Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Réttlæti án baráttu, frelsi án átaka

Réttlæti án baráttu, frelsi án átaka

Óbærilegar mótsagnir í málflutningi Viðreisnar sýnir okkur að flokkurinn hefur ekkert lært af hruni nýfrjálshyggjunnar og talar fyrir áframhaldandi niðurskurðarstefnu og stéttasamvinnu sem mun aðeins koma niður á verkafólki, láglaunafólki og fátækum.

Nýtt myndband flokksins sem má sjá á Facebook vaktu athygli mína en þar koma fram helstu klisjur hinnar frjálslyndu miðju í bland við forréttinda pólitík hófsama og velstæðra fólksins sem hefur andstyggð á hverskonar átökum í stjórnmálum. Myndbandið hefst með þessum orðum:

"Hvað gerist þegar við sofnum á verðinum gagnvart lýðræðinu, þegar gjáin á milli okkar verður svo breið að öfgar taka völdin. Þegar við hættum að skilja veruleika hvers annars. Þegar lausnirnar verða átök, hótanir og öfgar. Því við kunnum ekki lengur að tala saman. Þá stefnum við lýðræðinu, frelsinu og jafnréttinu í hætti því heimurinn verður svarthvítur og valkostirnir aðeins tveir öfgakenndir pólar"

Fyrir utan að hafa engar sérstakar hugmyndir um að efla lýðrið þá nefna höfundar myndbandsins auðvitað ekki rót gjárinnar og öfganna sem vissulega eru til staðar í samfélaginu. En á milli hverra er gjáin og hvernig varð hún til? Síðustu áratugi, það sem hefur verið kallaður nýfrjálshyggjutíminn, hefur ójöfnuður vaxið á vesturlöndum samhliða niðurbroti velferðarþjónustu og sífellt vaxandi markaðsvæðingar. Húsnæðiskostnaður fólks hefur stóraukist á vesturlöndum sem hefur leitt til aukinnar fátæktar. Ástands sem hefur leitt til vinnandifátæks fólks. Fólk sem vinnur myrkranna á milli en hefur samt varla efni á því að lifa. Það er einmitt hugmyndafræðin sem Viðreisn fylgir sem má þakka þessar breytingar og fyrirsjáanlega er ekkert um stöðu þessa fólks í auglýsingunni. Því gjáin sem hefur myndast í samfélaginu er á milli hinna ríku og almennings. Það er því miður staðreynd sem Viðreisn hefur lítinn áhuga á að tala um.

Undir lok myndbandsins segir að við ættum öll að mætast á miðjunni. Þetta er í samræmi við vilja flokksins til að fela hugmyndafræðilegar rætur sínar líkt og Miðflokkurinn gerir með nafni sínu. En þessir flokkar eru auðvitað hægriflokkar líkt og Sjálfstæðisflokkurinn. Þegar kemur að hugmyndafræði og efnahagsmálum eru þessir þrír flokkar hinir sömu. Þeir leggja áherslu á aukna markaðsvæðingu og aukið frelsi fyrir fyrirtæki til að ráða sér sjálf án ríkisafskipta. Að draga úr regluverki til að efla hinn svokallað frjálsa markað. Svo ekki sé minnst á sívaxandi einkavæðingu sem þessir flokkar styðja og er annað einkenni nýfrjálshyggjunnar. Það sem greinir Viðreisn og Miðflokkinn í sundur er áhersla Viðreisnar á frjálslyndi eða liberalisma á meðan Miðflokkurinn er íhaldsflokkur. Hugmyndafræðilega eiga þessir flokkar samt margt sameiginlegt, þeir vilja í grundvallaratriðum verja kerfið og jafnvel auka vald fyrirtækjanna innan þess.

Einn tilgangur auglýsingarinnar er að tala fyrir stéttasamvinnu (í stað stéttabaráttu) eins og klassískt er meðal hægriflokka. Um miðbik myndbandsins segir að fólk kunni að standa saman og það sé í eðli okkar. Undir þeim orðum eru svo sýndar myndir af karlalandsliðinu að taka Víkingaklappið. Það er vissulega rétt að samvinna sé manninum eðlislæg en samstaða samstöðunnar vegna treystir hins vegar aðeins óréttlætið og ójöfnuðinn í sessi. Stéttasamvinna er sú hugmynd að allar stéttir séu í sama báti og eigi að leggja niður átök og vinna saman þó svo að ójöfnuður og óréttlæti sé ríkjandi. Að samtal og samræður séu einu tækin sem réttlætanlegt sé að nota. Stéttaátök hverskonar eru svo eins eitur í beinum þessara flokka því þeir snúast auðvitað fyrst og fremst um að verja sérhagsmuni fyrirtækjaeigenda og auðfólks. Stéttabarátta ógnar valdi og hagnaði þess sama fólks.

Staðreyndin er að hugmyndafræði Viðreisnar og hægrisins, nýfjrálshyggjan, hefur gert meira til að sundra samfélaginu en nokkur önnur hugmyndafræði. Ofuráhersla á markaðinn sem lausn við öllum vandamálum og hefur veikt verlferðarkerfið og fært sífellt stærri hluta kökunar í vasa örfárra. Það er einmitt þessi hugmyndafræði sem lagði grunninn að uppgangi Donalds Trump í Bandaríkjunum og Viktor Orbán í Ungverjalandi.

Samkvæmt könnunum nýtur Viðreisn mest fylgi meðal tekjuhæsta hópsins í samfélaginu. Það er í fullu samræmi við áherslur flokksins og hugmyndafræði. Þetta kemur vel fram þegar flokkurinn ræðir opinberlega hugmyndir sínar. Þá eru þar yfirleitt fyrirtækjaeigendur að ræða sín á milli um hag fyrirtækja. Í nýlegum umræðum um krónuna og hvað hún "kosti okkur mikið", sem flokkurinn sendi út á Facebook, var enginn fulltrúi launþega eða venjulegs fólks. Aðeins tveir fyrirtækjaeigendur að ræða saman um hversu óþægilegt sé fyrir þá að notast við krónuna og hvað gjaldeyrishöftin hafi verið mikið vesen.

Nýfrjálshyggjan lifir áfram í Viðreisn. Flokkurinn er ekki fyrir verkafólk eða láglaunafólk heldur aðeins velstæða sem vilja halda núverandi kerfi með smávægilegum breytingum. Flestir gera sér grein fyrir að engar raunverulegar breytingar geta orðið á samfélaginu átt til aukins réttlætis nema með stéttaátökum og baráttu. Ekki vegna þess að þeir sem kalla eftir auknu réttlæti séu svo átaksæknir og reiðir heldur vegna þess að stéttastríð hinna ríku gegn okkur er alltaf í gangi. Allt tal um samvinnu á milli stétta er þess vegna lítið annað en blekking.

Ef það er eitthvað sem við höfum lært síðustu áratugi er að lýðræðið okkar hefur verið tekið úr sambandi og stjórnmálin hunsað vilja almennings í hverju málinu á fætur öðru. Skoðanakannanir sýna að stór meirihluti þjóðarinnar er á móti því að selja Íslandsbanka en fylgjandi því að innleiða nýju stjórnarskrána. Almenningur er fylgjandi opinberu heilbrigðiskerfi og fylgjandi því að fjárveitingar til heilbrigðismála verði stórauknar. Stjórnmálin eru hins vegar á öðru máli og sýna þessum skoðunum okkar lítinn áhuga. Að sama skapi er Viðreisn fylgjandi einkavæðingu bankanna, hefur lítinn sem engan áhuga á nýju stjórnarskránni og talar fyrir aukinni einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins. Það er þetta lýðræði sem Viðreisn vill standa vörð um ef lýðræði á að kalla.

Ágreiningur og hagsmunabarátta á milli mismunandi hópa í samfélaginu verður ekki útkljáð með samræðunni einni. Sú hugmynd lýsir grundvallar vanþekkingu á eðli valds og valdahlutföllum í samfélaginu þar sem auðurinn hefur þjappast á hendur örfárra. Martin Luther King greindi stjórnmál Viðreisnar og samskonar flokka fyrir áratugum síðan þegar hann talaðu um hinn hófsama frjálslynda mann sem biður alltaf um frið fram yfir réttlæti. Að það sé aldrei rétti tíminn fyrir fátækt fólk til að krefjast efnahagslegs og félagslegs réttlætis. Að allar ákvarðanir í samfélaginu verði að gerast með samþykki allra, líka hinna ríku og valdamiklu. Því annars séum við að ýta undir átök og "pólaríseringu" sem leiði óhjákvæmilega til öfga til hægri og vinstri. En það er einmitt auðstéttin sem hefur valdið til að innleiða efnahagslegt réttlæti en gerir það ekki. Þvert á móti eru það hin ríku sem viðhalda ójöfnuði og stéttaskiptingu og gefa jaðarsettu og fátæku fólki ekkert val. Almenningur verður að rísa upp og hrifsa til sín réttlætið með átökum og baráttu. Það er að segja ef réttlætið á að eiga einhvern séns.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu