Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Póstþjónusta er fyrst og fremst samfélagsleg þjónusta

Póstþjónusta er fyrst og fremst samfélagsleg þjónusta

Póstþjónusta er fyrst og fremst samfélagsleg þjónusta og ætti alls ekki að reka eins og eitthvað samkeppnisfyrirtæki. Í fréttum dagsins segir að nýr forstjóri Póstsins ætli að láta af störfum eftir aðeins um ár í starfi. Birgir Jónsson lýsir sigri hrósandi yfir í tilkynningu að Pósturinn sé núna arðbærasta póstfyrirtæki Norðurlanda. En slíkt þýðir aðeins að búið sé að skerða þjónustuna enn frekar og segja upp fólki. Birgir sagði upp meira en 150 manns á einu ári. Stór hluti af þeim var verkafólk og láglaunafólk. Frá árinu 2006 hefur störfum innan Póstsins fækkað um rúmlega fjórðung þegar fjöldi starfa var 1.056 en eru aðeins 721 í dag. 

Pósturinn gæti veitt stórkostlega þjónustu innanlands til þess að auka samkeppnishæfni landsins og fyrirtækja og skapa eftirspurn og mikið af góðum störfum um allt land. Póstþjónusta er ekki þjónusta sem einkaaðilar geta tekið yfir því það mun aldrei skila hagnaði að senda póst út í sveitir landsins. Þess vegna munu allar hugmyndir um að einkavæða póstinn treysta á stórkostlega niðurgreiðslu af hendi ríkisins.

Það er einmitt núna sem við ættum að vera að auka þjónustuna og skapa störf en ekki skera niður. Með öflugri póstþjónustu getum við tryggt mörg góð störf um allt land. Störf sem hverfa ekki þegar kreppur kapítalismans ríða yfir. Hugmyndafræðilega eru þessar aðgerðir Póstsins núna þveröfugar við það sem við þurfum vegna veirunnar. Þær eru hins vegar í fullkomnu samræmi við nýfrjálshyggjuna og markmið hægrisins um að einkavæða sífellt stærri hluta samfélagsins. Það hefur verið draumur hægrisinnar að einkavæða Póstinn eftir að Póst og Síma var skipt upp árið 1998. Ef þeim aðgerðum sem Birgir nefnir er 30% fækkun stjórnenda þó líklega góð ákvörðun. Þetta sýnir okkur þó líka að þó svo að Pósturinn hafi verið færður yfir í opinbert hlutafélag höfðu Sjálfstæðismennirnir sem stýrðu fyrirtækinu ekki fyrir því að fækka yfirmannsstöðum.

Sósíalistar ættu að skoða vel Póstinn og nýta öll tækifærin sem felast í starfseminni. Tryggja þarf pósthús í öllum bæjarfélögum í kringum landið og svo ætti að útvíkka þjónustuna og samnýta aðstöðuna svo hægt sé að veita almenna bankaþjónustu á pósthúsum. Pósturinn gæti líka gert magnaða hluti með því að niðurgreiða heimsendingar enn frekar og útvíkka þá þjónustu. Ef öll fyrirtæki hafa aðgang að ódýrri heimsendingu myndi það skila sér í auknum umsvifum og störfum. Sérstaklega núna á tímum faraldursins. Hugsið ykkur hvað netverslun myndi aukast mikið ef fyrirtæki gætu fyrir mjög lágt gjald, eða jafnvel frítt, sent vörur heim að dyrum samdægurs eða jafnvel innan tveggja klukkustunda líkt og Amazon gerir í Bandaríkjunum. Af þessu gætu líka orðið jákvæðar umhverfisvænar afleiðingar með því að samnýta ferðir í útkeyrslu og nota umhverfisvæna orkugjafa. Með þessu væri hægt að draga úr umferð jafnvel.

Ef við viljum taka þessa sósíalísku nálgun lengra mætti jafnvel hugsa sér að hvert pósthús væri almannarými þar sem fólk gæti komið saman og haldið fundi eða jafnvel skemmtanir. Möguleikarnir eru margir. Það er ótrúlega magnað hvað hægt er að gera þegar maður losar sig við takmarkanir kapítalismans og markaðarins. 

Það liggja gríðarleg tækifæri í því að reka samfélagið á grunni félagslegra lausna. Félagshyggjan, sósíalisminn, gerir okkur kleift að nýta aflið sem er að finna hjá ríkinu til að leysa okkar stærstu vandamál saman. Hægristefna snýst hins vegar um að koma í veg fyrir allar félagslegar framfarir ef hagnaðurinn af þeim endar ekki beint í vasanum hjá fámennri klíku atvinnurekenda. Vinsæl mýta hjá hægrinu er að þú getir ekki skattað þig úr kreppu. Það er alveg rétt, en þú þarf ekki skatta til að fjármagna innviðauppbyggingu. 

í kreppunni miklu hófu stjórnvöld í Bandaríkjunum gríðarmikla uppbyggingu opinberra bygginga og listaverka til að takast á við afleiðingarnar og skapa störf fyrir milljónir manna. Listamenn voru fengnir til að skreyta þessar byggingar, á fjórða áratug og voru stór vegglistaverk reist í borgum og bæjum um öll Bandaríkin. Sérstök stofnun, Public Works of Art Project, skipulagði gerð  þúsunda listaverka. Mörg þessara verk voru gerð til að skreyta pósthús vítt og breitt um landið. Látum ekki takmarkanir auðhyggjunnar ræna okkur framtíð byggðri á félagshyggju og samvinnu. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni