Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Nýja pólitíkin – arfleifð Vilmundar

Eitt sem við Píratar höfum breytt í íslenskum stjórnmálum á þeim fimm árum sem við höfum verið til er orðræðan. Nú eru allir farnir að tala um lýðræðislegri og faglegri vinnubrögð, gagnsæi í stjórnsýslu, heiðarleika, pólitíska ábyrgð og spillinguna sem viðgengst. Þessi hugtök höfðu að mestu legið í dvala þangað til Píratar komu fram á sjónarsviðið - alla tíð síðan Vilmundur Gylfason var og hét, enda var sá ágæti maður Pírati í húð og hár áður en flokkurinn var stofnaður.

 

Ef þú skildir Vilmund og hvert hann vildi fara skilurðu okkur.

 

Í fræðum um þróun norma eða gilda í stjórnmálum er gjarnan talað um þrjú stig. Fyrsta stigið er þegar hugmyndin um gildið kemur fyrst fram og Vilmundur getur klárlega kallast landlægur guðfaðir eða innflutningsaðili margra þeirra hugtaka sem Píratar byggja sína hugmyndafræði á.

 

Næsta stig er svo þegar fólk venst notkun gildisins, þannig að margir stjórnmálamenn tala um mikilvægi þeirra vegna þess að þeir vita að það er pólitískt sniðugt án þess að nauðsynlega finnast þau innst inni skipta svo miklu máli. Við sáum dæmi um þetta í síðustu kosningum þar sem margir flokkar töluðu fyrir minna fúski og betri vinnubrögðum þó að sumir þeirra hafi svo ekki hagað sér í takt við þessi norm þegar á hólminn var komið, meðal annars valsandi um í dýrum kjólum í þingsal til að auglýsa fyrir vinkonur sínar og þar með misnotandi aðstöðu sína í þágu vina (það kallast sko spilling).

 

Þriðja stigið er þegar gildið verður hluti af innra gildismati einstaklinga. Þegar almenningur og stjórnmálafólk skilur mikilvægi þessara norma og gildi þeirra. Við höfum kannski þurft þrjár fallnar stjórnir vegna spillingar í röð til að þetta megi verða, en nú held ég svei mér þá að við séum loks að nálgast þriðja stigið þó það hafi þurft að ýta oft og hressilega við okkur til að ná hingað.

 

Almenningur er farinn að tala um mikilvægi þess að vinna gegn spillingu, mikilvægi gagnsæis og mikilvægi þess að stjórnmálafólk taki sína pólitísku ábyrgð alvarlega. Við fáum nefnilega ekkert gott og fallegt í samfélaginu nema stjórnmálafólk sé heilt og standi við orð sín, hvort sem það er vegna innri sannfæringar eða einfaldlega vegna þess að annars yrði þeim steypt af stóli eða tekið fram fyrir hendurnar á þeim. Öllu er hægt að lofa í kosningum - og ég vil minna á að allir flokkar, líka þeir sem sátu í fráfarandi stjórn, lofuðu betra heilbrigðiskerfi en sviku það svo (í núverandi kerfi eru það í raun bara ríkisstjórnarflokkar sem geta almennilega framfylgt þessu loforði).

 

Ef stjórnmálafólk er ekki heiðarlegt skiptir engu hverju það lofar. Ef ríkisstjórnin er alráð, eins og hún því miður er nánast í dag, er það í raun eingöngu stærsti flokkurinn sem getur myndað ríkisstjórn sem ræður mestu – jafnvel þó hann sé með langt undir meirihluta atkvæða. Það er ekki sérlega lýðræðislegt, er það? Kerfisbreytingar skipta máli því með þeim væri hægt að styrkja Alþingi og aðhald þjóðarinnar að ráðafólki og þá myndu fleiri raddir komast að borðinu þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir sem varða þjóðarhag.

 

Ef þjóðin hefur engin verkfæri í höndunum til að láta óánægju sína með stjórnarhætti í ljós nema á fjögurra ára fresti er auðvelt fyrir stjórnmálafólk að hunsa hana – og búa svo til einhverja ævintýralygasögu rétt fyrir kosningar til að útskýra, afsaka og slá ryki í augu kjósenda. Þessa dagana sjáum við vel smurðar flokksmaskínur sumra, eftir áratugaæfingu, pumpa út bulli til að breiða yfir slök vinnubrögð.

 

Meira lýðræði, kerfisbreytingar og gagnsæi myndu vinna í hag almennings. Þá væri kannski aðeins hægt að lækka rostann í “Elítuflokknum - Betri en þið hin” og kannski hann fengi loksins ekki að ráða flestu – eins og hann hefur lengi gert og mun halda áfram að gera nema að kerfinu verði breytt. Píratar eru eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur sí endurtekið að við munum ekki fara í stjórn með þeim flokki vegna mismunandi hugmynda okkar um vald og stjórnarhætti, við getum ekki sætt okkur við hans gömlu pólitík. Allir aðrir flokkar eru mögulegir samvinnuflokkar hans.

 

Við viljum nýja pólitík með minni spillingu, þar sem stjórnmálafólk þarf að hlusta á þjóðina. Ekki bara rétt fyrir kosningar, heldur alltaf. Það er eini stöðugleikinn sem við þurfum og eini sem skiptir raunverulegu máli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni