Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Félagsuppbygging eða aktívismi

Félagsuppbygging eða aktívismi

Aktívismi hefur orðið að megin aðferð róttæka vinstrisins í Norður-Ameríku. Aktívisminn hefur orðið fyrir valinu án þess að herfræðilegt gildi hans hafi verið hugleitt síðustu 30 ár í það minnsta og útkoman hefur verið lakari en efni stóðu til. Þónokkrar ástæður er fyrir því að aktívismi skilar ekki þeim árangri sem við vildum. En hérna verður því haldið fram að pólitísk félagsuppbygging  (political organizing) myndi skila mun meiri árangri.

 

Hvað er aktívismi?

 

Aktívisma má skilgreina sem stjórnmálastarf sem einkennist af stuttum og hnitmiðuðum aðgerðum og yfirlýsingum sem varða úrval málefna og vandamála í samfélaginu. Aktívisminn færist úr einu í annað þegar nægjanlegt andhóf hefur verið sett fram. Hann byggir meira á táknrænni andstöðu heldur en að reyna að ná fram áþreifanlegum niðurstöðum frá valdhöfum, hvort sem það eru atvinnurekendur, stjórnmálamenn, landeigendur, eða húsráðendur. Aktívismi er oft lítt fókuseraður og stundaður sem viðbragð við  einhverju sem gerist í samfélaginu. Sem dæmi getum við ímyndað okkur eftirfarandi: Fyrirtæki færir út kvíarnar og þrýstir á stjórnvald bæjarfélags að byggja frekar lúxusíbúðir í staðin fyrir hagkvæmar íbúðir fyrir almenning. Aktívistar svara þessu með því að herja á hverfi bæjarins, hengja upp veggspjöld og dreifa miðum, auk þess sem nokkur hefðbundin mótmæli eru skipulögð. En þegar lögreglan í bænum er afhjúpuð í fjölmiðlum fyrir að beita nokkra innflytjendur harðræði eru aktívistarnir fljótir að skipta um fókus og gleyma fyrirtækinu og óviðeigandi afskipum þess af bæjarfélaginu þeirra.

 

Auðvitað eru til dæmi um annað, hópar sem berjast af krafti á markverðan hátt til lengri tíma. Punkturinn er að aktívismi á oft erfitt með að kalla fram raunverulegar breytingar við samfélagslegum vandamálum.

 

Aktívistar eru oft bundnir pólitískum böndum en ekki efnahagslegum eða samfélagslegum. Þegar þeir berjast gera þeir það oftar en ekki í umboði einhvers annars hóps sem hinn upplýsti og virki minnihluti og í stað þeirra sem vandinn raunverulega beinist gegn. Til að mynda í umboði leigjenda, verkafólks, eða innflytjenda. Jafnvel þó öðrum sé frjálst að taka þátt í aktívismanum, fjölgar oft ekki í hópnum því aktívistarnir eru fljótir að snúa sér að öðru. Aktívismann skortir oft langtímamarkmið, eða eins og blaðamaðurinn Ta-Nehisi Coates sagði: "andspyrnan er sín eigin verðlaun".  Það er engin þörf fyrir að meta útkomuna því oftar en ekki er aðgerðin sjálf markmiðið. 

 

 

Hvað er félagsuppbygging?

Félagsuppbygging hefur oftar en ekki innanborðs fólk fyrir utan og innan samfélagsvandamálsins sem um ræðir. Utan frá koma róttæklingar og fólk sem hefur reynslu af skipulagningu, og innan frá taka þátt einstaklingar sem hafa sjálfir orðið fyrir barðinu á vandanum sem ætlunin er að ráðast gegn. Félagsuppbygging hefur skýr langtímamarkmið sem ætlað er að ná árangri gegn t.d atvinnurekendum, eigendum hverskonar eða stjórnvöldum. Ferlið verður að vera til staðar sem metur virkni aðgerðanna og hvort þær séu líklegar til að ná fram þeim árangri sem stefnt er að. Þátttakendur meta árangurinn á meðan aðgerðunum vindur fram og breyta svo um stefnu eða taktík ef þurfa þykir.  Dæmi: leigjendasamtök í borg einni, sem standa í útistöðum við eiganda fjölbýlishúss, notuðu upphaflega fjölmiðla til að þrýsta á eigandann með fréttatilkynningum og fréttamannafundum. Eftir nokkra mánuði koma í ljós að aðgerðirnar skila ekki tilætluðum árangri. Á fundi leigjendafélagsins var ákveðið að breyta um aðferð og skipuleggja í staðin mótmæli við atvinnuhúsnæði eigandans. Þetta hafði tvennt í för með sér: eigandinn kærði sig meira um hagsmuni þeirra sem leigðu í atvinnuhúsnæðinu heldur en skoðanir almennings á honum sjálfum; og hins vegar það að öll vinnan við fréttatilkynningarnar var að mestu á herðum utanaðkomandi skipuleggjenda á meðan mótmælin fór fram með þátttöku leigjendanna sjálfra.

 

 

Hvað félagsuppbygging getur gert sem aktívismi getur ekki

 

Félagsuppbygging hefur möguleika á að byggja upp baráttuhreyfingar sem endast og vaxa.  Höldum áfram með dæmið af leigjendasamtökunum: þó samtökin hafi upphaflega verið sett á laggirnar til að berjast gegn tilteknum einstakling þá væri ekkert því til fyrirstöðu að hópurinn aðstoðaði aðra leigjendur með því að leggja til reynslu og fólk til að skipuleggja og aðstoða leigjendur á stærra svæði. Þetta gæti leitt til þess að samtökin hefðu afl til að beina aðgerðum sínum gegn stjórnvöldum  til að ná fram markmiðum sínum fyrir alla leigjendur í borginni. Þegar slík samtök myndast og skjóta rótum verður baráttan ekki háð einstökum skipuleggjendum eða háð því hvort upphaflegu þátttakendurnir séu enn virkir.

 

Aktívismi snýst oft meira um að setja á svið sýningu heldur en að ná fram raunverulegum markmiðum.

 

Bæði félagsuppbygging og aktívismi stóla á þátttöku utanaðkomandi róttæklinga. Aktívistar eru hins vegar ólíklegri til að mynda tengsl við hópinn sem aðgerðirnar þjónar. Vandamál þeirra sem byggja upp félög og samtök er að slík vinna krefst þess að aðstoða og umgangast fólk sem er ekki á sömu pólitísku skoðun og þeir. Ákvarðanataka getur verið erfiðari þegar stærri hópur fólks kemur saman með mismunandi bakgrunn. Það krefst yfirvegunar ólíkt aktívistahópum þar sem allir eru meira eða minna sammála. Félagsuppbygging krefst þess að tengjast fólki og byggja upp traust áður en fólk er tilbúið til þess að taka þátt í aðgerðum sem geta ógnað stöðu þess á vinnumarkaði eða velferðar á einn eða annan hátt. Aktívismi snýst oft meira um að setja á svið sýningu heldur en að ná fram raunverulegum markmiðum.

 

 

Hvers vegna hefur aktívismi verið svona vinsæll

 

Í ljósi þess hversu litlum árangri aktívismi oft skilar má velta fyrir sér hvers vegna sú aðferð hefur notið svo mikilla vinsælda. Kapítalisminn hefur tætt samfélagið niður í öreindir og sannfært okkur um furðulegan kúltúr sjálfs-markaðssetningar. Að hópast saman með fólki sem er sömu skoðunar gefur okkur þá tilfinningu að við séum á réttum stað. Aktívistar notar einnig oftar ofbeldi til að ná fram markmiðum sínum því þeir vilja frekar sjá sig sem róttæklinga en skipuleggjendur. Þrátt fyrir ákveðna róttækni í eðli aktívismans er oft minna í húfi en þegar raunveruleg félagsuppbygging á sér stað. Að mæta á nokkur mótmæli er áhættuminna en að takast á við vinnuveitandann sinn á hátt sem getur endað með atvinnumissi.

 

Önnur hlið á aktívisma er hið tilkomumikla sjónarspil sem slíkar aðgerðir geta oft verið. Líkt og franski heimspekingurinn Guy Debord lýsti er sjónarspilið aðeins ímynd raunveruleikans sem við á endanum upplifum sem sjálfan raunveruleikann. Að mótmæla kröftuglega hinu og þessu getur skapað þau hughrif að þú hafir gert eitthvað raunverulegt  til að taka á við vandamálið. Samfélagsmiðlar  gera þetta jafnvel enn skýrara: allt sem þú þarft að gera til að taka afstöðu gegn kerfisbundnu kynjamisrétti er að taka þátt í múgæsingi gegn einhverjum sem hefur gerst sekur um kvenhatur, til dæmis til þess að fá hann rekinn úr vinnu. Slíkt gerir lítið til að vinna á raunverulega vandamálinu en getur jafnvel aukið völd atvinnurekenda sem geta núna með auðveldari hætti rekið starfsfólk fyrir tjáningu sem ekki telst við hæfi. Að þessu leyti snýst aktívismi oft meira um hugmynd aktívista um hvað sé réttlátt en ekki að ná fram breytingum í samfélaginu í samvinnu við aðra. 


Niðurstaða

Byltingarkennt stjórnmálastarf ætti að setja stefnuna á samfélagsbreytingar. Aktívisma sem aðferð hefur að miklu leyti mistekist slíkt. Ef við ætlum að kollvarpa hinum mannfjandsamlega kapítalisma sem farinn er að ógna lífi á jörðinni, ættum við að snúa okkur að samvinnu og félagsuppbyggingu. Það snýst um að byggja valda- og baráttutæki í kringum efnislega baráttu fólks sem getur stækkað og dafnað með tímanum svo hægt sé að ná fram raunverulegum og áþreifanlegum breytingum til handa fólki. 


Greinin er þýðing á skrifum JS Richard, Organizing versus activism, á vefsvæðinu Organizing.Work og kom út árið 2018. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni