Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Lærum af ástandinu í öðrum löndum og tökum umræðuna

Lærum af ástandinu í öðrum löndum og tökum umræðuna

Þær fullyrðingar heyrast mjög gjarnan í umræðum um innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk að „það megi ekki ræða þessi mál“ og að um þau ríki þöggun. Það verður að teljast örlítið mótsagnakennt, því þau eru—eins og alþjóð veit—nánast á hvers manns vörum og fátt sem hefur verið meira í umræðunni undanfarin ár.

Það eru ýmsar aðrar fullyrðingar sem ganga ljósum logum í umræðunni sem mig langar aðeins að skoða betur—aðallega vegna þess að ég veit ekki um að neinn hafi, að minnsta kosti í umræðunni á Íslandi, virkilega skoðað bestu gögn og heimildir fyrir þeim. Þessar fullyrðingar snúast gjarnan um hversu hræðilegt ástandið sé orðið—eða að verða—vegna innflytjenda í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndum. Þeim fylgir svo yfirleitt hvatning um að við eigum að láta okkur þau lönd verða okkur víti til varnaðar og að við eigum að læra af þeim. 

Það er auðvitað allt gott og blessað með það—en hvað getum við lært? Mig langar að skoða eina fullyrðingu sem maður heyrir gjarnan, að glæpum hafi stórfjölgað í Evrópu, vegna innflytjenda, og þá aftur, sérstaklega á Norðurlöndum, svo að þar er beinlínis orðið hættulegt fyrir innfædda að vera á ferli. Þetta hafa margir fyrir satt og raunar mætti ganga svo langt að kalla það „rétttrúnað“ í sumum kreðsum.

Tölurnar sem ég ætla að skoða eru opinberar tölur yfir glæpi í öllum löndum Evrópusambandsins (ESB) auk Evrópska efnahagssvæðsins (EES). Þær má finna á vefsíðu Eurostat.

Á þessari mynd sjáum við heildarfjölda allra glæpa sem tilkynntir voru til lögreglunnar í öllum löndum ESB og EES á árunum 2008 til 2014 (en nýjustu tölur sem ég fann á vef Eurostat eru frá því ári):

Þetta virðist ansi skýrt. Glæpum fjölgaði ekki í Evrópu á þessu tímabili, heldur fækkaði, nánar til tekið um 8,75%—þó það sjáist reyndar ekki vel á myndinni, enda er línan ansi flöt.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því ekki eru öll lönd eins né tíðni allra glæpa sú sama milli landa. Til dæmis hefur glæpum fjölgað töluvert í Frakklandi og sérstaklega varð mikil sprenging í þjófnaðarmálum frá 2008 til 2009—en árið 2008 voru skráð 751.099 þjófnaðarmál í Frakklandi en árið 2009 voru þau orðin 1.175.378, sem eru 424.279 fleiri þjófnaðir á einu ári og hefur sú tíðni haldist nánast síðan.

Það vill reyndar líka svo til að þessi skyndilega fjölgun skýrir líka að mestu alla aukninguna í Frakklandi og hún er svo mikil að án hennar hefði glæpum fækkað í Evrópu um tæplega 15% á þessu tímabili, frekar en tæplega 9%. Það er svo í raun mun merkilegra þegar haft er í huga að þetta eru hreinar tölur sem taka fólksfjölgun ekki til greina, svo glæpatíðnin utan Frakklands hefur líklega minnkað um nálægt 20% á þessu tímabili.

Annað sem maður tekur eftir í gögnunum er að líkamsárásum hefur stórfækkað, eða alls um þriðjung (en sérstaklega á milli áranna 2008 og 2009)—en eins og kom fram að ofan, má skilja það af umræðunni að stórhættulegt sé að ganga um götur Evrópu. Líkamsárásir hlytu eðli málsins samkvæmt að vera stór þáttur í því, ef satt væri. Þetta má sjá á eftirfarandi mynd (morðum hefur einnig fækkað en þau eru sem betur fer of fá til að passa á myndina):

Næsta mynd sýnir svo hlutfallslega breytingu allra mismunandi undirflokka:

Það vekur strax athygli á myndinni að ein lína sker sig úr—enda má lesa úr henni að nauðgunum hafi fjölgað talsvert á tímabilinu í Evrópu.

Nú gæti kannski einhver sagt, „Aha! Innflytjendur eru kannski ekki að berja fólk og myrða úti á götu en þeir eru samt greinilega hin verstu fól, auk þess sem þeir stela öllu steini léttara í Frakklandi“.

Það væri samt aðeins of fljótlega ályktað. Í fyrsta lagi fjölgaði innflytjendum ekki óvenjulega mikið í Frakklandi á þessum árum, svo það er ekkert sem bendir til að þeim sé um að kenna. Ef innflytjendur væru helsta ástæða þjófnaðar, myndi maður halda að línulegt samband væri milli fjölda innflytjenda og fjölda þjófnaðarmála—en sú er ekki raunin með svona stökkum. Líklegra væri að skýringin sé önnur miðað við það sem við sjáum.

Sömu rök gilda að sjálfsögðu um nauðganir en þar er líka annað og furðulegra á seyði. Það virðist nefnilega vera að nánast öll aukningin sé tilkomin í Bretlandi, en ef Bretland er tekið út fyrir sviga er fjölgunin nánast engin, eða 4% (en það er minna en fólksfjölgunin í Evrópu á sama tíma, sem þýðir að tíðnin hefur í raun og veru lækkað).

Hvers vegna það hefur gerst í Bretlandi veit ég ekki, og ég ætla heldur ekki að bjóða upp á neina kenningu hér, nema endurtaka það sem ég sagði um þjófnaði í Frakklandi, sem er að ef innflytjendur eiga að skýra aukninguna, myndi maður búast við því að hún héldist í hendur við fjölda innflytjenda—en það gerir hún ekki. Hvaða skoðun sem maður hefur á því, svosem, þá stendur hins vegar eftir að almennt séð er fullyrðingin röng um Evrópu sem heild—þar er enginn alda glæpa að ríða yfir, hvorki vegna innflytjenda né annarra.

Að lokum langar mig að skoða Norðurlöndin aðeins, enda eru þau oft miðdepill umræðunnar og virðast margir halda að þau sé á góðri leið með að verða stórhættuleg—ef þau eru ekki þá þegar orðin það.

Það ætti líklega ekki að koma á óvart úr þessu að þar má finna svipaða hluti, en á þessari mynd má sjá þróunina á Norðurlöndum eingöngu (án Íslands):

Þetta eru þá öll ósköpin.

Það síðasta sem ég ætti að nefna er að þrátt fyrir að glæpatíðni á Norðurlöndum hafi farið lækkandi, sýna tölurnar líka að nauðgunum hafi fjölgað í Svíþjóð en þær skýringar sem sænsk yfirvöld gefa á því er að lagaleg skilgreining á hvað telst vera nauðgun hafi breyst og sé nú víðari (sem þýðir að fleiri kynferðisbrot falla í þann flokk)—ásamt frekari skýringum af því tagi. 

Hugsanlega fallast ekki allir á það—þó að það sé auðvitað einkennilegt að aukningin skuli einmitt eiga sér stað eftir slíka breytingu, auk þess sem hún er ekki nægileg til að tala um gífurlegan faraldur þar sem heimur er á heljarþröm.

Það er einfaldlega ekki hægt að draga neina aðra ályktun, þegar allt er skoðað, að Evrópa, rétt eins og Norðurlöndin, sé alveg jafn örugg og áður— þrátt fyrir alla innflytjendur—og jafnvel öruggari en hún hefur nokkru sinni verið.

Ef einhver tekur ekki undir það, þá skal ég allavega taka umræðuna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni