Endurvinnsla á plasti sem íslenskir neytendur nota er langtum minni en opinberar tölur gefa til kynna og íslensk fyrirtæki fá oft greitt fyrir að endurvinna plast sem ratar aldrei í endurvinnslu. Villandi orðanotkun og merkingar geta einnig blekkt neytendur sem telja sig taka ákvarðanir í þágu umhverfisverndar.
Þá er stór hluti þess plasts, sem fellur til hérlendis, sendur út til Svíþjóðar til brennslu. Fyrirtækið sem tekur við mestu af plastinu frá Íslandi er afar umdeilt og hefur verið viðriðið fjölmörg hneykslismál. Það hefur verið í rannsókn lögreglu í þremur löndum.
Saga plastsins endar ekki þegar það fer í ruslatunnuna heima hjá fólki um allt land, heldur er ferð þess rétt að hefjast. Plastið mun eiga langt ferðalag fyrir höndum og í mörgum tilfellum endar ferðalag þess aldrei, því það mun sigla um heimsins höf um ókomna framtíð. Plast er orðið nánast órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi. Það hefur einstaka hæfileika umfram önnur efni, það er létt og þægilegt í notkun. Mannkynið hefur með sönnu tekið ástfóstri við þetta undraefni.
En fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur. Plastmengun um allan heim er gífurleg og telja sérfræðingar að það verði meira magn af plast í sjónum en fiska árið 2050. Um helmingur alls plasts í hinum svokallaða Kyrrahafsruslahaug kemur frá sjávarútvegi. Haugurinn, sá stærsti af fimm haugum víðs vegar um höf heimsins, er talinn vera um 700 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða um sjö sinnum flatarmál Íslands.
Sjávarútvegurinn notar gríðarlegt magn af plasti, meðal annars í veiðarfæri. Samkvæmt samningi Samtaka félaga í sjávarútvegi greiða fyrirtæki í sjávarútvegi ekkert úrvinnslugjald á veiðarfærum úr plasti. Afleiðingin er sú að lítill hvati er fyrir fyrirtækin að endurvinna það plast sem fellur frá við starfsemina og er því mjög stór hluti veiðarfæra frá íslenskum sjávarútvegi urðaður.
Athugasemdir