Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Landbúnaðarkerfi ungra bænda og umhverfisins

Landbúnaðarkerfi ungra bænda og umhverfisins

Við Píratar erum umhverfisvænn flokkur og var loftslagsstefna okkar metin af óháðum aðila sem besta loftslagsstefna íslenskra flokka.

 

Þetta er í takt við alla okkar stefnumótun sem tekur ætíð mið af umhverfismálum. Við viljum umhverfisstefnu án undanþága!

Landbúnaðarstefnan okkar er í takt við þetta og er hún ekki bara frábær fyrir neytendur heldur einnig gríðarlega umhverfisvæn og miðar að því að styðja við nýliðun og nýsköpun í landbúnaði.

Nýsköpun fyrir framtíðina!

 

Við viljum breyta landbúnaðarkerfinu því eitt geta bændur og neytendur verið sammála um: Núverandi kerfi er ekki að virka. Við viljum halda sama stuðningi við bændur en breyta stuðningskerfinu yfir í grunnstuðning fyrir virka bændur sem myndi auðvelda ungum og nýjum bændum að stíga sín fyrstu skref á sviðinu. Í dag er erfitt að hefja búskap og í raun bara í hendi þeirra sem þegar hafa mikið fjármagn á bak við sig í upphafi. Þetta grefur undan nýsköpun og nýliðun.

 

Hinn hluti hins nýja stuðningskerfis væru hvatatengdir styrkir sem myndu meðal annars miða af endurheimt votlendis, lífrænni ræktun, skógrækt sem og nýliðun. Við þurfum að endurheimta votlendið, rækta skóg og vinna gegn landfoki til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum! Votlendið og meiri skógur myndi auka ljóstillífun og því minnka magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu.

 

Minnkum kolefnissporið

 

Þriðji liður okkar umhverfisvænu stefnu er að fella niður tolla á landbúnaðarvörum í áföngum. Margir halda að aukinn innflutningur á landbúnaðarafurðum væri óumhverfisvænn en svo er ekki og það sýna einfaldlega gögn. Hér haldast hagsmunir neytenda og umhverfisins í hendur.

 

Við Píratar byggjum okkar ákvarðanir á gögnum frekar en að halda einhverju fram án þess að skoða það nánar og það sýnir sig sem dæmi að framleiðsla á um einu kílói af kjúklingakjöti hérlendis þarf innflutning á 2,3 kílóum af fóðri og fyrir svínakjötið er hlutfallið enn hærra, fyrir utan heilmikinn innfluttan tækjabúnað. Því myndi beinn innflutningur á hvíta kjötinu minnka kolefnisspor okkar þar sem að minni olía færi í flutninginn milli landa. Þetta myndi auk þess spara fjögurra manna fjölskyldu 400.000 krónur á ári og flestum munar um minna.

 

Nýsköpun er nauðsynleg til að geta átt góða framtíð hér á þessu litla en yndislega landi og við þurfum að styðja við framkvæmdir nýrra hugmynda, í þessu tilfelli við unga bændur. Hugsum nýtt og þorum að standa með umhverfinu og lækkum á sama tíma matvælaverð. Náttúran á alltaf að fá að njóta vafans!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni