Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Katalónía: Fleinn í síðu Evrópu

Katalónía — hvað merkir orðið í hugum Íslendinga? Kannski er það eins og hvert annað framandi nýyrði, á skjön við hugmyndina sem Íslendingar hafa gert sér um Spán sem eina heild. Staðreyndin er sú að Spánn hefur aldrei verið til sem menningarleg heild. Gott ef hún hefur ekki verið matreidd og framreidd og selst eins og heitar lummur en hún er samt lygi: Á Spáni búa að lágmarki fjórar þjóðir og hafa lengi gert. Spánn var áður samansafn smákonungsdæma, Don Kíkóti, nautaat, sangría og flamenco eru ekki nema brotabrot af menningunni sem þar fyrirfinnst.

Leiðinda þjóðernishyggja, gæti verið það næsta sem Íslendingum dettur í hug við að heyra orðið Katalónía. Að sjálfsögðu hafa margir áhyggjur af uppgangi þjóðernishyggju á Vesturlöndum. En eigi að síður er það svolítið kyndug hugmynd að afgreiða málið í kringum sjálfstæðisbaráttu Katalóna sem katalónska þjóðernishyggju: Ef þjóðernishyggjan hefur sýnt sitt versta andlit er það einmitt með spænskri þjóðernishyggju. Miðstjórninni í Madríd, sem álítur sig ráða yfir öllu. Og ástundar mannréttindabrot, lögregluofbeldi og pólitískar fangelsanir í Katalóníu.

Katalónsk þjóðernishyggja er meinlaus og rómantísk. Það hefur enginn maður dáið fyrir málstað Katalóníu og enginn verið drepinn. Einn maður var reyndar drepinn fyrir hugmyndina um valensíönsku sem tungumál og má kannski segja þá sögu hér: Prófessor nokkur í mállýskufræðum hafði fyrir sið að byrja árlegan kúrs sinn um mállýskur á að útskýra fyrir nemendum sínum að valensíanska væri ekki tungumál heldur mállýska. Þetta gerði hann gagngert til að fara í taugarnar á nemendum sínum sem börðust margir hverjir fyrir viðurkenningu héraðstungunnar í Valensíu sem tungumáls. Eitt árið hentu nemendurnir knallettum á veg hans þegar hann gekk burt frá kennslu, hann fékk hjartaáfall og dó. Hættulegri er nú katalónsk þjóðernishyggja ekki.

Á hinn bóginn var katalónski þjóðernissinninn Lluís Companys tekinn af lífi af stjórn Franco eftir að nasistar höfðu framselt hann árið 1940.

Katalónsk þjóðernishyggja reyndist svo meinlaus og rómantísk að á daginn kom að Katalónar stóðu í þeirri trú að Evrópusambandið myndi bara bjóða Katalóníu velkomna í sambandið þegar héraðið lýsti yfir sjálfstæði. Ekkert var gert til að fræða héraðsbúa um að þetta væri nú flóknara en svo, að allsendis óvíst væri hvort Evrópusambandið vildi nokkuð með þá hafa. Enginn stjórnmálamaður í Katalóníu reyndi að afla sér bandamanna á alþjóðavettvangi. Menn héldu bara að „sjálfstæði“ væri töfraorð sem gerði allt gott.

Fyrir nú utan að þjóðernishyggja Katalóna er svolítið tímavillt, hefði betur átt heima á nítjándu öld. Fallega tímavillt, kannski?

En jú, með þessu eru hvimleiðir fylgifiskar, eins og þjóðernishyggju smáþjóða yfirleitt, svo sem eins og tilhneiging Katalóna til andúðar á Andalúsíumönnum, sem er ekki óalgengt að heyra að séu afætur og letihaugar. En ekkert ofbeldi. Ef Rajoy forsætisráðherra hefði verið ögn taktískari í hugsun hefði hann leyft Katalónum að kjósa um sjálfstæði sitt, það hefði að öllum líkindum verið fellt og málið hefði verið úr sögunni.

En þess í stað heldur ástandið áfram að versna. Fjárhagslegar afleiðingar sjálfstæðisbaráttu Katalóníu eru umtalsverðar og raunveruleg mannréttindabrot, raunverulegar pólitískar fangelsanir, liggja óbætt hjá garði. Þetta er eins og Brexit á sterum.

Evrópusambandið hefur ekki fordæmt mannréttindabrot í Katalóníu. Á undanförnum misserum hafa birst greinar í Fréttablaðinu þar sem ýmsir forkólfar í katalónskum stjórnmálum leitast við að útskýra málstað sinn fyrir Íslendingum. Viðtal og hvaðeina

Af hverju? Hvað vilja Katalónar upp á dekk á Íslandi? Ég veit það ekki. Sennilega álíta þeir sem svo, sökum ákveðinna vonbrigða með Evrópusambandið, að Íslendingar — sem eru í EES — séu einhver besti sjensinn til að koma málstaðnum á framfæri.

Fyrirfram hefði maður haldið að ekki væri erfitt að koma á framfæri málstað sem andæfir mannréttindabrotum. Þó er nokkuð til í vonbrigðum Katalóna með Evrópusambandið. Kannski voru Katalónar bernskir en eigi að síður hefði mátt ætla að annað eins batterí myndi standa föstum fótum gegn pólitískum fangelsunum í Evrópu. Svo er ekki. Sumir af helstu stuðningsmönnum Evrópusambandsins, svo sem austuríski rithöfundurinn og stjórnmálarýnandinn Robert Menasse, hafa látið í sér heyra og hvatt Evrópusambandið til að fordæma ósvinnu spænskra stjórnvalda. Satt að segja kynntist sá sem hér ritar Menasse ágætlega hér um árið og hann (ég á við mig, fjandinn hafi það!) er ekki alveg frá því að einfalt og einlægt samtal við Menasse hafi leitt til þessa.

Svona eru nú Íslendingar sjarmerandi — af því að þeir eru svo litlir og frjálsir og miklir fábjánar og trúa á álfa.

Á Íslandi er til stjórnmálaflokkur sem lætur sig málið varða: Píratar. Sá flokkur hefur flutt þingsályktunartillögu á Alþingi Íslendinga um að íslensk stjórnvöld fordæmi viðbrögð spænskra stjórnvalda við atkvæðagreiðslu um sjáfstæði Katalóníu. Engum (sem minnstu hugmynd hefur um hvernig íslensk stjórnmál virka) dylst hvernig fer um þá tillögu: Stjórnarandstöðutillögur eru ekki samþykktar.

Á hinn bóginn er þess að geta að fleiri hafa lagt í púkk: Samkvæmt fjölmiðlinum La Vanguardia er utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, eini utanríkisráðherrann í Evrópu sem hefur fordæmt aðgerðir spænskra stjórnvalda opinberlega þar á landi og hvergi dregið af sér. Þetta hefur ekki komið fram í íslenskum fjölmiðlum en er staðreynd. Hver veit nema mótbyr vegna máls Hauks Hilmarssonar hafi orðið Guðlaugi Þór hvatning til þess arna, enda er staðreyndin líka sú að Guðlaugur Þór hefur haft sig víða í frammi vegna mannréttindamála að undanförnu. Meðlimir VG hafa lýst svipuðum sjónarmiðum um Katalóníu.

Sennilega eru allir flokkar hundrað prósent sammála um þetta.

Hvers er þá beðið? Hví kemur ekki fordæmingin bara strax? Hafa Íslendingar úr háum söðli að detta hvað varðar smáþjóðarembing? Varla. Herlaus krúttþjóð sem þar að auki stendur utan Evrópusambandsins kemst upp með meiri kjaft á alþjóðlegum vettvangi en aðrir. Með „kjaft“ á ég við að segja sanneikann.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu