Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Furðuleg svör forsætisráðherra


Það er líklega enginn sem fylgist með opinberri umræðu og stjórnmálum á Íslandi sem hefur farið varhluta af lögbanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á umfjöllun Stundarinnar um fjármál Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á árunum fyrir hrun. 

Ég held að nú þegar Bjarni sjálfur hefur tekið undir sjónarmið þeirra sem gagnrýnt hafa lögbannið séu fáir sem ekki eru sammála um hversu óviðeigandi það sé að stöðva umfjöllun fjölmiðla um viðkvæm mál svo skömmu fyrir kosningar. Það er einfaldlega atlaga að frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsinu í landinu—og hindrar fjölmiðla í að sinna skyldu sinni sem aðhald við hið lýðræðislega vald.

Bjarni og stuðningsmenn hans hafa hins vegar haldið því fram að umfjöllun Stundarinnar sé röng og stjórnist af annarlegum hvötum—og hafa þar sumir gengið mun lengra en Bjarni sjálfur. Það virðist hins vegar vera mjög lítið um það í umræðunni að það sé bent á það hvað nákvæmlega það er sem Stundin hefur farið rangt með og hvers vegna það skipti höfuðmáli fyrir fréttaflutninginn almennt.

Það var þess vegna sem ég las viðtal Vísis við Bjarna í morgun af mikilli athygli, því þar loksins virtist hann ætla að fara yfir málið frá sinni hlið og benda á hvað það er sem ekki á við rök að styðjast—og þá gæti ég séð hvers vegna þessi fréttaflutningur ætti að skipta mig litlu máli. 

Nú er ég hvorki lögfræðingur né sérfræðingur í fjármálum, svo það er ekki loku fyrir það skotið að ég hafi misskilið svör Bjarna en því miður fundust mér svör hans hvað varðar eina af fréttum Stundarinnar, sem fjallaði um kúlulán sem átti að hafa verið fært yfir á  skuldsett félag hans og svo aldrei greitt, ansi lítils virði.

Það virðast vera fyrst og fremst tvær fullyrðingar í frétt Stundarinnar sem Bjarni gerir athugasemdir við. Fyrst bendir hann á að það sé ekki rétt að skuldin hafi verið færð á félag í hans eigu—það hafi verið faðir hans sem átti félagið. Hitt er svo sú fullyrðing Stundarinnar að lánið hafi aldrei verið greitt.

Um það segir Bjarni:  „Þetta er allt saman slitið úr samhengi og látið að því liggja að ég hafi losnað undan skuldum sem ég hefði átti að greiða og því er sleppt að eignir fylgdu skuldunum.“ 

Þetta er allt saman gott og blessað og maður gæti haldið—ef maður hætti að lesa hér—að Bjarni sé að mótmæla frétt Stundarinnar með afdráttarlausum hætti og auðvelt væri að sannreyna þetta og þar með ætti málinu að vera lokið. 

En svo heldur frétt Vísis áfram: „Bjarni vildi hvorki staðfesta né neita því að kúlulánið hafi aldrei verið endurgreitt til Glitnis“ og Bjarni segir „Ég ætla ekki að tala fyrir Hafsilfur. Ég er bara að benda á að það er ekki þannig að ég hafi fært skuld yfir í eitthvert annað félag sem ég átti sem hafi svo ekki borgað skuldina. Þetta er bara rugl.“

Þetta er ekki beinlínis ósatt en ég get þó ekki betur séð af svörum hans en að einungis eitt smáatriði geti talist vera rugl: Það að faðir hans hafi átt félagið sem um ræðir. Það þýðir auðvitað að strangt til tekið er fullyrðingin „Bjarni færði skuld í annað félag sem hann átti og greiddi hana aldrei“ ósönn, því hann átti ekki félagið, og þar með er það sem Bjarni segir—aftur, strangt til tekið—satt.

En þetta er engu að síður mjög furðulegt svar, því auðvitað er það algjört smáatriði í stóra samhengi hlutanna hvort Bjarni sjálfur hafi átt félagið eða faðir hans. Það sem allir vilja vita er hvort að skuldin hafi verið greidd og Bjarni neitar að segja af eða á með það.

Ég er ekki að fullyrða hér að Stundin fari með rétt mál en Bjarni rangt—það er ekkert í því sem Bjarni segir sem útilokar að skuldin hafi verið greidd. Ég held því einfaldlega fram að Bjarni hafi alls ekki sýnt fram á að nokkuð sem skipti máli í umfjöllun Stundarinnar sé rangt og að honum hefði verið í lófa lagið að gera það—og í raun skylt að gera það, því fullyrðingar hans um vinnubrögð Stundarinnar eru auðvitað grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi lögbannsins sem nú hefur verið lagt á frekari fréttaflutning af málinu.

Það gerði hann ekki.


Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu