Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ég er hrædd

Hræðsla. Þessi læðandi tilfinning sem grefur undan krafti okkar og þori.

 

Ég hræðist afleiðingar þess að taka þátt í hinu opinbera. Að hafa rödd sem tekur pláss. Á félagsmiðlum, í fjölmiðlum. Að leyfa skoðunum mínum að flakka og reyna að koma á jákvæðum breytingum í samfélaginu.

 

Fólk sem þorir að tala um kúgun tekur áhættu. Að tala um flóttamannakrísu þar sem hinn vestræni heimur vanrækir ábyrgð sína. Að tala um hvernig ójafnrétti takmarkar minnihlutahópa. Að þora að tala um valdaelítur sem stjórna samfélaginu og halda okkur í kerfi óréttlætis.

 

Að þora að segja hið rétta, gera hið rétta. Það kostar. Verðið er hræðsla.

 

Konur sem taka pláss í hinu opinbera þurfa að sætta sig við að upplifa mikil óþægindi tengd stöðu sinni. Stundum ekki bara þær, heldur líka fjölskyldur og vinir. Þær endast mun skemur í pólitík en karlar. Af hverju? Vegna þess að þær verða illa úti sem opinberar persónur og lenda í meiri erfiðleikum að jafnaði en karlar. Þær fá hótanir. Þær eru auðveld bráð félagsmiðla og kommentakerfa. Stundum eru þær meiddar. Stundum eru þær drepnar.

 

Ég er hrædd.

 

Röddin er spegill hverrar persónu og sýnir hvernig hún skilur sig frá þeirri næstu. Með því að þagga niður rödd manneskju kæfir þú sjálfið hennar. Konur eru kallaðar druslur, dræsur, hórur, tussur, píkur, skækjur, teprur, beljur og kuntur fyrir að þora að vera þær sjálfar. Hvort sem það er vitsmunalega, pólitískt eða kynferðislega.

 

Það var ekki fyrr en mjög nýlega í mannkynssögunni að konur máttu fara út og verða persónur, manneskjur, og ekki bara konur, mæður, eiginkonur. Við förum út og erum fólk. Við sofum hjá hverjum sem við viljum, klæðumst hvernig sem okkur sýnist, segjum það sem okkur finnst, krefjumst þess sem okkur finnst rétt. En það kostar. Verðið er hræðsla.

 

Ég vildi óska að ég þyrfti ekki að vera hrædd. Þess vegna mun ég ganga í Druslugöngunni á laugardag. Af því allar konur eiga skilið að vera óhræddar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu