Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Norski Verkamannaflokkurinn í vanda

Norski Verkamannaflokkurinn í vanda

Á mánudag ganga Norðmenn til Stórþingskosninga og velja þingmenn næstu fjögurra ára. Í 90 ár hefur Verkamannaflokkurinn (Arbeiderpartiet) verið stærsti flokkur landsins og að mörgu leyti verið aðalarkitekt velferðarsamfélagsins sem Norðmenn lifa við í dag. Hægriflokkurinn (Høyre) gæti á mánudag kastað þeim af stalli sínum og orðið landsins stærsta breiðfylking.

 

Hver er ástæðan? Bent hefur verið á erfiðleika flokksins við að halda sérstöðu í samanburði við framgöngu annarra jafnréttis- og velferðarflokka.

 

Ekki eru þeir heldur sérstaklega umhverfisvænir, þar sem þeir vilja vernda atvinnutækifæri í landinu, sem mörg hver felast í olíuiðnaðinum. Þetta gerir mörgu ungu fólki erfitt fyrir, sem myndi annars vilja styðja við vinstristjórn, þar sem það setur gjarnan umhverfismál efst á blað. Umhverfisflokkurinn Miljøpartiet de Grønne býður upp á umhverfisstefnu óháð hinum hefðbundna hægri/vinstri-ási.

 

Kominn er nýr femínískur flokkur fram á sjónarsviðið, Feministisk Initiativ, sem er ásamt sósíalistunum í Sosialistisk Venstreparti og kommúnistunum í Rødt femínískustu flokkarnir í boði.

 

Flokkarnir sem styðja núverandi minnihlutastjórn Hægri og Framfaraflokksins (Fremskrittspartiet), Vinstri (Venstre) og Kristilegi flokkurinn (Kristelig Folkepartei), leggja meiri áherslu á velferð flóttafólks og verndun umhverfisins en Verkamannaflokkurinn.

 

Helsta ástæða fylgistapsins sem fólk nefnir í umræðunni er formaður Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Støre. Gríðarlega vel menntaður maður án nokkurra tengsla við verkalýðinn er ekki hinn dæmigerði verkalýðsforingi.

 

Verkamannaflokkurinn er hálfgert konungsveldi þar sem erfitt er að komast á toppinn og var Støre óformlega kallaður ‘krónprinsinn’ áður en hann tók við af Jens Stoltenberg. Eitt einkenni þessa konungsveldis er karllæg menning, sem er þekkt fyrir að hafa sterka og sjarmerandi einstaklinga í forsvari sem flestir hafa náð að festa sig í sessi í sögunni og greipt sig í huga fólks. Ekki var það tilviljun að hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hafði það að markmiði sínu, þegar hann fór með bátnum MS Þorbirni yfir til Úteyju árið 2011, að ráða af dögum Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og formann Verkamamannaflokkinns, sem lét af embætti 1992 eða 19 árum áður. Hún hafði borið ábyrgð á þróun velferðarríkissins og mæðraveldinu sem hafði haldið honum niðri, vildi Breivik meina. Jonas Gahr Støre skilur sig frá þessum hópi þar sem að hann er mýkri týpa en fyrrverandi formenn flokksins og með mýkri hendur; sem fellur illa inn í flokk þar sem hin stóra og sterka sósíalíska, vinnandi hönd er í hávegum höfð.

 

Støre er ekki bara vellauðugur og hefur greitt starfsfólki sínu ítrekað svart án þess að gefa upp til skatts, heldur á hann erfitt með að fá fólk með sér með heillandi framtíðarsýn. Þegar Støre er inntur eftir sinni hugmyndafræði um hvað Verkamannaflokkurinn býður upp á hefur hann aðallega nefnt óljós gildi eins og “við viljum ekki kaldara samfélag” þar sem hann vísar til þess að Verkamannaflokkurinn sé eini flokkurinn sem geti bjargað fólkinu frá köldu samfélagi Ernu Solberg, formanni Hægriflokksins og núverandi forsætisráðherra. Hún er þó ekki þekkt fyrir að vera sérstaklega köld og er meðal annars annt um eldri borgara og geðheilbrigðismál. Einnig tekst henni að teikna upp mynd af sér sem mun alþýðlegri en Støre.

 

Ekki hjálpar að Støre er hægra megin í Verkamannaflokkinum og aðhylltist hægristefnu áður en hann gekk til liðs við verkamenn, þar sem vitað er að hann sótti um starf sem pólitískur ráðgjafi Hægriflokksins árið 1988.

 

Eina von flokksins er ef til vill núverandi varaformaður flokksins, Hadia Tajik. Mögulega hefði flokkurinn átt að sjá það fyrir að Støre myndi ekki koma flokknum vel í kosningum og gera hana að formanni fyrir þessar kosningar. En vegna þungra ferla og þess að fólki finnst hennar tími kannski ekki vera kominn, varð það ekki svo. Hin norsk-pakistanska 34 ára Tajik var gerð að yngsta norska ráðherra sögunnar þegar Stoltenberg skipaðihana sem menningarmálaráðherra árið 2012. Hún er ekki bara sjarmerandi og með skýra sýn um framtíð flokksins, heldur byggir bakgrunnur hennar brú á milli mismunandi menningarheima.

 

Sjáum hvað setur á mánudag. Það verður spennandi að fylgjast með.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu