Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Af hverju er ungt fólk svona miklir aumingjar?

Af hverju er ungt fólk svona miklir aumingjar?

Haustið 2016 fór ég út um hvippinn og hvappinn til að kynna aðra skáldsöguna mína, Fyrir allra augum. Leið mín lá meðal annars í tiltekinn Rótarýklúbb. Mér finnst alltaf gaman að hitta fólk til að kynna bækurnar mínar og ef ég man rétt var þetta hið frjóasta kvöld.

Við vorum einungis karlmenn. Bókmenntalegt pulsupartí, það verður ekki mikið betra.

Fyrir allra augum fjallar um Úlf Kristbergsson, nokkuð hlédrægan ungan karlmann, og Dísu Eggertsdóttur, afar skelegga, unga konu. Einum áheyranda minna varð starsýnt á þá staðreynd að aðalpersónan – Úlfur segir söguna í 1. persónu – væri svokölluð „antíhetja“. Áheyrandinn benti á að Úlfur ætti þetta raunar sameiginlegt með obbanum af bókmenntapersónum seinni ára: allt væru það óttalegar antíhetjur. Ég sagði að eflaust væri það hárrétt og bar í bætifláka fyrir þennan skort minn á frumleika með því að benda á að Dísa væri drifkrafturinn í sögunni; hún væri sú ákveðna og áræðna; hin ljósa og bjarta hetja. Ekkert antí við Dísu.

En áheyrandi minn einblíndi áfram á karlpersónuna. Honum bjó greinilega margt í brjósti. Hann ræskti sig, horfði í senn ögrandi og kankvís í augun á mér, og lagði loks fyrir mig þá spurningu sem raunverulega brann á honum:

„Af hverju er ungt fólk í dag svona miklir aumingjar?“

Hah. Frábær spurning! Ég veit ekki alveg hvernig hann komst að þessari niðurstöðu – og hvort hann hefði heldur kosið að við starfssystkini mín skrifuðu sögur um einhliða og drykkfellda sækópata á borð við Indiana Jones eða James Bond (þ.e. um „sannar hetjur“) – og ég hreinlega man ekki nákvæmlega hverju ég svaraði honum. Eflaust þótti honum æskulýður landsins óþarflega hörundssár og samúðarfullur gagnvart málleysingjum (ótal grænmetisætur og grænkerar); kannski þótti honum slæmt hvernig við sífruðum í vælukór yfir brotum á réttindum minnihlutahópa; ef til vill sárnaði honum að konur létu ekki lengur bjóða sér að láta karlkynið vaða yfir sig, bæði andlega og líkamlega; kannski nenntum við ekki að vinna „almennileg störf“; og svo framvegis. Ég efast hins vegar um að hann hafi verið svo mikill einfeldningur í lífssýn; hann virkaði klár og sigldur.

Ég benti honum á að ungt fólk væri einfaldlega margt í hálfgerðu sjokki. Við hefðum fæðst inn í heim sem væri á heljarþröm; sjötta útrýmingin stæði yfir; sjórinn væri að súrna og deyja; jöklarnir að bráðna; hrun siðmenningarinnar jafnvel yfirvofandi; misskipting auðs hefði aldrei verið meiri; akrar og engi Evrópu væru byrjaðir að skrælna; fyrirséð að matarframleiðslugeta okkar mundi skreppa saman um tugi prósenta samfara því að hungruðum munnum fjölgaði um milljarða; veðurhamfarir yrðu sífellt algengari og heiftarfyllri; og þrátt fyrir þessar óyggjandi staðreyndir ættum við að halda áfram eins og ekkert hefði ískorist að þramma menntaveginn í gamaldags háskólum og taka námslán, aka á bensínbeljum til vinnu og hamast við að framleiða eitthvert rugl (og reyna að borga námslánin), taka svo húsnæðislán og byrja að spara fyrir ellinni og síðan jarðarförinni; og samtímis dyndi á okkur úr öllum áttum að við værum „einstök“og ættum að láta „drauma okkar rætast“ (um leið og augljóst mátti heita að miðað við aðstæður væri ekkert fjær sannleikanum) og allt væri það í raun og sannleika innbyggður áróður kraftkapítalismans sem vildi pranga upp á okkur þeirri hugmynd að hamingjan stæði okkur til boða allan sólarhringinn í formi margvíslegs söluvarnings og við hefðum meðfæddan rétt til að fá allt strax og við vildum. Með öðrum orðum: Ég var kominn í stuð.

Á meðan þessu færi fram, hélt ég áfram, dyndu svo daglega á okkur fréttir í slotlausu streymi upplýsingabyltingarinnar um að jörðin væri – og hér er ekki oft djúpt í árinni tekið – að skemmast; eða kannski væri það ekki beint jörðin í heild sinni heldur öllu frekar mannvænleg lífsskilyrði á þriðju reikistjörnu frá sólu. Auðvitað voru ekki til neinar gamaldags hetjur í slíkum aðstæðum; manneskjan var boðberi skemmda, eyðileggingar og algjörlega skefjalausrar sjálfhverfu. Þetta væri það sem væri svo sárt, og erfitt, og steikt, og sálarskerandi við að vera ung manneskja í dag: við gætum í rauninni ekki tekið mark á neinu sem eldri kynslóðir segðu og predikuðu því ef marka mátti skýrslur vísindamanna, bækur rithöfunda og fréttir blaðamanna væri núríkjandi samfélagsgerð mannkyns komin langleiðina með að rústa jörðina en um leið varð krafa tækniblætisins og kraftkapítalismans um algjöran konformisma af okkar hálfu okkar sífellt strangari: við yrðum að selja okkur bæði í einkalífinu, pósta snurfusuðum ljósmyndum af okkur á netinu í gríð og erg til að viðhalda heillandi stafrænni ásýnd, og hamast við að standa okkur í háskólum og fyrirtækjum hinna eldri til að heltast ekki úr lestinni í lífsgæðakapphlaupinu – sem var svo samtímis að má út framtíðarhorfur okkur og lífvænleg skilyrði á jörðinni.

Sem sagt: Þetta væri óþægileg og skrítin klemma. Eða fattarðu hvað ég meina?

Karlinn kinkaði kolli, afar hægt – líkt og hann óttaðist að hausinn kynni að detta af hálsinum ef hann sýndi fram á samþykki sitt með of innlifuðu látbragði.

Mér varð hugsað til orða þessa manns um daginn þegar ég birti grein á ónefndum fjölmiðli. Ég hef fyrir reglu að lesa ekki athugasemdir í kommentakerfum fréttamiðla. Það bregst nefnilega ekki að þegar ég birti greinarkorn um eitthvað sem er aðeins eldfimara en uppskrift að plokkfiski skjóta upp kollinum nokkur ráðrík séní í athugasemdunum og hefja málarekstur sinn með því að leiða fram í dagsljósið hvílíkt ekkisens flón greinarhöfundur sé (þ.e. ég). Það er oft litað af þessari sömu afstöðu um að ungt fólk lifi í einhvers ofverndaðri bubblu og sé hálfgerðir aumingjar. Um daginn skrifaði ég til dæmis hugleiðingu þar sem ég gagnrýndi yfirborðskennda sjónvarpsþáttagerð þar sem þekktur (og kattliðugur) athafnamaður sýndi landsmönnum flotta sumarbústaðinn sinn; þá fékk ég yfir mig gusu um að ég væri bara öfundssjúkur og hefði ekki í mér burði og bolmagn til að byggja mér svona flottan sumarbústað sjálfur. Nýlega birti ég svo aðra grein þar sem ég mælti gegn því að rúmlega þúsund ára gamall birkiskógur á Vestfjörðum yrði plægður svo að hægt væri að leggja þar bundið slitlag fyrir bíla og það á sumri þegar skógar út um alla jörð stæðu í ljósum logum; þá var hreytt í mig að greinin væri þvættingur og á mig sigað einhverjum rökfléttum sem byggðust á áætluðum peningakostnaði framkvæmda; það væri ódýrast, og þar með best, að valta yfir tré og kjarr. (Við erum öll orðin svo fátæk af því að hugsa í einskisverðum peningum að við megum helst ekki hleypa öðrum skoðunum að.) Mér finnst undirliggjandi í þessu öllu eitthvert yfirlæti af hálfu hinna eldri kynbræðra minna. Hvað er ég að vilja upp á dekk? Af einverjum ástæðum eru það undantekningarlaust karlar sem ausa yfir mig fúkyrðum í kommentakerfum og af áhorfendapöllum. Ég einfaldlega skil ekki þessa (karllægu?) tilhneigingu til að hefja málarekstur sinn á því að kýla andstæðinginn í punginn og ætla svo að frussa yfir hann einhverju lexíu meðan hann liggur í jörðinni. Er þetta íslenskt? Skortir okkur samræðumenningu? 

Ég sé sjálfan mig í anda eftir þrjátíu, fjörutíu ár. Í hvert skipti sem ég heyri yngri manneskju flytja erindi eða les á netinu greinarkorn eftir ungan höfund ætla ég að rakka viðkomandi niður í kommentakerfinu og/eða saka viðkomandi af áhorfenadstóli um að tilheyra kynslóð aumingja. Ég ætla aldrei að eiga í vitsmunalegum samræðum við viðkomandi; ég ætla einungis að ástunda blammeringar og ausa frá mér fúkyrðum og velta fyrir mér hvers vegna allt unga fólkið sé svona miklar liðleskjur og gungur. Betri leið til að örva greindarlega samfélagsumræðu get ég ekki hugsað mér. Reisnarlegri leið til að eldast get ég ekki upphugsað. 

 

Ég vona bara að það standi enn sæmilega fúnkerandi samfélag handa okkur antíhetjunum, segjum, árið 2060, upp úr rústum hetjanna sem á undan okkur fóru. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu