Mest lesið

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
1

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
2

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti
3

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu
4

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Íslenskt réttlæti 2020
5

Jón Trausti Reynisson

Íslenskt réttlæti 2020

Vinna tíu tíma á dag án þess að fá matarhlé
6

Vinna tíu tíma á dag án þess að fá matarhlé

Stundin #112
Febrúar 2020
#112 - Febrúar 2020
Prentútgáfa Stundarinnar kemur næst út þann 6. mars.
Þessi grein er meira en ársgömul.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir

Berskjölduð í örvæntingunni

Ungur hælisleitandi birtist fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofu Stundarinnar og biður um umfjöllun. Fjölmiðlar eru í augum margra hælisleitenda þriðja áfrýjunarvaldið í málum þeirra, enda hefur það margoft sýnt sig að algjör berskjöldun getur borgað sig.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir

Ungur hælisleitandi birtist fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofu Stundarinnar og biður um umfjöllun. Fjölmiðlar eru í augum margra hælisleitenda þriðja áfrýjunarvaldið í málum þeirra, enda hefur það margoft sýnt sig að algjör berskjöldun getur borgað sig.

Berskjölduð í örvæntingunni
Mustafi Yusuf Hassan heldur því fram að læknar hafi ráðist á hann í þeim tilgangi að stela líffærum.   Mynd: Heiða Helgadóttir

Tveir ungir karlmenn birtast fyrirvaralaust á skrifstofunni og biðja um að fá að tala við blaðamann. Þeir eru snyrtilegir til fara, annar í gallaskyrtu og kakíbuxum, hinn í prjónaðri peysu, með nýtískuleg speglasólgleraugu og DC derhúfu. Þeir líta út fyrir að vera um tvítugt. Á meðan þeir bíða halda þeir sig að mestu til hlés, bíða rólegir og segja lítið. Ég kemst fljótt að því að þessi með sólgleraugun talar hvorki íslensku né ensku, en vinur hans hefur komið með honum til þess að túlka. Ég býð þeim sæti inni í fundarherbergi og lofa þeim að ég muni hlusta á sögu þeirra, en tek skýrt fram að ég geti ekki lofað umfjöllun. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hælisleitendur í örvæntingu birtast fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofunni í von um að fjölmiðlaumfjöllun muni breyta gangi mála þeirra. Það hefur enda sýnt sig að stundum virkar það. Fólk hefur berskjaldað sig algjörlega fyrir þjóðinni, þó svo að fæstir kjósi að fara þá leið, og fengið ríkisborgararétt að launum. En málin eru ekki öll fréttnæm, fæst þeirra einstök og í flestum tilvikum eru útlendingayfirvöld einfaldlega að fylgja þeirri línu sem stjórnvöld hafa dregið, um að öll Dyflinnarmál skuli afgreidd sem slík og að þeim sem komi frá svokölluðum öruggum ríkjum skuli tafarlaust vísað úr landi. Fréttamiðlar gætu hæglega fyllt allar síður sínar af sögum sem þessum og flestir íslenskir fréttamenn hljóta að kannast við þá stingandi tilfinningu að þurfa að vísa fólki í neyð frá, því sagan þeirra hefur lítið fréttagildi. Hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir, greina almenningi frá nýjum upplýsingum, og það er því miður ekkert nýtt við það að íslensk stjórnvöld vísi vonstola fólki úr landi. 

Heldur að læknar hafi stolið líffærum

Eftir að hafa komið sér fyrir í fundarherberginu greinir maðurinn með sólgleraugun mér frá því að hann heiti Mustafi Yusuf Hassan og sé flóttamaður frá Sómalíu. Hann segir mér að Útlendingastofnun ætli að senda hann aftur til Þýskalands, en þangað geti hann alls ekki farið vegna hræðilegrar lífsreynslu þar í landi. Ahh, Dyflinnarmál, hugsa ég með mér. Ég spyr hvaða hræðilega lífsreynsla geri það að verkum að hann geti ekki farið aftur til Þýskalands og hann svarar í stuttu máli á sómölsku. Ég lít á vin hans, sem kýs að standa á meðan á samtalinu stendur, og býð eftir þýðingunni: „Hann segir að hann geti ekki farið aftur til Þýskalands því þar var líffærunum hans stolið.“ Ég lít orðlaus aftur á Mustafi sem tekur nú í fyrsta skipti af sér sólgleraugun og derhúfuna, og við blasa sjáanlegir áverkar á augum og eyrum. Hann lyftir einnig upp höfðinu og sýnir mér ljótt ör á hálsinum, dregur upp peysuna og bendir á mjótt ör á kviðnum og annað mun þykkara á upphandleggnum. 

Mustafi heldur því fram, og trúir því jafnvel sjálfur, að þýskir læknar hafi valdið þessum áverkum í þeim tilgangi að ræna líffærum. Hann segir að flóttamaður frá Erítreu hafi bankað upp á hjá honum þar sem hann bjó í Þýskalandi, ráðist á hann og skorið hann á háls. Mustafi hafi í kjölfarið verið fluttur á sjúkrahús þar sem honum hafi meira og minna verið haldið sofandi. Á meðan hann svaf hafi læknarnir skorið í augun á honum, í handleggina og kviðinn. 

„Sjáðu hvernig ég lít út,“ segir hann og strýkur yfir afskræmd augnlokin. „Þau gerðu þetta. Áður en ég fór á spítalann voru augun í mér fullkomin. Ég gat séð allt.“ 

Gögnin segja aðra sögu

Samkvæmt sjúkragögnum sem Útlendingastofnun aflaði frá Þýskalandi dvaldi Mustafi vissulega á sjúkrahúsi í Würzburg frá 8. október 2016 til 10. janúar 2017 þar sem hann gekkst undir aðgerðir á augum og hlaut eftirmeðferð vegna augnskaða í kjölfar árásar. Voru meðal annars notaðar tilfærslur á húð af upphandleggjum til að endurgera augnlok, sem hlýtur að þýða að augnlokin hafi skaddast svo mikið í árásinni að það hafi þurft að endurgera þau. Mustafi réttir fram símann sinn og sýnir mér mynd af sér þar sem hann er með fyrirferðarmiklar umbúðir yfir augunum, en hann vill meina að þetta hafi verið leið læknanna til að halda honum blindum og ósjálfbjarga á meðan þeir héldu honum nauðugum á sjúkrahúsinu. Mustafi var einnig skoðaður af heilbrigðisstarfsfólki á Íslandi og er það mat hjúkrunarfræðings að ör vegna meints líffærastuldar sé eftir grunnan skurð og sé „líklega eftir einhverskonar sjálfshýðingar“ og ekkert bendi til þess að á honum hafi verið gerðar aðgerðir þar sem fjarlægð voru úr honum líffæri. 

Í gögnum frá sjúkrahúsinu í Würzburg segir einnig að á meðan á sjúkrahúsdvölinni stóð hafi Mustafi auk þess notið meðferðar hjá geðlækni sem, samkvæmt gögnunum, skilaði „góðum árangri“. Engu að virðist Mustafi trúa því sjálfur að honum hafi verið rænt í Þýskalandi og þar stolið úr honum líffærum. Daginn eftir að Mustafi sótti um vernd á Íslandi hitti hann sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í Mjóddinni, en við sama tilefni kannaði hjúkrunarfræðingur áverkana á líkama hans. Mustafi sagðist í viðtalinu sofa illa og að hann væri kvíðinn eftir árásina sem hann segist hafa orðið fyrir. Sálfræðingurinn sagðist bíða með frekari greiningu og boðaði hann aftur í viðtal í febrúar á þessu ári, eða tveimur mánuðum síðar. En vegna ósamræmis í frásögn Mustafi var það mat Útlendingastofnunar að ekki hafi verið ástæða til að bíða eftir frekari gögnum frá sálfræðingi áður en tekin yrði ákvörðun um framtíð hans. Mat Útlendingastofnunar er að Mustafi sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fær hann því ekki alþjóðlega vernd á Íslandi. 

Allar málsástæður útilokaðar

Frásögn Mustafi af því sem gerðist í Þýskalandi stangast augljóslega á við þau gögn sem Útlendingastofnun aflaði vegna málsins. Er það því mat Útlendingastofnunar að hann sé almennt ekki trúverðugur hvað varðar lýsingar á heilsufari sínu. Engu að síður er augljóst að hann hefur í það minnsta orðið fyrir alvarlegri líkamsárás í Þýskalandi og líklegt að hann beri einhvern andlegan skaða af henni. Útlendingastofnun taldi hins vegar ekki nauðsynlegt að afla frekari gagna um andlega heilsu hans.

Á einum tímapunkti, í miðri frásögn, stoppar Mustafi og segir: „Afsakaðu, en ég þarf að fá vatn.“ Ég dauðskammast mín fyrir að hafa ekki boðið þeim neitt að drekka og hleyp og sæki tvö vatnsglös. Mustafi situr þögull og starir sviplaus ofan í kjöltuna á sér þegar ég sný aftur í fundarherbergið. Hann tekur við glasinu og þambar helminginn af vatninu áður en hann tekur aftur til máls. „Ég get ekki farið aftur til Þýskalands.“

Talsmaður Mustafi krafðist þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem hann væri án nokkurs vafa einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í fyrsta lagi vegna líkamlegrar og andlegrar vanheilsu, í öðru lagi þar sem margt bendi til þess að hann hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða pyndingum og í þriðja lagi vegna ungs aldurs, en samkvæmt gögnum málsins fæddist hann í lok árs 1997. 

Útlendingastofnun útilokar allar þrjár ástæðurnar. Varðandi slæmt heilsufar þá er frásögn Mustafi ekki metin trúverðug, og því ekki nauðsynlegt að fá greiningu frá sálfræðingi, þó svo að hann hafi augljóslega orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og óttist að eigin sögn um líf sitt. Í dag fær hann enga markvissa aðstoð til að vinna andlega úr áfallinu sem hann varð fyrir í Þýskalandi. Varðandi ofbeldið, þá segir Útlendingastofnun að ekkert bendi til þess að um kerfisbundið ofbeldi eða pyntingar hafi verið að ræða. Og varðandi ungan aldur segir að þegar Mustafi sótti um vernd á Möltu árið 2012 hafi hann verið með skráðan fæðingardag í janúar 1996 og því megi leiða líkur að því að hann sé ekki jafn ungur að árum og hann segist vera. Hann sé þannig mögulega orðinn 22 ára en ekki rúmlega tvítugur. Útlendingastofnun hafnar því umsókn hans um alþjóðlega vernd, en hann hyggst kæra niðurstöðuna til kærunefndar útlendingamála.

Ný reglugerð kemur í veg fyrir mannúð

Hörð afstaða Útlendingastofnunar kemur líklega fæstum á óvart. Í málum, þar sem við fyrstu sýn virðist borðleggjandi að viðkomandi verði veitt vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða, er gripið til þröngra lagatúlkana til þess að koma fólki úr landi. Ég get nefnt mál Abrahim Maleki, einstæðs farlama föðurs og dóttur hans, Hanyie, sem Útlendingastofnun mátu ekki í viðkvæmri stöðu. Einnig má nefna mál Joy Lucky, þolanda mansals, og fjölskyldu hennar sem átti að vísa aftur til Nígeríu. Í þessum tveimur tilvikum gripu stjórnvöld í taumana með umdeildri, tímabundinni lagasetningu eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á málunum. Við vitum hins vegar að á sama tíma voru á landinu aðrar barnafjölskyldur í jafn viðkvæmri stöðu, en lagabreytingin náði ekki utan um mál þeirra, enda treystu þær sér ekki í fjölmiðlaviðtöl.

Það er ósanngjarnt að fjölmiðlar virki eins og þriðja áfrýjunarvaldið í málum hælisleitenda. Það er ósanngjarnt að þú þurfir að berskjalda þig gjörsamlega til þess að tekið sé á málinu af mannúð, og gefa þannig færi á að þú verðir kallaður hryðjuverkamaður í öðrum fjölmiðlum eða ýjað að því að þú hljótir að vera giftur barnungri dóttur þinni. Fæstir treysta sér því til þess að fara þessa leið. 

RaunveruleikinnEftir að Stundin sýndi frá brottflutningi fjölskyldunnar, var henni veittur íslenskur ríkisborgararéttur.

Fjölmiðlar endurspegla raunveruleikann, en stundum er eins og það sé einfaldlega þægilegra að loka augunum fyrir þessum veruleika. Eftir að Stundin sýndi frá brottflutningi albanskrar barnafjölskyldu, og sýndi hvernig sú aðgerð fer fram í skjóli nætur, leyndu viðbrögð almennings sér ekki. Mynd af fimm ára hjartveiku barni í dyragættinni um miðja nótt var notuð til þess að þrýsta á stjórnvöld til að beita sér í málinu og fjölskyldan fékk að snúa aftur, með íslenskan ríkisborgararétt í vasanum. En hvað hefur breyst? Við erum enn að vísa barnafjölskyldum úr landi í skjóli nætur. Stjórnvöld eru reyndar búin að koma í veg fyrir að fjölmiðlar geti fylgst með brottflutningi. Fólk fær ekki lengur fyrirvara á brottflutningi sínum, heldur er það fyrirvaralaust handtekið og fært í fangaklefa þar til því er vísað úr landi. Stundum er þægilegra að loka augunum. 

Örvænting þessa hóps er algjör. Margir hafa í þessu ástandi gripið til örþrifaráða, jafnvel skaðað sjálfa sig, farið í hungurverkfall eða gert tilraun til sjálfsvígs. Nokkrum hefur tekist að taka eigið líf, kveikt í sér eða stokkið ofan í Gullfoss, á meðan þeir biðu eftir neikvæðri niðurstöðu útlendingayfirvalda. Nú er hins vegar búið að tryggja að stjórnvöld munu aldrei framar bregðast við örvæntingarfullu neyðarkalli útlendinga með mannúð. Fyrr í mánuðinum gaf Sigríður Andersen dómsmálaráðherra út reglugerð um að framvegis sé óheimilt með öllu að líta til athafna einstaklinga, eða afleiðinga þeirra athafna, sem hafa þann tilgang að setja þrýsting á stjórnvöld við ákvarðanatöku. Í reglugerðinni er nefnt sem dæmi athafnir sem eru „til þess fallnar að grafa undan eigin heilsufari, og afleiðingum þeirra athafna, svo sem hungurverkfalli“. Nú er sem sagt alveg sama hversu andlega veikur þú ert, alveg sama hvort þú stundir sjálfskaðandi hegðun eða sveltir þig í hel, stjórnvöld munu láta eins og þau sjái þig ekki og heyri þig ekki öskra á hjálp. 

Einnig er búið að herða verulega skilyrði þess að umsóknir verði teknar til efnismeðferðar vegna heilsufarsástæðna. Slæmt heilsufar hefur núna „takmarkað vægi“ nema um sé að ræða „mikil og alvarleg veikindi, svo sem skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm“ og meðferð við honum þarf að vera aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. 

Þessar nýlegu breytingar gera það að verkum að nær ómögulegt er að fá vernd hér á landi af mannúðarástæðum vegna viðkvæmrar stöðu þinnar. 

Verði þér vísað úr landi máttu síðan ekki snúa aftur til Íslands fyrr en þú hefur greitt fyrir brottflutninginn úr landi, líkt og nígeríski faðirinn sem hefur ekki séð börnin sín, sem fengu dvalarleyfi á Íslandi, í rúmlega níu mánuði. 

Upplifir sig hvergi öruggan

Líkt og flestir hælisleitendur sem koma hingað til lands á Mustafi að baki áralangt flakk á milli landa. Hann segist hafa flúið ofsóknir hryðjuverkahópsins Al-Shabaab í Sómalíu árið 2010, einungis 13 ára gamall. Frá Sómalíu hafi honum að lokum tekist að komast til Líbýu þaðan sem hann fór með báti til Möltu. Samkvæmt gögnum er ljóst að hann sótti um vernd á Möltu í maí 2012, tveimur árum eftir að hann lagði á flótta að eigin sögn, og var veitt tímabundin vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Umsóknin var ekki endurnýjuð og rann sú vernd úr gildi í janúar 2015. Mustafi segist hafa farið frá Möltu til Ítalíu og þaðan að lokum til Þýskalands. Samkvæmt gögnum málsins fékk hann viðbótarvernd í Þýskalandi í janúar 2015 og segist hann fyrst og fremst hafa dvalið á heimili fyrir fylgdarlaus ungmenni. Hann vill meina að hugsanlega séu tengsl á milli þeirra er sóttust eftir líffærunum úr honum og þeirra sem ráku unglingaheimilið sem hann dvaldi á í Þýskalandi fram að 18 ára aldri. Áður en hann kom til Íslands ferðaðist hann til Sviss í mars 2017 og til Svíþjóðar í júní 2017 þar sem hann sótti einnig um alþjóðlega vernd, þar til hann sótti um vernd á Íslandi þann 19. desember síðastliðinn.  

Saga Mustafi er saga manns sem hefur verið á flótta frá því hann var 13 eða 14 ára gamall. Ljóst er að líf hans fram að þeim aldri var ekki heldur auðvelt þar sem stríðsástand og stjórnleysi hefur ríkt í Sómalíu frá árinu 1991. Frá táningsárum hefur hann flakkað einsamall um ókunnug lönd í Evrópu, en aldrei stoppað nógu lengi á neinum stað til þess að festa rætur. Íslendingar geta ómögulega sett sig í spor tvítugs manns sem hefur aldrei á ævi sinni upplifað sig öruggan, sem á sér hvergi samastað í heiminum og á erfitt með að gera sig skiljanlegan, hvar sem hann kemur. Spurður hvort hann finni fyrir öryggi á Íslandi segir hann nei, ekki hundrað prósent. Hann óttist að þeir sem réðust á hann í Þýskalandi geti enn fundið hann og klárað ætlunarverk sitt. 

„Ég er enn að leita að öruggu skjóli. Þau sem gerðu mér þetta,“ segir hann og bendir á andlit sitt, „eru enn að leita að mér og vita alltaf hvar ég er, jafnvel hér á Íslandi.“

Ég kveð mennina tvo með þeim orðum að það eina sem ég geti gert er að skrifa niður söguna. Annað sé ekki í mínu valdi. Þeir virðast vonsviknir, en um leið þakklátir. Síðan taka þeir bakpokana sína upp af gólfinu og ég rétti Mustafi aftur gögnin í máli hans, sem ég hef þegar afritað. Þeir eru báðir hæglátir og afsakandi í fasi, láta lítið fyrir sér fara, nánast eins og þeir séu með líkamstjáningu sinni að biðjast afsökunar á tilveru sinni. Túlkurinn brosir þegar hann tekur í höndina á mér og þakkar fyrir áheyrnina. Mustafi brosir ekki, en þakkar mér kærlega, á sómölsku, fyrir að hlusta. Hann setur aftur upp sólgleraugun og derhúfuna og gengur út í óvissuna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
1

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
2

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti
3

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu
4

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Íslenskt réttlæti 2020
5

Jón Trausti Reynisson

Íslenskt réttlæti 2020

Vinna tíu tíma á dag án þess að fá matarhlé
6

Vinna tíu tíma á dag án þess að fá matarhlé

Mest lesið í vikunni

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
1

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Yfirlýsing: Vegsömun nauðgunarmenningar á RÚV
2

Ritstjórn

Yfirlýsing: Vegsömun nauðgunarmenningar á RÚV

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle
3

Árni Pétur Arnarsson

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
4

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
5

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Fasteignir félags Sturlu boðnar upp eftir fjárnám
6

Fasteignir félags Sturlu boðnar upp eftir fjárnám

Mest lesið í vikunni

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
1

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Yfirlýsing: Vegsömun nauðgunarmenningar á RÚV
2

Ritstjórn

Yfirlýsing: Vegsömun nauðgunarmenningar á RÚV

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle
3

Árni Pétur Arnarsson

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
4

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
5

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Fasteignir félags Sturlu boðnar upp eftir fjárnám
6

Fasteignir félags Sturlu boðnar upp eftir fjárnám

Mest lesið í mánuðinum

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
1

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
2

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi
3

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra
4

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista
5

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista

„Svo er ég ekkert geðveikur!“
6

„Svo er ég ekkert geðveikur!“

Mest lesið í mánuðinum

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
1

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
2

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi
3

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra
4

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista
5

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista

„Svo er ég ekkert geðveikur!“
6

„Svo er ég ekkert geðveikur!“

Nýtt á Stundinni

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Baltasar febrúar: Everest

Baltasar febrúar: Everest

Hundar eru æði

Hundar eru æði

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“

Bjóðum Assange vist hér

Illugi Jökulsson

Bjóðum Assange vist hér

Launin gera fólk háð maka sínum

Launin gera fólk háð maka sínum

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Asnalegt

Krass

Asnalegt

Bernie á toppnum

Bernie á toppnum

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Ófaglærðir leikskólastarfsmenn með lægst laun af öllum stéttum

Ófaglærðir leikskólastarfsmenn með lægst laun af öllum stéttum

„Nú verður réttlætið sótt“

„Nú verður réttlætið sótt“