Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Málfrelsi

Maður sannfærir aldrei neinn um neitt.

Og þó, hvernig læt ég. Alls konar fólk sannfærir alls konar annað fólk um alls konar hluti. Sumar af þessum sannfæringum eru sannanlega rangar, eins og að jörðin sé flöt. Fólk notar alls konar aðferðir við að sannfæra annað fólk. Sumar af þeim eru gagnrýniverðar, aðrar jafnvel ámælisverðar. Til þess að geta sannfært annað fólk nýtir fólk sér málfrelsi sitt.

Ég veit að ég er að segja sjálfsagða hluti. Það þarf að segja þá líka. Málfrelsi virkar kannski eins og sjálfsagt mál en er það ekki og hefur aldrei verið það. Því eru skorður settar hvað má segja í lögum hvers lands. Þær skorður eru eðlilegar. Ærumeiðingar eru ekki leyfðar, barnaníð er ekki leyft. Og ekki bara það, alls konar fólki eru settar ákveðnar skorður um hvað sé siðlegt að það segi af faglegum ástæðum vegna starfa sem það gegnir, til dæmis í stjórnkerfinu.

Samt er þetta grundvöllurinn sem við stöndum á, málfrelsi. 

***

Og fólk fer illa með málfrelsi sitt, unnvörpum. Það spúir út úr sér hatri á kommentakerfum, það eys svívirðingum yfir annað fólk, það bullar, hæðir, smánar, brigslar náunganum um svívirðu, dylgjar og lætur hlutina hanga í lausu lofti, níðir, svertir, ruglar, það situr sótölvað við lyklaborð og eys út úr sér óhróðri svo mann setur hljóðan yfir því hvað hvað fólk getur verið snælduvitlaust. 

Svo eru þeir sem eru „umræðubrimbrjótar“. Fólk er annað hvort með þeim eða á móti, málefnalegheitin geta verið í algjöru lágmarki og samspil umræðubrimbrjóta við fjölmiðla á einhvern hátt óhreint, fjölmiðlar nota þá og hafa við þá óorðaðan samning um að vinna fréttir sínar upp úr orðum þeirra. Því þau selja. Hugmyndin er ekki aðeins „hvert orð er atvik“, eins og skáldið sagði, heldur sú að hvert ívitnað orð sé ekki aðeins atvik heldur birti það innsta kjarna manneskjunnar, jafnan skítlegan. Manneskjan er þá ekki nýjasta niðurstaða þeirrar gígantísku atviksorðaskrár sem hver sál í raun og veru er, heldur er hægt að kjarna hvern sem er með einni setningu, úr öllu samhengi. 

Yfir brimbrjótana gengur því, orðanna hljóðan samkvæmt, brim. Slíkt fólk reynir, eðli máls samkvæmt, á þanþol tjáningarfrelsisins. Það fær jafnvel yfir sig dóma. 

Ég hef ekki alveg alltaf farið vel með málfrelsi mitt. Ég hef sagt hluti sem betur hefðu verið látnir ósagðir, ég hef farið fram úr sjálfum mér í hita leiksins, vafalaust hef ég gengið nærri landslögum á köflum og brotið þau. Það er óhjákvæmilegt. Og ekkert nýtt. 

Einu sinni skrifaði ég grein í Fréttablaðið um samtökin Blátt áfram þar sem ég gagnrýndi hugmyndafræði þeirra á þeim forsendum að hún væri  skiljanleg en ofstækisfull. Fátt er erfiðara en að gagnrýna samtök með svo góðan málstað og viðkvæman. Samt getur verið þörf á því. Talsmenn samtakanna brugðust ekki vel við þessu. Þeir dylgjuðu. Ekki kjaftur kom mér til varnar á netinu nema Hildur Lilliendahl. Ætli nokkur annar hafi þorað. 

Ekki að ég skuldi neinum neitt. Mann á að gruna sjálfan sig látlaust um tvískinnung. Missi maður grunsemdina er maður glataður. Maður á eigi að síður að áskilja sér rétt til að gagnrýna hvað sem er og ekki láta glepjast af þeirri gömlu meinloku vinstrisins að ekki megi „gagnast óvininum“ með því að gagnrýna samherja.

***

En þegar stofnaður er málfrelsissjóður fagna ég ákaflega. Reyndar hafði ég ekki hugmynd um að slíkur sjóður hefði fyrst verið stofnaður árið 1977.

Málfrelsissjóður merkir ekki að maður lýsi yfir allsherjar stuðningi við neitt annað en málfrelsið þótt maður greiði í hann. Þeir sem í athugasemdakerfum fara með látlausa níð ættu að vera fyrstir til að greiða í slíkan sjóð því þeirra er áhættan. 

Það er til fólk sem í fúlustu alvöru vill að Hildur verði rekin úr vinnu hjá Reykjavíkurborg fyrir að nota tjáningarfrelsi sitt. Það er alvarlegt að slík hugmynd gangi um. Hver sem er getur lesið slíkar athugasemdir í tenglinum fremst í þessum texta. Að fólk sé rekið úr vinnu fyrir að tjá sig? Og að Dagur borgarstjóri sé ábyrgur fyrir tjáningu þess? Hvað kemur það honum við? Ekki aðeins skilja þeir sem þannig tala ekki eðli fagmennsku og fjarlægðar í samskiptum stjórnmálamanna og almenns starfsfólks heldur hafa þeir ekki minnstu hugmynd um hvað málfrelsi merkir. Þeir eru því í raun beinlínis andvígir því.

Ég er fylgjandi því. Ég vona að málfrelsissjóður stækki og dafni og verði settur í stærra og formlegra samhengi, yfir hann sett stjórn og  hann rekinn til langframa. Það er nóg af vísbendingum um að málfrelsið sé í hættu í samtímanum.

***

Ég er að reyna að segja eitthvað mikilvægt en það hljómar banalt. Málfrelsi er bara ekki alveg einfalt fyrirbæri. 

Ef mér tekst að sannfæra þó ekki væri nema eina manneskju um málfrelsið er tilganginum náð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni