Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Viðurkenndu mistök þín og haltu áfram

Að elska fyrst og fremst að hlusta á sjálfa sig tala og þola ekki ósætti eða gagnrýni eru þjóðareinkenni Íslendinga. Þessi umræðuhefð er stórt, lýðræðislegt vandamál.

 

Pólitíkin á Íslandi, eða takmarkanir hennar, endurspeglar ákveðna félagslega þætti sem eru inngrónir í menningu okkar og sem grafa beinlínis undan lýðræðinu og réttarríkinu.

 

Í góðum og lýðræðislegum umræðum komast allar raddir að, rökræður eiga sér stað þar sem unnið er að því að komast að sem bestri niðurstöðu byggðri á góðum upplýsingum. Í svona ferli lærum við af því að eiga í samræðum og samvinnu og höldum áfram sem upplýstari einstaklingar en áður.

 

Þegar frekja er dyggð

Umræðuhefðin á Íslandi, eins og ég upplifi hana eftir langa búsetu erlendis og samlíkingargrundvöll fenginn af þeirri reynslu, er á þann veginn að sá sem talar hæst og er frekastur fær að segja flest orð. Þú þarft að keppast við að komast að ef þú vilt að á þig verði hlustað. Þetta gerir það að verkum að minnihlutahópar komast verr að og á þá er minna hlustað við stefnumótun í pólitík sem og annarsstaðar. Þetta þýðir að ef þú nennir ekki að vera með læti venstu því að á þig er ekki hlustað sem er ekki beint hvetjandi til lýðræðisþátttöku.

 

Þú þarft að tileinka þér ákveðna hefðbundna karllæga eiginleika til að komast af í svona umhverfi því annars verðurðu hreinlega undir í umræðunni og að endingu þegar verið er að forgangsraða fjármagni eða hverju félagasamtök, fyrirtæki eða stjórnmálahreyfingar ætla að vinna að. Þetta hefur til dæmis áhrif á aðstæður fatlaðs fólks þar sem styrkur baklands þíns getur verið afgerandi fyrir lífskjör þín og þjónustu sem gerir það að verkum að réttarstöðu þinni sem fatlaðs einstaklings er ógnað því fatlað fólk er þá ekki lengur jafnt fyrir lögum. Þetta gildir fyrir marga aðra jaðarsetta hópa í mörgum kerfum. Það er óboðlegt að þurfa að ganga endalaust á eftir þjónustu sem þú átt rétt á, ef þú ert þá svo heppin af hafa fengið upplýsingar um þá þjónustu. Það er óboðlegt að það hvar fatlað fólk býr sé afgerandi fyrir lífsgæði þess vegna ólíkra stefna sveitarfélaga í málaflokknum.

 

Þetta gerir það einnig að verkum að stjórnmálin eru fjandsamlegur staður fyrir önnur kyn en karlkynið, nema þú fallist á sveif með kerfinu og tileinkir þér karllægar aðferðir. Þetta upplifði ég sterklega eftir heimkomu eftir búsetu í Noregi og Þýskalandi, þar sem ég var vön því að á mig væri hlustað ef ég hafði eitthvað að segja. Ég sá fljótt að Íslendingar keppast fyrst og fremst við að koma eigin hugmyndum á framfæri frekar en að hlusta og læra af öðrum, svo mikið að það er talið fullkomlega eðlilegt að grípa fram í.

 

Viðkvæmni fyrir gagnrýni

Annað vandamál þessarar umræðumenningar er viðkvæmni fyrir gagnrýni. Það að taka gagnrýni, viðurkenna mistök og halda áfram er talið tákn um veikleika og hér koma þessu karllægu gildi aftur inn. Svo viðkvæm erum við að þau sem koma með uppbyggjandi gagnrýni, eins og Píratar gera á þingi og í sveitarstjórn með fagleg vinnubrögð og lýðræði að leiðarljósi, eru taldir leiðinlegir og neikvæðir. Svo viðkvæm að ráðherrar gera alvarleg mistök trekk í trekk og brjóta jafnvel lög án þess að segja af sér.

 

Umræðumenning þar sem hefð er fyrir því að við tökum stöðu með skoðunum okkar, sama hversu vel eða illa mótaðar þær eru, þar sem við bregðumst við gagnrýni með því að fara í vörn í stað þess að svara efnislega, læra og halda áfram sem upplýstari manneskja, þjónar ekki lýðræðinu heldur vinnur beinlínis gegn því.

 

Í stað þess að eiga í opnum samtölum, þar sem það er talið eðlilegt að vera málefnalega ósammála, þá fer fólk í skotgrafir. Það er ekki tilviljun að margir eru sáttir við núverandi ríkisstjórn þar sem ólíkir flokkar, að minnsta kosti á einn mælikvarða, koma saman. Við elskum harmóníu og að ,,öll dýrin í skóginum” séu vinir og hötum gagnrýni og ósamkomulag sem margir leggja að jöfnu á við ,,rifrildi”.

 

Stjórnmál snúast um mismunandi hagsmuni

En hvert erum við komin þegar það að gagnrýna er talið neikvætt og skaðlegt, meira að segja á vettvangi stjórnmálanna hvers eðli er fólgið í samræmingu ólíkra skoðanna til að komast að sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta? Á vettvangi þar sem skipting lífsgæða er ákveðin?

 

Þá erum við komin í meðvirkni af mjög alvarlegu tagi sem styrkir stöðu elítunnar á kostnað hagsmuna almennings. Í svona samfélagi er ekki rými fyrir jákvæðar breytingar og það eina sem er öruggt er status quo, áframhaldandi misrétti og misskipting. Breytingar gerast ekki átakalaust og því verður að vera rými til að leggja þær til án þess að það sé kallað nöfnum eins og ,,neikvæðni” og ,,leiðindi”.

 

Höfundur er í frambjóðandi í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar og sækist eftir 1. sæti og formaður Femínistafélags Pírata.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu