Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Í fréttum er þetta helst

Ef ég mætti ráða væri íslenskur fréttaflutningur með talsvert öðrum hætti en hann er. Í fyrsta lagi væri hann alþjóðlegri, í öðru lagi áhugasamari um líf og náttúru. Og menningu. Og heiminn. Fyrirsagnirnar væru eitthvað á borð við: „Skáld ratar á myndlíkingu sem breytir skynjun okkar á heiminum“. „Hitt kynið eftir Simone de Beauvoir 70 ára“. „Afrísk stjórnmál: Greining“. „Eðlisfræðin tekur stórstígum framförum“. „Nýtt íslenskt skáldverk kemur út“. „Tveimur manneskjum tekst að eiga í málefnalegum samræðum“. „Laupur á Oddfellow-húsinu.

Stórfrétt: Það er laupur utan á Oddfellow-húsinu. Í alvöru, ég segi það satt. (Orðskýring fyrir börn og orðaforðalitla: Laupur er hreiður hrafns). Ég stóð fyrir utan Oddfellow-húsið fyrir fáum dögm og góndi á laupinn með sonum mínum tveimur. Maður nokkur átti leið framhjá, gekk í áttina að Austurvelli og horfði undarlega á okkur. Hann leit upp, sá það sem við sáum, en horfði samt aftur undarlega á okkur.

Ég sem gerði mér sérstaklega ferð þangað niðreftir. Hef furðað mig á því mjög lengi að fólk, að minnsta kosti fólk í Reykjavík, sér ekki hrafna. Það er eins og hrafnar séu skynvillur. Myndvillur. Eins og þeir séu flyksa af ósýnilegu myrkri, fljúgandi svarthol. Furðu margir sjá þá ekki.

Þetta er stórfrétt. Fólk ætti að flykkjast niður að Oddfellow-húsi til að virða þessi undur og stórmerki fyrir sér. 

Ekki að ég myndi breyta öllum fyrirsögnum. Fólk sér börn. Börn rötuðu í fyrirsagnir nýlega. Við það kom saman fjöldi fólks á Austurvelli til að mótmæla brottvísun afganskra barna. Austurvöllur er til þess að gera nýtt tæki til að hafa áhrif á stjórn landsins. Stundum virkar það. Ráðherra breytti reglugerð. Afgönsku fjölskyldurnar fá umsóknir sínar teknar til efnislegrar meðferðar. Ef ég skil þetta rétt. Hvað kemur út úr þeirri efnislegu meðferð er svo annað.

***

Laupurinn utan á Oddfellow-húsinu er fallegur. Hann er úr grófum greinum, hangir á blábrúninni ofarlega á húsinu, hrafninn er á vappi á syllunni við hlið laupsins, neðan við aðra syllu — staðurinn er vel valinn — og goggarnir á ungunum gægjast upp úr laupnum og skrækja. Við skræktum á móti og skeggræddum við þá. Ekki varð maðurinn sem gekk framhjá minna hneykslaður við það. Örugglega Íslendingur, hugsaði ég. Túristar hafa áhuga á öllu sem viðkemur íslenskri náttúru. Íslendingar, aftur á móti, sjá ekki hrafninn, þeir eru ekki stjörnuglópar og horfa ekki til himins, þeir hafa fæstir lesið Jónas frá Hrafnagili og kunna ekki að lesa í hegðun hrafnsins. Þar að auki kunna Íslendingar ekki samræðulist. Það er betra að eiga samtal við krummana. Það er betra að krunka.

***

Næsta fyrirsögn væri um svarthol. Þarna úti, lengst úti í geimnum, eru risavaxnir hrafnar sem heita svarthol. Þau eru ekki tilfallandi furðufyrirbæri eins og áður var haldið heldur hefur komið í ljós á síðustu árum að það eru til risasvarthol og ofursvarthol. Það hefur komið í ljós að þessi fyrirbæri, sem enginn sér, ekki frekar en Íslendingar sjá hrafna, eru sennilega grundvallarþáttur í allri gerð alheimsins. Í miðju hverrar vetrarbrautar — eða flestra þeirra — er svarthol. Svarthol gleypa önnur svarthol og það verða til risasvarthol. Það eru jafnvel til ljómandi kvasar með ofurrisa-svartholi í kjarna sínum, með massa sem er billjón sinnum stærri en sólin sem éta látlaust upp svarthol, stjörnur, stjörnuþokur, allt sem á vegi þeirra verður þar sem þeir æða burt á ógnarhraða, svo miklum að ljósið frá þeim verður ókennilegt, enda beygla svarthol tímarúmið og ljósið.

Það hefur (sem sé) komið í ljós á allra síðustu árum að þetta sem áður var talið vera villur í alheiminum er hugsanlega megindrifkraftur hans. 

Það er líka svarthol í vetrarbrautinni okkar miðri, enda þótt ekki sé langt síðan komist var að þeirri niðurstöðu, enda er svartholið ósýnilegt. Raunar virðist leikmanni augljóst að vetrarbrautin sjálf sé ekki annað en svelgur sem sogast inn í þetta svarthol á endanum. Vísindamenn segja þó að svarthol, sem er ekkert annað en óendanlegt aðdráttarafl sem þjappar öllum massa saman í óútreiknanlega lítinn punkt með annars konar og hægari tíma, geti orðið stöðug og hætt að soga allt að sér. Kannski skipta þeir um skoðun á næsta ári. Við lifum gullöld eðlisfræðiuppgötvana.

***

Það eru svarthol úti um allt, ofurlítil — alla vega minnir mig að ég hafi fengið lesið það í skruddu og fengið staðfest af eðlisfræðingi. Það gæti sem best verið eitt slíkt frammi á baði, örlítill hnútur í tímarúminu sem myndast og leysist upp á örskotsstundu án þess að hafa nein áhrif á veruleikann. Litlir hnútar. Vafalaust kemur á daginn innan tíðar að það eru svarthol í bæði allri hugsun okkar og umræðu. Vafalaust eru hrafnar líka fljúgandi smásvarthol. Það er ekki einleikið hversu fáir sjá þá og veita þeim athygli. Annars væri krökkt af fólki að góna, eins og ég, á laupinn utan á Oddfellow-húsinu. 

***

Þegar fjölmiðlafárið yfir laupnum væri gengið yfir kæmu fjölmiðlarnir í mínum ímyndaða heimi með nýja stórfrétt: „Nýtt íslenskt orð verður til“. Í fréttinni væri greint frá því að orðið hefði myndast vegna mismælis hjá ágætum manni og að enn sé leitað að merkingu fyrir orðið: „Myndvillur“. Í fréttinni væri greint frá því að einhverjir vildu meina að myndvillur væri nýyrði yfir svarthol, betra en „svarthol“ og meira lýsandi, samþjappað þyngdarafl utan um ekki neitt og sem engu ljósi sleppir út. Aðrir, segði fréttin, teldu líklegra að „myndvillur“ merkti villur í mennskri hugsun sem gerðu að verkum að fólk hugsaði í myndum. Í fréttinni væri greint frá aðstæðum þess þegar orðið var til: Manni nokkrum varð fótaskortur á tungunni þegar hann ætlaði að tala um „vindmyllur“. Barátta þessa manns, segði í fréttinni, væri annað hvort barátta við vindmyllur eða myndvillur — og vænleg eða óvænleg til árangurs eftir því. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni