Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Þú ræður engu í vinnunni ef út í það er farið

Þú ræður engu í vinnunni ef út í það er farið

Það getur oft verið upplýsandi að lesa viðskiptadálkana í blöðunum. Þar eru hlutirnir oft sagðir með hreinskilnari hætti en annars staðar. Á Vísir.is er grein, unnin upp úr Harvard Business Review, sem ber yfirskriftina "Að segja yfirmanninum að þú sért honum ósammala". Í greininni er farið yfir nokkur ráð handa fólki og hvernig það eigi að haga sér í slíkum aðstæðum en líka hvort fólk eigi yfir höfuð að segja yfirmanni sínum frá. Það getur jú leitt til ófyrirséðra afleiðinga eins og atvinnumissis. Birting svona greinar—þar sem fólk er varað við því að tjá skoðanir sínar—og þar sem undirgefni er sett fram sem eðlilegar og góðar ráðleggingar sem allir ættu að hafa í huga, sýnir hverskonar kúgunarkerfi við búum við í nútímanum.

Greinin hefst á eftirfarandi orðum:

"Það er ekkert endilega á færi allra að segja yfirmanninum sínum að þeir séu honum ósammála. Að minnsta kosti veigra sér margir við það og eins þarf fólk líka að velta því fyrir sér hvenær það er rétt að láta sína skoðun í ljós og hvenær ekki. Því auðvitað er það yfirmaðurinn sem ræður ef út í það er farið."

Ef út í það er farið, þá ræður þú auðvitað engu í vinnunni. En er það eðlilegt eða réttlátt? Hvers vegna er ekkert lýðræði í vinnunni? Hvers vegna sættum við okkur við kerfi þar sem lífsviðurværi okkar er háð duttlungum örfárra yfirmanna, stjórnenda og eigenda? Kerfi þar sem við höfum enga rödd. Eða eins og segir í greininni verða viðbrögð yfirmannsins "líklega" ekkert slæm, líklega en við vitum þó aldrei. Minnstu mistök og ósætti geta auðveldlega leitt til brottrekstrar og launafólk hefur enga aðkomu að ákvörðunum þeim sem yfirmenn og stjórnendur fyrirtækja taka. 

Það að tjá sig í vinnunni getur auðveldlega leitt til atvinnumissis, að þú missir af stöðuhækkun eða öðrum tækifærum ef yfirmanninum hættir að líka vel við þig. Það er nefnilega skert málfrelsi í vinnunni vegna þessa augljósa valdamisvægis. Flest fólk hefur ekki efni á því að missa vinnuna og þarf þess vegna að sitja á skoðunum sínum. Tjáning skoðana gæti leitt til fátæktar eða skuldafangelsis ef þú finnur ekki annað starf skjótt og örugglega.

Svona er kapítalisminn magnað kerfi ef þú heldur þér bara saman og gerir það sem þér er sagt. Frábært ef þú þjónar yfirmanni þínum vel. Eigandinn getur svo hvenær sem er refsað þér eða rekið þig ef þú hlýðir ekki í einu og öllu. En mundu svo bara að brosa. Sérstaklega ef þú ert kona. Það er ekki síst vegna valdleysis og ótta við að tjá sig sem margt fólk finnur fyrir kulnun í starfi.

Það er ekkert eðlilegt við það að atvinnurekendur og kapítalistar geti sett fólk í þessar aðstæður. Samband atvinnurekenda, yfirmanna og launafólks er kúgunarsamband sem er ekki svo mjög frábrugðið þrældómi. Launavinna er ekki ávísun á raunverulegt frelsi vegna þess að verkafólk þarf að velja á milli þess að vinna fyrir yfirboðara eða heldur að svelta. Sérstaklega i samfélögum þar sem velferðarkerfið er lítið og lélegt. Undir slíkum kringumstæðum er varla hægt að tala um að launafólk kjósi frjálst að vinna fyrir launum og þess vegna geti launavinna ekki talist þrælkun. Það er hins vegar nákvæmlega þetta samband á milli atvinnurekenda og launafólks sem gerir atvinnurekendum kleyft að arðræna launafólk og hirða hagnaðinn af vinnu þess. Án arðráns væri enginn hagnaður fyrir atvinnurekendur, engin óhófleg auðsöfnun, engir milljarðamæringar, og engir milljarðar til að flytja í skattafylgsni.

Rithöfundurinn og baráttumaðurinn Frederick Douglass, sem flýði úr þrældómi 1838, skrifaði þegar hann hóf sitt fyrsta launaða starf að hann væri nú loksins sinn eigin herra, aðeins til að skrifa seinna að: "Reynslan sýnir að áhrifin af launaþrælkun eru lítið minna niðurlægjandi og myljandi en áhrifin af þrældómi, og launaþrælkun þarf líka að stöðva eins og hið síðarnefnda."

Örfáir eru svo heppnir að hafa efni á því að missa vinnuna, hafa efni á því að segja upp ef þeim líkar ekki kúgunin. Fáir hafa raunverulega efni á því að nýta málfrelsi í vinnunni. Langflestir hafa hins vegar ekkert val. Sérstaklega þegar atvinnuleysisbætur eru við sultarmörk, atvinnuleysi er viðvarandi, velferðarkerfið hefur verið markvisst brotið niður og kostnaður fólks við að draga fram lífið hækkar sífellt. Svo er það hitt að kúgun kapítalismans nær langt út fyrir vinnustaðinn eins og við þekkjum vel á Íslandi. Flest fólk veigrar sér við því að tjá sig opinberlega um stjórnmál eða önnur samfélagsmál af ótta við að missa af atvinnutækifærum eða verkefnum. Eða jafnvel af ótta við að vera sagt upp ef þú ert ekki í réttaliðinu. Í stærri samfélögum hafur fólk í það minnsta möguleika á því að færa sig um set og byrja upp á nýtt á nýjum stað. Í fámenninu á Íslandi er slíkt oftast ekki í boði. 

Kapítalismi snýst nefnilega ekki síst um drottnun eins hóps yfir öðrum. Kapítalisminn snýst ekki bara um peninga (þó þeir spili stórt hlutverk) og arðrán heldur snýst hann líka um að viðhalda stigveldinu í samfélaginu svo að fámenn karla- og valdaklíka geta drottnað yfir okkur. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni