Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

Um daginn heyrði ég íþróttafréttir í franska útvarpinu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir að ég hjó sérstaklega eftir því að íþróttafólkið var allt sama manneskjan. Röddin breyttist reyndar aðeins eftir því hvaða yfirburða-spriklséní var kynnt til leiks – kúluvarpari, glímukóngur, listdansari – en allir fylgdu sama handritinu og tuggðu upp sama frasann aftur og aftur: Maður verður að vera jákvæður, halda bara alltaf áfram að vera jákvæður. Einkum var þessi frasi áberandi hjá þeim sem ekki höfðu átt góðan dag, þ.e. hjá þeim sem höfðu einmitt fulla ástæðu til að vera neikvæðir.

Mér þótti það athyglisverð lífsafstaða að líta svo á að maður yrði ALLTAF að vera jákvæður. Sjálfur var ég í frekar þungu og erfiðu skapi. Ég var á leið heim úr franskri sveitasælu og aftur inn í Parísarborg ásamt eiginkonu, dóttur og tengdaforeldrum, það var umferðaröngþveiti, milljónir kolefnisspúandi vítisvéla umkringdu okkur (ein hafði innbyrt okkur), klukkan var orðin svo margt og allir dauðþreyttir og drepstirðir og banhungraðir, heilinn á mér á suðuspani og í höfðinu kunnuglegir þankar um hvernig lífvænlegt gufuhvolf jarðar nær ekki nema sirkabát tíu kílómetra upp til himins – vegalengdin á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar – og hvernig öll þessi morðóðu púströr hömuðust við að mása og blása inn í það eitri. Út um regnvota rúðu virti ég svo fyrir mér svanga og umkomulausa betlara frá Afríku, frá Mið-Austurlöndum, fólk á vergangi sem vegabréfs síns vegna átti ekki inngöngu auðið í franskt samfélag, mest ungir dökklæddir karlmenn sem pukruðust milli bílanna, bönkuðu létt á rúður, beiddust ölmustu. Flóttamenn. Skyggðar niðurlútar ásjónur undir hettum lúinna yfirhafna. Og í eyrunum buldi þessi síbylja íþróttafólksins sem fremur sínar vinsælu hetjudáðir í ofvernduðu umhverfi afþreyingar-sjónarspilsins:

Sama hvað. Vera jákvæður. Alltaf. Halda sér ALLTAF jákvæðum!

Hér kemur góður umræðustarter í partíi þar sem allir vilja alltaf vera jákvæðir: Loftmengun drepur nú þrisvar sinnum fleiri manneskjur en alnæmi, berklar og malaría til samans, eins og George Monbiot bendir á í nýlegri grein í The Guardian. Við vitum öll að útblástur bíla er snarbanvænn; því til áréttingar má rifja upp að í dramatískum bíómyndum fremur fólk oft sjálfsmorð með því að loka sig af inni í bílskúr með bifreið í gangi svo að veggirnir hneppi inni eiturgufurnar. 

Loftslagsbreytingarnar eru svo víðtækar að jafnvel hausinn á gáfaðasta vini þínum nær ekki að melta nema 0,0001% hvað í þeim felst. Og það þýðir ekki að bíða eins og hlýðinn og hjálparlaus neytandahvolpur eftir því að eitthvert ljóngáfað vísindatröll finni skyndilega á góðum degi upp altæka snilldarlausn sem forðar okkur öllum frá því að fuðra upp í logum jarðræns vítis: það mun einfaldlega ekki gerast. Hins vegar mun sameiginlegt átak okkar allra kannski minnka aðeins hryllinginn. 

Dæmi: Ef við náum að forða okkur frá því að hitastigið á jörðinni hækki um tvær gráður, og staldri þess í stað við 1,5 gráður, munum við bjarga hundruðum þúsunda mannslífa. Það er svona einfalt. Við björgum t.d. jafngildi allrar íslensku þjóðarinnar, líklega sinnum tveir. Sumar spár gera ráð fyrir að við næstu aldamót hafi lofthiti hækkað um 6-7 gráður. Þjáningarnar verða – og hér vantar mig öflugra orð – ólýsanlegar.

„Loftslagskerfið, sem ól upp eldri kynslóðir og gat af sér kúltúr og siðmenningu okkar mannanna, er nú, eins og foreldri, dáið.“ Þessi orð koma úr nýrri bók eftir David Wallace-Wells, einn ötulasta fjölmiðlaskríbent síðustu ára á sviði umhverfismála. Bókin nefnist The Uninhabitable Earth: Life After Warming. Heimili okkar er víða orðið ólífvænlegt af okkar völdum. Hvað gerir maður við slíkar upplýsingar? Jú, maður situr í bíl í umferðaröngþveiti í París og hugsar: Gufuhvolfið er bílskúr og við erum öll að fremja sjálfsmorð.

Eigum við, hin yngri sem sitja í syndasúpu eldri kynslóða, þá að hætta að eignast börn? Nei, segir David Wallace-Wells, það væri uppgjöf. Og ég tek í sama streng: þann annan apríl 2017 eignaðist ég meira að segja við sólarupprás barn á Manhattan einmitt þegar sólin var að koma upp og varpaði gulli sínu á brúnsteinsveggi og skýjakljúfa. Ég eignaðist dóttur – og það var svo skrítið að um leið og ég leit hana augum fyrsta sinni leið mér eins og ég væri að horfa í spegil: að ég væri að sjá sjálfan mig í fyrsta skipti. Þetta hélt áfram næstu vikur og mánuði: Já, alveg rétt, ég þarf að skipta um bleyju á mér, hugsaði ég kannski. Eða: Var ég búinn að fá pela? Það er nefnilega þannig að við erum börnin okkar – og nú skil ég þá örvæntingu sem fylgir með vitneskjunni um að við munum skila jörðinni til þeirra í gjöreyðilagðri mynd. Lífið næstu hundrað árin mun verða erfiðara og erfiðara. Eftir fimmtíu ár verða ekki lengur til búðir eins og CostCo – ekki einu sinni þó við reynum. 

Ég sé loftslagsbreytingarnar. Dóttir mín var bitin af blóðmítli í höfuðið í uppsveitum New York fyrir tæpu ári. Fuglarnir eru nær horfnir af því svæði jarðar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að fæðan er horfin, næringarmestu skordýrin. Og hvað er þá eftir? Blóðmítlar sem snarfjölgar ásamt öðrum skaðræðisskepnum. Okkur tókst sem betur fer að ná blóðsugunni úr hvirfli dóttur okkar með töng og sú litla fékk ekki lyme disease. En: „Við erum að skapa okkar eigið helvíti á jörðu,“ sagði gestgjafi minn þarna á bóndabýlinu. Hún hafði átt þennan landskika síðan á áttunda áratugnum og séð breytingarnar: hvarf fuglanna og fjölgun (einungis) verstu skordýranna. Hvernig munum við, Vesturlandabúar, bregðast við þegar malaríusmitberar flögra ekki aðeins um regnskógana heldur einnig um stræti Kaupmannahafnar, Chicago, jafnvel Akureyrar?

Við erum nú að lifa það sem vísindamenn kalla sjöttu útrýminguna: villt dýr breytast smátt og smátt í goðsagnakenndar undraverur í hugum barna, á borð við dreka og einhyrninga. Fimm sinnum hafa orðið viðlíka útþurrkanir á fánu og flóru jarðar; 75-96% af lífríkinu hverfur. Einu sinni kom víst einhver loftsteinn, en í hin skiptin stafaði útrýmingin, rétt eins og nú, af loftslagsbreytingum, síðast fyrir um 250 milljónum ára. Talið er að hlýnun jarðar vindi nú fram tíu sinnum hraðar. Túlki þær upplýsingar hver sem vill.

En maður verður, sama hvað, að vera jákvæður. Eða hvað? Nei, segi ég. Stundum borgar sig ekkert að vera jákvæður. Neikvæðni, kvíði, áhyggjur, sorg – allt eru þetta mikilvægar, og lífsnauðsynlegar, nótur í skala mannlegra tilfinninga.

Lof mér að vitna í annan höfund: „Ekkert ræktar mannskepnan af ámóta krafti og óhamingjuna. Ef við setjum sem svo að illgjarn skapari hafi komið okkur fyrir hér á jörðu einungis í því skyni að láta okkur þjást, eigum við öll sannarlega hrós skilið fyrir hversu vel við höfum axlað verkefnið. Við höfum líka mýmargar ástæður til að kveinka okkur: líkamar okkar eru svo brothættir, ástin svo hverful, félagslífið svo yfirborðskennt, vináttan eintómar málamiðlanir, viðjar vanans murka úr okkur lífsgleðina. Og fyrst við þurfum einatt og ævinlega að glíma við svo þráláta ömurð, mætti áætla að ekkert veki með okkur meiri tilhlökkun en augnablikið þegar við loks tortímumst.“

Svo hefur poppspekingurinn Alain de Botton ágæta bók sína, How Proust Can Change Your Life (hér birt í fúskaralegri þýðingu minni). Og ef eitthvað má marka þessi ívið háfleygu orð ætti mannkynið nú að gleðjast og dansa sem aldrei fyrr, enda stefnum við óðfluga – jafnvel eins og óð fluga sem flýgur ítrekað inn í sömu glerrúðuna  – á vit endaloka okkar.

En svo leynast, sem betur fer, einstaka vonarneistar, til að mynda í hjartanu á Gretu Thunberg, stúlkunni kláru sem prýðir ljósmyndina hér að ofan, og í brjóstum alls unga fólksins sem mætir á samstöðufundi, svo sem á Austurvelli þar sem ung hugsjónamanneskja hélt nýlega svo hrífandi ræðu gegnum gjallarhorn að ég klökknaði. Það eru hinar sönnu hetjur samtímans, ekki frægt fólk eða jákvætt-þenkjandi íþróttastjörnur: við verðum að hætta að tilbiðja frægð og heimsku og sprikl (og okkur sjálf). Því að ef yngstu íbúar jarðar ná ekki að lyfta því grettistaki, sem næstu áratugir munu krefjast af því, eigum við okkur litla framtíð; þetta er eina íþróttaafrekið sem skiptir máli. Ég er ekki bjartsýnn. Ég er ekki jákvæður. Til þess hef ég einfaldlega sokkið of djúpt í það sem er að gerast og sé of fátt til að gleðjast yfir.

Ekki vera jákvæð/ur. Við þurfum í sameiningu að læra að lifa í heimi þar sem allt er að deyja, vitandi það að sökin er okkar. Aðeins sorg, kvíði, ótti og skelfing fá okkur til að virkilega gera eitthvað í því – og reyna að breyta því hvernig við lifum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu