Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Leslistinn: Fimmta vika 2019

Eftirfarandi er tekið úr Leslistanum, vikulegu fréttabréfi sem tekið er saman af Sverri Norland og Kára Finnssyni og fjallar um bækur og annað áhugavert lesefni. Hér má gerast áskrifandi (sér að kostnaðarlausu). 

Ég kláraði fimmtu og síðustu bókina um Tom Ripley eftir Patriciu Highsmith, Ripley Underwater. Hef ekki dottið svona hressilega inn í bókasyrpu, sem í heild er kölluð Ripliad, síðan ég las Elenu Ferrante-bækurnar á sínum tíma.

Í fyrstu bókinni, The Talented Mr. Ripley (1955), er Tom Ripley kynntur til leiks. Hann er ungur maður sem strögglar við að ná endum saman í New York, og stundar þar ýmsa smáglæpi. Dag einn víkur sér að honum auðugur maður á miðjum aldri, Herberg Greenleaf, og fer þess á leit við Ripley að hann ferðist til Mongibello, á Ítalíu, til að telja hinn óstýriláta son sinn, Dickie Greenleaf, á að snúa aftur til Bandaríkjanna og taka við fjölskyldurekstrinum. Ripley fellst á hugmyndina, slær upp vináttu með Dickie (sem var áður einungis málkunnugur honum) og endar á því [Spoiler Alert] að myrða hann í árabáti. Upphefst þá margslungin atburðarás, þar sem Ripley spinnur sífellt flóknari lygavef í kringum sig.

Næsta bók, Ripley Under Ground (1970), gerist sex árum síðar. Ripley lifir nú kyrrlátu lífi sem hverfist kringum fagrar listir og notalegar tómstundir í Belle Ombre, stórri villu í uppdiktuðu frönsku þorpi, Villeperce-sur-Seine. Ripley hefur komist í álnir, kvænst franskri konu af góðum ættum, Héloïse Plisson, og flækt sig í svikamyllu ásamt listfölsurum. Þessi er frábær og ekki síður sú þriðja, Ripley’s Game (1974), þar sem okkar maður lendir upp á kant við ítalska mafíósa (og kemur tveimur þeirra fyrir kattarnef með afar ógeðfelldum hætti).

Í fjórðu bókinni, The Boy Who Followed Ripley (1980), birtist 16 ára bandarískur drengur í Villeperce, kynnir sig fyrir Ripley sem „Billy“ og falast eftir vinnu hjá honum sem garðyrkjumaður. Brátt kemur á daginn að drengurinn er í raun Frank Pierson, sonur nýlátins bandarísks auðjöfurs. Drengurinn kveðst hafa myrt föður sinn: ýtt honum fram af kletti (faðirinn var í hjólastól). Þessi er eiginlega sú skrítnasta í syrpunni, og jafnframt sú lengsta. Þeir félagar verja til að mynda löngum stundum saman í litríkri Berlín fyrir fall múrsins, og oft er ýjað að hómóerótísku ástarbáli þeirra á milli. Síðasta bókin, áðurnefnd Ripley Underwater (1991), geymir svo einn háðulegasta dauðdaga sem ég hef orðið vitni að í skáldverki.

Frábærar bækur. Ripley er í raun prótótýpa vissrar tegundar af skáldpersónu sem farið hefur eins og eldur í sinu um vitund lesenda og kvikmyndaunnenda á síðustu árum; kaldrifjaður listunnandi, heillandi sósíópati. Hann er til dæmis, að mínu mati, forveri Patrick Bateman í American Psycho eftir Brett Easton Ellis (nema hvað hann er áhugaverðari persóna og Ripley-bækurnar betri, að Ellis ólöstuðum). En nóg um það. Við tekur tregans tómarúm, tilvera þrungin söknuði eftir Ripley og ævintýrum hans. Hvað les ég næst?

Jú: til dæmis bókmenntir um yfirvofandi heimsendi. Að vanda er ég varla kominn til Parísar þegar ég byrja að kaupa bækur, svona er ég bara, haldinn sjúkdómi, og reyni að lifa með því. Keypti til að mynda tvær, sem lengi hafa verið á listanum hjá mér, eftir Pablo Servigne og Raphaël Stevens: Comment tout peut s’effondrer (Hvernig allt getur hrunið) og Une autre fin du monde est possible; vivre l’effondrement (et pas seulement) (Önnur heimslok eru möguleg). Báðar bækurnar fjalla um hrun, ekki þó í þeim skilningi sem við Íslendingar leggjumst oftast í orðið, þ.e. hrun efnahagsins, heldur hrun í víðtækara samhengi: hrun náttúrunnar, hrun siðmenningarinnar, og hvernig við getum brugðist við því sem er að gerast á jörðinni; sjöttu útrýmingunni, fyrirsjáanlegum vatns- og matarskorti, hækkandi hitastigi, hækkandi yfirborði sjávar, aukinni tíðni náttúruhamfara og svo framvegis. Bækurnar, sem eru skrifaðar á auðskilinn og læsilegan hátt, án þess þó að reyna að höfða til treggáfaðra, gera ráð fyrir því að hrunið sé þegar hafið og eru þó ekki svartsýnislegar (heldur, að mati höfunda sinna, raunsæislegar), þær hafa að markmiði að opna augu okkar fyrir nýjum möguleikum á því hvernig haga má tilveru sinni í lífríki sem verður sífellt fátæklegra og einsleitara.

Á óskalistanum eru svo eftirfarandi bækur: 

Ég er að manna mig upp í að ráðast á The Age of Surveillance Capitalism: The Fight for a Human Future at the New Frontier of Power eftir Shoshönu Zuboff. Virðist vera tímabær bók. Shoshana rabbaði um bókina við uppáhalds-útvarpsmanninn minn, Christopher Lydon, í Open Source, og setur þar fram naskar og sláandi samlíkingar: með iðnbyltingunni var náttúran gerð að söluvöru og henni að lokum fórnað með þeim katastrófísku afleiðingum sem nú eru teknar að dynja yfir, s.s. útdauða og minnkandi fjölbreytni í náttúrunni, og nú, í kjölfar stafrænu byltingarinnar, er hið sama uppi á teningnum nema það er ekki náttúrunni sem er fórnað heldur okkur mönnunum þegar reynslu okkar er jafnóðum breytt í upplýsingar og söluvöru. Segir Zuboff – sem er mun færari í að orða þessar hugsanir en ég.

Og þá yfir í meira uppörvandi fréttir: Út er komin bókin Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda. Ritstjóri er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands. Ég sendi Hólmfríði skeyti og fræddist um útgáfuna:
„Ég hef um árabil verið að safna ljóðaþýðingum úr spænsku á íslensku,“svarar hún. „Mjög fljótlega kom í ljós að um umfangsmikið safn var að ræða og gagnabankinn fylltist hratt. Því kviknaði hugmyndin um að gefa safnið út í hlutum. Fyrst kom út bókin Gustur í djúpi nætur: Ljóðasaga Lorca á Íslandi(2007) – verk eftir 21 þýðanda –  og er þar að finna allar þýðingar sem komið hafa út á kvæmum spænska skáldsins og leikritahöfundarins Federico García Lorca á Íslandi. Í kjölfarið fylgdi Yfir saltan mar: Þýðingar á ljóðum eftir Jorge Luis Borges (2012) – 16 þýðendur alls. Og … nú síðast kom Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda (1018) – 18 þýðendur alls. Það eru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan sem standa fyrir útgáfunni, sem er tvímála. Ljóðin birtast fyrst á frummálinu og því næst þýðing þeirra. Þeim er raðað í tímaröð eftir útkomu á spænsku og í neðanmálsgreinum birtast upplýsingar um úr hvaða ljóðasafni þau koma og frá hvaða ári, ásamt útgáfuári þýðingarinnar og upplýsingum um þýðandann. Í bókunum er að finna inngang um ævi og rithöfundaferli skáldanna.
Hver bók er fjársjóður! Í ljósi þess að mörg ljóðanna komu út í blöðum og tímaritum, ekki öllum langlífum, eða sem viðbætur eða eftirmálar í ljóðasöfnum íslenskra ljóðskálda hafa þau ekki verið aðgengileg – hvað þá í heildarsafni. Markmið útgáfunnar er þess vegna tvíþætt, þ.e. annars vegar að halda á lofti þeirri frábæru vinnu sem íslenskir þýðendur hafa unnið og um leið að kynna umrædd stórskáld fyrir nýjum lesendum. Söfnin gagnast enn fremur sem ítar- og kennsluefni um skáldin og til rannsókna í bókmennta- og þýðingararfræði.“


Annað nýlegt safn, sem kitlar forvitni mína, kemur frá hinum enskumælandi heimi: The Penguin Book of Hell. Þar eru lesendur leiddir í gegnum þrjú þúsund ára hugmyndasögu Helvítis, hvorki meira né minna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni