Pistill

Fengitíminn er hafinn

Haraldur Ingi Haraldsson skoðar hvernig loforð stjórnmálafólks breytast eftir kosningar. „Reynslan segir okkur að það sé lítið að marka þau loforð sem fylla okkur bjartsýni fyrir kosningar.“

Fengitími stjórnmálastéttarinnar og kjósenda er hafinn.

Ég finn að kosningahormónin eru farin að grassera og ef ekkert verður að gert komast þau á stjórnlaust flug og dísæt vonin og heitar væntingarnar gera mig rænulausan af kosningafrygð og rétt bráðum verð ég sannfærður um að Nýja- Ísland sé innan seilingar.

Nú leggur merlandi loforðaþokuna upp úr mýrinni. Hún umlykur allt og verurnar sem dansa um í þokunni eru bæði þokkafullar og tælandi. Baul mýrarskrímslanna er hætt að heyrast, í stað þeirra ómar fögur tónlist sem fyllir brjóstið eins og hámessa kirkjuskip.  

Í náttúrunni er fengitíminn í föstum skorðum og fer eftir árstíðunum þar sem markmiðið er að skapa fullkomnar aðstæður til að ala upp næstu kynslóð tegundarinnar. 

Ekkert slíkt er uppi á teningnum í íslenskum mannheimum. Þar hefur óreiða tekið öll völd af skipulagi og jafnvel er vafasamt að stjórnmálstéttin beri hag tegundarinnar sérstaklega fyrir brjósti.

Það er við þessar aðstæður sem ég verð að muna að taka lyfin mín. Það er guðsþakkarvert að til eru lyf sem ekki bara svínvirka heldur hafa engar aukaverkanir.  Líkast til væri réttara að tala í eintölu en þetta öfluga lyf er reynslan.

Það er nú einmitt það. Reynslan. 

Eigum við að rifja upp nokkur dæmi frá liðnum fengitímum? Bara þrjú til að spara plássið:

1. Skjaldborgin um heimilin varð að skjaldborginni um bankana. 

2. Bréf Bjarna Ben. til aldraðra og öryrkja þar sem þeim var nánast boðin sæluvist í sjöunda himni og varð að aukatekjuskerðingu niður í 25 þúsund krónur og stórlækkuðum barna- og vaxtabótum. 

3. Loforð um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þrátt fyrir að nær allir Íslendingar vilji stóreflt opinbert heilbrigðiskerfi og séu á móti einkavæðingu hverju nafni sem hún nefnist þá hugði „Ærulausastjórnin“ á stórfellda einkavæðingu, undir ýmsum nöfnum, í heilbrigðisgeiranum áður en hún féll saman.

Við kjósendur verðum að láta stjórnmálamenn standa frammi fyrir reynslunni eins og hún kemur okkur fyrir sjónir. Ekki eins og almannatenglar hafa aftengt hana og súrrað saman aftur eða hvernig stjórnmálamennirnir spinna oft óþekkjanlegan vef úr raunveruleikanum. 

„Núna þessar vikurnar virðumst við kjósendur hafa öll völd í hendi okkar en eftir kjördag erum við valdalaus.“

Reynslan segir okkur að það sé lítið að marka þau loforð sem fylla okkur bjartsýni fyrir kosningar. Fæst eða nokkur þeirra koma til framkvæmda eftir kosningar jafnvel þó að flokkarnir sem mynduðu stjórnina hafi sett fram sömu umbótamál í kosningabaráttunni.

Þær upplýsingar sem gerðu alvöru gagn væru upplýsingar um það hvað flokkarnir ætla að gera EFTIR kosningar. Með hverjum vilja þeir starfa og hvaða mál eru það sem þeir telja raunverulega möguleika á að koma í framkvæmd og hvernig komast þau í framkvæmd. Rukkum stjórnmálamennina um þessar upplýsingar.

Það er nefnilega þannig að núna þessar vikurnar virðumst við kjósendur hafa öll völd í hendi okkar en eftir kjördag erum við valdalaus.

Og munum að reynslan segir okkur að sérhver stjórn með Sjálfstæðisflokknum hefst á orðunum.

„Við göngum óbundin til kosninga.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

„Deginum ljósara að utanríkisráðherra er ekki treystandi til að sinna þessu máli“

Fréttir

Lokað á allar greiðslur til þroskaskertrar konu: „Þetta er margfalt mannréttindabrot“

Pistill

„Svolítið erfið“ af því þau fylgja samviskunni

Mest lesið í vikunni

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Fréttir

Hjónin bæði í fangelsi fyrir ofbeldi gegn börnunum

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

Forsætisráðherra mætti á samkomu hjá stuðningskonu Assad-stjórnarinnar

Pistill

Efling Eflingar