Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Höfuðborgin sem hætti að vera til

Höfuðborgin sem hætti að vera til

Síðustu daga hafa tvær flugur suðað í kollinum á mér. Flugurnar suða um Reykjavík, framtíð þessarar skrítnu borgar sem Huldar Breiðfjörð segir í nýjustu bók sinni, Sólarhringli, að „hafi engin einkenni, önnur en rigningu, rok og myrkur,“ hún sé bara þarna, „hlutlaus og grá“. (Reyndar býsna græn á ljósmyndinni sem ég valdi með þessu greinarkorni.)

Fluga #1: Leikskólarnir (eða tímabundin fjarvera þeirra)

Dóttir mín hefur sótt Grænuborg, leikskólann á Eiríksgötu, frá því síðasta haust. Hún hlakkar á hverjum degi til að hitta vini sína og er ótrúlega hamingjusöm þar. Í vinahópinn falla ekki einungis hin börnin heldur enn fremur starfsfólkið á deildinni, sem er yndislegt allt með tölu og stórar persónur í þeirri frásögn sem er líf dóttur minnar; nöfn þess skjóta upp kollinum utan skólatíma við ólíklegustu tilefni. Henni þykir vænt um starfsfólkið og mig grunar að það sé gagnkvæmt.

En það er með hálfgerðri skömm, þungan stein í maganum, sem ég skila henni þar af mér á morgnana vitandi hversu skammarlega lág laun þessa góða fólks, sem þarna vinnur, eru. Þau eru jafnvel ekki nema þriðjungur af launum margra vina minna sem þó mundu fæstir, ef nokkrir, þykjast hafa þarfari mál á sinni könnu. Hvernig réttlætum við það eiginlega?

Fluga #2: Menningin (eða fyrirsjáanleg fjarvera hennar)

Um daginn fór ég á opnun frönsku kvikmyndahátíðarinnar í Bíó Paradís. Þar var margt um manninn og virkilega góð stemning. Opnunarmyndin, Fagra veröld, var sýnd í tveimur sölum og setið í hverju sæti. Mikið er gaman, hugsaði ég, að svonalagað fái þrifist hér í Reykjavík – mannlíf! Fólk að hittast annars staðar en í IKEA! Bíó Paradís er orðin að rótgróinni menningarstofnun! Var þetta ekki of gott til að vera satt?

Jú, Adam var ekki lengi í Paradís. (Afsakið þetta orðagrín – eiginlega óafsakanlegt.) En sem sagt: Eigendur húsnæðisins vilja nú þrefalda leiguna til að koma henni upp í svokallað „markaðsverð“. Og maður spyr sig – hvernig má það vera að markaðsverð í miðbæ Reykjavíkur sé svo hátt að þar þrífist varla nein menningarstarfsemi lengur, ekkert sem rækta þarf yfir langan tíma og hefur að markmiði að búa til samfélag og samstöðu? Til hvers er borg?

Ég starfa (því miður, hættir mér við að segja) í miðbænum og þar þrífst varla önnur þjónusta en sú sem ætluð er erlendu komufólki sem staldrar við í sólarhring á götum sem varla eru mikið meira en framlenging á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrir vikið er Reykjavíkurborg orðin frekar leiðinleg og óspennandi borg. Erlendir vinir mínir, sem kunna að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, lýsa henni sem óspennandi túristabæli, menningarsnauðum stað – og ekki mótmæli ég því. Mættu borgaryfirvöld ekki huga að því að bæta úr því? Breyta (auðu) hegningarhúsinu í menningarsetur og samkomustað? Mætti setja lög um að tryggja þurfi tilvist vissrar lágmarksstarfsemi innan viss radíuss miðsvæðis (þrjár til fjórar bókabúðir, söfn, gallerí, leikhús, bíó, kaffihús ...).  Það er ekki nóg að hugsa bara um hjólastíga – við þurfum líka einhverja samkomustaði til að hjóla á (aðra en vinnustaði).

Flugurnar tvær eru prófsteinn 

Mér finnst það vera viss prófsteinn á borgaryfirvöld hvernig þessi tvö mál verða meðhöndluð – verkfallið og morðið á bíóinu góða.

(Hefði fyrrum borgarstjóri okkar, Jón Gnarr, til dæmis ekki bara stokkið til og bjargað Bíó Paradís með einhverjum skemmtilegum hætti? Og jafnvel tekið að sér að passa börnin okkar á meðan á verkfallinu stæði? Hvað ætli núverandi borgarstjóra hugkvæmist að gera greindarlegt og skapandi í þá átt að bæta ástandið? Ég hef trú á honum.)

Spurningarnar eru einfaldar:

Getum við greitt leikskólastarfsfólki laun sem í hið minnsta jaðra við að vera mannsæmandi?

Og verður gerð gangskör að því að bjarga Bíó Paradís, ungri menningarstofnun sem á svo sannarlega heima þarna í návígi við Þjóðleikhúsið og Safnahúsið og algjör samstaða er um að varðveita meðal þeirra sem búa í þessari borg (og búa til þesss borg)?

Af hverju gefa eigendur húsnæðisins ekki borginni bara húsnæðið og rétta þannig við orðspor sitt meðal borgarbúa? Hefur einhver stungið upp á því við þá? Mig grunar að þeir tækju því ekkert illa; þegar öllu er á botninn hvolft vitum við öll að æðsta markmið okkar á jörðinni er ekki bara tilfærsla peninga heldur eitthvað aðeins dýrmætara en svo – og flest okkar stökkva á tækifæri til að láta gott af sér leiða. Sælla er að gefa en þiggja, eins og einhver sagði.

Borgin sem hvarf

Mér finnst Reykjavík satt að segja þróast æ lengra í þá átt að hafa bókstaflega engin einkenni, eins og rithöfundurinn flinki skrifar í áðurívitnuðu Sólarhringli – hvorki útlitslega (við sjáum ekki lengur fjöllin, ljótar nýbyggingarnar gætu staðið hvar sem er, andlitin sem þar brosa í dag eru horfin upp til skýja á morgun) né menningarlega (ekki montum við okkur af sjúkra- eða menntakerfinu, brátt býðst varla annað bíó en Netflix, bókabúðirnar selja ísskápasegla). Hún er í raun bara flugvöllur. Ég vona að við reynum að lyfta henni upp á aðeins vitrænni stall þó að ekki væri nema af lágmarksvirðingu gagnvart þeim milljónum sálna sem hingað streyma ár hvert og eru, ótrúlegt en satt, ekki aðeins eigendur seðlabuddu heldur líka vonandi heila.

En svo mættum við kannski alveg huga að menningarlífinu og örsamfélaginu hér okkar vegna – nema við höfum kannski bara steingleymt okkur sjálfum og lítum núorðið svo á að við séum einfaldlega ekki lengur til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni