Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Kapítalisminn drepur lýðræðið um hábjartan dag

Kapítalisminn drepur lýðræðið um hábjartan dag

Á vafri mínu nýlega datt ég niður á svar frá Hallgrími Helgasyni sem vakti hjá mér áhuga. Á þræði um Sósíalistaflokkinn ákvað Hallgrímur að lýsa skoðun sinni á sósíalisma og segir: "Sósíalismi hefur því miður yfirleitt endað í einræði, þar sem hann hefur verið reyndur". Ég verð að viðurkenn að mér brá svolítið við að lesa þetta. Hvernig getur maður eins og Hallgrímur Helgason, sem tók virkan þátt í mótmælunum í hruninu, sett fram svona and-sósíalískar skoðanir sem hljóma meira eins og eitthvað sem maður les í Mogganum eða á blogginu hjá Birni Bjarnasyni? Þetta fékk mig til að hugsa meira út í það hvernig jafnvel besta fólk hefur fallið fyrir áróðri hægrisins um að sósíalismi sé hættulegur. Ég reyndi að útskýra fyrir Hallgrími að sósíalismi væri alls ekki ólýðræðislegur og að á Íslandi væru mörg dæmi um sósíalisma og í flestum löndum líka. Jafnvel í Bandaríkjunum er hægt að finna dæmi um sósíalískar lausnir. Sósíalismi er heldur ekki ein stefna heldur samansafn langrar hefðar sem spannar tvö hundruð ár. Að þrátt fyrir allt, sé sósíalismi stefna um meira lýðræði, útvíkkun lýðræðisins og valddreifingu og valdeflingu verkafólks. Hallgrímur svaraði svo og sagði að ef ég gæti sýnt honum dæmi um "gott sósíalískt ríki" myndi hann endurskoða afstöðu sína. Allt í lagi. Staðreyndin er  að nóg er til af dæmum um velgengni sósíalískra hreyfinga og ríkja og þvert á það sem Hallgrímur heldur eru það mun frekar ríki kennd við kapítalisma sem eiga í vandræðum með að virða reglur lýðræðisins. Heimsveldið sjálft er nú einu sinni helsti málsvari og framfylgjandi kapítalismans. En skoðum gott sósíalískt ríki, ríki sem var fyrir ekki svo löngu var stjórnað af hinum sósíalíska Evo Morales. Þangað til lýðræðið var fótum troðið. 

Evo Morales var fyrst kosinn forseti Bólivíu árið 2006 en hann var fyrstur frumbyggja landsins til að vera kosinn forseti. Þetta eitt og sér er frekar merkileg staðreynd en frumbyggjar Bólivíu eru fjölmennasti þjóðfélagshópur landsins, mun stærri en evrópski og hvíti hluti landsins sem er aðeins um 5% íbúa. Á valdatíma sínum tókst Morales að draga stórkostlega úr fátækt (26%) og sára fátækt (45%), sérstaklega meðal hópa frumbyggja, auka menntun og jöfnuð, byggja upp innviði, en líka auka hagvöxt og stækka efnahagskerfið þvert á spár. Glæsilegur árangur þeirra sósíalísku og sósíal-demókratísku stefnu sem Evo Morales innleiddi varð svo seinna til þess að vinna honum inn hrós frá alþjóðlegum stofnunum eins og IMF og World Bank. Árangur Bólivíu er þess vegna eitt skýrasta dæmið um það hvað getur gerst þegar sósíalistar komast til valda. Þvert á áróður hægrisins blómstraði Bólivía og Evo Morales var endurkjörin forseti 2009, 2014, og líka 2019, sigur sem breyttist því miðir í valdarán hægrisins með velvild Bandaríkjanna.

Saga afskipta Bandaríkjanna af löndum Suður-Ameríku er löng og blóðug. Það er varla til það land í þeim heimshluta sem Bandaríkin hafa ekki ráðist á eða framið valdarán gegn með einum eða öðrum hætti. Bandaríkin líta á Suður-Ameríku sem "bakgarð" sinn og stefnan sem leiddi til valdaránsins í Bólivíu má rekja alla leið til opinberar stefnu Bandaríkjanna frá nítjándu öld. Monroe stefnan (Monroe doctrine), nefnd í höfuðið á fimmta forseta Bandaríkjanna, James Monroe. Sú stefna er nýlendustefna Bandaríkjanna í Suður-Ameríku og er í fullu gildi í praxís. Allar tilraunir ríkja á svæðinu í átt til sjálfstæði og uppbyggingu samfélags sem ekki samræmist kapítalisma þeim sem Bandaríkin tala fyrir er barin aftur með valdi og valdaránum. Listinn er endalaus, Chile, Argentína, Brasilía, Panama, El Salvador Kúba, Kosta Ríka, Venesúela, og fleiri ríki hafa orðið fyrir barðinu á heimsvalda og nýlendustefnu Bandaríkjanna í þessum heimshluta eins og öðrum heimshlutum raunar. Samt er sjaldan talað um það að kapítalismi leiði til einhverskonar vandamála, ólýðræðislegar afskipta eða kúgunar á fólki eða heilu löndunum. Það fer í það minnsta eitthvað lítið fyrir slíkum umræðum í fjölmiðlum eða á RÚV.

Dæmi um ólöglegar, ólýðræðislegar, íhlutanir og valdaránstilraunir Bandaríkjanna í Suður-Ameríku:

  • Kúba, 1898, 1906, 1961: Bandaríkin hernema Kúbu tvisvar og mistakast í þriðja skiptið að steypa Castro með hervaldi.
  • Guatemala, 1954: Valdarán framið af CIA sem steypti lýðræðislega kjörnum forseta. 
  • Chile, 1973: Nixon og CIA steypa Allende af stóli.
  • Uruguay, 1973: Alræðisstjórn tekur völdin með hjálp CIA.
  • Brasilía, 1964: Liðsmenn Brasilíska hersins steypa af stóli lýðræðislega kjörnum forseta.
  • Argentína 1976: Herlið steypir af stóli lýðræðislega kjörnum forseta.
  • El Salvador, 1979 til 1992: Borgarastríð þar sem dauðasveitir þjálfaðar af Bandaríkjunum myrtu tugþúsundir saklausra borgara.  
  • Venesúela, 2002, 2013-18, 2019: Misheppnað valdarán gegn Hugo Chavez árið 2002 og fjöldi tilrauna á síðari árum til að steypa af stóli Nicolas Maduro
  • Nicaragua, 2020: Skjöl sýna að Bandaríkin leitast eftir að steypa sósíalistaflokki Sandinistas af stóli.

Listinn er ekki tæmandi. Aðrar tilraunir og íhlutanir má nefna í Perú, Paraguay, Panama og Kosta Ríka. 

Kosningarnar í Bólivíu í fyrra fóru fram með eðlilegum hætti eins og allar kosningar á valdatíð Evo Morals. Hið sama er hins vegar ekki hægt að segja um viðbrögð andstæðinga hans og stuðningsmanna Bandaríkjanna á svæðinu. Daginn eftir kosningarnar, 21. október, gaf stofnunin OAS (The Organization of American States) út fréttatilkynningu þar sem gefið var í skyn að eitthvað óeðlilegt væri við þær niðurstöður sem fram voru komnar. Stofnunin, sem er höll undir Bandaríkin og alls ekki neinn hlutlaus aðili, gaf í skyn að fjölgun atkvæða til Evo Moralas eftir sem leið á talninguna og það að annað af tveimur talningarkerfum hafi hætt að telja atkvæði, væri merki um að eitthvað grunsamlegt væri í gangi. Vestrænir fjölmiðlar fluttu fréttir af málinu og hjá Ríkisútvarpinu mátti lesa frétt frá í byrjun desember þar sem ásakanir OAS eru endurteknar eins og um staðreyndir sé að ræða. Í kjölfar kosninganna myndaðist mikill þrýstingur á Morales um að gefa frá sér sigurinn og á endanum, og eftir að Morales varð hræddur um eigið öryggi, ákvað hann að yfirgefa landið. Jeanine Áñez, fulltrúi hægrisins, tók svo við sem tímabundin forseti undir því yfirskini að kosningarnar yrðu endurteknar. Hún er enn forseti tíu mánuðum seinna og OAS færði aldrei nein rök fram fyrir fullyrðingum sínum. Fljótlega kom í ljós að þær voru byggðar á sandi. Aukið forskot Morales átti sér eðlilegar skýringar þar sem atkvæði af landsbyggðinni, þar sem Morales á mestan stuðning, skila sér seinna en atkvæði úr borgum. Ásakanir um stöðnun talningarinnar átti heldur ekki við rök að styðjast þar sem um tvö talingarkerfi var um að ræða, opinbera talningarkerfið sem ræður úrslitum kosninganna og annað kerfi og nýrra sem telur atkvæði með skjótvirkari hætti en ekki eins nákvæmum. Það er þetta seinna kerfi sem OAS vísaði til en kosningayfirvöld höfðu raunar gefið það út viku fyrir kosningarnar að skjótvirkar kerfið myndi hætta að telja þegar 80% atkvæða hefðu verið talin. Um þetta er hægt að lesa í skýrslu CEPR rannsóknarstofnunarinnar sem kom út um mánuði eftir kosningarnar og áður en en RÚV endurtók áróður og rangarfærslur OAS á vef sínum. Rannsóknarteymi MIT háskólans komast seinna að sömu niðurstöðu að ekkert óeðlilegt væri við niðurstöður kosninganna. Og þrátt fyrir fullt gegnsæi og upplýsingar um framgang kosninganna og mikinn áhuga vestrænna fjölmiðla, koma allt fyrir ekki. Lýðræðið í Bólivíu var tekið af lífi um hábjartan dag í október 2019 með velvilja og stuðningi Bandaríkjanna. Framverði hins frjálslynda og lýðræðislega kapítalisma. Hugmyndafræði sem margir töldu svo fullkomna fyrir ekki svo mörgum árum að öll umræða eða átök um pólitíska hugmyndafærði væri nánast óþörf. Hið endalega kerfi væri fundið. Þetta var umræðan við lok síðustu aldar, eftir fall Berlínarmúrsins. 

Mér vitandi hefur RÚV ekki birt neinar fréttir eða leiðréttingar á sínum fréttum frá kosningunum í Bólivíu. Eina fréttin sem ég fann sem nefndi möguleikann á því að um valdarán hafi verið að ræða var frétt um að forseti Mexíkó teldi svo vera en hann skaut skjólshúsi yfir Morales áður en sá síðarnefndi fékk pólitísk hæli í Argentínu. RÚV hefur ekki fjallað um valdaránið eða viðurkennt að það hafi verið framið. Þetta er lýsandi fyrir vestræna fjölmiðla sem fjalla oft með ógagnrýnum hætti um fréttatilkynningar Bandaríkjanna og íhlutanna samstarfsaðila þeirra en þegar kemur í ljós að ásakanirnar hafi ekki átt við nein rök að styðjast er ekkert að frétta. 

Af þessum má sjá að á meðan Bandaríkin og samstarfsríki ráðskast með ríkisstjórnir um allan heim, grafa undan lýðræðislega kjörnum fulltrúum og aðstoða við valdarán, eða beinlínis leggja á ráðin um íhlutun og valdarán með beinum hætti, er það nánast aldrei tekið fram í fréttum. Á hinn bóginn er það nánast eins og einhver ófrávíkjanleg regla að besta fólk haldi því fram að sósíalískir leiðtogar hljóti að vera harðstjórar og einræðisherrar. Þetta er útkoman úr samfélagi þar sem umræða um sósíalisma og valkosti við kapítalisma hefur nánast verið bannfærð í sjötíu ár (allt frá McCarthyismanum í Bandaríkjunum eftir seinna stríð) og þar sem umræður um samfélagið og heimsmálin eru nánast alveg horfnar úr fjölmiðlum og sjónvarpi. Allt sem er eftir er Silfur Egils og nokkrir útvarpsþættir sem enginn hlustar á. Umfjöllun íslenskra dagblaða um utanríkismál er í skötulíki og er mest þýðing á greinum úr vestrænum miðlum, án allrar sjálfstæðrar rannsóknar eða gagnrýni. Þetta er það sem Antonio Gramsci, ítalski sósíalistinn, kallaði hegemóníuHægrið hefur á þennan hátt ákveðna menningarlegar yfirburði og hefur tekist að útiloka andstöðu við kapítalisma, ekki með því að tala fyrir kostum kapítalismans, heldur með því að ráðast á eina valkostinn, sósíalismann. Þrátt fyrir endalausar sannanir þess efnis að sósíalismi sé ekkert annað en mannréttindabarátta og frelsisbarátta fólks, og hafi alltaf verið, hvort sem það sé barátta verkafólks um allan heim fyrir auknum réttindum eða mannréttindabarátta svartar í Bandaríkjunum á síðustu öld, er það enn talið vera "common sense" að allt slæmt sem gerist í kapítalismanum sé aðeins náttúrlegt og eðlilegt og hafi ekkert að með kapítalismann sjálfan að gera. En að sósíalismi sé slæmur og endi í einræði eða jafnvel fjöldamorðum. Þó svo það ætti að vera augljóst að kapítalísk ríki hafi, með Bandaríkin í fararbroddi, slátrað milljónum í stríðum og blóðsúthellingu. Fyrir utan fátæktina sem má rekja beint til kapítalismans og hvernig hann býr til skort og hungur en líka ríkidæmi hinna fáu. Í dag eiga rétt rúmlega 2000 milljarðamæringar um 60% alls auðs í heiminum. Samt eru fáir, fyrir utan lítinn hóp sósíalista, að ræða um að kapítalisminn endi alltaf á sama veg, með alræði fjármagnsins yfir samfélaginu og sívaxandi misskiptingu, fátækt, stríðum og núna hlýnun jarðar. Endalokum alls lífs á jörðinni. Það er nefnilega enn þá, eins furðulegt og þá má vera, tabú að ræða um hörmungar kapítalismans, helsi, alræðislegt og einræðislegt eðli hans. Kapítalismanum hefur þannig tekist að varpa, eins og hann gerir, sínum eigin mannfjandsamlegu göllum yfir á sósíalismann. Enn um sinn, þó brestirnir verða sífellt sýnilegri.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni