Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fyrir druslur

Í dag verður druslugangan gengin í áttunda sinn og ég er fjarri góðu gamni við rand byggðar á Vestfjörðum. En í dag arka ég samt mína eigin druslugöngu. Fyrir mig. Fyrir alla. Fyrir réttlætið.

Bara fyrir örfáum árum var hugtakið ,,drusla” neikvætt hlaðið og átti við konur sem dirfðust að sofa hjá hverjum þeim sem þær kusu sjálfar. Svei og skömm. En karlarnir fengu að gera það sem þeir vildu í hljóði eins og þeir höfðu alltaf gert. Án skammar. Án þess að um það væri mikið rætt. Án þess að þeir væru druslur.

Fyrir mér snýst druslugangan um að krefjast þess að fá að lifa lífinu á eigin forsendum og eltast ekki við viðmið sem aðrir setja fyrir þig. Að vera þín eigin manneskja. Sama af hvaða kyni þú ert eða hvaðan þú kemur þá átt þú að fá að velja hvernig þú lifir þínu lífi og samfélagið á ekki að hegna þér fyrir val þitt.

Hugmyndin um að góð kona eigi að vera jómfrúleg er gömul. Sumir segja ástæðu hennar vera þörf karlanna til að vera vissir um að barnið sem þeir sæju fyrir væri þeirra eigið. Einhverskonar upp á snúin eignarréttarpæling á sterum. Því er fjárhagslegt sjálfstæði kvenna mikilvægt skref í jafnréttisbaráttunni, þar sem ekki var lengur hægt að dæma konur til sultar við það eitt að skilja við þær. Þá loks gátu konur sagt skilið við ofbeldismenn án þess að missa allt. Konur þurftu ekki lengur að fylgja reglum karla í einu og öllu til þess eins að lifa af. 

Druslugangan snýst enn fremur um að þó þú veljir að klæða þig druslulega, nú eða ekki, og sofa hjá fullt af fólki, nú eða ekki, þá er valið alltaf þitt. Sá sem nauðgar ber alla ábyrgð og á skömmina skuldlaust. Valið er þitt. Nei-ið er þitt. Já-ið er þitt.

Að samfélagið virði ,,já” og ,,nei” kvenna er næsta bylting. Það er kominn tími til að orð kvenna skipti jafn miklu máli og orð karla. Það er þekkt staðreynd að oft þegar kona kemur með hugmynd í hópi er síður hlustað en þegar sama hugmynd kemur frá karli. Það er eins og skilaboðin gjaldfellist við það eitt að koma úr ranni kvenna. 

Á djamminu þarf oft karl til að skipta sér af og segja ,,hey, hún hefur ekki áhuga” svo að ágengir karlar hætti að atast í konum. Konum líður gjarnan eins og þær séu öruggari við skemmtanahald með karl sér við hlið sem getur sagt ,,nei” fyrir þær ef þeirra eigið nær ekki í gegn – nú eða haldið þessum körlum frá með nærveru sinni einni saman. Eins og þeir eigi konurnar, sem freku karlarnir verða þá að láta í friði af virðingu við karlinn.

En það ætti að vera nóg að kona segi ,,nei”. Að hún segist ekki hafa áhuga. Hún á sig sjálf. Orðin eru hennar. Líkaminn er hennar. Viljinn er hennar. Og hann er ekkert ódýrari eða óstyrkari en vilji karla. Konur vilja líka eða vilja ekki. Konur eru fyrst og fremst manneskjur.

Það er kominn tími til að orð kvenna skipti jafn miklu máli og orð karla.

Áfram druslur. Örkum öll saman í dag fyrir réttlætið hvar sem við svo sem erum.

Höfundur er formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni