi verið réttmæt þýðir ekki að ákvörðunina þurfi ekki að útskýra með fullnægjandi rökstuðningi. Fáir eru í sömu aðstöðu og þessir þingmenn, og eiga því erfitt með að einfaldlega treysta bláókunnugri manneskju í einni valdamestu stöðu landsins. Það að fara fram á að almenningur treysti ráðherra á að heyra fortíð til. Í dag höfum við næga tækni og möguleika til að hafa ferlin einfaldlega það gagnsæ að traust gerist óþarft. Sjón er sögu ríkari.

 

Þessir fulltrúar sem treysta ráðherra svo vel að þá skiptir ekki máli hvort rökstuðningur er í örstuttu eða löngu máli er jafnvel fólk sem gekk til kosninga og krafðist betri vinnubragða, minna fúsks, meira gagnsæjis. Til hvers, ef ástæða er til að treysta í blindni án nægjanlegra útskýringa? Vegna þess að fulltrúar þessa lands hafa síendurtekið orðið uppvísir að spillingu. Vegna þess að það er krafan í nútímalegu lýðræði. Er skrítið að það sé erfitt að treysta íslenskum stjórnmálamönnum í ljósi sögunnar?

En hvað eru bætt vinnubrögð? Eru það bara innantóm slagorð í kosningabaráttu? Fyrir mér snúast betri vinnubrögð um tiltekna sýn á lífið sem anda þarf í gegnum nætur og daga til að koma þeim á í þessu samfélagi. Þetta er munurinn á Pírötum og hinum ágætu meintu antí-fúskurum ríkisstjórnarinnar. Vilji okkar til að breyta vinnubrögðunum og bæta samfélagið er ekki háður hentisemi. Við erum óþolandi flugan á veggnum og við kvörtum hátt og snjallt þegar vinnubrögðin eru hvorki fagleg né lýðræðisleg.

 

Gagnsæi, betri stjórnsýsla, fagleg vinnubrögð. Til hvers þurfum við þetta? Til að byggja upp traust. Til að taka betri ákvarðanir. Til að tryggja að fulltrúar almennings séu raunverulega að vinna fyrir almenning til að bæta líf hans. Og við eigum enn langt í land, sérstaklega með svona hentisemipólitíkusa við völd.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni