Halla Hrund hefur fjórfaldað fylgið og nálgast Katrínu

Halla Hrund hefur fjórfaldað fylgið og nálgast Katrínu

Tölu­verð hreyf­ing er á fylgi þeirra fram­bjóð­enda sem vilja verða næsti for­seti Ís­lands. Sá fram­bjóð­andi sem er að bæta við sig fylgi er Halla Hrund Loga­dótt­ir. Aðr­ir sem mæl­ast með tveggja stafa fylgi dala milli kosn­inga­spáa.

Þrír af þeim fjórum forsetaframbjóðendum sem mælast með mest fylgi hafa dalað milli kosningaspáa. Fylgi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, er nú komið niður í 26,6 prósent en hún mældist með 31 prósent fylgi fyrir tveimur vikum. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, er líka á niðurleið en hann mælist nú með 24,6 prósent fylgi eftir að hafa mælst með 27,4 prósent um miðjan þennan mánuð. Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, nýtur nú stuðnings 15,7 prósent kjósenda eftir að hafa verið með um 19 prósent fylgi fyrir tveimur vikum síðan. Þau hafa misst 1,0 til 2,2 prósentustigum á allra síðustu dögum, eða samtals 5,1 prósentustig. 

Það fylgi er allt, og meira til, að fara á Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra. Hún bætir við sig sex prósentustigum frá síðustu kosningaspá, sem var keyrð 23. apríl, og mælist nú með 21,4 prósent fylgi. Það þýðir að Halla Hrund hefur tekið fram úr Jóni Gnarr og situr í þriðja sæti yfir þá frambjóðendur sem mælast með mest fylgi.

Fylgisaukningin er í takti við þá miklu uppsveiflu sem hefur verið í stuðningi við Höllu Hrund síðustu vikur en hún mældist með fimm prósent fylgi 13. apríl síðastliðinn. Fylgið við hana hefur því rúmlega fjórfaldast á tveimur vikum og samhliða hefur munurinn á henni og þeim tveimur frambjóðendum sem leitt hafa kapphlaupið hingað til – Katrín og Baldur – dregist verulega saman. Rétt fyrir miðjan mánuðinn var Katrín til að mynda með 26 prósentustiga forskot á Höllu Hrund en nú er munurinn á þeim tveimur einungis 5,2 prósentustig. 

Fylgið safnast á efstu fjóra

Frestur til að skila inn framboðum til forseta rann út á hádegi í gær. Alls skiluðu 13 frambjóðendur lista yfir 1.500 meðmælendur – þann fjölda sem þarf til að geta verið með gilt framboð í kosningunum sem fara fram 1. júní næstkomandi – og það mun liggja fyrir á mánudag hversu margir þeirra skiluðu gildum meðmælendalistum. 

Fylgið heldur áfram að þróast á þann veg að setjast á þá frambjóðendur sem mælast með mest fylgi. Þannig voru fjórir efstu samtals með 81 prósent fylgi í fyrstu kosningaspánni þann 13. apríl en nú ætla 88,3 prósent kjósenda að velja einhvern úr þeim hópi.

Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team sem var líka í forsetaframboði árið 2016, er sá frambjóðandi sem kemst næst þeim fjórum sem skipa efstu sætin. Hún mælist þó einungis með 4,4 prósent fylgi sem er það lægsta sem hún hefur mælst með í kosningaspánni hingað til. Í fyrstu kosningaspánni var Halla með sjö prósent fylgi og því hefur hún tapað rúmum þriðjungi af stuðningi sínum á síðustu tveimur vikum. Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómari, mælist með 3,1 prósent fylgi og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona með 1,4 prósent. Aðrir frambjóðendur en þessir sjö mælast samanlagt með 2,8 prósent stuðning. 

Katrín sækir fylgi til kjósenda stjórnarflokka

Nýjasta könnunin sem vigtar inn í kosningaspánna er könnun Maskínu sem gerð var 22. til 26. apríl. Í henni mældist Halla Hrund með mest fylgi þótt ekki væri marktækur munur á henni og Katrínu. Þegar rýnt er í bakgrunnsbreytur þeirra sem svöruðu henni kemur í ljós að Katrín sækir fylgi sitt að langmestu leyti til kjósenda stjórnarflokkanna þriggja: Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en Katrín leiddi ríkisstjórn þessara flokka frá því síðla árs 2017 og þangað til að hún tilkynnti framboð til forseta snemma í aprílmánuði. 

Baldur nýtur mest stuðnings hjá kjósendum Sósíalistaflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Halla Hrund er hins vegar með mun jafnari dreifingu á meðal kjósenda stjórnmálaflokka. Það eru helst kjósendur Vinstri grænna, flokks sem er að mælast með fimm prósent fylgi og er í hættu á að detta út af þingi, sem þýðast hana ekki, enda flestir kjósendur þess flokks á þeim buxunum að kjósa fyrrverandi formann sinn, Katrínu Jakobsdóttur.

Þeir fjórir frambjóðendur sem mælast með mest fylgi mættust í fyrsta sinn í Pressu á Heimildinni í gær, föstudag. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

Samkvæmt könnun á meðal lesenda Heimildarinnar eru flestir þeirra á þeirri skoðun að Halla Hrund hafi staðið sig best í þessum fyrstu kappræðum fjórmenninganna og næst flestir telja að Katrín hafi borið af. Mun færri telja að Baldur og Jón Gnarr hafi staðið sig best.

Hvað er kosningspáin?

Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.

Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar reglu­lega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdrag­anda kosn­inga.

Þær kann­anir sem teknar eru gildar í kosn­inga­spánni verða að upp­fylla lág­marksskil­yrði töl­fræði­legrar aðferða­fræði. Þar er litið til stærðar úrtaks­ins, fjölda svar­enda, könn­un­ar­tíma­bils og þess hvort úrtakið stand­ist kröfur til að reyn­ast mark­tækt, svo fátt eitt sé nefnt.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásgeir Överby skrifaði
    Katrín þarf fyrst og fremst að ná til þeirra óákveðnu í VG. Það gerir hún ekki með að ráða sjálfstæðismenn í teymi sitt. Hrós frá Hannesi Hólmsteini bætir ekki stöðuna.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2024

Steinunn Ólína segist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna persónulegrar óvildar
Fréttir

Stein­unn Ólína seg­ist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna per­sónu­legr­ar óvild­ar

Stein­unn Ólína Þor­steins­dótt­ir sagð­ist í Pressu fara fram fyr­ir hönd þeirra sem upp­lifa valda­leysi gagn­vart stjórn­völd­um. Taldi hún for­seta­kosn­ing­arn­ar vera af­ar póli­tísk­ar að þessu sinni. Þrátt fyr­ir gagn­rýni sína á rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, ít­rek­aði Stein­unn að fram­boð henn­ar væri ekki vegna per­sónu­legra óvild­ar henn­ar í garð Katrínu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu