Þessi grein er meira en 5 ára gömul.

Flett ofan af Björgólfsfeðgum: Reikningur í skattaskjóli og bankahólf opnuð í hruninu

Gögn frá lög­manns­stof­unni Mossack Fon­seca varpa ljósi á ótrú­lega um­fangs­mik­il við­skipti feðg­anna Björgólfs Guð­munds­son­ar og Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar í skatta­skjól­um fyr­ir og eft­ir hrun­ið 2008. Feðg­arn­ir tengd­ir meira en 50 fé­lög­um. Dótt­ir Björgólfs Guð­munds­son­ar opn­aði banka­reikn­ing og banka­hólf í Sviss og neit­ar að segja af hverju. Óþekkt lán­veit­ing upp á 3,6 millj­arða til Tor­tóla­fé­lags. Fé­lag sem Björgólf­ur eldri stýrði fékk millj­arð í lán sem aldrei fékkst greitt til baka. Nær öll fyr­ir­tæki Björgólfs Thors eru beint eða óbeint í skatta­skjóli.

Gögn frá lög­manns­stof­unni Mossack Fon­seca varpa ljósi á ótrú­lega um­fangs­mik­il við­skipti feðg­anna Björgólfs Guð­munds­son­ar og Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar í skatta­skjól­um fyr­ir og eft­ir hrun­ið 2008. Feðg­arn­ir tengd­ir meira en 50 fé­lög­um. Dótt­ir Björgólfs Guð­munds­son­ar opn­aði banka­reikn­ing og banka­hólf í Sviss og neit­ar að segja af hverju. Óþekkt lán­veit­ing upp á 3,6 millj­arða til Tor­tóla­fé­lags. Fé­lag sem Björgólf­ur eldri stýrði fékk millj­arð í lán sem aldrei fékkst greitt til baka. Nær öll fyr­ir­tæki Björgólfs Thors eru beint eða óbeint í skatta­skjóli.

„Athugið vinsamlegast að þið hafið óskað eftir að Björgólfur Guðmundsson fái prókúruumboð fyrir félagið Ranpod Ltd. Mossack Fonseca á Bresku Jómfrúareyjum hefur kannað bakgrunn viðskiptavinarins og fundist hafa upplýsingar sem tengja hann við efnahagsbrot og fjársvik,“ sagði í tölvupósti frá starfsmanni panamaísku lögmannsstofunnar Mossack Fonseca í byrjun nóvember árið 2008, tæpum mánuði eftir hrun Landsbanka Íslands. Starfsmaðurinn ýtti á eftir því að gengið yrði frá prókúrumboði fyrir Björgólf Guðmundssson, stjórnarformann og stærsta eiganda Landsbanka Íslands, í Tortólafélaginu Ranpod Ltd. sem skráð var í eigu dóttur Björgólfs, Evelyn Bentínu Björgólfsdóttur.  Stjórnarmenn félagsins Ranpod voru tvö félög á Seychelles-eyjum, Gudson Limited og Rosella Limited. Með orðum sínum um efnahagsbrot Björgólfs vísaði starfsmaður Mossack Fonseca til dóms sem Björgólfur Guðmundsson fékk í Hafskipsmálinu árið 1990 en sá dómur var skilorðsbundinn til fimm mánaða. 

Unnið í samstarfi við Reykjavík Media
Unnið í samstarfi við Reykjavík Media

Mánuði áður, þann 3. október 2008 þegar stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír voru að hrynja einn af öðrum, hafði félag Bentínu sótt um að opna bankareikning og bankahólf í Sviss hjá breska Barclays bankanum. Tveimur mánuðum áður, í lok júlí árið 2008, hafði Evelyn Bentína stofnað umrætt Tortólafélag. Viku eftir að tölvupósturinn um Björgólf var sendur í byrjun nóvember 2008 fengu hann og sonur hans, Björgólfur Thor Björgólfsson, prókúruumboð fyrir umrætt Tortólafélag, Ranpod Limited, sem Evelyn var skráð fyrir og gátu í kjölfarið ráðstafað eignum þess að vild en ekki er tekið fram hvaða eignir voru inni í félaginu. Í lok júlí árið eftir, 2009, gaf Björgólfur Guðmundsson persónulegt bú sitt upp til gjaldþrotaskipta og voru skuldir hans umfram eignir þá taldar vera 100 milljarðar króna.

„Nei, þú mátt nefnilega alls ekki spyrja mig.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Panamaskjölunum svokölluðu, gögnum um félög í skattaskjólum frá panamaísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca,  sem lekið var til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung og þaðan til alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ. Stundin birtir fréttir upp úr gögnunum í samvinnu við Reykjavík Media ehf. sem heldur utan um miðlun upplýsinganna upp úr Panamagögnunum á Íslandi. Tekið skal fram að notkun fjárfesta á félögum í skattaskjólum er ekki ólögleg. Ef tekjur og eignir félaga í skattaskjólum eru gefnar upp til skatts er notkun slíkra félaga lögmæt, rétt eins og notkun á öðrum félögum og fyrirtækjum. Félög í skattaskjólum bjóða hins vegar upp á umtalsverða leynd fyrir fjárfestana sem standa á bak við þar sem eignarhald slíkra félaga er ekki opinbert og ársreikningar þeirra og viðskipti ekki heldur. Panamaskjölin geta hins vegar gefið fágæta innsýn inn í notkun slíkra félaga í skattaskjólum, meðal annars starfsemi áðurnefnds félags, Ranpod Limited. 

Segir félagið óvirkt en vill ekki gefa upp starfsemi þess

Í samtali við Stundina segir Evelyn Bentína að Ranpod Limited sé ekki virkt. „Það er félag sem var stofnað á sínum tíma en það var lagt niður fyrir löngu, löngu síðan. Það stendur að það sé aktíft en það er það ekki. Ég spurðist fyrir um þetta og mér var sagt að hægt væri að selja nöfn á svona félögum fram og til baka og að hægt sé að kaupa félög þótt að búið sé að nota félögin. Það er þetta sem mér fannst svo skrítið: Það stendur að það sé virkt en það er það ekki.“

Aðspurð um af hverju félagið var stofnað segir Evelyn Bentína í léttum dúr að blaðamaður megi  alls ekki spyrja að því. „Nei, þú mátt nefnilega alls ekki spyrja mig. Segðu mér eitt: Hvenær seldir þú síðasta bílinn þinn og hverjum seldirðu hann?“ Spurð aftur segir Evelyn Bentína: „Ef þú ætlar að spyrja mig svona persónulegra spurninga þá vil ég hitta þig augliti til auglitis. Ég ætla ekki að gefa þér upplýsingar um það í gegnum síma hvernig ég eyði mínum tíma og mínu lífi“.

Panamagögnin benda hins vegar til að félagið Ranpod Limited sé ennþá virkt og var Evelyn Bentína sögð vera eini hluthafi þess um mitt ár árið 2014. Hún var sannarlega með prókúruumboð fyrir félagið en Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson voru það líka samkvæmt Panamagögnunum. Evelyn segir hins vegar að það sé „löngu“ búið að leggja félagið niður.

Svör Evelyn Bentínu stangast því á við upplýsingar úr Panamagögnunum. Samkvæmt skjali með hluthafaupplýsingum um Ranpod Limited frá miðju ári 2014 er hún ennþá skráð sem eini hluthafi félagsins og prókúruumboð Björgólfsfeðga yfir félaginu hefur ekki verið afnumið. Ef það er rétt sem Evelyn Bentína segir að búið sé að leggja félagið niður þá eru engar upplýsingar um það í Panamaskjölunum og félagið hlýtur þá að vera í eigu óþekktra aðila auk þess að vera stýrt af aðilum sem ekki hafa prókúrumboð yfir félaginu.

Vegabréf til staðfestingar
Vegabréf til staðfestingar Einstaklingar sem stofna aflandsfélög þurfa að senda lögmannsstofunum eða fyrirtækjunum sem sjá um það fyrir þau aafrit af vegabréfum sínum til auðkenna. Þetta gerðu þeir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson líkt og aðrir.

Segist ekki geta veitt upplýsingar um Ranpod

Í svari frá Björgólfi Thor Björgólfssyni, sem talskona hans Ragnhildur Sverrisdóttir sendir fyrir hans hönd, segir að hann kannist ekki við Ranpod Limited og geti því ekki veitt upplýsingar um starfsemi félagsins. „Þetta félag er ekki og hefur aldrei verið í eigu Björgólfs Thors og hann getur því ekki veitt neinar upplýsingar um það.“

Þegar Björgólfur Thor er inntur eftir frekari svörum um Ranpod Limited í gegnum Ragnhildi, meðal annars með þeim orðum að í Panamaskjölunum komi fram að hann hafi verið með prókúrumboð yfir þessu félagi, kemur fram að hann telji sig ekki geta veitt upplýsingar um félög annarra. „Þetta félag er ekki og hefur aldrei verið í eigu Björgólfs Thors og hann hefur því enga heimild til að veita neinar upplýsingar um rekstur þess.“ Ranpod Limited veitti félagi í eigu Novator hins vegar lán eins og síðar verður komið inn á. 

Eignirnar sem voru inn í Ranpod Limited fóru því eitthvert, að minnsta kosti hluti þeirra, og er ekki hægt að segja það um þessar eignir sem Björgólfur Thor sagði í heimildarmyndinni Maybe I should have árið 2010.  „A lot of money goes to money heaven. [...] Þessi verðmæti sem hafa þurrkast af hlutabréfamörkuðum, innistæðum í bönkum og fjármálamörkuðum yfir höfuð, þau eru bara farin; þau hafa gufað upp. Almenni misskilningurinn er að spyrja: Bíddu, hvert fóru peningarnir?“

Eignir Ranpods Limited fóru meðal annars að einhverju leyti til félags sem tengdist Björgólfi Thor sjálfum.

Einkaþotan í Panamaskjölunum
Einkaþotan í Panamaskjölunum Einkaþota Björgólfs Thors kemur meðal annars fram í Panamaskjölunum en eignarhaldið á henni var í gegnum Cayman-eyjar og Tortólu.

Umsvifamestir í Panamaskjölunum

Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson tengjast að minnsta kosti um 50 aflandsfélögum í skattaskjólum sem  stofnuð voru í gegnum panamaísku lögmannsstofuna Mossack Fonseca. Þeir eru lang umsvifamestir allra íslenskra fjárfesta sem koma fyrir í Panamaskjölunum. Gögnin um Björgólfsfeðga í Panamaskjölunum ná aftur til ársins 2001 en á þeim tíma voru þeir eigendur bruggverksmiðjunnar Bravo í St. Pétursborg í Rússlandi ásamt Magnúsi Þorsteinssyni. Árið 2002 seldu þeir bruggverksmiðjuna til drykkjarvöruframleiðandans Heineken og í kjölfarið keyptu þeir ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og áttu bankann fram að hruni. Björgólfsfeðgar voru því byrjaðir að notast við félög sem stofnuð voru í gegnum Mossack Fonseca áður en þeir keyptu Landsbanka Íslands.

Umsvif Björgólfsfeðga í skattaskjólum þurfa kannski ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að þeir feðgar voru stærstu hluthafar Landsbanka Íslands á árunum fyrir hrunið en bankinn lét Mossack Fonseca stofna mikinn meirihluta þeirra félaga í skattaskjólum sem tengjast Íslendingum sem er að finna í gögnunum. Landsbanki Íslands var sjötti stærsti viðskiptavinur Mossack Fonseca á heimsvísu og stofnaði lögmannsstofan meira en 400 aflandsfélög fyrir bankann samkvæmt Panamagögnunum. Um er að ræða félög í skattaskjólum sem þeir Björgólfsfeðgar áttu eða eiga beint eða óbeint í gegnum önnur félög eða félög sem þeir stýrðu án þess þó að eiga þau, eins og til dæmis Ranpod Ltd. sem fjallað er um hér. 

Fengu leyfi til að stýra bankareikningi félagsins
Fengu leyfi til að stýra bankareikningi félagsins Hér sjást nöfn Björgólfsfeðga á skjali sem merkt er Barclays-bankanum í Sviss þar sem þeir fá leyfi til að stýra bankareikningi Ranpod Limited í bankanum.

Ólík staða Björgólfsfeðga

Af þeim feðgum þá er Björgólfur Thor miklu umsvifameiri notandi félaga í skattaskjólum enda var hann og er einn stórvirkasti fjárfestir Íslands og er nú aftur orðinn ríkasti maður landsins. Eignir hans voru metnar á 173 milljarða króna í fyrrahaust og var hann á lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heims. Björgólfur Guðmundsson varð hins vegar persónulega gjaldþrota eftir hrunið og er ekki lengur virkur fjárfestir svo vitað sé og er ekki skráður fyrir neinum fyrirtækjaeignum.

Björgólfur Thor á meðal annars fyrirtæki eins og hlut í Allergan, móðurfélagi lyfjafyrirtækisins Actavis sem hann seldi til bandaríska lyfjafyrirtækisins Watsons árið 2012, síma- og fjarskiptafyrirtækið Nova sem er komið upp í um 33 prósent markaðshlutdeild á Íslandi,  fjarskiptafyrirtækið Play í Póllandi sem er með meira en tíu milljón viðskiptavini, símafyrirtækið WOM í Chile og fleiri fyrirtæki víða um heim.

Prókúra feðganna
Prókúra feðganna Prókúra Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar yfir félaginu Ranpod Limited á Tortólu sést hér. Björgólfur eldri hafði þrýst mjög á Mossack Fonseca að ganga frá prókúrunni sem fyrst dagana áður en prókúran var veitt þann 10. nóvember árið 2008.

Segja má, til einföldunar, að eignarhaldið á öllu alþjóðlegu fyrirtækjaneti Björgólfs Thors hafi verið eða sé í gegnum skattaskjólsfélög sem fram koma í gögnunum frá Mossack Fonseca. Allt frá símafyrirtækjum í Austur-Evrópu og bandarísku mótorhjólafyrirtæki til steingráu einkaþotunnar sem Mikhaíl Gorbatsjov Rússlandsforseti flaug meðal annars í árið 2006 og húss langafa hans, Thors Jensen, á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík. 

Sjálfur segir Björgólfur Thor, í gegnum talskonu sína Ragnhildi Sverrisdóttur, að umsvif sín á lágskattasvæðum hafi minnkað töluvert frá hruninu árið 2008. „Umsvif á þessum svæðum hafa minnkað verulega frá því fyrir hrun. Fjöldi félaga hefur alltaf verið breytilegur eftir viðskiptum á hverjum tíma.“

„Það er því alrangt að nokkrir fjármunir hafi verið fluttir eða runnið til Tortola eða annarra aflandseyja.“

Götin í skýrslu rannsóknarnefndarinnar

Í gögnunum um þá Björgólfsfeðga í Panamaskjölunum vekur einna mesta athygli hversu umfangsmiklar lánveitingar til félaga þeim tengdum voru frá Landsbankanum í Lúxemborg. Björgólfsfeðgar keyptu hlut ríkisins í Landsbanka Íslands síðla árs árið 2002, eins og áður segir, og fylgdi dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg með í kaupunum. Björgólfsfeðgar voru því eigendur Landsbankans í Lúxemborg sem þeir stunduðu svo mikil lánaviðskipti í gegnum við félög í skattaskjólum. Þrátt fyrir fjölskyldu- og viðskiptatengsl feðganna þá voru þeir ekki skilgreindir sem tengdir aðilar í lánabókum Landsbanka Íslands og hafði þessi þannig áhrif á lántökur þeirra í bankanum að þeir gátu fengið meira fé þar að láni. 

Auk beinna lána frá Landsbankanum í Lúxemborg til aflandsfélaga tengdum Björgólfsfeðgum þá eru einnig mjög margar lánveitingar á milli félaga í skattaskjólum sem tengjast þeim sem og lánveitingar frá Björgólfsfeðgum sjálfum til félaga í skattaskjólum. Eitt dæmi um slíka lánveitingu er 35 milljón dollara, tæplega 2.7 milljarða króna, lán frá Björgólfi Guðmundssyni sjálfum til Tortólafélagsins Bell Global Investments í ársbyrjun 2003, rétt eftir kaup þeirra feðga á Landsbankanum.

Vitað var um hluta þessara lánveitinga frá Landsbankanum í Lúxemborg til félaga tengdum feðgunum og er meðal annars greint frá þeim að hluta í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin bjó hins vegar yfir afar takmörkuðum upplýsingum um þessar lánveitingar eins og fram kemur í skýrslunni. Ástæðan fyrir þessu er afar einföld: Gögn frá Lúxemborg um þessi fyrirtæki og þessar lánveitingar voru ekki aðgengileg Rannsóknarnefnd Alþingis á starfstíma nefndarinnar. Um þetta segir meðal annars í skýrslu nefndarinnar: „Annar hluti af aukinni fyrirgreiðslu Landsbankans til Björgólfs Thors er óskýrður enda var fyrirgreiðslan veitt í gegnum félög í Lúxemborg og aðgengi að upplýsingum um lán veitt þar er takmarkað. Um er að ræða aukna fyrirgreiðslu til Novator International Holding Ltd., 6 milljarða króna, Novator Asset Management, 5 milljarða króna, og Novator Finland Oy, 7,8 milljarða króna. Einnig eru upplýsingar varðandi lánveitingar til Novator Pharma Holding takmarkaðar. Það eru því engar upplýsingar um tilgang þessara lánveitinga, tryggingar eða annað.“ Bent skal á að Novator Finland Oy sem rannsóknarnefndin talar þarna um er sama félag og fékk rúmlega 660 milljóna króna lánið frá Ranpod.

Þá hefur í fjölmiðlum verið fjallað um viðskipti móðurfélags Landsbanka Íslands, Samsonar, við félög í skattaskjólum en skiptastjóri Samsonar, Helgi Birgisson, athugaði þessi viðskipti í kjölfar hrunsins árin 2009 og 2010. Í tilkynningu sem Björgólfsfeðgar sendu frá sér í ársbyrjun árið 2010 sögðust feðgarnir meðal annars hafna aðdróttunum um að fé hefði verið komið undan til aflandseyja: „Starfsmenn Samson hafa veitt skiptastjóra upplýsingar og skýringar á öllum umræddum viðskiptum. Þetta eru ýmist fjárfestingar eða viðskiptalán til félaga í eigu sömu eigenda vegna nýrra fjárfestinga sem í flestum tilfella var í íslenskum félögum. Það er því alrangt að nokkrir fjármunir hafi verið fluttir eða runnið til Tortola eða annarra aflandseyja. Ekkert umræddra félaga átti bankareikninga utan Evrópu,“ sagði í yfirlýsingunni. 

Panamaskjölin veita áður óþekktar upplýsingar um lánveitingar frá Landsbankanum í Lúxemborg til félaga tengdum Björgólfsfeðgum. Um er að ræða lánveitingar til og milli félaga sem fjallað hefur verið um opinberlega sem tengjast viðskiptum þeirra, félög eins og Bell Global Investments, Amber International og Topaz Equities auk þess sem í gögnunum koma fram upplýsingar um ný félög sem tengjast feðgunum. 

3,6 milljarða lánveiting kemur í ljós

Eitt áhugaverðasta dæmið um slíkar lánveitingar í Panamaskjölunum eru tvö lán frá Landsbankanum í Lúxemborg á árunum 2004 og 2006 til Tortólafélagsins Edda Printing and Publishing Limited. Annað lánið var í evrum upp á tæplega tvo milljarða króna og hitt var í Bandaríkjadollurum og var upp á tæplega 1600 milljónir króna. Þessi lán voru aldrei greidd til baka og í Panamaskjölunum er ekki að finna neinar upplýsingar um hvert þessir peningar fóru.

Edda Printing and Publishing Limited hét áður Russa Publishing Ltd. og var fyrirtæki sem hélt utan um „prentverkefni“ í Rússlandi eins og einn heimildarmaður Stundarinnar segir - heimildarmaðurinn vill ekki koma fram undir nafni. Björgólfur Guðmundsson, Þór Kristjánsson, sem var viðskiptafélagi Björgólfsfeðga í Rússlandi og á fyrstu árunum eftir kaup þeirra á Landsbankanum, og Magnús Þorsteinsson, einn hluthafa Landsbankans og viðskiptafélagi feðganna í Rússlandi, voru allir um tíma með prókúrumboð fyrir félagið.

Magnús Þorsteinsson er hins vegar sagður vera eini eigandi þess í Panama-skjölunum á meðan fyrirtækið er tengt Björgólfi Guðmundssyni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslunni eru skuldir Eddu Printing and Publishing Limited hins vegar sagðar vera „0“ krónur en ekki ríflega fjórir milljarðar króna eða meira með vöxtum og dráttarvöxtum. Heimildarmaður Stundarinnar segist ekki hafa neina hugmynd um hvert peningarnir sem runnu inn í félagið í Landsbankanum fóru.

 

Bankinn reyndi að fá lánið endurgreitt

Eftir hrun Landsbanka Íslands árið 2008 lentu starfsmenn Mossack Fonseca í verulegum vandræðum vegna Edda Printing and Publishing Limited þar sem slitastjórn Landsbankans reyndi að gera stjórnarmenn félagsins, sem voru bara leppar sem sátu í stjórnum fjölmargra annarra skattaskjólsfélaga, persónulega ábyrga fyrir lánunum sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði veitt til félagsins. Landsbankinn sendi bréf og bað um endurgreiðslu lánanna í ársbyrjun 2012. Mossack Fonseca lét lögmannsstofu á Tortólu meðal annars vinna fyrir sig greinargerð um hugsanlega skaðabótaskyldu stjórnenda félagsins þar sem niðurstaðan var að sýna þyrfti fram á ógjaldfærni félagsins þegar lánin voru veitt til að stjórnarmennirnir yrðu dregnir til ábyrgðar. 

3.6 milljarða lán kemur fram
3.6 milljarða lán kemur fram Í Panamagögnunum er meðal annars að finna upplýsingar um 3.6 milljarða lán sem félagið Edda Printing and Publishing Limited á Tortólu fékk frá Landsbankanum í Lúxemborg. Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson voru prókúruhafar félagsins.

Mossack Fonseca var á þessum tíma ekki í neinum samskiptum við þá Magnús Þorsteinsson og Björgólf Guðmundsson út af Eddu Printing and Publishing Limited en lögmannstofan reyndi hins vegar að hafa samband við þá út af félaginu. Þegar þær tilraunir skiluðu ekki árangri brá lögmannsstofan á það ráð að láta stjórnarmennina í félaginu segja sig úr stjórn þess til að reyna að lágmarka ábyrgð og aðkomu stofunnar að þessu félagi og lánveitingum þess. Sömu sögu er að segja um öll önnur félög sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað í gegnum Mossack Fonseca.

Á endanum fór það svo að slitastjórn Landsbankans fór ekki með mál Eddu Printing and Publishing fyrir dóm til að fá skaðabætur frá Mossack Fonseca og fékk því aldrei neitt upp í kröfu sína á hendur Eddu Printing and Publishing Limited. Ekkert er hins vegar vitað hvað varð um peningana sem félagið fékk að láni frá Landsbankanum í Lúxemborg og Björgólfur Guðmundsson sá sér ekki fært að veita Stundinni viðtal. 

Panamaskjölin veita því áður óþekktar upplýsingar um þetta félag sem tengist Björgólfi Guðmundssyni og Magnúsi Þorsteinssyni líkt og gögnin veita nýjar upplýsingar um áðurnefnt félag, Ranpod Limited. 

„Viðskiptavinurinn  er mjög þekktur og umsvifamikill milljarðamæringur, hann  á fótboltafélagið West Ham United“

Ýtti á eftir Mossack Fonseca á „tíu mínútna fresti“

Starfsmenn Mossack Fonseca voru tregir til að veita Björgólfi Guðmundssyni prókúrumboð fyrir Ranpod Limited, eins og áður segir. Í áðurnefndum tölvupósti á milli starfsmanna lögmannsstofunnar í lok október 2008 kom fram að Björgólfur hefði verið tengdur við efnahagsbrot - Hafskipsmálið - og þurftu þeir að taka ákvörðun um hvort þeir vildu veita honum umboð til að stýra eignum félagsins. Höfuðstöðvar Mossack Fonseca í Panama voru á endanum beðnar um að taka lokákvörðun í málinu.

Frægð Björgólfs virðist svo spila inn í þá ákvörðun Mossack Fonseca að veita honum prókuruumboðið og segir meðal annars í einum tölvupóstinum í byrjun nóvember 2008: „Viðskiptavinurinn [Björgólfur Guðmundsson] er mjög þekktur og umsvifamikill milljarðamæringur, hann á á fótboltafélagið West Ham United! Vinsamlegast haldið áfram með þessa vinnu.“

Ákvörðunin dróst hins vegar þar til þann 10. nóvember árið 2008 og virðist Björgólfur Guðmundsson hafa verið orðinn óþreyjufullur og langeygur eftir niðurstöðu því þann 7. nóvember 2008 skrifaði starfsmaður Mossack Fonseca í London eftirfarandi orð í tölvupósti til Mossack Fonseca á Bresku Jómfrúareyjum. „Þetta mál er orðið ákaflega aðkallandi. Við verðum að vita hvort þið ætlið að undirrita prókúrumboðið í dag þar sem viðskiptavinurinn hringir á tíu mínútna fresti,“ segir í tölvupóstinum. Eitt af því sem sannarlega vekur athygli  er að Björgólfur Guðmundsson var ekki eigandi félagsins heldur dóttir hans en samt var það ekki hún sem ýtti á eftir því að gengið yrði frá prókúrumboði fyrir Björgólfsfeðga yfir félaginu.

Björgólfur þekktur milljarðamæringur
Björgólfur þekktur milljarðamæringur Frægð Björgólfs Guðmundssonar, meðal annars eignarhald hans á enska knattspyrnuliðinu West Ham, gerði það að verkum að starfsmönnum Mossack Fonseca þótti auðveldara að veita honum prókúrumboð yfir Tortólufélagi rétt eftir bankahrunið 2008. Hann sést hér með Eggerti Magnússyni

Þremur dögum síðar, þann 10. nóvember 2008, var undirritað skjal þar sem bæði Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson fengu prókúruumboð yfir þessu félagi sem skráð var sem eign Bentínu Björgólfsdóttur. Sama dag var undirritað skjal fyrir Ranpod Limited frá Barclays bankanum í Sviss þar sem þeim Björgólfsfeðgum var veitt heimild til að stýra eignum félagsins í bankanum.Yfirskrift skjalsins er „prókúrumboð fyrir eignastýringu fyrir hönd þriðja aðila“.

Björgólfur Guðmundsson var spurður út í Ranpod Limited í einni af spurningunum sem sendar voru til hans í gegnum millilið. Hann vildi hins vegar ekki veita Stundinni viðtal og svaraði ekki spurningunum skriflega. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða neitt um af hverju honum lá svo á að fá prókúrumboð fyrir Ranpod Limited.

Félagi Novator veitt rúmlega 660 milljóna króna lán

Eitt af því sem vekur talsverða athygli við félagið Ranpod Limited er að Evelyn Bentína Björgólfsdóttir hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir að stunda fjárfestingar. Raunar hafa aldrei verið sagðar fréttir þess efnis í gegnum árin að hún hafi stundað fjárfestingar með föður sínum og bróður og er hún titluð sem „heimavinnandi“ á umsóknareyðublaði til Barclays bankans í Sviss sem er að finna í Panamaskjölunum. Evelyn Bentína var samt sem áður skráður eigandi og prókúruhafi þessa félags á Tortóla sem opnaði bankareikning og bankahólf í Sviss um það leyti sem íslensku viðskiptabankarnir hrundu um haustið 2008.

Eitt af því sem félagið gerði áður en Björgólfur Thor og Björgólfur eldri fengu prókúrumboð yfir því var að lána fjórar milljónir evra, 664 milljónir króna, til dótturfyrirtækis fjárfestingarfélags Björgólfs Thors í Finnlandi. Félagið var eitt af dótturfélögum fjárfestingarfélags Björgólfs Thors, Novators, og heitir Novator Finland OY. Lánið var veitt þann 9. október árið 2008 samkvæmt lánasamningi sem er að finna í Panamaskjölunum.

Frekari lánveitingar, eða gögn um útstreymi fjár frá Ranpod eða tekin lán, er ekki að finna í Panamagögnunum. Tekið skal fram að ekki þurfti aðkomu Mossack Fonseca að millifærslum af bankareikningi félagsins þar sem þeir sem höfðu prókúruumboð yfir félaginu höfðu heimild til að stýra þeim. Í Panamagögnunum er eingöngu að finna gögn þar sem eigendur eða stjórnendur aflandsfélags þurfti að fá samþykki stjórnarmanna félagsins í gegnum Mossack Fonseca. Slíkt samþykki þurfti meðal annars þegar félag tók eða veitti lán.

Stjórnun félagsins færð frá Seychelles til Gambíu í fyrra

Miðað við gögnin frá Mossack Fonseca er félagið Ranpod Limited ennþá virkt. Í ársbyrjun 2012 sendi Mossack Fonseca undirritað skjal merkt Evelyn Bentínu Björgólfsdóttur þar sem fram kom að hún leigði bankahólfið í Barclays bankanum í Sviss sem hluthafi Ranpod Limited. Annað skjal frá miðju ári árið 2014 sýnir að Evelyn Bentína var þá sagður vera eini hluthafi þess.

Þá var skipt um stjórnarmenn, eða öllu heldur stjórnarfélög, í Ranpod Limited í október í fyrra samkvæmt tölvupósti í Panamaskjölunum. Félögin tvö á Seychelles-eyjum, Gudson Limited og Roselle Limited, hættu þá að vera stjórnarmenn félagsins og í staðinn settust fyrirtækin Glaisdale Limited og Newcombe Limited í Gambíu í Afríku í stjórn þess samkvæmt gögnunum. Þessi skjöl eru þau síðustu og þau nýjustu sem er að finna um Ranpod Limited í Panamagögnunum. 

Um er að ræða fyrstu félögin í Gambíu sem blaðamaður kemur auga á í Panamaskjölunum enda er tiltölega stutt síðan landið byrjaði að bjóða upp á aflandsþjónustu. Í frétt breska blaðsins The Economist frá því í ágúst 2013 sagði að Gambía væri að reyna að verða aflandssvæði og að þá þegar væru „nokkur hundruð“ félög skráð þar. Í The Economist sagði hins vegar að erfitt gæti verið fyrir ný lönd eins og Gambíu að hasla sér völl sem aflandssvæði þar sem einungis fjögur ný lönd hefðu náð að gera það frá seinna hluta níunda áratugarins: Mauritius, Seychelles-eyjar, Belize og Samoa-eyjar. 

Skiptastjóri Björgólfs: Þrjú eða fjögur félög voru undir

Í gögnum Mossack Fonseca um Ranpod Limited er ekkert sem bendir til að prókúruumboð Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar yfir félaginu hafi verið afturkallað og það er ekkert sem bendir til þess að Evelyn Bentína Björgólfsdóttir sé ekki eigandi félagsins ennþá. Félagið var ennþá skráð og virkt hjá Mossack Fonseca í fyrrahaust.

Eins og komið hefur fram opinberlega þá var bú Björgólfs Guðmundssonar tekið til gjaldþrotaskipta eftir hrunið 2008 og var Sveinn Sveinsson lögmaður skipaður skiptastjóri þess. Í Panamaskjölunum er að finna tölvupósta og önnur gögn frá Sveini þar sem hann reynir að spyrjast fyrir um félög sem tengjast Björgólfi Guðmundssyni hjá Mossack Fonseca. Sveinn segir að um hafi verið að ræða spurningar um félög sem tengdust Björgólfi eldri. „Þetta voru þrjú eða fjögur félög sem voru skráð með eignir og bankareikninga í gegnum Landsbankanum í Lúxemborg. Landsbankinn, þrotabúið, hirti þetta allt saman. Ég komst aldrei yfir þetta því Landsbankinn taldi sig vera með allsherjarveð í öllum eignum Björgólfs þarna. Þannig að búið fékk ekki neitt út úr þessu.“ Sveinn segist hafa fengið upplýsingar um tengsl Björgólfs eldri við þessi félög frá þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg þar sem bankareikningar þeirra hafi verið tengdir Björgólfi. 

Sveinn segir að hann kannist ekki við nafnið Ranpod Limited og segir að það félag hafi ekki verið hluti af uppgjöri þrotabús Björgólfs Guðmundssonar. Ranpod Limited var heldur ekki í viðskiptum við Landsbankann í Lúxemborg heldur við Barclays bankann í Sviss og því geta upplýsingar um það félag ekki hafa komið frá Landsbankanum í Lúxemborg líkt og upplýsingarnar sem Sveinn fékk um félag Björgólfs í þeim banka. Þó Björgólfur hafi ekki verið skráður eigandi félagsins þá var hann með prókúrumboð fyrir það og gat ráðstafað eignum þess þar af leiðandi. Félögin sem tengjast Björgólfi í Panamagögnunum eru miklu fleiri en þrjú eða fjögur, þó hann hafi kannski ekki verið skráður sem eigandi þeirra.

Eitt stærsta einstaklingsgjaldþrot sögunnar

Skiptum á þrotabúi Björgólfs Guðmundssonar lauk í maí árið 2014. Rúmlega 85 milljarða króna kröfum var lýst í búið og voru um 80 milljóna króna eignir í því. Um er að ræða eitt stærsta gjaldþrot einstaklings í heiminum. Vinnan við uppgjör þrotabúsins kostaði um 45 milljónir króna og runnu því 35 milljónir króna til kröfuhafa. 

Einn af stærri kröfuhöfunum í þrotabú Björgólfs var félagið Rainwood S.A., sem skráð er Bresku Jómfrúareyjum, en þrotabú Landsbankans lýsti 2,3 milljarða króna kröfu í bú Björgólfs fyrir hönd þess. Þetta félag er í Panamaskjölunum og er meðal annars að finna lánasamning í gögnunum á milli þess og Landsbankans í Lúxemborg upp á rúmlega 2.5 milljarða króna. Samkvæmt Panamagögnunum var Björgólfur Guðmundsson sjálfur með prókúruumboð fyrir þetta félag sem hann fékk í mars árið 2004. Í bréfi sem Björgólfur Guðmundsson sendi til Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2009 kom fram að hann hefði verið í persónulegum ábyrgðum vegna skulda Rainwoos S.A. upp á 2.3 milljarða króna og skýrir það kröfuna sem Landsbankinn gerði í bú hans fyrir hönd Rainwood S.A. Þá var Björgólfur í persónulegum ábyrgðum fyrir rúmlega 19 milljarða króna við þrotabú Landsbankans í Lúxemborg út af skuldum eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings í Lúxemborg. 

Skuldauppgjör Björgólfs Thors: Hvað var undir?

Þó Björgólfur Thor sé aftur orðinn ríkasti maður landsins þá lá alls ekki ljóst fyrir strax eftir hrunið árið 2008 að svo yrði. Björgólfur Thor gekk frá umfangsmiklu skuldauppgjöri við kröfuhafa sína árið 2014 en vinna við uppgjörið hafði þá staðið yfir frá árinu 2010. Samkvæmt tilkynningu frá Björgólfi Thor um skuldauppgjörið nam heildarfjárhæðin sem greidd var til innlendra og erlendra lánardrottna í uppgjörinu um 1200 milljónum króna. Í því uppgjöri runnu ýmsar persónulegar eignir Björgólfs til lánardrottna, eins og til dæmis sumarhús á Þingvöllum, snekkja, hús í Reykjavík og einkaþota. Umrædd einkaþota af gerðinni 1999 Bombardier Challenger var í eigu Tortólafélags Björgólfs Thors, BeeTeeBeeLimited, og var fjármögnuð af breska Barclays bankanum með láni upp á 14,4 milljónir bandaríkjadollara árið 2005 samkvæmt lánasamningum sem er að finna í Panamaskjölunum. Einhverjar eignir í eigu félaga í skattaskjólum voru því sannarlega undir í skuldauppgjöri Björgólfs Thors en meðal þess sem hann samdi um að halda var húsið á Fríkirkjuvegi 11 sem langafi hans, Thor Jensen, byggði en það er einnig í eigu BeeTeeBee Limited, líkt og einkaþotan var, í gegnum annað félag á Íslandi.

Þegar skuldauppgjörið var kynnt árið 2014 sagði Björgólfur Thor í tilkynningu að hann hefði í skuldauppgjörinu veitt aðgang að öllum bankareikningum sínum og félaga sinna nokkur ár aftur í tímann: „Um 100 manna her lögfræðinga, endurskoðenda og annarra sérfræðinga vann að skuldasamkomulaginu. Ég lagði allar eignir mínar undir. Þá fengu lánardrottnar aðgang að öllum bankareikningum mínum og allra félaga minna nokkur ár aftur í tímann og gátu þannig gengið úr skugga um að engar eignir voru undanskildar. Sú rannsóknarvinna erlendra sérfræðinga (forensic accounting) stóð í tæpt eitt og hálft ár og lauk í apríl 2012. Ég fullyrði að svo gagnsæ vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð í uppgjörsmálum neinna annarra í íslenska bankakerfinu.“

Þetta svar Björgólfs Thors var efnislega samhljóða svari Ragnhildar Sverrisdóttir, talskonu hans, í DV árið 2010 en þá fjallaði blaðið um það að hann hefði losað um eignir í sameignarsjóðum í skattaskjólum eins og Jersey á Ermarsundi. Ragnhildur sagði þá að Björgólfur Thor hefði ekki undanskilið neinar eignir í skuldauppgjöri sínu.  „Nei. Svo er ekki vegna þess að Björgólfur Thor losaði um þessar eignir og samkomulag náðist.“ 

Umfang viðskipta Björgólfs Thors í gegnum félög í skattaskjólum er hins vegar afar mikið eins og Panamagögnin sýna. Enginn annar aðili getur staðfest þau orð Björgólfs Thors að öll félög erlendis sem hann tengist hafi sannarlega verið undir í skuldauppgjöri hans árið 2014. Þá liggur fyrir að hann hafði prókúrumboð fyrir félag í skattaskjóli sem ekki var skráð sem eign hans.

Aflandsnet Novator og Björgólfsfeðga
Aflandsnet Novator og Björgólfsfeðga Um það bil fimmtíu félög tengjast beint Björgólfsfeðgum eða fjárfestingafélaginu Novator, sem er í beinu viðskiptasambandi við Mossack Fonseca. Þetta net sýnir skráða eigendur félaganna. Það gefur þó aðeins hálfa mynd því til viðbótar eru svo útgefnar prókúrur sem jafngilda því í raun að vera eigandi.

Óvissa þrátt fyrir gögn

Þrátt fyrir að fyrir liggi gögn um prókúruumboð Björgólfsfeðga fyrir Ranpod Limited, að félagið hafi verið virkt í fyrra og að fyrirtækið hafi meðal annars verið notað í lánaviðskiptum við fyrirtæki í Finnlandi sem tengt er Björgólfi Thor þá er ekki hægt að fullyrða neitt um eignir þess út frá Panamaskjölunum. Einu gögnin sem þar er að finna eru  skjöl sem fylla þurfti út í gegnum Mosssack Fonseca. Ekki er að finna yfirlit yfir millifærslur til og frá félaginu síðastliðin ár svo dæmi sé tekið. Því er ekkert hægt að fullyrða neitt um eignir félagsins en ljóst er að félagið var bæði með bankahólf og bankareikning hjá Barclays-bankanum í Sviss. Ef þeir aðilar sem voru, og hugsanlega eru, með prókúruumboð yfir félaginu - Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson - hafa notað félagið með öðrum hætti þá sjást þess ekki merki í Panamaskjölunum því eigendur og stjórnendur aflandsfélaga þurfa ekki að fara í gegnum þá aðila sem halda utan um félögin í hvert skipti sem þeir nota þau. 

Þess vegna þarf frekari upplýsingar um félagið til að getað sagt frá fleiri atriðum í starfsemi þess. Stundin sendi þeim Björgólfi Guðmundssyni og Björgólfi Thors Björgólfssyni spurningar um starfsemi aflandsfélaga sem tengjast þeim, meðal annars um tilgang stofnunar Ranpod Limited en Björgólfur Thor vill ekki veita upplýsingar um það, eins og áður segir. Engin svör bárust frá Björgólfi Guðmundssyni.

Fríkirkjuvegurinn og þotan í skattaskjóli
Fríkirkjuvegurinn og þotan í skattaskjóli Björgólfur Thor Björgólfsson er sá fjárfestir sem átti í hvaða umsvifamestum viskiptum í skattaskjólum í gegnum Landsbanka Íslands, bankann sem hann var ráðandi hluthafi í. Meðal eigna sem hann átti í gegnum skattaskjól voru hús langafa hans að Fríkirkjuvegi 11 og steingrá einkaþota.

315 milljóna króna arður frá Tortólafélagi

Enn annað lán í Panamaskjölunum sem vekur mikla athygli er eins milljarðs króna lánveiting Landsbankans í Lúxemborg til félagsins Brimöldu Capital Limited á Tortólu upp á 1.1 milljarð króna. Björgólfur Guðmundsson var annar af prókúruhöfum félagsins ásamt Þór Kristjánssyni. Lánið var veitt í skrefum á árunum 2006 til 2007. Í gögnunum kemur fram að Þór Kristjánsson hafi verið „einn af hluthöfum“ félagsins á árunum fyrir hrunið. Ekki er getið um aðra hluthafa félagsins en ljóst er að þeir voru fleiri þar sem orðalagið í gögnunum er þannig. Þór var auk þessi ekki eini prókúruhafi félagsins heldur var Björgólfur Guðmundsson það líka.  Í gögnunum kemur fram að á árunum 2004 til 2008 hafi félagið greitt út 315 milljóna króna arð til Þórs Kristjánssonar. 

Félagið borgaði aldrei 1.1 milljarðs króna lánið til Landsbankans í Lúxemborg og í júní árið 2013 var félagið sett í þrot af dómstól á Bresku Jómfrúareyjum þar sem það var ógjaldfært.  Gjaldþrotaúrskurðurinn var að beiðni slitastjórnar Landsbankans og er í dómsskjölunum að finna yfirlýsingu frá starfsmanni slitastjórnarinnar, Herdísi Hallmarsdóttur, um skuldir og ógjaldfærni félagsins. 

Ekkert í gögnunum bendir til að Þór Kristjánsson hafi endurgreitt félaginu þann arð sem hann tók út úr því. Þá er heldur ekkert í gögnunum um það hvort hinir hluthafar félagsins, sama svo sem hverjir þeir voru, hafi fengið viðlíka arðgreiðslur og Þór.  Ljóst er hins vegar að félagið var eignalaust árið 2013 og var í kjölfarið sett þrot.

Hver er heildarmyndin sem blasir við af umsvifum Björgólfsfeðga í skattaskjólum eftir lesturinn á gögnunum frá Mossack Fonseca? Hún er meðal annars sú að ótrúlegar upphæðir, tugir milljarða króna, runnu frá Landsbankanum í Lúxemborg til tuga félaga þeim tengdum og að nær ógerlegt er að rekja slóð fjármunanna til hlítar. Sum lánin voru auðvitað endurgreidd eins og vera bar á meðan önnur voru það ekki. Jafnframt er ógerlegt að fullyrða nokkuð um hvaða eignir voru inni í þeim félögum sem tengdust þeim í tilfellum þar sem engar upplýsingar er að finna um eignastöðu þeirra. Hvað varð um alla þessa peninga á endanum er svo ómögulegt að segja en Panamaskjölin varpa áður lítt þekktu ljósi á mörg viðskipti feðganna og aðila þeim tengdum við Landsbankann í Lúxemborg.

Spurningar og svör

Spurningar Stundarinnar til Björgólfs Thors og svör hans.

 1. Af hverju stofnaði og notaði Björgólfur Thor svo mikið af félögum í skattaskjólum á árunum fyrir hrunið 2008?
  Björgólfur Thor hefur í um aldarfjórðung stundað viðskipti víða um heim og þetta form félaga var einfalt og skilvirkt.  Í mörgum tilvikum kröfðust bankar þess að slík félög væru stofnuð þar sem mun auðveldara var fyrir þá að ganga á veð ef slíkt þurfti og því var aukið öryggi fyrir fjármálastofnanir að hafa félögin á þessum landssvæðum. Raunin var sú að stofnað var félag um hvert fjárfestingarverkefni fyrir sig. Þau verkefni voru í ýmsum löndum og stundum í samstarfi við aðra alþjóðlega fjárfesta. Á margræddum aflandseyjum er breskt lagaumhverfi, svo allir vissu að hvaða reglum þeir gengu. Þá er rétt að taka fram, þar sem félög af þessu tagi eru oft tengd við skattaundanskot, að skattar eru að sjálfsögðu greiddir af fjárfestingunum þar sem þær eru. Fái t.d. félag á Bresku jómfrúreyjum arð frá íslensku félagi er greiddur skattur af arðinum á Íslandi. Fjárfestingarnar sjálfar eru þannig „on-shore“.
 2. Voru öll þessi félög tengd Björgólfi Thor í lánagögnum Landsbanka Íslands, voru Björgólfur Thor og þau tengdir aðilar? Ég sé ekki öll þessi félög í skýrslu RNA.
  Nú er ekki ljóst til hvaða félaga þú vísar þegar þú ritar „öll þessi félög“. En listi yfir tengda aðila lá fyrir í Landsbankanum. Bankanum var kunnugt um eignarhald í öllum þeim félögum sem tengdust Björgólfi Thor og rétt er að halda til haga að „Novator“ kom fram í heitum margra þeirra.  Það kemur hins vegar ekkert á óvart ef þú hefur rekist á gloppur í skýrslu RNA!
 3. Hver urðu afdrif lánanna frá Landsbankanum í Lúxemborg til félaganna? 
  Björgólfur Thor átti miklar innistæður í Landsbankanum Lúx fyrir hrun og var stærsti einstaki kröfuhafi bankans. Öll lánin voru gerð upp.
 4. Eftir hrun Landsbankans tekur Novator sjálft yfir sem viðskiptavinur, „client“ Mossack Fonseca, áður hafði það verið Landsbankinn. Af hverju var þetta gert með þessum hætti?
  Af því að Landsbankinn hætti að veita þessa þjónustu.
 5. Hvaða upplýsingar getur Björgólfur Thor veitt um félagið Ranpod Limited. Hvaða starfsemi var inni í því félagi, af hverju var það stofnað og hver á það? Hver urðu afdrif þess félags?
  Þetta félag er ekki og hefur aldrei verið í eigu Björgólfs Thors og hann getur því ekki veitt neinar upplýsingar um það.
 6. Hversu umfangsmikil viðskipti á Björgólfur Thor í gegnum félag á lágskattasvæðum um þessar mundir? Mörg þeirra félaga sem koma fyrir í Panamaskjölunum eru ennþá í notkun, meðal annars BeeTeeBee.
  Umsvif á þessum svæðum hafa minnkað verulega frá því fyrir hrun. Fjöldi félaga hefur alltaf verið breytilegur eftir viðskiptum á hverjum tíma.
 7. Hvaða skoðun hefur Björgólfur Thor á notkun fyrirtækja í skattaskjólum og á lágskattasvæðum?
  Félög af þessu tagi hafa verið sjálfsagður hluti af alþjóðlegum viðskiptum, auðveldað slík viðskipti vegna gagnsæs lagaumhverfis og lágmarkað kostnað. Björgólfur Thor og fyrirtæki hans fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda um slík félög. Þeir sem nýta slík félög í annarlegum tilgangi verða að taka afleiðingum þess.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Kvenraddir í klikkuðu ástandi
Viðtal

Kvenradd­ir í klikk­uðu ástandi

Her­dís Stef­áns­dótt­ir samdi tón­list­ina við banda­rísku sjón­varps­þáttar­öð­ina Y: The Last Man. Hljóð­heim­ur­inn bygg­ir á söng kvennakórs á Ak­ur­eyri. Hún seg­ir að brans­inn sé hark, erfitt sé að kom­ast inn og er þakk­lát fyr­ir að geta val­ið úr verk­efn­um. Nú vinn­ur hún að tónlist fyr­ir ís­lensku þáttar­öð­ina Ver­búð­in.
Hundasveitin: Í leit að besta vininum
Viðtal

Hunda­sveit­in: Í leit að besta vin­in­um

Hunda­sam­fé­lag­ið er sam­fé­lag þar sem hunda­eig­end­ur geta með­al ann­ars deilt sög­um og ráð­um og á með­al annarra verk­efna er að aug­lýsa eft­ir týnd­um hund­um, skipu­leggja leit­ir og hjálp­ast að við að finna nýtt heim­ili fyr­ir hunda sem koma úr slæm­um að­stæð­um. Hóp­ur kvenna í Hunda­sam­fé­lag­inu vinn­ur í sjálf­boða­vinnu við að skipu­leggja leit að týnd­um hund­um, og stund­um kött­um og fleiri dýra­teg­und­um, en tug­ir manna taka svo þátt í leit­inni sjálfri. Þessi hóp­ur kall­ast Hunda­sveit­in. Stund­in ræddi við nokkr­ar af kon­un­um sem skipu­leggja leit­ar­starf­ið.
Lokaniðurstöður: Þau náðu kjöri
FréttirAlþingiskosningar 2021

Lokanið­ur­stöð­ur: Þau náðu kjöri

Listi yf­ir þá fram­bjóð­end­ur sem hlutu kjör til Al­þing­is. Tals­verð­ar breyt­ing­ar urðu upp úr klukk­an 18 þeg­ar end­urtaln­ingu lauk í Norð­vest­ur­kjör­dæmi, sem hafði áhrif á út­hlut­un jöfn­un­ar­sæta inn­an hvers flokks.
Ríkisstjórnin örugg: Stórsigur Framsóknar bætir upp fylgishrun VG
Fréttir

Rík­is­stjórn­in ör­ugg: Stór­sig­ur Fram­sókn­ar bæt­ir upp fylg­is­hrun VG

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna og bæt­ir við sig fimm þing­mönn­um frá síð­ustu kosn­ing­um. VG tap­ar fylgi og þrem­ur mönn­um en Sjálf­stæð­is­flokk­ur held­ur velli en tap­ar fylgi.
518. spurningaþraut: Menn með bundið fyrir augu? Hvaða menn?
Þrautir10 af öllu tagi

518. spurn­inga­þraut: Menn með bund­ið fyr­ir augu? Hvaða menn?

Spurn­ing­ar fyr­ir þá sem vilja sleikja sár­in eft­ir úr­slit kosn­ing­anna í gær. Nú, eða fagna sigri. Fyrri auka­spurn­ing: Hvaða stað má sjá á mynd­inni hér að of­an? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Hvað heit­ir leik­kon­an sem fer með hlut­verk Júlíu í sýn­ingu einni í Þjóð­leik­hús­inu um þess­ar mund­ir? 2.  Á móti henni leik­ur tón­list­ar­mað­ur og leik­ari sem heit­ir FULLU NAFNI? 3.  En...
Kosningavökurúntur í misheppnuðu dulargervi
Bragi Páll Sigurðarson
Pistill

Bragi Páll Sigurðarson

Kosn­inga­vök­urúnt­ur í mis­heppn­uðu dul­ar­gervi

Þrátt fyr­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar ákvað Bragi Páll að skella sér á kosn­inga­vöku nokk­urra flokka og fylgj­ast með því hvernig fyrstu töl­ur lögð­ust í grjót­hörð­ustu fylg­is­menn þeirra
Kosningavakt Stundarinnar: Rætt við kjósendur og frambjóðendur
StreymiAlþingiskosningar 2021

Kosn­inga­vakt Stund­ar­inn­ar: Rætt við kjós­end­ur og fram­bjóð­end­ur

Stund­in mun vera með kosn­ing­ar­vakt í all­an dag og í kvöld. Kíkt verð­ur í heim­sókn á kosn­inga­skrif­stof­ur stjórn­mála­flokk­ana og rætt verð­ur það við fram­bjóð­end­ur og stuðn­ings­fólk. Einnig verð­ur rætt við kjós­end­ur víðs veg­ar um höf­uð­borg­ar­svæð­ið.
Vorum ekki undirbúnar fyrir svona harða pólitík
Fréttir

Vor­um ekki und­ir­bún­ar fyr­ir svona harða póli­tík

Ung­ir um­hverf­issinn­ar stóðu fyr­ir Sól­arkvarð­an­um, mæli­kvarða á um­hverf­is­stefn­ur stjórn­mála­flokka fyr­ir kosn­ing­arn­ar. Að­stand­end­ur hans segj­ast ekki hafa átt von á því að mæta rang­færsl­um og harðri póli­tík stjórn­mála­afla vegna þess, en það hafi þurft að grípa til dra­stískra að­gerða til að gera um­hverf­is­vernd að kosn­inga­máli.
Ráðherrar opna veskið á lokasprettinum
FréttirAlþingiskosningar 2021

Ráð­herr­ar opna vesk­ið á loka­sprett­in­um

Á síð­ustu vik­um í að­drag­anda al­þing­is­kosn­inga hafa ráð­herr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar veitt veru­lega fjár­muni til að­greindra verk­efna, kom­ið um­deild­um mál­um í ferli og lof­að að­gerð­um sem leggj­ast mis­vel í fólk. Á sama tíma er þing ekki að störf­um og þing­menn hafa lít­il færi á að sýna fram­kvæmd­ar­vald­inu virkt að­hald.
517. spurningaþraut: Stjórnmálamenn allra landa, sameinist!
Þrautir10 af öllu tagi

517. spurn­inga­þraut: Stjórn­mála­menn allra landa, sam­ein­ist!

Af því í dag eru kosn­ing­ar, þá snú­ast all­ar spurn­ing­ar um kosn­inga­mál. Auka­spurn­ing­arn­ar snú­ast um ís­lenska stjórn­mála­flokka en að­al­spurn­ing­arn­ar um er­lenda stjórn­mála­menn. Fyrri auka­spurn­ing. Hvaða ís­lensk­ur stjórn­mála­flokk­ur hafði merk­ið hér að of­an að ein­kenni sínu? * Að­al­spurn­ing­ar: 1.  Hvað hét þessi stjórn­mála­mað­ur? 2.  Hver er þetta? 3.  Hver er þetta? 4.  Og hér má sjá ...? **...
Helstu hneykslismál ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu
Fréttir

Helstu hneykslis­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar á kjör­tíma­bil­inu

Rík­is­stjórn­in hélt út kjör­tíma­bil­ið þótt spenna hafi mynd­ast í sam­starf­inu og ým­is álita­mál hafi kom­ið upp. Hér eru rifj­uð upp at­vik sem hristu upp í al­menn­ingi og Al­þingi á síð­ustu fjór­um ár­um.
Logi kallar umræðu um Kristrúnu „atlögu að lýðræði“
Fréttir

Logi kall­ar um­ræðu um Kristrúnu „at­lögu að lýð­ræði“

Logi Ein­ars­son, formað­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði „dag­blöð sér­hags­muna­afl­anna“ gera að­för að lýð­ræð­inu með sér­kröf­um á hend­ur Kristrúnu Frosta­dótt­ur um að gefa upp upp­lýs­ing­ar um fjár­hag sinn, eft­ir frétt­ir af hátt í 100 millj­óna króna hagn­aði henn­ar af kauprétt­ar­samn­ing­um. Kristrún sagð­ist hins veg­ar áð­ur skilja gagn­rýn­ina.