Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Siðferðileg eigingirni og flóttamenn

Í umræðunni um flóttamannavandann í Mið-Austurlöndum og síaukinn fjölda þeirra sem leita hælis í Evrópu hafa nokkrar forsendur verið ráðandi í umræðunni sem sjaldan eða aldrei er efast um—og ef ég væri verr innrættur myndi ég kannski tala um pólitískan réttrúnað í því sambandi.

Þær eru meðal annars:

  1. Flóttamenn eru efnahagsleg byrði á samfélaginu sem þeir koma til.
  2. Flóttamenn taka störf frá innfæddum.

Staðreyndin er hins vegar sú að hvorugt af þessu er satt. Ég ætla ekki að setja á langt mál um það hvers vegna þetta allt saman er ósatt heldur nefna nokkra hluti. Ég hvet hins vegar þá sem eru á öðru máli að reyna að rökstyðja þessar fullyrðingar—helst með einhverju öðru en frásögnum af einstökum tilvikum og myndböndum af YouTube.

Sláandi dæmi um hversu ósatt (1) er, er Líbanon. Líbanon hefur tekið á móti fleiri flóttamönnum en nokkuð annað land, hvort sem mælt er í  fjölda flóttamanna eða miðað við höfðatölu. Skv. opinberum tölum hafa 1,1 milljón flóttamanna hafa komið til landsins  en það er um fjórðungur af íbúum landsins og jafngilti það að 127 milljónir manna hafi komið til Evrópu.

Nú er ég ekki að halda því fram að það sé auðvelt að taka á móti svona mörgum flóttamönnum og að allt sé í lukkunnar velstandi í Líbanon vegna þessa. Það er hins vegar ljóst að flóttamennirnir hafa ekki haft neikvæð áhrif á hagkerfi landsins. Hagvöxtur í landinu var meiri, skv. skýrslu Alþjóðabankans, árið 2015 en síðasta hálfa áratug á undan—og það þrátt fyrir að borgarastríðið í Sýrlandi hafi haft ýmis önnur neikvæð áhrif á hagkerfi landsins. Önnur skýrsla sömu stofnunar heldur því fram að fyrir hvert prósentustig sem flóttamönnum fjölgi í landinu, aukist útflutningur um 1,5%. 

Þekktasta dæmið um áhrif flóttamanna á hagkerfið sem þeir koma til er þó líklega þegar 125 þúsund kúbverskir flóttamenn komu til Miami á 10. áratugnum (og tengist þetta bæði (1) og (2)). Samkvæmt rannsóknum hafði koma þessara flóttamanna engin áhrif á innbyrðis stöðu innfæddra á vinnumarkaði en hafði þau áhrif að skattstofnar jukust. Með öðrum orðum, laun lækkuðu ekki, en skattbyrði minnkaði.

Annað dæmi um hversu ósatt (2) er, er koma flóttamanna til Tyrklands.  Þar hefur atvinnuleysi ekki aukist en laun tyrkneskra verkamanna aftur á móti hækkað að meðaltali. Þetta ætti ekki að koma á óvart, því fleira fólk veldur meiri eftirspurn, sem aftur skapar fleiri störf, eins og hagfræðin kennir. Það er ekki svo að fjöldi starfa sé fasti, sem atvinnuleitendur keppa um.

Þetta er þó ekki nema inngangur. Samkvæmt nýlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins verður þörf á miklu vinnuafli á Íslandi á næstu árum og þurfum við á að minnsta kosti 2.000 erlendum starfsmönnum að halda til að standa undir þessum vexti. 

Ég held því fram að það sé siðferðileg skylda okkar Íslendinga að taka á móti eins mörgum flóttamönnum og okkur er unnt—og nefndi ég töluna 5 þúsund sem dæmi, en hún var fengin með hliðsjónar af því hversu mörgum Þjóðverjar höfðu þá þegar tekið á móti. 

Nú þegar við vitum að flóttamenn hafa ekki neikvæð áhrif á hagkerfi þeirra landa sem þeir koma til og að við þurfum að minnsta kosti 2.000 nýja Íslendinga til að hjálpa okkur við þau störf sem þarf að vinna, er þá ekki borðleggjandi að við aukum fjölda þeirra flóttamanna sem við ætlum að taka á móti að minnsta kosti upp í þá tölu?

Ef við hjálpum einhverjum af eigingjörnum hvötum, þá erum við þó að minnsta kosti að hjálpa honum. Þess vegna segi ég að, ef við viljum ekki sinna siðferðilegri skyldu okkar, eins og við ættum að gera, ættum við þó ekki að minnsta kosti reyna að komast hjá því að tapa á því að gera ekkert? 
 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu