Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Rætur Pírata má rekja til borgaralegra hægristjórnmála í Evrópu

Rætur Pírata má rekja til borgaralegra hægristjórnmála í Evrópu

Ég sá einhvern spyrja að því á Pírataspjallinu hvort Píratar séu miðjuflokkur. Það held ég að sé tæknilega rétt þó Píratar vilji alls ekki skilgreina flokkinn sinn. En Píratar eru líka frjálslyndir, liberalar. Það er orðið sem þeir helst nota til að lýsa sjálfum sér.

Ein af megin hugmyndum Pírata er að þeir geti valið hugmyndir frá bæði vinstri og hægri. Að góðar hugmyndir séu aðeins góðar hugmyndir og það skipti ekki máli hvaðan þær komi. En ef Píratar væru raunverulega sá upplýsti flokkur sem þeir segjast vera myndu þeir auðvitað vera sósíalistar. En því miður eru Píratar týndir innan nýfrjálshyggjunnar og afstjórnmálavæðingar tíunda áratugarins. Stjórnmál sem þykjast vera hafin yfir pólitíska hugmyndafræði eru dæmd til að mistakast. Í það minnsta ef markmiðið er að auka frelsi og efnahagslegt réttlæti í samfélaginu.

Hins vegar eru Píratar alls ekki lausir við hugmyndafræði. Auðvitað ekki. Þeir tala ávalt um sig sem frjálslyndan flokk, það gerir Viðreisn líka og Samfylkingin. Píratar eru þess vegna liberalar og því alveg hægt að staðsetja flokkinn á miðjunni. Örlítið til hægri við miðju jafnvel. Í mörgum löndum eru flokkar liberala hægri flokkar. Enda er liberalismi kapítalísk hugmyndafræði og innifelur þar af leiðandi ekki í sér neina andstöðu við kapítalisma.

Rætur Pírata liggja í Svíþjóð og Þýskalandi þar sem Pírataflokkar komu fyrst fram. Pírataflokkarnir í Evrópu á þeim tíma voru stofnaðir í kringum afmörkuð mál eins og gegnsæi, friðhelgi einkalífsins og umbætur á hugverkalöggjöfinni. Ekki í kringum félagslegt eða efnahagslegt réttlæti eða styrkingu velferðarkerfisins. í Þýskalandi voru Píratar tilbúnir til að vinna með flestum flokkum eins og kristilegum demókrötum (mið-hægri), græningjum og sósíaldemókrötum, en líka hægri flokknum FDP.

Því miður hafa síðustu áratugir markast af nýfrjálshyggju og afstjórnmálavæðingar stjórnmálanna. Eins furðulegt og það megi virðist. Þetta er tímabilið sem færði okkur Thatcher og blairisma með Tony Blair sem formann Breska verkamannaflokksins og hugmyndina um að núverandi kerfi frjálslyndis og kapítalisma sé einskonar endastöð. Að kapítalisminn hafi sigrað og engin þörf sé að pæla neitt meira í því. En svo koma hrunið. Þetta er líka tímabilið þar sem virkni fólks til pólitískrar þátttöku hefur dregist mikið saman og verkalýðsbarátta líka. Verkföllum hefur fækkað gríðarlega á tímabilinu, í Evrópu og Bandaríkjunum, og það er engin tilviljun.

Margir stuðningsmenn Pírata sem eru undir áhrifum af þessu hugmyndum (flestir ómeðvitað) halda því fram að flokkurinn sé agnótískur á stjórnmál, óháður vinstri og hægri stjórnmál. Píratar halda því líka stundum fram að betra sé að bæta við öðrum ás frjálslyndis og stjórnræðis og að sá ás skipti í raun meira máli en vinstri og hægri. Sumir halda því svo fram að flokkurinn sé bæði vinstri og hægriflokkur. Því Píratar handvelji allar góðar hugmyndir hvaðan sem þær komi. Sumir þingmenn flokksins hafa samt opinberlega afneitað sósíalisma. Þannig sagði Helgi Hrafn á Twitter í fyrra að sósíalismi væri ekki svarið "hvorki við kóvid, loftslagsbreytingum né fátækt". Jón Þór sagði nýlega á Facebook að honum fyndist hugmyndir Karl Marx vera "skelfilega einföld sýn" á stjórnmál. Þetta sagði hann um einn merkilegasta heimspeking 19. aldar sem talinn er faðir félagsfræðinnar og hagfræðinnar. Þekktara er þegar Björn Leví neitaði að styðja Eflingu í fyrra þegar starfsfólk á leikskólum Reykjavíkurborgar  fór í verkfall: "Ég styð láglaunafólk en ekki Eflingu". Þá sagði hann aðferðir Eflingar vera áróðursherferð. Vandinn hérna er að Píratar virðast oft ekki hafa mjög mikla þekkingu á þeirri pólitísku hugmyndafræði sem þeim er samt svo illa við að skilgreina sig eftir. Sem hefur leitt til þess að þeir hafna mörgum sósíalískum hugmyndum af ótta við að verða stimplaðir einmitt það: sósíalistar.

Af þessu má ráða að ein megin kenning Pírata sé hlutleysi við pólitíska hugmyndafræði. Að flokkurinn þurfi ekki að taka afstöðu til kapítalismans eða efnhagskerfisins. Fyrir sósíalista hljómar sú hugmynd auðvitað barnalega svo ekki sé fastar að orði kveðið. Afstaða til efnahagskerfisns er ein mikilvægasta spurning stjórnmálanna. Því hún fjallar um hvernig völdunum og verðmætunum af vinnu launafólks er skipt. Við höfum val um núverandi kerfi, sem setur stórkostleg völd í hendur örfárra og leiðir til sífellt meiri samþjöppun auðs, eða kerfi þar sem verðmætunum er skipt með jafnari hætti í byrjun. Ekki aðeins með skattlagningu heldur samvinnu og sameiginlegri eign á framleiðslutækjunum og fyrirtækjunum. Samfélag byggt eftir þörfum fólks en ekki aðein fámennum hóp fyrirtækjaeiganda. Það eru nefnilega aðeins tvö efnahagskerfi í boði, kapítalismi eða sósíalismi og því er meint hlutleysi það sama og að velja hið fyrra, kapítalismann.

Flokkur sem er í senn allt og ekkert er auðvitað ekki líklegur til að ná miklum árangri. Líklegast mætti ætla að flokkurinn yrði fljótur að aðlagast valdinu ef hann kæmist í ríkisstjórn. En Píratar hafa undanfarin ár lagt mikið upp úr því að verða stjórntækir í augum hinna flokkanna á miðjunni. Auk þess gefur þátttaka flokksins í meirihlutanum í borginni ekki miklar vonir að inna hans finnist mikil róttækni. Enda er liberalismi eða frjálslyndi ekki róttæk hugmyndafræði. Frjálslyndi er ekki nóg, við þurfum stjórnmál sem þora að taka á rót vandans sem er kapítalisminn. Stjórnmál sem þora að taka afstöðu til efnahagskerfisins.

Uppft: Upphaflega greinin sagði að Björn Leví hafði neitað að styðja baráttu Eflingarfólks á leikskólum borgarinnar. Hið rétta er að hann studdi ekki Eflingu en sagðist samt styðja láglaunafólk.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu