Þessi grein er meira en 2 ára gömul.

Plastleyndarmál Íslands

Töl­ur um end­ur­vinnslu á plasti ís­lenskra neyt­enda eru sagð­ar eiga sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Stór hluti þess er brennd­ur af um­deildu sænsku fyr­ir­tæki. Plast­meng­un er mik­il á strönd­um Ís­lands og vís­bend­ing­ar eru um að veið­ar­færi séu skil­in eft­ir í hafi eða urð­uð.

Töl­ur um end­ur­vinnslu á plasti ís­lenskra neyt­enda eru sagð­ar eiga sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Stór hluti þess er brennd­ur af um­deildu sænsku fyr­ir­tæki. Plast­meng­un er mik­il á strönd­um Ís­lands og vís­bend­ing­ar eru um að veið­ar­færi séu skil­in eft­ir í hafi eða urð­uð.

Endurvinnsla á plasti sem íslenskir neytendur nota er langtum minni en opinberar tölur gefa til kynna og íslensk fyrirtæki fá oft greitt fyrir að endurvinna plast sem ratar aldrei í endurvinnslu. Villandi orðanotkun og merkingar geta einnig blekkt neytendur sem telja sig taka ákvarðanir í þágu umhverfisverndar.

Þá er stór hluti þess plasts, sem fellur til hérlendis, sendur út til Svíþjóðar til brennslu. Fyrirtækið sem tekur við mestu af plastinu frá Íslandi er afar umdeilt og hefur verið viðriðið fjölmörg hneykslismál. Það hefur verið í rannsókn lögreglu í þremur löndum.

Saga plastsins endar ekki þegar það fer í ruslatunnuna heima hjá fólki um allt land, heldur er ferð þess rétt að hefjast. Plastið mun eiga langt ferðalag fyrir höndum og í mörgum tilfellum endar ferðalag þess aldrei, því það mun sigla um heimsins höf um ókomna framtíð. Plast er orðið nánast órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi. Það hefur einstaka hæfileika umfram önnur efni, það er létt og þægilegt í notkun. Mannkynið hefur með sönnu tekið ástfóstri við þetta undraefni.

En fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur. Plastmengun um allan heim er gífurleg og telja sérfræðingar að það verði meira magn af plast í sjónum en fiska árið 2050. Um helmingur alls plasts í hinum svokallaða Kyrrahafsruslahaug kemur frá sjávarútvegi. Haugurinn, sá stærsti af fimm haugum víðs vegar um höf heimsins, er talinn vera um 700 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða um sjö sinnum flatarmál Íslands.

Sjávarútvegurinn notar gríðarlegt magn af plasti, meðal annars í veiðarfæri. Samkvæmt samningi Samtaka félaga í sjávarútvegi greiða fyrirtæki í sjávarútvegi ekkert úrvinnslugjald á veiðarfærum úr plasti. Afleiðingin er sú að lítill hvati er fyrir fyrirtækin að endurvinna það plast sem fellur frá við starfsemina og er því mjög stór hluti veiðarfæra frá íslenskum sjávarútvegi urðaður.

Saga plastsins

Framleiðsla á plasti hefur aukist stórkostlega á undanförnum áratugum. Fyrsta plastið var framleitt árið 1907, en það var plasttegundin fenóplast. Með uppgötvuninni varð bylting í framleiðslu á neytendavörum eins og skartgripum og leikföngum. Árið 1950 var ársframleiðsla á plasti um 1,5 milljónir tonna. Í dag er framleiðslan um 300 milljónir tonna, það er 200-föld aukning á 70 árum. Af þessum 300 milljónum tonna lenda yfir 9 milljónir tonna af plasti í höfum heimsins á hverju ári.

Helmingur alls plasts sem er framleitt í heiminum er notað í einnota vörur, sem við notum eingöngu í stuttan tíma og hendum svo frá okkur. Framleiðendur á einnota plasti nota ekki eingöngu olíu við framleiðsluna, þeir notast einnig við kol og gas. Allt eru þetta auðlindir sem ekki eru endurnýjanlegar, sem þýðir að á endanum munu þessar auðlindir klárast. Frá því að framleiðsla á plasti hófst hafa verið framleidd um 8,5 milljarðar tonna af plasti. Eingöngu mjög lítill hluti af heildarframleiðslunni hefur nokkurn tímann verið endurunninn. Sérfræðingar telja að eingöngu rúmlega 7 til 9 prósent af öllu plasti sem framleitt er í dag verði nokkurn tímann endurunnið. Það þýðir að yfir 90 prósent af öllu plasti sem er framleitt í dag er urðað, brennt til orkuvinnslu eða dreifist um náttúruna.

Villandi orðanotkun þegar kemur að endurvinnslu

Mismunandi orðanotkun í endurvinnsluheiminum getur oft ruglað fólk í ríminu, þar sem orðanotkunin er oft flókin og lagatæknileg. Svo virðist sem fólk geri sér litla grein fyrir muninum á orðinu endurvinnslu og endurnýtingu. Endurvinnsla þýðir að einhver vara eða umbúðir fái framhaldslíf sem ný vara. Sem dæmi: Tóm gosflaska er endurunnin og efnið sem fæst úr endurvinnslunni er notað til að búa til nýja plastflösku. Endurnýting getur hins vegar þýtt margt. Að taka glerflösku, brjóta hana niður og nota glerbrotin til þess að fylla gamla námu, telst til að mynda sem endurnýting. Að taka plastflösku og brenna hana til að búa til orku, telst sem endurnýting.

Annað orð sem reglulega hefur komið upp þegar rætt er um að plast sé brennt til orkuframleiðslu, er orðið orkuendurvinnsla. Hafa forsvarsmenn Sorpu mikið notað þetta orð, þegar rætt er um endurnýtingu á plasti. Bæði Björn H. Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu, og Helgi Þór Ingason, núverandi framkvæmdastjóri Sorpu, hafa notað slíkt orðalag. Sorpa notast einnig við þetta orð í upplýsingagjöf til neytenda á heimasíðu sinni.

Í samtali við Stundina segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, að orðið hafi í raun ekkert að gera með endurvinnslu og er beinlínis villandi að nota það. „Þetta er bara endurnýting, en það er valið þetta orð af einhverri ástæðu. Það er verið að brenna plastið til orkuvinnslu, það er ekki verið að endurvinna plastið neinn hátt.“ 

Plastiðnaður í afneitun

Fyrirtækið Plastiðjan framleiðir plastumbúðir hér á landi fyrir einhver stærstu fyrirtæki landsins, þar má nefna Coca Cola á Íslandi, Ölgerðina, Sölufélag garðyrkjumanna og Mjólkursamsöluna, svo einhver séu nefnd. Á heimasíðu Plastiðjunnar er að finna upplýsingar um plast undir flokknum plast og umhverfið. Þar er að finna vafasamar yfirlýsingar sem standast engan veginn það sem rannsóknir fjölda vísindamanna um allan heim hafa sýnt. Heldur fyrirtækið því fram að plastnotkun fylgi lítil mengun sem fari ört minnkandi, þrátt fyrir að gögn sýni fram á allt annað.

„Heimurinn er hreinni og lífið þægilegra vegna plastiðnaðarins“

„Plastiðnaði og plastnotkun fylgir lítil mengun sem fer ört minnkandi. Heimurinn er hreinni og lífið þægilegra vegna plastiðnaðarins,“ segir meðal annars.

Þá segir á heimasíðu Plastiðjunnar að talið sé að 80% af öllum plastumbúðum sem séu notaðar í Bandaríkjunum, endi á endurvinnslustöð. 

„Í Bandaríkjunum er talið að af framleiddum plastumbúðum séu tæp 80% þeirra sem skili sér inn á endurvinnslustöðvar en hér á landi er stefnt að því að endurnýting á umbúðaúrgangi nái í það minnsta 60–85% á milli áranna 2012–2020.“

Þessar tölur eru langt frá því að vera nálægt sannleikanum. Samkvæmt umhverfisstofnun Bandaríkjanna voru notaðar yfir 35 milljónir tonna af plasti í Bandaríkjunum árið 2017. Af þeim fóru rúmlega 3 milljónir tonna í endurvinnslu og um 5,5 milljónir tonna fóru í orkuvinnslu. Þetta þýðir að eingöngu um 8% af plasti sé endurunnið í Bandaríkjunum og að 16% af plasti er brennt til orkuvinnslu. Þessar tölur eru því langt frá þeim sem Plastiðjan birtir á heimasíðu sinni.

Í viðtali við RÚV árið 2017 sagði Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar, að hann efaðist um að örplast væri vandamál í höfum heimsins. „Varðandi plastið í hafinu og þessar öreindir þá skortir mig að sjá þessar frumrannsóknir sem liggja að baki þessum fullyrðingum. Ég bara hef ekki séð þess stað,“ sagði Axel Óli.

Í sama viðtali sagði Axel Óli einnig að hann efaðist um að það taki jafn langan tíma fyrir plast að brotna niður eins og haldið er fram. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er sagt að það geti tekið nokkur hundruð ár fyrir plast að brotna niður.

„Menn eru vafalaust búnir að rannsaka þetta. Ég er bara ekki með þær upplýsingar hjá mér. Ég veit bara að ég sé ekki mikið af gömlum gosflöskum úti í náttúrunni og ekki er það vegna þess að við séum svo snyrtileg.“ 

Mjólkursamsalan, einn stærsti umbúðaframleiðandinn á Íslandi, segir í umhverfisstefnu sinni að fyrirtækið hafi þá áherslu að allar umbúðir sem fyrirtækið notast við séu endurnýtanlegar. Í raun þýðir þetta að hægt sé að brenna allar umbúðir sem MS notast við utan um framleiðsluvörur sínar. Nokkurt magn af þeim vörum sem MS framleiðir er sett í plastumbúðir sem fyrirtækið sjálft veit að eru ekki endurvinnanlegar. Ástæða þess að ekki er búið að skipta út þeim umbúðum er sú að pökkunarvélin sem notast er við er orðin um 40 ára gömul og ekki er hægt að notast við plast sem er endurvinnanlegt í þá pökkunarvél.  

Villandi merkingar á plastumbúðum

Íslenskir neytendur – eins og flestir neytendur heimsins – eru vanir að sjá merkingar á plastvörum sem þeir kaupa. Merkið er þríhyrningur með örvum og svo má finna tölu inn í. Tölurnar eru á bilinu 1 til 7 og eiga að túlka þá sjö flokka af plasti sem plastframleiðendur framleiða. Undir mörgum þessara merkinga stendur svo að varan sé endurvinnanleg, þrátt fyrir að hún sé það oft ekki. Þessar merkingar voru ekki ákveðnar af neinum opinberum aðila, heldur var það olíuiðnaðurinn sem fann upp á þessum merkingum. Plasttegundirnar sem eru framleiddar eru þó hins vegar fleiri en sjö. Því sjöundi flokkurinn heitir einfaldlega „annað“. Þessi flokkur er talinn innihalda mörg hundruð tegundir af plasti. Í raun er það ekki vitað nákvæmlega þar sem framleiðendur setja þessa merkingu á allt plast sem passar ekki í hina sex flokkana. Þessi sjöundi flokkur er í langflestum tilfella algjörlega óendurvinnanlegur. Það eina sem hægt er að gera við þetta plast er að brenna það til orkuvinnslu.

En sjöundi flokkurinn er ekki eini flokkurinn sem er ekki góður til endurvinnslu. Flokkur þrjú er fyrir plast sem er kallað PVC eða pólývínýlklóríð. Þetta plast er mest notað til að framleiða skólplagnir og þakrennur. Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur þetta plast klór. Þessi plasttegund er afar flókin í endurvinnslu og í langflestum tilfellum er það ekki endurunnið. Við bruna á PVC myndast eiturgufur sem hafa skaðleg áhrif á heilsu manna. Er því orkuvinnsla á PVC plasti afar óhentug samkvæmt sérfræðingum. Þessir tveir flokkar eru ekki bara þeir einu sem eru óhentugir í endurvinnslu, því bæði flokkur fjögur og flokkur sex eru mjög flóknir í endurvinnslu. Í raun leitast endurvinnslufyrirtæki eingöngu eftir tveimur plasttegundum, það eru flokkar eitt og tvö. Lesendur kannast vel við flokk eitt, það er þegar við drekkum gos úr flöskum. Flokkur tvö er til að mynda sjampó. Þessir tveir flokkar eru þeir verðmætustu í plastendurvinnsluheiminum.  Þegar Vesturlönd senda plastúrgang til endurvinnslu til ríkja í Asíu, taka endurvinnslufyrirtæki þessa tvo flokka og reyna að endurvinna þá. Allt hitt plastið er verðlaust fyrir þeim og í mörgum tilfellum losa þau sig við þau beint í náttúruna – það er einfaldlega ódýrara.

„Plastmengun er ekki hérna á Vesturlöndum“

Endurvinnsla á plasti hefur ekki verið í forgangi hjá Sorpu undanfarin ár. Þetta kemur fram í þeim fjölmörgu fréttum sem hafa fjallað um málefnið undanfarin ár. 

Þegar Björn H. Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu, var spurður árið 2019 hvort það væri forgangsatriði hjá Sorpu að leysa það vandamál sem hefur komið upp vegna endurvinnslu á plasti, sagði hann að svo væri ekki. „Ég held að önnur málefni séu brýnni. Plast er ekki nema pínulítið magn af úrganginum. Plastmengun er ekki hérna á Vesturlöndum, hún er í Asíu og Afríku,“ sagði Björn í samtali við DV.

Ein möguleg ástæða þess að plastmengun er svo gífurleg í Asíu er meðal annars vegna þess ofboðslega magns af plasti sem Vesturlönd senda þangað til endurvinnslu, en því miður endar mjög stór hluti þess í sjónum, er brenndur fyrir berum himni eða urðaður. 

Heng Kiah Chun starfar fyrir náttúruverndarsamtökin Greenpeace í Malasíu. Í samtali við Stundina segir hann að eftir að Kína lokaði fyrir langstærstan innflutning á plastúrgangi frá Vesturlöndum, hafi endurvinnslufyrirtæki sprottið upp víðs vegar um Suðaustur-Asíu. „Þetta hefur þýtt að gífurlegt magn af plasti hefur verið flutt hingað til Malasíu, til fyrirtækja sem bera enga virðingu fyrir lögum og reglum, hvað þá til umhverfisins.“ 

Heng segir að einhver endurvinnslufyrirtæki séu að gera hlutina rétt, en langstærstur hluti þeirra sé bara að leita að skyndigróða. 

„Eftir að Kína lokaði skapaðist gullgrafaraæði í Malasíu. Hér er nóg af landsvæði, slakt eftirlit og ódýrt vinnuafl. Langstærstur hluti endurvinnslufyrirtækjanna  í Malasíu var stofnaður rétt fyrir og eftir lokun Kínverja. Eftirlit yfirvalda er ekki mikið, í raun sorglega lítið, en með því litla eftirliti hafa yfirvöld hér lokað yfir 150 plastendurvinnslufyrirtækjum. En það eru mörg hundruð fyrirtæki hérna sem eru enn að störfum  og eru að menga landið okkar með rusli frá Vesturlöndum.“ 

Náttúruverndarsamtökin Greenpeace gerðu ítarlega skýrslu um plastendurvinnsluiðnaðinn í Malasíu í nóvember 2018. Þar kemur meðal annars fram að plastið sem sent hefur verið til landsins hefur verulega neikvæð áhrif á náttúruna í Malasíu. Magn eiturefna er gífurlegt á þeim svæðum sem plastendurvinnslufyrirtækin hafa losað sig við plast eða brennt plastið á. Þar má finna mikið magn af þungamálmum ásamt öðrum eiturefnum, sem hafa drepið stóran part af lífríkinu í nokkrum vötnum – og eru önnur svæði með mjög hátt hlutfall eiturefna – hlutfall sem er beintengt mengun frá plastúrgangi. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að sænsk endurvinnslufyrirtæki sendu rúmlega 2.500 tonn af plastúrgangi til Malasíu árið 2018.

„Við vitum að endurvinnslufyrirtæki í Svíþjóð eru að senda plastúrgang hingað til Malasíu,“ segir Heng. „Ef þið Íslendingar eruð að senda ykkar plast þangað þá eru miklar líkur á því að eitthvað af íslenska plastinu sé að koma hingað, miðað við það magn sem við erum að fá.“ 

Heng biður alla Vesturlandabúa um að hætta að senda vandamálin sín til annarra landa.

„Við erum orðin þreytt á því að þurfa að þrífa upp eftir ykkar eigin neyslu“

„Þið verðið að fara hætta að senda vandamálin ykkar til okkar, við eigum nóg með okkur sjálf. Þið eruð mun ríkari en við, en af einhverri ástæðu finnst ykkur sniðug hugmynd að senda plastúrganginn frá ykkar heimalandi til okkar. Næst þegar þið standið yfir endurvinnslutunnunni ykkar með plastið í höndunum, spyrjið ykkur sjálf, hvar endar þetta? Spyrjið líka fyrirtækin á Íslandi sem eru að endurvinna plastið ykkar hvar plastið endar og krefjist svara – því við erum orðin þreytt á því að þurfa að þrífa upp eftir ykkar eigin neyslu.“

Plastmengun á ströndum Íslands

Tómas Knútsson stofnaði umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn, en samtökin leggja áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundarvakningu. Tómas hefur unnið sem vélvirki, slökkviliðsmaður, sjúkraflutningamaður, sportköfunarkennari og eiturefnatæknir. Hann hóf að stunda sportköfun árið 1975 en segir að áhugi hans á umhverfistengdum verkefnum hafi byrjað fyrir alvöru í sportköfunarkennaranámi hjá PADI árið 1991. PADI eru alþjóðleg samtök kafara sem berjast gegn mengun í hafinu. Tómas fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu frá forseta Íslands fyrir störf sín í þágu umhverfismála árið 2019.

Í samtali við Stundina segir Tómas að gífurleg plastmengun sé á ströndum landsins.  „Þetta er um 1 tonn af rusli sem finnst á hverjum kílómetra af strönd. Strandlengja landsins er um 5.000 kílómetrar, svo þú getur reiknað hversu mikið rusl er á ströndum landsins.“ 

Samkvæmt þeim útreikningum eru um 5.000 tonn af rusli liggjandi á ströndum Íslands. Tómas segir að langstærstur hluti rusls sem hann og sjálfboðaliðar Bláa hersins tína upp sé plast.

„Þetta er um 1 tonn af rusli sem finnst á hverjum kílómetra af strönd“

„Ætli þetta sé ekki um 80% plast. Þetta eru fiskinet, alls konar umbúðir frá sjávarútveginum og heilu fiskikörin. Við erum að grafa heilu fiskikörin upp sem eru nánast alveg grafin ofan í ströndina.“ 

Spurður hvort ástandið hafi orðið betra eða verra á undanförnum árum segir Tómas að það sé að verða hugarfarsbreyting á þessum málaflokki til hins betra. „Ég trúi að það sé að verða mikil hugarfarsbreyting, ekki bara hjá einstaklingum, heldur einnig fyrirtækjum sem vilja gera vel.“

Plastagnir finnast í fiskum, fuglum og drykkjarvatni á Íslandi

Plastagnir eru að finnast í fiskum og fuglum við strendur landsins. Samkvæmt rannsókn Anne de Vries, nema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, kom í ljós að 20,5% af öllum veiddum þorski á Íslandi innihélt plastagnir og 17,4% af öllum ufsa innihélt plastagnir. Sjónvarpsþátturinn Kveikur á RÚV fjallaði ítarlega um þessa plastmengun í þætti sínum seint á síðasta ári. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt rannsókn, sem Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, framkvæmdi, reyndist 70% fýla sem hann rannsakaði vera með plast í maganum. Þá hafa rannsóknir á magainnihaldi hvala sem hafa rekið á land sýnt fram á gífurlegt magn af plasti. Rannsóknir á kræklingum við strendur Íslands sýna einnig að meira en helmingur þeirra innihalda plastagnir. 

Samkvæmt rannsókn Veitna kemur fram að um 0,2 til 0,4 plastagnir finnast í hverjum lítra af vatni sem íbúar höfuðborgarsvæðisins drekka. Kveikur lét einnig greina kranavatn frá nokkrum heimilum í Reykjavík. Kom þar í ljós að um 27 plastagnir var að finna í hverjum lítra af vatni sem er drukkið á þeim heimilum. Það má segja að plast sé að finnast alls staðar á Íslandi, bæði í náttúrunni, lífríkinu, jafnvel inni í okkur sjálfum.

Samtal á milli atvinnulífsins og hins opinbera

Þegar vörur eru annaðhvort framleiddar hér á landi eða fluttar inn til landsins, bera þær langflestar svokallað úrvinnslugjald sem Tollstjóri sér um að innheimta. Ástæða úrvinnslugjaldsins er til að standa undir þeim kostnaði sem verður við úrvinnslu á úrganginum sem varan skapar. Úrvinnslugjaldið er mismunandi eftir vöruflokkum. Sem dæmi þurfa framleiðendur og innflytjendur á plasti að borga 28 krónur á hvert kíló af plasti sem flutt er til landsins eða er framleitt hér á landi og notað í umbúðir. Stjórn Úrvinnslusjóðs ákveður þetta gjald. Fjármálaráðherra ákvarðar á endanum hvert úrvinnslugjald skal vera á þessum vörum, en stjórn sjóðsins skilar sínum ráðleggingum um hvert það gjald skal vera. Aldrei í sögu sjóðsins hefur fjármálaráðherra ákveðið að fara fram á hærri upphæð vegna úrvinnslu á umbúðum og öðrum vörum en stjórn sjóðsins hefur ráðlagt. Þá fer úrvinnslugjaldið einnig í það að borga fyrir flutning á úrgangi á milli landshluta.

Í stjórn Úrvinnslusjóðs sitja sjö fulltrúar. Minnihluti stjórnar er skipaður af hinu opinbera, einn fulltrúi frá umhverfisráðuneytinu og tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Meirihlutinn, eða fjórir af þeim sjö sem sitja í stjórn Úrvinnslusjóðs, eru því fulltrúar atvinnulífsins. Sitja þeir fyrir hönd Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Félags atvinnurekenda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, segir að ástæða þessarar uppsetningar stjórnar sé að atvinnulífið eigi að bera ábyrgð á úrganginum sem það myndar, eða svokölluð framleiðendaábyrgð. 

„Þessi málaflokkur er samtal á milli atvinnulífsins og hins opinbera,“ útskýrir Ólafur.

Stór hluti plasts á Íslandi ber ekki úrvinnslugjald

Mjög stór hluti þess plasts sem flutt er til landsins ber ekki úrvinnslugjald. Þetta plast fyrirfinnst í tannburstum, plasthúsgögnum, vindsængum og mun fleiri vörum. Í raun bera nánast bara plastumbúðir af neytendavörum úrvinnslugjald. Markmið úrvinnslugjalda er að sjá til þess að neytendur þurfi ekki að greiða fyrir losun á plastinu sjálfu eftir notkun, en svo er ekki staðan með fjöldann allan af vörum úr plasti.

Í raun kostar að losa sig við þessa hluti. Sem dæmi þarf að greiða 34 krónur á hvert kíló af þessum plasthlutum sé farið með þá í Sorpu. Er því engin hvatning fyrir íslensk fyrirtæki að safna þessu plasti saman og koma því í endurvinnslu, því fyrirtækin fá ekkert greitt úr Úrvinnslusjóði fyrir að safna þeim og koma þeim í réttan farveg. Samkvæmt Sorpu er stór hluti af þessu plasti sem ber ekki úrvinnslugjald að lenda í plastsöfnunargámum Sorpu. Þýðir það að söfnunartölur fyrir plastumbúðir á Íslandi eru heldur ekki réttar og eru í raun lægri en gefið er opinberlega upp. 

Skilagjald á dósum og flöskum ekki hækkað síðan 2015

Endurvinnslan ehf. er fyrirtæki sem er í meirihlutaeigu fyrirtækja sem nota langmest af plastumbúðum á Íslandi. Meirihlutaeigendur eru meðal annars Coca Cola European Partners á Íslandi, Ölgerðin, Elkem á Íslandi og Rio Tinto Iceland. Minnihlutaeigendur eru meðal annars íslenska ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og í Úrvinnslusjóði er hið opinbera með minnihluta í stjórn og getur ekki tekið neinar ákvarðanir þegar kemur að öllum drykkjarumbúðum á landinu, án stuðnings einhverra stærstu fyrirtækja landsins. 

Samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur er skilagjald ákvarðað. Það er á ábyrgð umhverfisráðherra að hækka skilagjald á flöskum og dósum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá síðustu hækkun skilagjaldsins. Síðasta hækkun átti sér stað þann 1. janúar 2015. Frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 16,15% og ættu því neytendur í raun að fá 18,5 krónur á hverja dós sem skilað er en ekki 16 krónur. Þegar litið er á krónumuninn þá virðist hann ekki mikill. Hins vegar þegar litið er á þær hundruðu milljóna umbúða sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn til landsins, þá er augljóst að framleiðendur og innflytjendur á drykkjarvörum eru búnir að spara sér mörg hundruð milljóna króna við það eitt að ráðherra sé ekki búinn að hækka skilagjald á umbúðum til neytenda, eins og lög kveða á um. Umhverfisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp þess efnis að hækka skilagjald á umbúðum, um sex árum eftir að síðasta lagabreyting átti sér stað. Ráðherra ætlar hins vegar ekki að leggja til hækkun á skilagjaldi í 18 krónur, heldur 17 krónur. Sú upphæð er nákvæmlega sú sama og Endurvinnslan ehf lagði til að skilagjaldið yrði hækkað um. Hækkunin er því ekki í samræmi við lög. 

Fá sömu fjárhæð fyrir að endurvinna plast og að brenna það

Samkvæmt verðskrá Úrvinnslusjóðs fá endurvinnslufyrirtæki sama verð fyrir að endurvinna margar tegundir af plastumbúðum og fyrir að brenna það til orkuvinnslu. Engin fjárhagsleg hvatning er til staðar í kerfinu til að láta íslensk fyrirtæki senda margar plasttegundir til endurvinnslu. Sem dæmi má nefna frauðplast og plastfilmu. Úrvinnslugjald á frauðplasti hefur verið það sama síðan árið 2009 og engar áætlanir eru innan Úrvinnslusjóðs að reyna að koma því í endurvinnslu.

Eins og kom fram hér fyrr þá er það stjórn Úrvinnslusjóðs sem ákvarðar úrvinnslugjaldið, stjórn þar sem fjórir af sjö fulltrúum sitja fyrir hönd atvinnulífsins. Þeir sérfræðingar sem Stundin hefur rætt við furða sig á þessu fyrirkomulagi sem ríkir í dag innan sjóðsins. Lýsa þeir því svo að sjóðurinn tali um mikilvægi þess að eiga samtal við atvinnulífið, en í raun og veru sé um algjört eintal atvinnulífsins að ræða. Langan tíma taki fyrir sjóðinn að taka ákvarðanir vegna stöðugra breytinga innan endurvinnsluheimsins, ekki nokkra mánuði, heldur nokkur ár í mörgum tilfellum. Þá furða þeir sig einnig á því að sá ráðherra sem ákvarði úrvinnslugjald sé fjármálaráðherra, en ekki umhverfisráðherra. Sjáist þar augljóslega að tilgangur sjóðsins hafi ekkert með umhverfismál að gera, þar sem helsta tól sjóðsins til að hvetja til endurvinnslu sé í höndum fjármálaráðherra. 

Endurvinnslutölurnar eru ekki raunverulegar

Öllum sorpfyrirtækjum á Íslandi sem sjá um að þjónusta sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklinga, ber að skila tölum um úrgang til Úrvinnslusjóðs. Ekki er bara um tilkynningarskyldu að ræða, heldur skipta þessar tölur máli þegar kemur að því að fá greitt úr Úrvinnslusjóði. Samkvæmt verðskrá Úrvinnslusjóðs fær fyrirtæki, sem endurvinnur plast, 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið. Ákveði hins vegar fyrirtæki að senda plastið í brennslu, til orkuvinnslu, fær fyrirtækið 35 krónur. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar kemur fram að árið 2019 hafi 56% af öllu plasti sem var safnað verið sent til endurvinnslu.

En því miður er það ekki reyndin og árangurinn mun minni. Umhverfisstofnun byggir tölfræði sína á tölum frá fyrrnefndum Úrvinnslusjóði. Í samtali við Stundina segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, að hans eigin tölur stemmi ekki og einhver villa hljóti að vera þarna. Svo virðist vera að tölur allt til ársins 2011 séu að gefa ranga mynd af því hversu vel við Íslendingar erum að standa okkur í endurvinnslu á plasti. 

„Þær eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum“

Í ljós hefur komið að villan var einföld. Samkvæmt skilgreiningu Úrvinnslusjóðs er búið að endurvinna plast um leið og það er sent úr landi til úrvinnsluaðila erlendis. Skiptir þar engu máli hversu mikið af plasti útlendi úrvinnsluaðilinn nær að endurvinna. Til dæmis ef íslenskt fyrirtæki sendir 100 tonn af plasti til erlends úrvinnsluaðila teljast öll 100 tonnin af plasti vera endurunnin, þrátt fyrir að öll 100 tonnin séu svo á endanum send í brennslu eða jafnvel til þriðja heims ríkja. Ólafur segir að Úrvinnslusjóður sé að vinna í því að laga þetta og krefja íslensk fyrirtæki, sem senda plast út úr landi, um að fá að vita nákvæmlega hversu mikið er endurunnið og hversu mikið sé brennt til orkuvinnslu.

Samkvæmt verðskrám Úrvinnslusjóðs fá íslensk fyrirtæki 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið en eingöngu 35 krónur fyrir hvert kíló af plasti sem sent er í orkuvinnslu. Vegna þessa fá íslensk fyrirtæki alltaf greitt fyrir að senda plastið í endurvinnslu þrátt fyrir að langstærstur hluti plastsins rati aldrei í endurvinnslu. Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þessar endurvinnslutölur séu ekki raunverulegar. 

„Þær eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum,“ segir Birgitta hreint út.

Lögregla rannsakar helsta samstarfsaðilann í þremur löndum

Sorpa tekur við langstærstum hluta af öllu plasti sem kemur frá íslenskum heimilum. Árið 2018 tók Sorpa við 1.900 tonnum af plasti. Sorpa áætlar að um 30.000 tonn af plasti séu urðuð ár hvert á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins á Álfsnesi. 

Í svari til Stundarinnar segir Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu, að allt plast sem Sorpa safni fari til sænska endurvinnslufyrirtækisins Stena Recycling.

Samkvæmt öruggum heimildum Stundarinnar er hins vegar endastöð stórs hluta plastsins sem Sorpa sendir frá sér allt annað fyrirtæki, en það er sænska fyrirtækið Swerec. Í svari Helga kemur fram að Sorpa geti ekki útilokað að plast frá Sorpu hafi verið áframsent til Swerec. „Vera kann að plast sem SORPA sendi til Stena á tímabilinu hafi verið framsent til Swerec en SORPA hefur ekki upplýsingar um þetta,“ segir Helgi.

Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, staðfestir að Swerec sé endastöð stórs hluta plastsins frá Sorpu. Árið 2019 voru alls fjögur íslensk fyrirtæki sem sendu plast til Swerec. Stundin óskaði eftir að fá að vita hvaða íslensku fyrirtæki þetta væru sem væru að senda plast á Swerec. Neitaði Úrvinnslusjóður að svara því. 

„Við Ólafur vorum sammála um að gefa ekki nöfn þjónustuaðila sem hafa sent á einstaka ráðstöfunaraðila,“ segir í svari Úrvinnslusjóðs við beiðni Stundarinnar. 

Þá neitaði Úrvinnslusjóður einnig að segja til um hversu mikið magn af íslensku plasti var sent til Swerec. Blaðamaður Stundarinnar kærði þessa ákvörðun Úrvinnslusjóðs til kærunefndar upplýsingamála og ákvað þá Úrvinnslusjóður loks að birta nöfn fyrirtækjanna sem hafa sent plast til Swerec frá árunum 2015 til 2019.

Saga endurvinnslufyrirtækisins Swerec er ansi vafasöm, en fyrirtækið hefur verið kært til lögregluyfirvalda í Noregi og Svíþjóð, ásamt því að hafa verið sætt rannsókn í Lettlandi vegna starfshátta sinna.  

„Endurunnið“ plast sent í sementsverksmiðju til brennslu

Forsvarsmenn Swerec hafa sagst vera með eitt hæsta endurvinnsluhlutfall plasts í Evrópu, eða allt að 80%. Svo virðist sem að þessar tölur hafi verið uppspuni forsvarsmanna fyrirtækisins og hafi ekki átt sér neina stoð í raunveruleikanum samkvæmt ítarlegri skoðun Stundarinnar og Dagens Nyheter í Svíþjóð á starfsemi fyrirtækisins. Á þessum árum sendi Swerec tugi þúsunda tonna af plasti sem þeir sögðust vera að endurvinna til brennslu í Sementsverksmiðju í Gotlandi í Svíþjóð. Upp komst um svindlið árið 2015 og kærðu FTI, skilakerfi Svíþjóðar, og Grønt Punkt, skilakerfi Noregs, Swerec til lögregluyfirvalda í Noregi og Svíþjóð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að aðeins rúmlega 19% af plastinu var í raun endurunnið. 

Eftir að upp komst um svindl Swerec hætti norska skilakerfið Grønt punkt öllum viðskiptum við Swerec og tilkynnti brotið til norskra lögregluyfirvalda sem fóru með rannsókn málsins. Málið endaði svo með sátt á milli Grønt punkt og Swerec með greiðslu skaðabóta. Samkvæmt heimildum Stundarinnar þurfti Swerec að greiða tugi milljóna norskra króna í skaðabætur til Grønt punkt vegna blekkinganna. Kari-Lill Ljøstad, yfirmaður upplýsingasviðs Grønt punkt, segir í samtali við Stundina að í sáttarsamningnum sem gerður var sé þagnarákvæði og má því Grønt punkt ekki tjá sig frekar um málið. Í svari til Stundarinnar er sömu söguna að segja af sænska skilakerfinu FTI, því í sáttarsamningi þeirra við Swerec var einnig þagnarákvæði að finna. 

Norðmenn þurftu að lagfæra alla tölfræði vegna blekkinganna

Eftir að upp komst um blekkingar Swerec þurfti norska skilakerfið Grønt punkt að leiðrétta alla sína tölfræði um endurvinnsluhlutfall plasts. Þá sagði Karolina Skog, þáverandi umhverfisráðherra Svíþjóðar, að það væri algjörlega óviðunandi að tölur sem neytendur treystu, væru rangar. Þá sagði hún enn fremur að ef almenningur bæri ekki trausts til kerfisins gæti það haft í för með sér að fólk hætti að flokka plastið sitt. 

„Íbúum sem flokka og skila plasti er lofað að það verði endurunnið. Ef eitthvað annað er gert er það ekki viðunandi,“ sagði hún.  

Á þessum tíma voru sex íslensk fyrirtæki að senda plast til Swerec. Árið 2019 voru fjögur íslensk fyrirtæki enn að senda plast til fyrirtækisins. Litlar upplýsingar er að finna um samstarf íslenskra fyrirtækja við Swerec. Í raun er það eina sem finnst um Swerec á íslenskum heimasíðum á heimasíðu Kópavogsbæjar. Þar er því haldið fram að Swerec sé eitt fullkomnasta plastendurvinnslufyrirtæki í Evrópu. „Plastumbúðir eru baggaðar og sendar í gámi til Swerec í Svíþjóð, sem er eitt stærsta og fullkomnasta plastendurvinnslufyrirtæki í Evrópu. Plastið er flokkað, þvegið og hakkað og síðan selt til plastfyrirtækja sem framleiða nýjar vörur úr plastinu“, segir nákvæmlega í textanum sem finna má á heimasíðunni.  Þetta eru fullyrðingar sem standast tæplega nánari skoðun.

Í samtali við Stundina staðfestir Umhverfisstofnun að engin tilkynning hafi borist frá Úrvinnslusjóði vegna svindlsins, en þeir bera ábyrgð á að skila inn réttum tölum til Umhverfisstofnunar.

Blaðamaður spurði Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, hvort tölur hefðu verið lagaðar hjá Úrvinnslusjóði eftir að upp komst um svindlið hjá Swerec. 

„Swerec-svindlið þarna, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvernig það var þannig ég ætla svo sem ekki alveg að úttala mig um það.“

Aðspurður hvort Úrvinnslusjóður hafi vitað um svindlið játar Ólafur því. „Það hérna, það vissi ég af, að þeir voru að fabúlera einhverjar tölur þarna.“

Hann segir að ekki hafi verið brugðist við og tölfræðin ekki leiðrétt. „Nei, það gerðum við ekki,“ segir Ólafur. „Á þessum tíma reikna ég með að við höfum verið að horfa á að um 50% hafi verið að fara í endurvinnslu.“ Í raun var sú tala mun lægri og samkvæmt rannsókn norska skilakerfisins kom í ljós að eingöngu um 19% af öllu plasti sem sent var til Swerec var í raun endurunnið, afgangurinn var brenndur eða sendur annað.

Íslenskt plast dreifist um sænskar sveitir

Mörg þúsund tonn af plasti, sem var að stórum hluta frá Íslandi, voru send frá Swerec til nýstofnaðs endurvinnslufyrirtækis í Påryd árið 2017. Bærinn er í Suður-Svíþjóð rétt austan við Kalmar. Eigandi hins nýstofnaða fyrirtækis ætlaði sér að endurvinna plastið með því að búa til olíu úr því og selja. Saga stofnanda fyrirtækisins er ansi skrautleg. Árið 2014 var hann dæmdur fyrir bókhaldsbrot. Það sama ár var hann ákærður fyrir að kúga fé út úr eldri mönnum sem höfðu halað niður klámmyndum.

Eigandinn hafði enga reynslu af rekstri endurvinnslufyrirtækja, en hafði komið að rekstri annarra félaga í fortíðinni sem öll höfðu farið í þrot. Þrátt fyrir að fyrirtækið hefði enga reynslu og engin tæki til að endurvinna úrganginn sendi Swerec þeim 1.300 tonn af plasti, sem var að stórum hluta íslenskt. Peter Håkansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Swerec, sagði í samtali við Dagens Nyheter á sínum tíma að plastið hefði verið sent til fyrirtækisins í Påryd í gegnum millilið. Þá sagði hann að hann hafi ekki vitað um fortíð eiganda fyrirtækisins. 

„Við vissum ekkert um fortíð þessa manns,“ sagði Peter.

Árið 2018 fór fyrirtækið í Påryd í þrot, en það skildi eftir allt plastið, þar sem það situr enn. Plastið fauk um nágrennið og kvörtuðu nágrannar ítrekað undan þeim óþrifnaði sem var vegna þess. Þá kvörtuðu íbúar í nágrenninu einnig vegna mikils rottugangs sem fylgdi plastruslinu. 

Í svari til Stundarinnar segir sveitarfélagið Kalmar að plastið sé enn á staðnum, tæplega þremur árum eftir að Swerec sendi það þangað. Sveitarfélagið segir að það sé að vísu búið að færa það inn í skemmu sem er á svæðinu, til þess að það mengi ekki frekar út frá sér. Nýr eigandi er nú að lóðinni þar sem plastið er og hafði hann frest til að losa sig við það fyrir sumarið 2020. Sá frestur hefur nú verið framlengdur til sumarsins 2021 vegna þess ástands sem COVID-19 hefur valdið. Íslenska plastið mun því sitja lengur í sænska bænum, en það mun þá hafa setið þar í yfir 4 ár. Sveitarfélagið staðfestir að plastið verði aldrei endurunnið heldur muni það allt verða sent í orkuvinnslu. Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, segir í samtali við Stundina að hann hafi ekki vitað af þessu íslenska plasti í Påryd.

Ódýrara fyrir íslensk fyrirtæki að senda plastið til Swerec

Þegar Swerec fær plast frá íslenskum fyrirtækjum eignast Swerec plastið. Þar af leiðandi færist ábyrgðin á plastinu af íslensku fyrirtækjunum yfir á Swerec. Ólafur segir að honum finnist þetta óþægilegt kerfi, kerfi sem Úrvinnslusjóður hefur sjálfur sett upp.

„Mér finnst óþægilegt að þessi aðili sem flokkar, sé í raun og veru að kaupa efnið með neikvæðu verði, við skulum bara orða það þannig. Hann er að rukka fyrir að taka það. Svo ræðst það af því hvað er hagkvæmast fyrir hann að gera í eftirvinnslunni. Þannig vinnur Swerec.“ 

Samkvæmt heimildum Stundarinnar taka þýsk endurvinnslufyrirtæki mun hærra verð fyrir að taka á móti plasti en Swerec.

Blaðamaður: „En þýsku endurvinnslufyrirtækin vinna ekki þannig?“

„Nei, þetta þýska fyrirtæki sem við erum með það er eins og ... ég heyri það á framkvæmdastjóra Swerec að hann ætlar sér að komast í þessa stöðu síðar á árinu eða í byrjun næsta árs.“ 

Það er því núna – og hefur verið undanfarin ár – fjárhagslega hagkvæmara fyrir íslensk fyrirtæki að senda íslenska plastið til Swerec heldur en til þýskra plastendurvinnslufyrirtækja, sem ná mun hærra endurvinnsluhlutfalli en Swerec.

Swerec hefur lofað að bæta sig en hefur ekki skilað árangri

Eftir að upp komst um svindlið hjá Swerec lofaði fyrirtækið betrumbótum. Sænska skilakerfið FTI hélt áfram takmörkuðum viðskiptum við Swerec með þungum skilyrðum, á meðan norska skilakerfið, Grønt punkt, hætti öllum viðskiptum við fyrirtækið. Eftir svindlið ákvað FTI að byggja sína eigin verksmiðju sem mun endurvinna plastið sem kemur frá sænska skilakerfinu. Grönt punkt sendi eina prufusendingu á Swerec, en réði norskt ráðgjafarfyrirtæki til þess að hafa náið eftirlit með vinnslunni. Í samtali við Stundina segir Kari-Lill Ljøstad, upplýsingafulltrúi skilakerfisins, að niðurstaðan úr þeirri sendingu hafi valdið þeim vonbrigðum.

„Þeir voru að ná rétt undir 20% endurvinnsluhlutfalli“

„Þeir voru að ná rétt undir 20% endurvinnsluhlutfalli. Það er ekki nóg fyrir okkur þar sem við erum með kröfu á 50% endurvinnsluhlutfall. Þar af leiðandi munum við ekki vera í frekari viðskiptum við Swerec,“ sagði Kari-Lil.

Swerec tengt stórfelldum bruna á plasti í Lettlandi

Strandbærinn Jurmala í Lettlandi var einn vinsælasti ferðamannastaður fyrir háttsetta leiðtoga kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Meðal þeirra sem eyddu sumarfríum sínum þar voru Leoníd Bresnjev og Nikita Krústsjov, en báðir voru þeir aðalritarar kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Hvítu sandstrandir Jurmala ásamt gífurlegri náttúrufegurð laða að sér hundruð þúsunda gesti árlega. En það eru ekki vinsældir þessa ferðamannastaðar sem komu Jurmala í umræðuna í Svíþjóð. Því ferðamannasumarið 2017 fylltist heiðskír himinninn af þykkum svörtum reyk.

Upptök reykjarins mátti rekja til lóðar sem tvö af plastendurvinnslufyrirtækjum Lettlands áttu. Á lóðinni voru um 23 þúsund tonn af plasti sem voru að brenna. Slökkvilið frá öllum nágrannasveitarfélögum voru kölluð á vettvang til að reyna að slökkva eld á 31.500 fermetra svæði. En þau réðu lítið við eldinn og stóð bruninn yfir í meira en 12 klukkustundir, spúandi kolsvörtum reyk og eiturgufum yfir íbúa og ferðamenn á svæðinu. Var eldurinn svo mikill að lettneski herinn var kallaður út til að aðstoða við slökkvistarfið. Þá leiðbeindu yfirvöld bændum á svæðinu í kring að neyta ekki grænmetis sem ræktað var á svæðinu vegna þess gífurlega mikla magns eiturefna sem mátti finna í sótsvörtum reyknum.

Lettnesk lögregluyfirvöld ásamt umhverfisstofnun Lettlands hófu um leið rannsókn á málinu. Stundin hefur undir höndum gögn frá lettneskum lögregluyfirvöldum, ásamt lettnesku umhverfisstofnuninni. Sýna þau að fjórum dögum fyrir brunann var búið að tilkynna forsvarsmönnum fyrirtækjanna tveggja sem geymdu plast á lóðinni að þeir yrðu að fjarlægja allt plast sem var á staðnum. Þá leiddi rannsóknin einnig í ljós að fyrirtækin hefðu ekki haft tilsvarandi leyfi til að geyma svo mikið plast á staðnum. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að augljóst var að um íkveikju væri að ræða, en forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja neituðu að hafa átt þátt í brunanum.

Umhverfisstofnun Lettlands kallaði brunann eitt af verstu umhverfisslysum í sögu landsins. Mikil mengun varð á grunnvatni á svæðinu sem mun hafa áhrif á íbúa svæðisins. Hreinsunarstörf hófust stuttu eftir að búið var að slökkva eldinn, en kostnaður vegna hreinsunarstarfsins var um 170 milljónir íslenskra króna samkvæmt umhverfisstofnun Lettlands. Samkvæmt niðurstöðu lögreglurannsóknar lettneskra stjórnvalda kom í ljós að plast frá sænska endurvinnslufyrirtækinu Swerec var að finna á lóðinni. Stjórnvöld í Lettlandi óskuðu eftir aðstoð sænskra lögregluyfirvalda við rannsókn málsins ásamt sænsku umhverfisstofnuninni. Sænska lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum Swerec og lagði hald á tölvur fyrirtækisins ásamt því að starfsmenn Swerec voru yfirheyrðir. Í ljós kom að af þeim 23 þúsundum tonna af plasti sem brunnu í Jurmala voru um 11 þúsund tonn frá Swerec. Þá kom í ljós að pappírar voru falsaðir um hver var raunverulegur móttökuaðili á plasti frá Swerec.

Í samtali við Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, hafði hann enga vitneskju um þetta atvik hjá einum stærsta móttökuaðilanum á íslensku plasti. Aðspurður hvort þetta hefði getað haft einhver áhrif á samþykki Úrvinnslusjóðs á Swerec sem samþykktum úrvinnsluaðila gat Ólafur ekki svarað því, en sagðist ætla að ræða við Swerec um málið.

Sjávarútvegurinn með einstakan sérsamning við ríkið

Samningur Samtaka félaga í sjávarútvegi (SFS) við Úrvinnslusjóð var gerður árið 2005, eða fyrir 15 árum síðan. Með samningi SFS greiða fyrirtæki í sjávarútvegi ekkert úrvinnslugjald á veiðarfærum úr plasti. Eins og hefur komið fram hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fulltrúa í Úrvinnslusjóði, þrátt fyrir að sjávarútvegurinn greiði lítið í sjóðinn sjálfan í úrvinnslugjald. Í samningnum kemur fram að Úrvinnslusjóði sé ekki heimilt að segja upp samningnum við SFS nema að samningsbrot eigi sér stað. Í fundargerðum Úrvinnslusjóðs má sjá að umræða skapaðist, snemma á þessu ári, að endurskoða samning SFS. Voru það fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vildu að samningurinn væri endurskoðaður. Í fundargerðum má sjá hvar fulltrúi SFS og stjórnarmaður í stjórn Úrvinnslusjóðs, kemur með þau rök að ein ástæða þess að veiðarfæri úr plasti ættu ekki að bera úrvinnsluhjald, sé vegna þess að það sé ósanngjarnt gagnvart innlendum framleiðendum á veiðarfærum þar sem meðlimir samtakana myndu kaupa veiðarfæri erlendis án gjalds og koma með þau svo til landsins án þess að borga neitt gjald. Samkvæmt lögum ber hins vegar öllum að borga gjald af öllum innfluttum vörum sem koma til landsins og ættu því útgerðarfyrirtæki að tilkynna kaup á veiðarfærum þegar komið er til landsins með ný veiðarfæri. 

„HH (Hildur Hauksdóttir, fulltrúi SFS í stjórn Úrvinnslusjóðs) sagði frá því að ef að til gjaldtöku hefði komið hefði það haft erfiðleika í för fyrir innlenda framleiðendur veiðarfæra þar sem að líkur hafi verið á því að útgerðir hefðu keypt veiðarfæri erlendis án gjalds og komið með til landsins. Það hefðu verið erfitt að hafa eftirlit með því hvort að veiðarfærin væru ný eða notuð.“

Í þau 15 ár sem þessi samningur hefur verið í gildi á milli SFS og Úrvinnslusjóðs, hefur aldrei verið gerð breyting á samningnum eða markmiðum samningsins verið breytt. Samkvæmt markmiðum samningsins eiga 60% af öllum veiðarfærum úr gerviefnum á Íslandi að vera send í endurvinnslu. Áætlað er samkvæmt samningnum að um 1.100 tonn af veiðarfærum verði að úrgangi árlega. Endurvinnslumarkmiðin sem sett voru fyrir árið 2008 hafa ekki breyst síðan. Þá hefur áætlað magn af veiðarfærum sem verða að úrgangi árlega ekki breyst síðan 2005.

Þegar tölur frá Umhverfisstofnun eru skoðaðar virðist það svo að SFS sé ekki að ná markmiðum samningsins. Endurvinnslumarkmiðin frá 2008 eru ekki að nást og þá sýna tölurnar að mun meira en 1.100 tonn af veiðarfærum verða að úrgangi árlega. Á árunum 2015 til 2018 fóru 7.452 tonn af veiðarfærum annaðhvort í endurvinnslu eða urðun. Samkvæmt samningi SFS við Úrvinnslusjóð ættu eingöngu 4.400 tonn af veiðarfærum að verða að úrgangi. Er því um að ræða 70% meira magn sem fellur til af veiðarfærum en samningur SFS við Úrvinnslusjóð segir til um.

Þá sýna tölur Umhverfisstofnunar að endurvinnslumarkmið samningsins eru ekki að nást. Árið 2018 voru 975 tonn send til endurvinnslu en 935 tonn voru urðuð á urðunarstöðum um allt land. Samkvæmt þessum tölum náðist eingöngu að senda 51% af veiðarfærum í endurvinnslu. Árið 2017 náðist markmiðið rétt svo, eða 62%. Árið 2016 náðust markmið ekki, eða eingöngu 53% af endurvinnslumarkmiðum.

Í öllum tilvikum þar sem Stundin óskaði eftir gögnum frá Úrvinnslusjóði vegna vinnslu þessarar fréttar, settu starfsmenn sjóðsins starfsmann SFS inn í tölvupóstsamskiptin í svörum sínum. Virðist vera mjög náið samstarf á milli þessara tveggja aðila þegar kemur að málefnum Úrvinnslusjóðs.

Setja sérstök skilyrði fyrir móttöku veiðarfæra

Í samningi SFS við Úrvinnslusjóð eru sett afar ströng ákvæði um hreinleika veiðarfæra sem SFS getur tekið við. Öll þau veiðarfæri sem uppfylla ekki skilyrði SFS eru því að langstærstum hluta urðuð á urðunarstöðum um allt land. Ekki í neinum öðrum af þeim tugum úrgangsflokka sem Úrvinnslusjóður sér um, eru sett sérstök skilyrði um hreinleika. Er því samningur SFS við sjóðinn einstakur þegar kemur að hreinleika úrgangs.

Þeir sérfræðingar sem Stundin hefur rætt við furða sig á þessum ákvæðum samningsins. Að SFS – með óuppsegjanlegan samning við Úrvinnslusjóð – geti ákveðið nákvæmlega hvaða veiðarfærum þau taka við og hvaða veiðarfærum þau taki ekki við. Ódýrast er að losa sig við hreinan úrgang, en dýrast er að losa sig við úrgang sem inniheldur óhreinindi.

Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins, segir að þegar hann safni saman veiðarfærum af ströndum landsins sé bara einn farvegur fyrir þau – að urða þau. „Það tekur enginn við þessu, þetta fer bara allt saman á haugana,“ segir hann.

Í umhverfisskýrslu SFS frá árinu 2017 er einmitt talað um að markmið samtakanna með samningi þess við Úrvinnslusjóð sé að halda í lágmarki kostnaði sem fylgir förgun veiðarfæra.

„Markmið samtakanna með samningnum er eingöngu að nýta ofangreinda lagaheimild og leitast þannig við að lágmarka áhrif á umhverfið og halda í lágmarki þeim kostnaði sem fylgir förgun veiðarfæraúrgangs“, segir orðrétt í umhverfisskýrslunni.

SFS gefur út leiðbeiningar til meðlima sinna um hvernig eigi að flokka veiðarfæri. Þar sést hvar SFS segir meðlimum sínum að senda veiðarfæri úr gerviefnum beint í urðun. Er það augljóst brot á samningi SFS við Úrvinnslusjóð, því samkvæmt honum ber SFS ábyrgð á öllum veiðarfærum úr plasti, ekki bara sumum eða bara pörtum af veiðarfærum. 

Öll veiðarfæri á Grundarfirði send í bæinn til að urða

Á Grundarfjarðarhöfn safnast um þrír stórir 30 fermetra opnir ruslagámar af netum á ári hverju. Sjómenn og starfsmenn hafnarinnar ganga vel frá netunum og passa að engir málmar séu í þeim, en málmarnir eru settir í sérgám sem er sendur í endurvinnslu hjá Íslenska gámafélaginu. Aðra sögu er að segja af veiðarfærunum sjálfum, sem eru úr plasti. Þrátt fyrir að netin séu nánast án allra aðskotahluta, eru þau öll send til Reykjavíkur til urðunar á Álfsnesi. Hafsteinn Garðarson, hafnarstjóri Grundarfjarðarhafnar, segir í samtali við Stundina að þetta fyrirkomulag hafi átt sér stað í að minnsta kosti tíu ár. „Ástæða þess að veiðarfærin eru send til urðunar í Reykjavík er sú að urðunarstaðurinn á Fíflholtum neitar að taka við þeim, þar sem sveitarfélagið telur að það sé á ábyrgð SFS að taka við netunum, en ekki á ábyrgð sveitarfélaganna,“ segir Hafsteinn.

Þorsteinn Eyþórsson, starfsmaður hjá Sorpurðun Vesturlands, staðfestir þetta í samtali við Stundina. Segir hann að urðunarstaðurinn taki ekki við veiðarfærunum þar sem þeir telja að þau eigi heima í endurvinnslu og eigi því ekki að urða þau. Þorsteinn segir að um 30 tonn af veiðarfærum séu á urðunarstaðnum sem SFS lofaði að taka árið 2018. Ekki hefur hins vegar verið staðið við það loforð og eru veiðarfærin enn á sínum stað. Þetta staðfestir Guðlaugur G. Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs.

„Það eru hreinar línur, að þegar SFS kom sér undan að greiða úrvinnslugjald, þá áttu þeir að sjá um veiðarfæraúrgang. En síðan hefur reyndin verið sú að þeir fleyta rjómann ofan af, þannig sé ég þetta,“ segir Þorsteinn.

Stundin hefur rætt við fjölda hafnarstjóra um allt land ásamt því að hafa rætt við stöðvarstjóra urðunarstaða. Sagan er nánast alltaf sú sama, veiðarfæri sem uppfylla ekki skilyrði sérsamnings SFS og Úrvinnslusjóðs um hreinleika enda á ruslahaugunum. Ein meginástæða þess að svo mikið magn veiðarfæra endar á haugunum er kostnaður, en mun dýrara er að senda veiðarfærin í endurvinnslu eða endurnýtingu erlendis en að urða þau hér á landi.  Samkvæmt verðskrá Sorpu, kostar eingöngu 18 krónur á hvert kíló af veiðarfærum sem urðað er. Það er umtalsvert ódýrara heldur en að senda plast án úrvinnslugjalds til urðunar hjá Sorpu, en það kostar um helmingi meira, eða 35 krónur á hvert kíló. Það plast hins vegar er sent til útlanda og kostar því meira að losa þann úrgang. 

Blaðamaður spurði Guðlaug hvort hrein og flokkuð veiðarfæri færu beint í urðun. „Já, já,“ svaraði Guðlaugur. „Við ráðum ekki við þetta allt saman. Það er ekkert bannað að urða þetta. Það er nú það sem menn gleyma. Það er ekkert bannað að urða veiðarfæri.“

„Það er ekkert bannað að urða veiðarfæri“

Blaðamaður: En á ekki SFS að bera ábyrgð á því að koma þessu í réttan farveg?

„Jú, jú. Netin sem fara inn í gáminn í höfninni. Ég ætla ekkert að segja um hvað þeir gera við það. En að það fari í urðun á Álfsnesi, það finnst mér líka mjög skrýtið vegna þess að það er urðunarstaður þarna hjá þeim í Fíflholtum.“

Blaðamaður: Þeir á urðunarstaðnum Fíflholtum einmitt neita að taka við veiðarfærum þar.

„Já, en af hverju eru þeir hjá Grundarfjarðarhöfn að senda þetta í urðun?“ spurði Guðlaugur blaðamann Stundarinnar. 

Blaðamaður: Telur þú að SFS sé að uppfylla samning sinn við Úrvinnslusjóð með því að sækja ekki úrgang sem þeir bera ábyrgð á?

„Nei, þá eru þeir ekki að gera það.“

Íslenskur sjávarútvegur tilkynnir ekki týnd veiðarfæri úr plasti

Samkvæmt reglugerðum sjávarútvegsráðherra ber fiskiskipum að tilkynna til Landhelgisgæslunnar ef þau týna veiðarfærum í sjóinn. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur standi sig betur en flestar aðrar þjóðir, því engar tilkynningar um týnd veiðarfæri hafa borist Landhelgisgæslunni frá því að reglugerðir sjávarútvegsráðherra voru samþykktar. Frá árinu 2016 hafa eingöngu tvö tilfelli verið skráð hjá Fiskistofu, en þær tilkynningar komu ekki frá útgerðunum sjálfum, heldur frá eftirlitsmönnum Fiskistofu sem voru um borð í skipunum þegar veiðarfærin týndust.

Týni fiskiskip veiðarfærum, og sækja þau ekki sjálf, skulu þau vera sótt á kostnað útgerðarinnar sem gerir út skipið. Veiðarfæri finnast víða um strendur landsins og hefur meðal annars Tómas Knútsson, stofanandi Bláa hersins, fundið gífurlegt magn af veiðarfærum. Erfitt er að vita hvaðan þau koma, hvort um sé að ræða veiðarfæri af íslenskum skipum eða erlendum, þar sem stærstur hluti veiðarfæranna er ekki merktur. Finnist hins vegar veiðarfæri sem eru merkt ber eiganda veiðarfæranna að greiða fyrir söfnun á þeim. Ný reglugerð hefur nú verið samþykkt af sjávarútvegsráðherra sem gerir útgerðum skylt að merkja veiðarfæri sín á þremur stöðum í stað eins staðar sem gamlar reglugerðir sögðu til um. Er talið að með þeirri breytingu megi rekja veiðarfæri á auðveldari máta sem finnast á ströndum landsins og fjarlægja þau á kostnað þeirrar útgerðar sem er merkt veiðarfærunum. 

Bann á einnota plasti mun ekki hafa áhrif á plastframleiðendur

Evrópusambandið hefur samþykkt bann við ákveðnum einnota plastvörum. Ísland tók upp regluverk Evrópusambandsins nú í sumar og gildir því bannið einnig hér á landi. Bannið gildir fyrir baðmullarp­inna, hnífa­pör, diska, sogrör, hrærip­inna fyr­ir drykkjar­vör­ur, prik sem ætluð eru til að festa við blöðrur, matarílát úr frauðplasti og drykkjarílát úr frauðplasti. Bannið gildir þó ekki fyrir plast­vörur sem notaðar eru til lækninga.

Plastiðnaðurinn er ekki áhyggjufullur vegna þessa banns Evrópusambandsins, því fjárfestingar í plastframleiðslu hafa aukist um hundruð milljarða króna undanfarin ár. Ekki er talið að bannið muni hafa mikil áhrif á plastframleiðslu í heiminum, því talið er að framleiðsla á plasti muni þrefaldast frá deginum í dag til ársins 2050. Plastiðnaðurinn hefur með grimmri markaðssetningu og vöruþróun náð að taka yfir umbúðamarkaði sem hafa undanfarna áratugi verið í höndum álframleiðenda, glerframleiðenda og pappírsframleiðenda.  Plastið er því ekki á útleið á neytendamarkaði á næstu áratugum, heldur þvert á móti, það er á blússandi siglingu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Óþolandi að fólk sitji undir ákúrum vegna beiðna um fjárhagsaðstoð
Fréttir

Óþol­andi að fólk sitji und­ir ákúr­um vegna beiðna um fjár­hags­að­stoð

Fólk þarf meira en nauð­þurft­ir til að lifa með sæmd, að mati Ingi­bjarg­ar Sæ­dís­ar, sem sjálf ólst upp í sára­fá­tækt. Eng­inn ætti að þurfa að sitja und­ir hæðn­is­leg­um at­huga­semd­um eða skömm­um fyr­ir að óska eft­ir stuðn­ingi.
Ingibjörg Sædís: Ólst upp við sárafátækt
Eigin Konur#116

Ingi­björg Sæ­dís: Ólst upp við sára­fá­tækt

Ingi­björg Sæ­dís ólst upp við mikla fá­tækt þeg­ar hún var yngri. Hún bjó hjá for­eldri sem gat ekki unn­ið vegna and­legra og lík­am­legra veik­inda og var á sama tíma mót­fall­ið því að biðja um að­stoð. Hún seg­ist horfa að­dá­un­ar­aug­um á fólk sem bið­ur um að­stoð á in­ter­net­inu fyr­ir börn­in sín og vildi óska að fað­ir henn­ar hefði gert það sama.
„... sem við höfðum bara einfaldlega ekki séð fyrir“
Illugi Jökulsson
Pistill

Illugi Jökulsson

„... sem við höfð­um bara ein­fald­lega ekki séð fyr­ir“

Fyrsta nafn­ið sem all­ir blaða­menn leit­uðu að í kaup­endal­ista Ís­lands­banka var Bene­dikt Sveins­son. En Katrínu Jak­obs­dótt­ur hafði bara ekki dott­ið það í hug!
Söguleg mótmæli í Kína: „Þið getið ekki ritskoðað það sem er ósagt”
Fréttir

Sögu­leg mót­mæli í Kína: „Þið get­ið ekki rit­skoð­að það sem er ósagt”

Ára­löng og hörð Covid-stefna kín­verskra yf­ir­valda er und­ir­rót þeirr­ar öldu hljóð­látra mót­mæla sem hafa far­ið fram í mörg­um borga lands­ins. Mót­mæl­in eru sögu­leg í landi þar sem það eitt að gagn­rýna stjórn­völd, hvað þá upp­hátt eða í hópi, hef­ur kostað fjölda manna frels­ið. Í anda þess eru mót­mæla­spjöld­in auð og kröf­urn­ar sett­ar fram með þögn.
Grannt fylgst með brottkasti smábáta en togaraflotinn stikkfrí
Fréttir

Grannt fylgst með brott­kasti smá­báta en tog­ara­flot­inn stikk­frí

Eft­ir­lit Fiski­stofu með brott­kasti og ólög­leg­um veið­um bein­ist fyrst og fremst að smá­bát­um. Tog­ara­flot­inn hef­ur al­veg slopp­ið við dróna­eft­ir­lit á þessu ári. Gef­ur ranga mynd, að sögn tals­manns smá­báta­sjó­manna. Brott­kast mun meira en áð­ur var tal­ið.
Í upphafi var orðið
GagnrýniEden

Í upp­hafi var orð­ið

Mað­ur er alltaf rík­ari eft­ir að hafa geng­ið inn í sagna­heim Auð­ar Övu. Text­inn er fal­leg­ur og blátt áfram, ein­hvern veg­inn heim­il­is­leg­ur, skrif­ar Þór­unn Hrefna Sig­ur­jóns­dótt­ir.
Samstarf VG og Sjálfstæðisflokks: Það sem er gott og slæmt við að „éta skít“
Greining

Sam­starf VG og Sjálf­stæð­is­flokks: Það sem er gott og slæmt við að „éta skít“

Bæði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráð­herra og Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra segja rík­is­stjórn­ar­sam­starf­ið hafa geng­ið vel en að bæði VG og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi þurft að gera nauð­syn­leg­ar „mála­miðl­an­ir“ í póli­tísku sam­starfi. Þau telja líka bæði að flokk­arn­ir hafi náð sínu fram í sam­starf­inu. Mun­ur­inn á flokk­un­um tveim­ur er hins veg­ar með­al ann­ars sá að VG hef­ur misst mik­ið fylgi í kosn­ing­um og stuðn­ing í skoð­ana­könn­un­um á með­an Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hef­ur ekki gert það.
Ennþá plast um allt á friðlýstu svæði í Krýsuvík
FréttirPlastið fundið

Enn­þá plast um allt á frið­lýstu svæði í Krýsu­vík

Enn má finna plast á frið­lýstu svæði í Krýsu­vík eft­ir að Terra los­aði þar plast­meng­aða moltu. Fyr­ir­tæk­ið sagð­ist hafa hreins­að allt svæð­ið. Plast­ið hef­ur nú veðr­ast og brotn­að í örplast sem er nán­ast ómögu­legt að hreinsa.
Vandasamt að leysa Init-klúður lífeyrissjóða
Fréttir

Vanda­samt að leysa Init-klúð­ur líf­eyr­is­sjóða

Yf­ir­töku tíu líf­eyr­is­sjóða á mik­il­vægu kerfi sem held­ur ut­an um líf­eyr­is­rétt­indi og fjár­fest­ing­ar er nú lok­ið. Marga mán­uði tók að losa sig frá hug­bún­að­ar­fyr­ir­tæki sem sjóð­irn­ir segja hafa brot­ið samn­inga, með um­fangs­mikl­um þjón­ustu­kaup­um af fyr­ir­tækj­um starfs­manna þess.
Unglingarússíbani ... dauðans!
GagnrýniDrengurinn með ljáinn

Ung­linga­rúss­íbani ... dauð­ans!

Dreng­ur­inn með ljá­inn er skemmti­leg ung­menna­bók um missi, bæld­ar til­finn­ing­ar og hvaða vand­kvæði geta fylgt því að fara í sleik ef þú ert með bráða­of­næmi fyr­ir eggj­um. Hún er skrif­uð af hlýju, al­úð og virð­ingu fyr­ir les­enda­hópn­um, skrif­ar Sal­vör Gull­brá Þór­ar­ins­dótt­ir.
Kerling í aðalhlutverki
MenningDrag plóg þinn yfir bein hinna dauðu

Kerl­ing í að­al­hlut­verki

Í bók­inni Drag plóg þinn yf­ir bein hinna dauðu eft­ir nó­bels­verð­launa­skáld­ið Olgu Tok­arczuk er spurn­ing­um eins og: hvaða lík­am­ar eru rétt­dræp­ir? og: hverj­ir hafa völd til að ákveða það? velt upp. Bók­in olli mikl­um usla þeg­ar hún kom út í heimalandi höf­und­ar Póllandi, í landi þar sem stjórn­völd hafa tek­ið til dæm­is ákvarð­ana­rétt yf­ir líköm­um kvenna í sín­ar hend­ur.
Eigandi laxeldisins á Austfjörðum einn af 27 auðmönnum sem flýr til Sviss vegna skatta
FréttirLaxeldi

Eig­andi lax­eld­is­ins á Aust­fjörð­um einn af 27 auð­mönn­um sem flýr til Sviss vegna skatta

Norsk­ir auð­menn flýja aukna skatt­heimtu í Nor­egi í hrönn­um og setj­ast að í Sviss. Með­al þess­ara auð­manna er And­ers Måsøval sem er einn stærsti eig­andi ís­lensks lax­eld­is í gegn­um fyr­ir­tæk­ið Laxa. Á sama tíma leið­ir auk­in skatt­heimta á lax­eld­is­fyr­ir­tæki í Nor­egi til þess að þau hætta við fjár­fest­ing­ar, með­al ann­ars fyr­ir­tæk­in sem eiga obb­ann í lax­eld­inu á Ís­landi.