Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Sósíalistar einir trúa á félagshyggjuna og hafna sjálfsmyndarstjórnmálum

Sósíalistar einir trúa á félagshyggjuna og hafna sjálfsmyndarstjórnmálum

Þessi átök vegna orða Ágústar Ólafs, þingmanns Samfylkingarinnar, í útvarpinu um daginn eru lýsandi fyrir þann vanda sem margir stjórnmálaflokkar eru í, sérstaklega Samfylkingin og Vinstri grænum, sem hafa mikið til hafnað stéttastjórnmálum í skiptum fyrir sjálfsmyndarstjórnmál (identity politics) og þar af leiðandi færast þessir flokkar lengra og lengra til hægri og inn á miðjuna með hverju árinu. Þú finnur varla neinn innan þessara flokka sem kalla sig and-kapítalista og þannig hefur það raunar verið frá stofnun. Samt er þarna fólk sem stundum kallar sig sósíalista og talar fallega um Olof Palme, sem var kannski með síðustu sósíal-demókrötum sem trúði á hugsjónir sósíalista um að skapa heim án kapítalisma. Í dag snúast stjórmál ekki lengur um stéttasamstöðu verkakvenna og karla. Samstöðu gegn auðstéttinni, stéttinni sem heldur okkur og samfélaginu niðri, heldur loga átök á milli pólitískra samherja. Konur gegn körlum eins og við sjáum núna. Menntafólk gegn verkafólki. Í hægriflokkunum eru átökin á milli innfæddra og innflytjenda, flóttafólks og jafnvel gegn hinsegin fólki. Valdastéttinni til mikillar gleði.

Margir aðrir hafa bent á að Sjálfstæðisflokkurinn ráði því sem hann vill  sérstaklega þegar kemur að ríkissjóði og fjármálum ríkisins. Bjarni Ben ver svelti- og niðurskurðarstefnu nýfrjálshyggjunnar með kjafti og klóm og Vinstri græn láta hann komast upp með það. Enginn flokkur græðir á því að vera í samstarfið við auðvaldsflokkinn eins og vitað var.

Ágúst Ólafur sagði í viðtalinu umtalaða: „Við Willum þekkjum alveg hver stjórn­ar. Og það er ekki Katrín“. En er það virkilega svo? Margir femínistar sjá ekkert nema óútþynnta kvenfyrirlitningu í þessu orðum. Er það þá ekki einmitt Katrín Jakobsdóttir sem ber fulla ábyrgð á því að láta fátækt fólk enn og aftur bíða eftir réttlætinu, eins og hún sjálf var vön að segja hérna áður en hún ákvað að gerast sérstakur umsjónarmaður niðurskurðarstefnunnar? Ef hún ber ábyrgð og stjórnar, sem ég efast ekki um að hún geri, hvers vegna er þá ekki króna handa öryrkjum í nýju fjárlagafrumvarpi? Hérna verður ekki bæði haldið og sleppt. Vinstri græn geta ekki þóst ráða engu innan ríkisstjórnarinnar einn daginn og þann næsta sakað fólk um kvenhatur þegar bent er á að flokkurinn virðist ráða litlu ef einhverju í samstarfinu svokallaða.

Og þá komum við aftur að þessu með hugmyndafræðina. Hvað eru þessir flokkar, Vinstri græn og Samfylkingin, annað en liberalískir eða sósíal-demókratískir flokkar sem hafa skilið félagshyggjuna eftir? Flokkar sem eru hættir að trúa á að hægt sé að skapa betra og sanngjarnar samfélag án kapítalismans eins og Olof Palme trúði. Einföld Goggle leit leiðir t.d í ljós að orðið "kapítalismi" kemur aðeins örsjaldan fyrir á vef Samfylkingarinnar. Í eitt skiptið er þar grein ungs manns sem segist styðja kapítalisma. Hin skiptin er kapítalismi nefndur í framhjáhlaupum. Hvergi kemur fram að Samfylkingin sé á móti kapítalisma. Í stefnu Vinstri grænna kemur kapítalismi fyrir í eitt skipti. Þar er líka talað um lýðræðislegt efnahagskerfi. En eins og við sjáum virðist stefna flokksins ekki skipta neinu máli í raun. Þess vegna eigum við ekki að láta Samfylkinguna og Vinstri græn komast upp með að skreyta sig með hugtökum og orðum félagshyggjunnar þegar ekkert sem þessir flokkar gera bendir til þess að þar séu hugsjónir sósíalista í fyrirrúmi. Nútíma jafnaðarstefna er ekki sósíalismi heldur er liberalismi, sósíal-demókratismi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu