Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Leslisti #59: bókahluti

Leslisti #59: bókahluti

Kristín Ómarsdóttir er höfundur sem kann að byrja bækur:

„Í heimi náttúrunnar greina menn sig frá trjám og blómum sem vaxa og dafna í hljóði og falla í þögn. En ef grannt er skoðað er vegur alls sem lifir kannski bara einn.“

Svo hefst Elskan mín ég dey. Og Hamingjan hjálpi mér I og II hefst á þessum línum:

„Ég bý sjaldan um rúm. Ég vil ekki fersk sængurver. Í rúminu vil ég finna fyrir dögunum á undan. Fyrir tímanum. Ég vil ekki sterílíseruð rúm þar sem sængin og koddinn eru hrist á morgnana. Ég lifi ekki í ónotuðum heimi.“

Aðalpersóna nýjustu bókar Kristínar, Flækingsins, sem hlaut afar góðar viðtökur þegar hún kom út árið 2015, lifir svo sannarlega ekki heldur í ónotuðum heimi; það er mállaus piltur sem á hvergi heima og hírist á jaðri samfélagsins. Ég var að hefja lesturinn og bókin grípur mann strax; ég hlakka til að halda áfram með hana á ferðalagi sem ég á fyrir höndum.

En hvernig endar maður bækur? Jú, í brjáluðu óveðri, eða að minnsta kosti í þykku þokumistri. Þannig skilur lesandinn við Kristmann Guðmundsson, söguhetju Sigurjóns Magnússonar í Borgum og eyðimerkum: skáldsögu um Kristmann Guðmundsson (Bjartur, 2003). Raunveruleg saga Kristmanns Guðmundssonar hefur mér löngum fundist heillandi og dularfull. Hann gat sér ungur skáldfrægð í Noregi, var dáður bæði af lesendum og gagnrýnendum, og þýddur á fjölda tungumála. En hvers vegna sneri hann aftur til fósturjarðarinnar? Og hvers vegna var svo mörgum áberandi Íslendingum þessa tíma svo mjög í nöp við Kristmann?

„Það var ekkert nýtt að dylgjað væri um þann orðstír sem [Kristmann] hafði getið sér í útlöndum og honum borið á brýn að frægð hans þar væri tilbúningur einn – enda hefði hann að öðrum kosti aldrei snúið aftur. [...] Já, hann furðaði sig satt að segja á því að sér skyldi stundum hafa orðið það á að svara getsökum ókunnugra um feril sinn í Noregi og brugðist allt að því kurteislega við ef hann var spurður hvað hann væri að vilja til Íslands í stað þess að vera þar um kyrrt. Skýringin sem hann gaf þá iðulega var sú að hann hefði aldrei átt annars staðar heima en á Íslandi, og það voru engin ósannindi því öllu flóknara var þetta ekki í huga hans.“ (Bls. 38.)

Saga Kristmanns er í senn glæsileg og sorgleg, hetjuleg og harmræn, og gerir Sigurjón henni góð skil í skáldsögunni. Til að mynda náði Kristmann aldrei sama flugi í skáldskapnum eftir að hann settist aftur að á Íslandi, og hlaust það hugsanlega af því að fjarlægðin við fósturjörðina hafði áður verið honum andlegt eldsneyti:

„Í Noregi var hann sá rithöfundur sem öðrum betur kunni að lýsa kjörum æskunnar og þar naut hann sinnar eigin æsku. Og eins var með heimþrána sem á vissan hátt hafði verið kveikjan að flestum skáldsögum hans meðan hann bjó þar – hann dreymdi á þeim tíma nær stöðugt um eylandið sitt fagra norður í höfum og það hafði hreint ekki verið svo lítils virði fyrir rithöfund að eiga sér slíkan yndisdraum. Nú þegar draumurinn var hins vegar orðinn að bláköldum veruleika virtist honum sem sér væru endanlega allar bjargir bannaðar.“ (Bls. 62.)

Þungamiðja Borga og eyðimarka eru ritdeilur og málaferli sem Kristmann stóð í gegn Thor Vilhjálmssyni, frænda mínum. Thor hafði ritað heita og innblásna grein í Þjóðviljann í kjölfar þess að Kristmanni hlotnuðust hæstu skáldalaun landsins, og kveðið slíka skáldlaunaveitingu jafngilda því að hrækja í andlitið á hverjum einasta raunverulegum listamanni Íslands og spræna yfir alla þjóðina. Menn kunnu að orða hlutina í þá daga! Getið þið ímyndað ykkur aðrar eins ritdeilur á okkar réttsýnu tímum?

En hvað um bækur Kristmanns sjálfs? Einna þekktust er auðvitað Livets morgen (1929), sem á íslensku nefnist Morgunn lífsins. Sú eina sem ég hef lesið er þó ekki eins þekkt. Árið 2012 stóð hið ágæta bókaforlag Lesstofan – sem maður vonar að láti brátt aftur til sín taka? – fyrir endurútgáfu á sérstæðu verki eftir Kristmann, Ferðinni til stjarnanna, sem upprunalega kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Ingi Vítalín og nefnd hefur verið fyrsta íslenska vísindaskáldsagan. Í stórfínum formála að endurútgáfunni lýsir Ármann Jakobsson framvindu hennar svo: „Í Ferðinni til stjarnanna segir frá framhaldsskólakennaranum Inga Vítalín sem finnur hjá sér óstjórnlega þörf til að ganga á Esjuna. Hún reynist vera viðkomustaður lífvera á hærra vitundarstigi, frá jarðstjörnunni Laí. Ingi ferðast síðan með Laímönnum um geiminn, sækir heim ýmsa hnetti og samfélög og fréttir að samfélagi alheimsins stafi ógn af Jarðarbúum sem með grimmd sinni og vanþroska myrði og éti aðrar lífverur og fikti við kjarnorkuvopn og vígbúnað.“ Ég viðurkenni að mér fannst þetta allsérstæð bók – hún heillaði mig ekkert upp úr skónum – en ég hlakka hins vegar til að lesa einn daginn sjálfsævisögu Kristmanns, sem hann ritaði á Íslandi og kom út í fjórum bindum frá 1959-1962 (Ísold hin svarta, Dægrin blá, Loginn hvíti og Ísold hinn gullna), samtals rúmar 1.330 blaðsíður, takk fyrir.

Öllu knappari eru ljóðin í Brjálsemislækjum á fjöllum (Uppheimar: 2015), yndislegu safni ljóða eftir kínverska skáldið Po Chü-i (772-846) sem Vésteinn Lúðvíksson þýddi og tók saman. „Þjóðsagan segir að kínverska skáldið Po Chü-i hafi aldrei lokið svo ljóði – og var hann þó síyrkjandi alla sína daga – að hann læsi það ekki fyrir gamla vinnukonu og helst fleiri en eina. Ef í því reyndist eitthvað sem þær áttuðu sig ekki á, breytti hann því þar til þær voru með á nótunum.“ Það er lóðið: Einfalda, einfalda. Orðin eru tekin úr formála þýðandans að safninu, sem er ákaflega góður ferðafélagi og glæðir ýmis hugartundur: hefur þann eiginleika að fá þann sem les – að minnsta kosti ef það er ég sem les – til að byrja sjálfur að yrkja ljóð.

Síðasta ljóðið – sem nefnist einmitt „Síðasta ljóðið“ og var kannski hinsta ljóð skáldsins? – lýkur svo: „Svo þegar þessu daglega gaufi er lokið / leggst ég á koddann og sofna með fésið í suður.“

Loks hef ég lesið fyrir dóttur mína ógrynni af barnabókum. Konan mín sækir barnabókamessu í Bologna og við feðgin berumst um aldin stræti með fangið fullt af myndskreyttum gersemum sem hin iðna kona færir okkur. Meðal nýrra meistaraverka sem ég las í vikunni eru Clown eftir snillingin Quintin Blake (sem er, ásamt Joann Sfar og Tove Jansson, einn uppáhaldsteiknarinn minn) og La visite, frönsk þýðing á bók eftir japanska séníið Junko Nakamuro, sem er hreinn galdur. 

#

Leslistinn er vikulegt fréttabréf um bækur og lesefni á netinu. Hér má skrá sig (ókeypis) á Leslistann.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu