Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Borgaralaun og útskýringar Jóhannesar

Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi á dögunum gagnrýndi Sigmundur Davíð Pírata fyrir meinta stefnu þeirra um borgaralaun (sem reyndist þó raunar alls ekkert stefna þeirra).  Í stuttu máli sagði forsætisráðherra að stefna þeirra væri óábyrg og vanhugsuð—að hún myndi kosta meira en tvöfaldar tekjur ríkisins og að þá væri allt annað eftir ótalið.

Það kom svo fljótlega í ljós—þegar betur var að gáð—að þetta væri bara alls ekkert stefna Pírata og hafa þeir hvorki stefnu um borgaralaun og því síður að einhverjar upphæðir hafi verið nefndar sem hægt væri að reikna út að kosti slík útgjöld.

Hið rétta í málinu er að þingflokkur Pírata hefur lagt fram tillögu um að kostir borgaralauna verði skoðaðir—en slíkt hefur komið til skoðunar í mörgum löndum Evrópu, svo sem Finnlandi, Hollandi og Sviss. Þessu er Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, hins vegar ekki sammála. Hann telur það „rökrétta greiningu“ á annarri stefnu Pírata að útreikningar Sigmundar séu réttir og að þetta sé víst stefna Pírata. 

Mér þykja það svo mikil tíðindi að formenn í einum flokki geti uppgötvað stefnu annarra flokka með rökgreiningu að ég vil skoða þetta aðeins betur.

Útgangspunktur Jóhannesar er eftirfarandi klausa úr stefnu Pírata um velferðarmál: 

1.       Að lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. …
4.       Einfalda framfærslukerfið, þ.e.a.s. atvinnuleysisbóta, örorkubóta og önnur bótakerfi. Afnema ætti hugtakið ‘bótakerfi’. …
9.       Fjármagna skal áðurtaldar aðgerðir með núverandi fjárveitingum til atvinnu- og menntamála fyrir bótaþega, endurskoðun á bótakerfinu samhliða eflingu á virkni einstaklinga og framtaks hans til sköpunar og atvinnu, endurskoðun á núverandi skattkerfi með það að markmiði að einfalda kerfin og þarafleiðandi minnka yfirbyggingu þeirra (stjórnsýsla), og betri skilvirkni innan velferðar- og heilbrigðiskerfisins.

Maður tekur strax eftir því að hér er ekki minnst einu orði á borgaralaun en þrátt fyrir það segir Jóhannes: „Það er því  augljóst [af lestri stefnunnar] að tillagan er í fullu samræmi við stefnu Pírata.“

Það sem eftir lifir pistils síns gengur Jóhannes svo út frá því að upptaka borgaralauna  stefna Pírata og beitir svo frekari rökgreiningu og reikningskúnstum til að reikna sig upp í þá tölu sem Sigmundur nefndi—1.200 milljarða.

Við þetta er margt að athuga. Í fyrsta lagi er tillagan sem Jóhannes nefnir svo þingsályktunartillaga um að skoða upptöku borgaralauna og því ekki hægt að draga neina ályktun um að það slík upptaka stefna Píratajafnvel þó að slíkt væri í samræmi við stefnu þeirra að öðru leyti. Tillaga um að skoða er ekki tillaga um neitt frekar en það.

Í öðru lagi, þá er orðasambandið „í samræmi við“ svo veikt að það að eitthvað sé í samræmi við stefnu flokks í einhverju máli getur aldrei sagt okkur neitt um það hvort slíkt stefna flokksins—í besta falli gæti Jóhannes dregið þá ályktun að Píratar væru ekki í mótsögn við sjálfa sig ef þeir ákvæðu að taka borgaralaun á stefnuskrá sína, sem þeir hafa þó ekki enn gert.

Þessa klausu í stefnuskrá Pírata má nefnilega skilja á annan veg—og það hef að minnsta kosti ég gert—en það er að „lágmarksframfærsla“ sé einfaldlega ítrekun á stuðningi flokksins við að minnsta kosti það velferðarkerfi sem við höfum í dag: atvinnulausir fái atvinnuleysisbætur, öryrkjar örorkulífeyri og aldraðir ellilífeyri, o.s.frv. Það er einfaldlega þannig á Íslandi í dag að öllum er tryggð lágmarksframfærsla og ekkert meira kemur fram í stefnuskrá Pírata. Það er ekki minnst einu orði á skilyrðislausa grunnframfærslu en það er annað heiti á borgaralaunum. 

Það er því rangt hjá forsætisráðherra og aðstoðarmanni hans að það sé stefna Pírata að taka upp borgaralaun. Píratar vilja hins vegar skoða slíkt og ef það reynist góð hugmynd, hugsanlega taka það upp. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni