Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Leslistinn #76: bókahluti

Kristín María Kristinsdóttir benti mér um daginn á bókina Blá eftir hina norsku Maju Lunde, skáldsögu sem fjallar um loftslagsbreytingar. Ég las hana í einum rykk á lestarferðalagi í vikunni og þótti hún býsna mögnuð. Afskaplega vel uppbyggð og stíluð, sterkir karakterar, spennandi söguþráður – höfundurinn fær tíu hjá ritlistarkennaranum. En þeir sem almennt sækja meira í pönk og hráleika ættu einnig að kveikja á henni.

Sögunni vindur á víxl fram á tveimur tímum: annars vegar (að mestu) í Noregi árið 2017, hins vegar í Frakklandi árið 2041, og sýnir á sláandi hátt þær hamfarabreytingar sem orðið hafa í millitíðinni. Árið 2017 dreymir vel stæðan Norðmann enn um að lifa ljúfu lífi á eftirlaunum í Suður-Frakklandi; árið 2041 hafa þurrkar og eldsvoðar lagt suðurhluta Frakklands í rúst og fólk hírist við bágan kost í flóttamannabúðum eða reynir að komast norður, til að mynda til Danmerkur eða Noregs. Það vill svo til að ég var á ferðalagi frá Danmörku til Frakklands á meðan ég las bókina og þekki bæði lönd nokkuð vel; það er óhugnanlegt að gera sér í hugarlund þá (alls ekki fjarstæðukenndu) framtíð sem hin afar ritfæra og víðlesna Maja Lunde dregur upp, og það án nokkurrar hysteríu eða predikunar.

Ég skrifa þessi orð svo úti í sveit í Frakklandi; í suðrinu hafa nýlegir þurrkar leikið landið grátt og bóndar í nágrenninu, þar sem ég er nú, hafa þurft að gera ýmsar ráðstafanir til að vernda afurðir sínar og skepnur. Veðurmælingar herma að júlímánuður sé sá heitasti í bæði Norður-Ameríku og Evrópu frá upphafi mælinga. Hvað um það, ég mæli sannarlega með þessari eftirminnilegu skáldsögu, sem nær að sýna, á mannlegum skala, þá nöpru framtíð sem hugsanlega bíður okkar – aðstæður sem milljónir manna í öðrum heimshlutum etja nú þegar við.

Las svo aðra norska bók, í danskri þýðingu: Fuglene under himlen, nóvellu sem höfundurinn, Karl Ove Knausgaard, byggir lauslega á Pétri Gaut, leikriti Ibsens. Kona ein á miðjum aldri hefur flust aftur á æskuheimili sitt til að annast um aldraða móður sína. Einn daginn kemur dóttir hennar svo þangað í óvænta heimsókn. Í bæði gömlu manneskjunni og ungu dótturinni krauma einhverjar heiftarfullar og ógnvekjandi tilfinningar, og við fylgjumst með Sólveigu reyna að takast á við aðstæðurnar, og vandamál kvennanna. Knausgaard hefur einhvern afar tæran og fallega hæfileika sem er sjaldgæfur hjá nútímahöfundum – hann lýsir bæði náttúru og samböndum manna á ofureinfaldan hátt, án íróníu eða stæla, og hreyfir eitthvað svo rembingslaust við lesandanum. Oft minnir hann mig meira á 19. aldar höfund en 21. aldar höfund, og það er hressandi. Stutt og eftirminnileg frásögn sem situr í mér.

Loks verð ég að nefna þriðja happafundinn: syrpu Bjarna E. Guðleifssonar sem nefnist Náttúruskoðarinn. Ég las Náttúruskoðarann II: Úr jurtaríkinu, stutt rit með afar lýsandi titli. Bjarni stiklar á stóru um ýmsar helstu villijurtir í íslenskri flóru (arfa, sóley, fífil, holtasóley, fjalldalafífil, melasól, jöklasóley, eyrarrós o.s.frv.) og tæpir einnig á nytjajurtum (grösum, heyi, kartöflum o.s.frv.) og skýtur inn dæmisögum og kveðskap. Aðrar bækur í syrpunni taka fyrir dýraríkið, steinaríkið og göngu- og hlaupaleiðir. Bókin er skrifuð af stíllipurð og einlægni, hún er uppfræðandi og stælalaus – til hreinnar fyrirmyndar. Bókaútgáfan Hólar gefur út; útlitslega er þetta kannski ekki mest sexý bókarkorn sem ég hef í fórum mínum en ég fílaði innihaldið í drasl. Og velti líka fyrir mér hvers vegna íslensk náttúra er að mestu fjarverandi í íslensku skólakerfi. Veistu til að mynda hvert er þjóðarblóm Íslendinga? Eða hvað arfategundirnar þrjár heita? 

Hér geturðu lesið nýjasta Leslistann í heild sinni, meðal annars viðtal við Jón Gnarr. Og hér geturðu gerst áskrifandi af fréttabréfinu. Það er sent út til áskrifenda, þeim að kostnaðarlausu, á hverjum föstudegi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu