Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ekkert lýðræði án jafnréttis

Að bæta lýðræðið er eitt af aðalmarkmiðum okkar Pírata. Hvers vegna? Til að bæta velferð allra í samfélaginu og tryggja frið. Lýðræði þýðir að lýðurinn eða almenningur ráði. Hingað til hafa sérhagsmunir fengið að ráða of miklu í stefnu stjórnvalda og það er ólýðræðislegt því það þjónar bara mjög afmörkuðum hópi í samfélaginu, sem kemur niður á lífsgæðum almennings. Píratar vilja það sem er alþýðu landsins fyrir bestu, þeir tala hennar máli og reka eingöngu hennar erindi og engra annarra.

 

Við erum með fulltrúalýðræði, sem er i sjálfu sér takmörkun á lýðræðinu ef við lítum á lýðræði sem skala. Þegar við kjósum okkur fulltrúa þurfum við alltaf að velja hinn besta af misgóðum kostum þar sem að engin manneskja er okkur sammála í einu og öllu. Ástæðan fyrir notkun þess hefur verið erfiðleikar við framkvæmd beins lýðræðis, sem hefur breyst með betri tækni og möguleikum almennings til að vera upplýstur og taka beinan þátt. Þar sem að heimurinn skiptist ekki bara í lýðræði eða einræði heldur frekar misgott lýðræði er ekki nóg að hafa kosningar til að landið geti talist lýðræðisríki. Einræðisríki hafa oft kosningar, spurningin er þá hvernig að kosningunum er staðið og þar liggur hundurinn grafinn. Þannig er hægt að bæta lýðræðið á þessum skala ef við erum meðvituð um öll þau atriði sem hafa áhrif á heildarútkomuna.

 

En hver er lýðurinn? Lýðurinn er samansafn allra þeirra samfélagshópa sem fyrirfinnast í samfélaginu og því snúast lýðræðisleg vinnubrögð um að fá allar raddir fram á sjónarsviðið, styrkja þá sem hafa enga rödd í hinu opinbera til að koma fram með sögu sína og reynslu svo þeir geti mótað samfélagið og framtíð þess.

 

Ég er stundum spurð um jafnréttisstefnu Pírata, og fyrir utan að vera með glæsilega jafnréttisstefnu þá mótar hugmyndin um jafnrétti alla okkar stefnu í gegnum grunnstefnu Pírata. Þú getur ekki tryggt borgararéttindi og lýðræði þar sem jafnrétti á undir högg að sækja.

 

Það er heldur ekki nóg að eiga réttindi ef þú ert ekki í aðstöðu til að nýta þér þau. Til þess að geta tekið þátt í samfélaginu, verið lýðræðisborgari og notað tjáningarfrelsi, kosningafrelsi og félagafrelsi, sem og önnur borgararéttindi, verður þú að vera studd og hvött til jafns við aðra til notkunarinnar. Jafnrétti þýðir að allir eigi sömu möguleika og réttindi. Möguleika til að eiga rödd í hinu opinbera, til að sækja sér menntun og störf, til að taka pláss. Þetta er líka ein af grunnstoðum lýðræðis.

 

Lýðræðisleg vinnubrögð snúast um að hafa ferlin á þann hátt að allir eigi jafna möguleika til upplýsingar og þátttöku. Lýðræði er að tryggja það að ákvarðanir sem á að taka í sameiningu eru teknar á vettvangi sem allir eiga jafnt aðgengi að.

 

Reykfyllt bakherbergi eru ólýðræðisleg vegna þess að þau eru lokuð og falin. Að halda fundi í húsnæði sem er óaðgengilegt fyrir fatlað fólk er ólýðræðislegt. Ef konur og innflytjendur veigra sér við þátttöku í stjórnmálum vegna slæmra viðhorfa í samfélaginu, þá er það vandamál fyrir lýðræðið. Ef ákveðnir minnihlutahópar mæta minna á kjörstað en aðrir samfélagshópar grefur það undan lýðræðinu.

 

Það er einfaldlega ekki hægt að tala um gott lýðræði án jafnréttis. Píratar eru jafnréttissinnar og femínistar vegna þess að allar raddir og sjónarmið verða að heyrast til að ákvörðunin verði sem best fyrir alla. Þannig tryggjum við velferð almennings.

 

 

Höfundur er stofnandi femínistafélags Oslóarstúdentanna og meðlimur í stjórn Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu