Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Við erum ekki öll jöfn fyrir lögum – því miður

Þessa helgina hef ég setið Borgarþing Pírata með ýmsum viðburðum og pallborðum til að leggja grunn að stefnumótun Pírata í sveitarstjórnarmálum. Eftir umræður við og um aðstæður fatlaðs fólks, innflytjenda og annarra jaðarsettra hópa í borginni, við gæludýraeigendur og um skóla- og fjölskyldumál, sit ég eftir með tilfinningu fyrir því að þessir málaflokkar einkennist af gegnumgangandi og sameiginlegum vandamálum sem tengjast nokkrum af grunngildum Pírata. Þau tvinnast saman í hugsjón okkar um lýðræði.

 

Fyrsta vandamálið sem ég vil nefna tengist samráði og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga. Það vantar alls staðar meira raunverulegt samráð við hagsmunahópa og ákvarðanir eru allt of oft teknar án þess að talað sé við þá. Samtölin sem þó eiga sér stað virðast stundum vera bara upp á punt og hafa ekki raunverulegar afleiðingar. Þessir hópar eru ekki bara sérfræðingar í sínum aðstæðum vegna reynslu sinnar heldur hafa þeir gjarnan einnig menntun í málaflokknum, bæði formlega og óformlega, og hafa kynnt sér þessi mál mun betur en embættisfólk og stjórnmálafólk hefur tíma eða vilja til að gera. Það kostar ekki alltaf fjármagn að breyta rétt, það er allt of oft verið að nota fjármagn á rangan hátt án þess að það þjóni þeim sem það á að þjóna.

 

Annað vandamálið snýst um vanefndar stefnur og óuppfylltar reglur og lög. Þetta er réttarríkisvandamál og ógnar réttarstöðu einstaklinga. Það eru til ýmsar fallegar stefnur í ýmsum málaflokkum en á meðan það vantar bæði skilning á málaflokkunum og vilja er þeim ekki framfylgt á þann hátt sem best væri á kosið. Upplýsingaflæði og gagnsæi er af skornum skammti og einstaklingar þurfa oftar en ekki að segja fulltrúum kerfisins hver þeirra réttindi eru, frekar en öfugt. Einnig er það vandamál að það séu til stefnur sem er ekki framfylgt því það grefur undan gildi stefnanna, laga og reglna sem grefur undan virðingu þeirra og að endingu undan réttarríkinu. Meira samræmi þyrfti líka að vera milli sveitarfélaga svo það hvar þú býrð sé ekki afgerandi fyrir hvaða lífsgæði þú nýtur. Dæmi um þetta er Notendastýrð persónuleg aðstoð fatlaðs fólks (NPA) og allt of ólíkar nálganir sveitarfélaga varðandi hana.

 

Þriðja vandamálið sprettur úr ákveðinni íhaldssemi og forræðishyggju sem virðist einkenna kerfið sem gerir að ákvarðanir eru ekki alltaf byggðar á nægilega góðum gögnum og upplýsingum. Reglur á að setja vegna þarfa en ekki byggt á fordómum eða úreltum hugmyndum. Þegar reglum er svo breytt vottar fyrir því að tregða kerfisins komi í veg fyrir breytingar. Frjálslyndi þýðir að einstaklingar megi gera það sem þeir vilja svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Reglur á ekki að setja af því bara heldur verður ávinningurinn að vera byggður á gögnum. Reglugerðir um gæludýraeign er dæmi um þetta og öfgafullar hömlur á því hvar megi vera með gæludýr og hvernig því skuli háttað er oftar en ekki byggt á engu öðru en hefð og fordómum, ekki raunverulegum upplýsingum um til dæmis sjúkdómahættu.

 

Í núverandi stjórnmálaumhverfi er það, þótt ótrúlegt megi virðast, framsækin nálgun að vilja byggja ákvarðanir á gögnum og upplýsingum, að vilja að haft sé raunverulegt samráð við hagsmunahópa við mótun og framfylgd stefna í þeirra málaflokkum og að vilja að stefnum og lögum sé framfylgt. Þannig er bara raunveruleikinn. Og þetta vilja Píratar.

 

 

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni