Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Lagahyggja Skúla Magnússonar

Í fyrradag skrifaði ég pistil sem fjallaði um lagahyggju og siðferði. Í lok pistilsins reyndi ég að tengja þessa siðferðilegu lagahyggju við það hvernig best sé að hugsa um lýðræði og lýðræðislegt stjórnarfar. 

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, var á svipuðum slóðum í Vikulokunum á Rás 1 í gær en hann lýsir siðferðilegri lagahyggju meðal annars með eftirfarandi hætti: „Það var ekki litið á inntak og markmið laga og reglna heldur bara á bókstafinn og helst þannig að maður reyndi að komast sem lengst frá honum án þess að upp um mann kæmist.“

Vilhjálmur sér þessa sömu lagahyggju í því hvernig hugsað er um lýðræði: „Líka varðandi lýðræðið. Menn segja: hér voru kosningar, við fengum sterkt umboð, við höfum meirihluta. En það er enginn skilningur á því að fólki blöskrar skorturinn á trúverðugleika og að menn hafi brugðist trúnaði. Hér þurfi að vera hófsöm valdstjórn í góðu samráði við borgarana og menn svari fjölmiðlum á skýran og uppbyggilegan hátt og gangist við mistökum sínum.“

Eftir að hafa sjálfur hugsað örlítið um þetta efni og svo hlustað á Vilhjálm tala svona skynsamlega í útvarpinu þótti mér  þess vegna áhugavert að lesa grein Skúla Magnússonar dósents í Morgunblaðinu í gær þar sem algjörlega öndverð sjónarmið koma fram (en fyrir þá sem ekki lesa Morgunblaðið birtist ágætur úrdráttur úr grein Skúla á Eyjunni). 

Grein Skúla er um margt furðuleg—burtséð frá því þrönga sjónarhorni lagahyggju sem þar kemur fram. Það er vegna þess að Skúli virðist annars vegar vera að bregðast við því ákalli sem alls staðar heyrist meðal fólks um nýjar kosningar (en hann varar við slíku og kallar það „skrílræði“) en viðurkennir á hinn bóginn að í raun hafi hann ekkert að segja við þá sem halda slíkum kröfum á lofti.

Skúli segir nefnilega í niðurlagi greinar sinnar: „Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að svo sé gert? Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin.“

 Þetta er einmitt kjarni greinar hans og sýnir að hann og mótmælendur tala í kross: það hefur enginn staðið á Austurvelli síðastliðna viku og sagt að stjórnin verði að fara frá því annað brjóti í bága við lög og stjórnskipun Íslands.  Það hefur einfaldlega enginn talað á þeim nótum að það sé stjórnarskrárbrot eða brot á þeim lagaramma sem lögin setja utan um lýðræðið á Íslandi. Rök fólks eru af allt öðrum toga og á engan hátt lögfræðileg.

Engu að síður virðist Skúli halda að hann sé að svara þessum röddum og eina skýringin sem ég get séð á því er sú að hann virðist halda að lýðræðið réttlætist af þeim lögum sem um það eru sett—að lýðræðislegt stjórnarfar sé ekkert meira en lög sem lýsa formi lýðræðis: „stjórnskipulegt lýðræði“, eins og Skúli kallar það.

En hvernig er hægt að grundvalla lýðræðið eingöngu á lögum, eins og Skúli virðist gera? Slík lagahyggja virðist að minnsta kosti lenda í svipuðum vandræðum og lagahyggja um siðferði virðist gera. 

Ef lýðræðið er bara lögin sem um það eru sett, hvernig ætti einhver sem lifir í öðruvísi samfélagi, til dæmis í einræðisríki, hugsanlega að geta rökstutt að lýðræði sé ákjósanlegt fyrirkomulag? Í hvaða skilningi voru mótmæli kínverskra stúdenta á Torgi hins himneska friðar árið 1989 til að mynda ekki dæmi um skrílsræði þegar þeir kölluðu eftir lýðræðisumbótum? Það voru jú í lög í Kína sem lýstu stjórnskipan landsins og það sem stúdentar vildu fá fram var ekki í samræmi við hana. Það virðist því ekki vera neitt pláss til að stíga út fyrir lögin og krefjast breytinga nema innan laganna sjálfra, ef lagahyggja af þessu tagi er teygð til hins ítrasta.

Hugsanlega gæti Skúli svarað því til að Ísland sé lýðræðisríki að forminu til og því ólíkt Kína—þess vegna sé þetta dæmi ekki sambærilegt. En það virðist þá gera ráð fyrir því að lýðræðisríki séu á einhvern hátt frábrugðin einræðisríkjum á einhvern annan hátt en að þar séu einungis í gildi ólík lög. Ef svo er, þá er erfitt að sjá hvers vegna við ættum einungis að horfa til laga þegar við ræðum um lýðræði almennt: lögin um lýðræði virðast benda á eitthvað sem er handan þeirra sjálfra og það er það sem mótmælendur eru að vísa til þegar þeir krefjast nýrra kosninga.

Hvað þetta er sem lögin vísa til er í sjálfu sér ekkert sérstaklega umdeilt né torskilið, þó að stjórnspekinga greini auðvitað á um hvernig sé best að skilja það. 

 Hugmyndin er í grófum dráttum þessi: allt vald í einhverju tilteknu samfélagi manna á sér uppsprettu hjá fólkinu sjálfu—en það mætti líka orða með að segja að hver og einn hafi jafn mikinn rétt og hver annar til að hafa áhrif á það hvernig ákvarðanir sem varða samfélagið allt eru teknar. 

Það er auðvitað erfitt að koma því við—svona á praktískan hátt—að allir komi að öllum ákvörðunum og þess vegna framselur fólk þetta vald sitt til kjörinna fulltrúa sem taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Þetta er kallað fulltrúalýðræði. 

Það er mikilvægt að taka eftir því að í þessari lýsingu á lýðræði er hvergi vísað til laga. Þau koma á eftir til að formgera lýðræðið og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig, eins og framast er unnt. En lögin sjálf eru ekki lýðræðið og ekki uppspretta heimspekilegrar réttlætingar þeirra.

 Það er af þessum ástæðum sem röksemdir þeirra sem krefjast núna kosninga eru ekki af lögfræðilegum toga, heldur beinlínis siðferðilegum eða heimspekilegum—þær vísa í „grundvallaratriði sem varða trúnað, trúmennsku og trúverðugleika“ eins og Vihjálmur Árnason komst að orði. Að vísa til laga og reglna til að svara slíkum röksemdum getur því eðli málsins vegna aldrei hitt í mark.

Skúli gæti þó svarað þeim sem segja að trúnaðarbrestur milli stjórnvalda og almennings séu grundvöllur fyrir nýjum kosningum með því að segja að það sé bara þeirra mat. Hann—eða ráðherrar eða stuðningsmenn hennar—meti það sem svo að slíkur trúnaðarbrestur hafi ekki orðið eða að hann sé ekki ástæða fyrir nýjum kosningum, og hver á að meta slíkt? Þetta svar væri mjög keimlíkt svari lagahyggjumannsins sem segir að það sem lögin nái ekki yfir sé bara háð mati hvers og eins. 

En það er einmitt hér sem hundurinn liggur grafinn. Röksemdir þeirra sem vilja nýjar kosningar höfða til siðferðilegra viðmiða og ef einhver neitar að taka slíkt til greina er ósköp lítið sem hægt er að gera. Það þýðir samt ekki að siðferðilegar röksemdir hafi ekkert gildi—það þýðir bara að stjórnmálamenn þrjóskast við að hlusta á þær.

Það er nefnilega bæði ómögulegt og óæskilegt—eins og almennt í lífinu—að lög og reglur leysi af hólmi siðferðilega dómgreind stjórnmálamanna.  Rétt eins  og það er löglegt að bregðast trausti vinar er löglegt að bregðast trausti kjósenda—það er engu að síður siðferðislega ámælisvert, ekki síst þegar ekki er hlustað á það sem fólk hefur að segja.

Stærsti munurinn er þó líklega að venjulega getur fólk slitið vinskap við þá sem það kærir sig ekki um að hafa að vinum en kjósendur geta ekkert gert ef stjórnvöld sem ekki njóta trausts sitja áfram. Það þýðir þó ekki að krafa um slík pólitísk vinslit sé marklaus einungis vegna þess að um hana gilda engin lög.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu